Rannsókn yfirvalda Í Lúxemborg á hinu svokallaða Lindsor-máli hefur undanfarið náð til nýrra einstaklinga sem grunaðir eru um að hafa framið lögbrot. Vegna þessa hefur rannsóknin tekið lengri tíma en búist var við en henni ætti að ljúka í síðasta lagi á komandi hausti.
Þegar rannsókninni lýkur verða öll gögn málsins send til saksóknara í Lúxemborg sem mun taka ákvörðun um hvort að ákært verður í málinu eða ekki. Samkvæmt aðstoðarsaksóknara sem sér um málið er afar líklegt að ákæra verði lögð fram gagnvart einhverjum hinna grunuðu í málínu, en ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar um hverjir það eru. Ólíklegt er hins vegar að Lindsor-málið komi fyrir dómstóla í Lúxemborg fyrr en á árinu 2021.
Þetta segir Diane Klein, talskona dómsmálaráðuneytis Lúxemborgar, í svari við fyrirspurn Kjarnans um stöðu málsins.
Lindsor-málið snýst um 171 milljónir evra lán sem Kaupþing veitti félagi sem heitir Lindsor Holding Corporation og er skráð til heimilis á Tortóla-eyju.
Lánið var veitt 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað guð að blessa Ísland. Þann dag lánaði Seðlabanki Íslands líka Kaupþingi 500 milljónir evra í neyðarlán.
Upphafið var bréf Davíðs
Lindsor-málið er stærsta hrunmálið sem hefur ekki enn verið klárað með ákæru þrátt fyrir að hafa verið til rannsóknar í á tólfta ár, bæði hjá lögregluyfirvöldum á Íslandi og í Lúxemborg.
Rannsókn málsins er enn opin hjá yfirvöldum í báðum löndunum þótt engar ákærður hafi verið gefnar út í því. Þeir sem eru grunaðir um lögbrot í málinu, fyrrverandi helstu stjórnendur Kaupþings og vildarviðskiptavinur þeirra, hafa ávallt harðneitað að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað í málinu.
Þar á meðal er Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings. Í ræðu sem Hreiðar Már flutti í öðru dómsmáli þar sem hann var sakborningur, sagði hann að Lindsor-málið hefði snúist um endurkaup á skuldabréfum sem Kaupþing hefði gefið út á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum. Hann sagði að kaupin hafi verið gerð í „samræmi við ráðleggingu Deutsche Bank og með þeim kaupum minnkuðum við endurfjármögnunarþörf bankans og högnuðumst með því að kaupa til baka skuldabréf á afföllum.“
Líklega ber Lindsor fyrst á góma í opinberum skjölum þegar Davíð Oddsson, þá seðlabankastjóri og nú ritstjóri Morgunblaðsins, sendi greinargerð sem huldumenn höfðu afhent honum, til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra þann 9. desember 2008. Greint var frá tæmandi innihaldi bréfsins í fyrsta sinn opinberlega í bókinni Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kom út haustið 2018. Hægt er að sjá bréfið efst í þessari fréttaskýringu.
Í greinargerðinni sem fylgdi með bréfinu frá Davíð stóð m.a. að vikurnar fyrir hrun bankakerfisins hafi Kaupþing fjárfest í eigin skuldabréfum með ýmsum hætti. Tvær leiðir hefðu verið notaðar og þær hafi báðar verið úr smiðju forstjóra Kaupþings, útibússtjórans í Lúxemborg [Magnúsar Guðmundssonar] og aðallögfræðings bankans þar í landi.
Önnur snérist um að kaupa skuldabréf á markaði með beinum hætti, gegnum útibúið í Lúxemborg með fjármagni frá móðurfélaginu á íslandi. „Alls voru keypt bréf með þessum hætti fyrir 200 m. evra, Fjárfestingarnar voru gerðar gegnum félag sem heitir Lindsor Holding en fyrir ofan það er flókinn eignarhaldsstrúktúr sem þó er að fullu eign bankans sjálfs. Hugmyndin að þessum fjárfestingum var að aðstoða starfsmenn bankans við að endurheimta það mikla tap sem þeir höfðu orðið fyrir frá miðju ári 2007. Lánin voru veitt sem peningamarkaðslán til Lindsor Holding án nokkurra lánanefndarsamþykkta eða formlegrar skjalagerðar,“ sagði í greinargerðinni sem aldrei hefur verið opinberað hver skrifaði.
Fyrstu stjórnarmenn skipaðir eftir að Lehman Brothers féll
Hvað var þetta Lindsor? Þann 18. júlí 2008 var stofnað félag á Bresku Jómfrúareyjunum. Það fékk nafnið Lindsor Holdings Corporation. Félagið var í eigu Otris, félags sem stjórnendur Kaupþings stýrðu og virkaði sem nokkurs konar afskriftasjóður utan efnahagsreiknings Kaupþings. Fyrstu stjórnarmenn Lindsor voru skipaðir 18. september 2008, þremur dögum eftir að Lehman Brothers bankinn féll og innan við mánuði áður en að Kaupþing fór á hausinn.
Sama dag og Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi neyðarlán upp á 500 milljónir evra veitti Kaupþing Lindsor 171 milljón evra lán til 25 daga. Engar tryggingar voru settar fram fyrir láninu. Skjöl sýna að við rannsókn málsins hafi Fjármálaeftirlitið metið það sem svo að tilgangurinn með láninu hafi ekki verið að lána fjármunina til sérstakra nota, heldur til að gefa Lindsor svigrúm til að nota fjármunina þegar því hentaði. Lánanefnd Kaupþings veitti ekki samþykki fyrir láninu og hvergi er minnst á Lindsor í fundargerðum hjá lánanefnd Kaupþings fyrir árið 2008.
Keypti skuldabréf af starfsmönnum
Þegar kom að gjalddaga lánsins, sem var 31. október 2008, gat Lindsor ekki greitt lánið. Einu eignir félagsins á þeim tíma voru verðlítil skuldabréf útgefin af Kaupþingi og innstæður félagsins hjá Kaupþingi í Lúxemborg.
Sama dag og Lindsor fékk 171 milljón evra að láni hjá Kaupþingi, þann 6. október 2008, keypti félagið nefnilega skuldabréf útgefin af Kaupþingi upp á 84 milljónir evra og 95,1 milljón dala ásamt skuldabréfum útgefnum af Kaupþingi í japönskum jenum og krónum sem metin voru á 15,2 milljónir evra. Sé miðað við skráð gengi 16. október 2008, þegar Lindsor skipti evru í aðra gjaldmiðla til að jafna bókhaldið hjá sér, var upphæðin sem notuð var til kaupa á bréfunum 170,1 milljónir evra, eða nánast sama upphæð og Kaupþing hafði lánað Lindsor.
Seljandinn var dótturbankinn í Lúxemborg sem hafði keypt þorra viðkomandi bréfa sama dag af fjórum starfsmönnum sínum, eigin safni bankans og félaginu Marple, skráð í eigu Skúla Þorvaldssonar, hluthafa í bankanum og eins stærsta lántaka hans.
Kaupþing í Lúxemborg lánaði Marple fyrir viðskiptum þess eignarlausa félags á árinu 2008 en Kaupþing á Íslandi gekkst í ábyrgð fyrir endurgreiðslu þeirra lána. Öll áhætta vegna viðskiptanna hvíldi því hjá móðurbankanum á Íslandi. Úr þeim lánveitingum varð sérstakt sakamál sem lauk með sakfellingu tveggja stjórnenda Kaupþings í fyrra.
Ábyrgð vegna lána Kaupþings til Marple féll á Kaupþing á Íslandi í október 2008. Föstudaginn 3. október 2008 greiddi Kaupþing á Íslandi tíu milljarða króna til dótturbankans í Lúxemborg vegna ábyrgðar á þeim lánum. Næsta viðskiptadag, mánudaginn 6. október, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi og Kaupþing fékk 500 milljón evra neyðarlán frá Seðlabanka Íslands, seldi Marple megnið af skuldabréfunum sem félagið hafði keypt til Kaupþings í Lúxemborg. Hagnaður Marple af viðskiptunum var 67,5 milljónir evra.
Á þessum tíma voru skuldabréf á Kaupþing í besta falli mjög lítils virði, en Marple fékk yfirverð fyrir þau. þann 8. október, daginn áður en að Kaupþing féll voru teknir 10,4 milljónir punda út af reikningi Marple í reiðufé. Þeir fjármunir hafa ekki fengist endurgreiddir og ekki liggur fyrir hver tók þá peninga út.
„Annars lítur þetta svo illa út fyrir mig”
Skúli Þorvaldsson, einn helsti hluthafi og viðskiptavinur Kaupþings, var skráður eigandi aflandsfélagsins Marple. Hann hafði, við yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara, svolítið aðra sögu að segja um Marple og Lindsor-málin en helstu stjórnendur Kaupþings. Sérstaklega eftir því sem lengra leið frá hruninu. Sumarið 2013 óskaði Skúli eftir því að eigin frumkvæði að fá að skýra betur frá ákveðnum þáttum málanna. Hann útskýrði fyrir sérstökum saksóknara að framburður hans hefði ekki verið nægilega afdráttarlaus þegar hann var fyrst yfirheyrður og þegar Skúli hafði kynnt sér rannsóknargögn, sem hann fékk afhent 15. apríl 2013, hefði hann viljað bæta ýmsu við.
Í yfirheyrslunni greindi Skúli frá því að öll hans vitneskja um félagið Marple hefði verið tilkomin eftir hrun. „Ég hafði aldrei heyrt á þetta félag minnst,“ sagði Skúli. Hann sagði að Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, hefði boðað sig á fund skömmu eftir að Kaupþing féll og greint sér frá því að hann væri endanlegur eigandi þessa félags, Marple, sem hefði frá árinu 2007 verið að kaupa hlutabréf, gera gjaldmiðlaskiptasamninga og kaupa skuldabréf á Kaupþing banka á Íslandi.
Svo sagði Magnús, samkvæmt yfirheyrslu yfir Skúla: „En Skúli, þú verður að kannast við þetta félag ef þú verður spurður.“ Skúli sagðist þá hafa svarað: „Af hverju skyldi ég kannast við eitthvað sem ég hef aldrei heyrt á minnst fyrr en núna?“ Þá svaraði Magnús: „Annars lítur þetta svo illa út fyrir mig.“
Undir lok árs 2010 voru bankareikningar Skúla í Lúxemborg frystir að kröfu íslenskra yfirvalda. Það kom honum algjörlega í opna skjöldu. Hann skildi ekki hvað hefði gerst. Magnús hringdi í hann og spurði hvort að Skúli gæti komið heim til sín í „smá chat“. Þar hélt Magnús því fram að frystingin væri „smá hikup“ sem ætti að leysast innan þriggja mánaða. Þetta „hikup“ átti hins vegar eftir að hafa frekari afleiðingar fyrir Skúla Þorvaldsson. Í júlí 2011 var búið að breyta stöðu hans við rannsókn Marple-málsins úr stöðu vitnis í stöðu sakbornings. Skúli fór til Íslands í kjölfarið og fór fram á, þann 29. júlí, að fá að vita nákvæmlega fyrir hvað hann væri grunaður. Þá fékk hann að heyra vitnisburð Magnúsar Guðmundssonar þar sem hann sagði embætti sérstaks saksóknara að Skúli hefði „stýrt og stjórnað“ Marple.
Skúli sagði að þetta hefði verið eins og að fá kalda tusku í andlitið. Eins og að vera sleginn utan undir báðum megin og að hann hafi ekki átt til orð. Hann sagði við rannsakendur: „Þetta eru helber ósannindi. Og ég bið þig að þetta sé fyrsta spurningin sem þú leggur fyrir Magnús þegar þú hittir hann.“ Síðan barði Skúli í borðið til að leggja áherslu á orð sín. Magnús var kallaður til yfirheyrslu þennan sama dag. Og leiðrétti þar fyrri framburð sinn um að Skúli hefði stýrt og stjórnað Marple. Klukkan hálf níu um kvöldið hringdi hann í Skúla til að segja honum það og þeir hittust í kjölfarið. Magnús var náfölur á þeim fundi, að sögn Skúla. Samkvæmt afriti af yfirheyrslum yfir Skúla spurði hann Magnús, sem á þeim tíma deildi skrifstofu með honum í Lúxemborg, hvernig hann gæti hafa gert þetta. „Hvernig gastu Magnús setið á móti mér í þrettán mánuði og horft í augun á mér, vitandi þess að þú hafði logið upp á mig? Hvernig gastu það, hvernig geturðu það?“.
Hugsanlega notað til að koma peningum frá Kaupþingi til tengdra aðila
6. nóvember 2008 fór fram uppboð á skuldabréfum í Kaupþingi. Verðið á þeim var 6,625 prósent af nafnvirði. Þann 17. desember 2008 var virði þeirra skuldabréfa sem Lindsor keypti á ögurstundu í miðju bankahruni metið á 11 milljónir evra. Það samsvarar því að virði þess hafi rýrnað um 94 prósent á tveggja mánaða tímabili.
Það var mat Fjármálaeftirlitsins, samkvæmt bréfi þess til sérstaks saksóknara dagsettu 22. mars 2010, að Lindsor hafi „hugsanlega verið notað til að koma peningum frá Kaupþingi til tengdra aðila í þeim tilgangi að losa þá við skuldabréf útgefnum af Kaupþingi, þar sem ljóst var að staða bankans var orðin grafalvarleg, ásamt því að halda Kaupþingi í Lúxemborg rekstrarhæfu.“
Nánari skoðun á þeim gögnum sem liggja til grundvallar lánasamnings Kaupþings við Lindsor leiddi til grunsemda um að margt benti til þess að skjöl vegna viðskiptanna hafi verið útbúin og undirrituð í nóvember og desember 2008, eftir fall Kaupþings. Skjölin voru undirrituð af Hreiðari Má Sigurðssyni og nokkrum starfsmönnum bankans í Lúxemborg. Þá töldu rannsakendur, samkvæmt gögnum sem höfundur hefur undir höndum, að Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármála- og rekstarsviðs Kaupþings og þá skilanefndarmaður Kaupþings, hafi „haft milligöngu um frágang skjalanna. Skjölin virðast vera fölsuð bæði hvað varðar efni og dagsetningar,“ sagði í bréfi eftirlitsins.
Óskað eftir rannsókn í Lúxemborg
Í öðru bréfi sem Fjármálaeftirlitið á Íslandi sendi fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg nokkru fyrr, eða 22. janúar 2010, var óskað eftir því að Lindsor-málið yrði rannsakað þar í landi þar sem uppi væri rökstuddur grunur um fjölda brota á þarlendum lögum. Í bréfinu var rakið að þann 12. ágúst 2008 hefði þrír starfsmenn Kaupþings í Lúxemborg keypt skuldabréf útgefin af Kaupþingi með afslætti. Þar á meðal var þáverandi aðstoðarforstjóri Kaupþings Í Lúxemborg, Björn Jónsson, sem fékk kaupverðið að langstærstum hluta að láni hjá bankanum sem hann starfaði hjá. Hinir tveir starfsmennirnir, karl og kona, voru lægra settir. Hvorugt þeirra voru Íslendingar og bæði fengu allt kaupverðið að láni hjá bankanum.
Nokkrum dögum seinna, þann 18. ágúst, var samþykkt lánalína upp á 1,4 milljónir evra til Íslendings sem starfaði líka hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Þremur dögum síðar notaði hann um eina milljón evra til að kaupa skuldabréf útgefin af Kaupþingi með afslætti. Öll skuldabréfin voru keypt af Kaupþingi í Lúxemborg, vinnuveitanda fjórmenninganna.
Kaup þeirra á skuldabréfum á þessum tíma vöktu furðu rannsakenda. Ekkert þeirra hafði áður tekið þátt í kaupum á slíkum. Og öll bréfin voru keypt með afföllum.
Föstudaginn 3. október, í miðjum hrunstorminum, seldi einn útlendu starfsmannanna, konan, bréfin sín á nánast sama verði og hún hafði keypt þau. Í ljósi þess að íslenska bankakerfið rambaði á þessum tíma á bjargbrúninni, og skuldatryggingaálag á Kaupþing hafði rokið upp, þá voru engar viðskiptalegar forsendur fyrir því að kaupa bréfin af henni á því verði á þessum tíma. Ef konan hefði haldið bréfunum fram að gjalddaga þá hefði hún einfaldlega orðið kröfuhafi og fengið brotabrot af upphaflegu virði skuldabréfsins, líkt og aðrir skuldabréfaeigendur fengu.
Seldu á neyðarlagadaginn
Mánudaginn 6. október 2008, sama dag og neyðarlögin voru sett á Íslandi, seldu aðstoðarforstjórinn og erlendi karlmannsstarfsmaðurinn skuldabréf sín til Kaupþings Lúxemborg, sama aðila og hafði selt þeim bréfin nokkrum vikum áður. Bréfin voru keypt á yfirverði, þ.e. töluvert yfir markaðsvirði þeirra á þeim tíma. Í ljósi þess að bæði aðstoðarforstjórinn og hinn starfsmaðurinn höfðu upphaflega keypt bréfin með afslætti þá myndaðist umtalsverður hagnaður á þessum viðskiptum. Samkvæmt bréfi Fjármálaeftirlitsins til systurstofnunar sinnar í Lúxemborg var ágóðinn af viðskiptunum annars vegar 138 þúsund evrur og hins vegar 173 þúsund evrur. Slá má því föstu að mennirnir tveir séu í mjög fámennum hópi einstaklinga sem framkvæmdu arðbær viðskipti tengd íslenskum bönkum 6. október 2008.
Sama dag millifærði aðstoðarforstjóri Kaupþings í Lúxemborg, samkvæmt bréfi Fjármálaeftirlitsins, annars vegar 434 þúsund evrur og hins vegar 301 þúsund evrur inn á tvo reikninga sem íslenska Fjármálaeftirlitið vissi ekki hverjir áttu.
Tveimur dögum síðar, miðvikudaginn 8. október, seldi síðan íslenski starfsmaðurinn skuldabréfin sín aftur til Kaupþings í Lúxemborg. Fjármálaeftirlitið sagði að hagnaður hans hefði verið 497 þúsund evrur. Í skjölum bankans voru viðskiptin reyndar látin líta út fyrir að hafa verið framkvæmd 6. október, enda hafði Fjármálaeftirlitið tekið yfir bæði Glitni og Landsbankann daginn áður, 7. október, og Kaupþing hékk á horriminni.
Lindsor lýst sem „ruslakistu“
Björn Jónsson bar við yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara að erlendi karlmaðurinn sem vann hjá honum hefði haft samband við sig að fyrra bragði til að spyrjast fyrir hvort hann hefði áhuga á kaupunum. Þess vegna hefði hann keypt umrædd skuldabréf. „Fimmti starfsmaður Kaupthing Lux, Magnús Guðmundsson, þáverandi forstjóri bankans, hefur upplýst í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara að hann hafi einnig keypt skuldabréf útgefin af Kaupþingi Ísl. í ágúst 2008, þ.e.a.s. á svipuðum tíma og starfsmennirnir fjórir. Hann segist eiga þau enn og hafa greitt þau að fullu.“
Sölur fjórmenninganna voru að mati Fjármálaeftirlitsins framkvæmdar til að bjarga þeim frá því að hafa þurft að taka á sig mikið tap vegna skuldabréfakaupa sem þau höfðu tekið lán til að kaupa. Í bréfinu frá janúar 2010 segir enn fremur að viðskiptin hafi virst vera leið til að koma viðbótarfjármagni frá Kaupþingi í Lúxemborg til þessara starfsmanna. Þar er Lindsor lýst sem „ruslatunnu“ (e. rubbish bin) sem hafi verið sett upp til að koma í veg fyrir að Kaupþing í Lúxemborg og tengdir aðilar þyrftu að taka á sig tap vegna fjárfestinga sem þeir hefðu ráðist í.
Töldu að gögn hefðu verið fölsuð
Skömmu eftir hrunið, nánar tiltekið 15. október 2008, réð skilanefnd Kaupþings PWC til að fara yfir óeðlilega fjármagnsflutninga til og frá Kaupþingi í kringum þann tíma sem bankinn var að fara á hausinn. Rannsakendurnir ráku fljótt augun í Lindsor. Í áðurnefndu bréfi sem Fjármálaeftirlitið skrifaði í janúar 2010 sagði að fréttir þess efnis hefðu borist til Lúxemborg í nóvember 2008 þar sem svo virtist að aðilar innan dótturbankans þar, sem enn var þá stýrt af Magnúsi Guðmundssyni, hefðu hafið tilraunir til að fela þann mikla ávinning sem starfsmenn Kaupþings í Lúxemborg höfðu haft af viðskiptum með skuldabréfin.
Kaupin voru bakfærð en svo endurgerð á því gengi sem skuldabréfin voru upphaflega keypt á þegar Kaupþing í Lúxemborg keypti þau á markaði. Virðið var 66-86 prósent af nafnvirði.
Á þessum tíma var Kaupþing í Lúxemborg hins vegar búið að flytja tapið af viðskiptunum til Lindsor, sem hafði keypt bréfin á nafnvirði, og einstaklingarnir þrír sem seldu bréf í hrunvikunni urðu ekki fyrir neinu tapi, þótt hagnaður þeirra væri ekki lengur til staðar. Kaupþing í Lúxemborg tók á sig, að mati Fjármálaeftirlitsins, tap upp á samtals 2,2 milljónir evra með þessu. Það tap færði Kaupþing svo yfir til Lindsor. Tap sem mér réttu hefði átt að lenda á starfsmönnunum þremur.
Fjármálaeftirlitið taldi að gögn hefðu verið fölsuð í nóvember og desember 2008 til að láta líta út fyrir að kaup Lindsor á skuldabréfunum væru lögmæt.
Tölvupóstsamskipti milli lögmanns hjá Kaupþingi í Lúxemborg og Magnúsar Guðmundssonar sýna að gögn sem áttu að sanna að hluthafafundur í Lindsor hefði farið fram 28. september 2008, hefðu í raun verið gerð í desember 2008 og þar með verið fölsuð.
Í bréfi eftirlitsins segir að íslenski og erlendi karlmaðurinn sem störfuðu hjá Kaupþingi og fengu að kaupa og selja fyrrgreind skuldabréf hefðu fengið tvo stóra „peningastyrki“ greidda inn á reikninga sína snemma í október. Þeir voru upp á 803 og 140 þúsund evrur og skráðir sem „afskriftartillögur“. Styrkirnir tveir voru millifærðir á sama tíma og mennirnir voru að selja skuldabréfin verðlitlu á yfirverði í október 2008. Þessar „afskriftartillögur“ voru hins vegar látnar líta út fyrir að hafa verið framkvæmdar 30. september.
Líkt við hlutverk fjármálastjóra Enron
Hlutverki lögmanns hjá Kaupþingi í Lúxemborg er í bréfinu líkt við hlutverk Andrew Fastow, sem var á sínum tíma fjármálastjóri Enron. Ástæðan er sú að hann skrifaði undir samninga bæði fyrir hönd Lindsor, þar sem hann var stjórnarmaður, og fyrir hönd Kaupþings þegar Lindsor var að kaupa skuldabréf af bankanum. Þannig hafi hann verið báðum megin borðsins líkt og Fastow var í efnahagsbrotum Enron, þar sem hann var bæði fjármálastjóri fyrirtækisins og sá sem skrifaði undir samninga ruslatunnufélaga sem það hafði sett upp til kaupa af sér eignir og fela tap.
Tveir starfsmannanna sem fengu að kaupa skuldabréfin færðu peninga frá persónulegum reikningum sínum inn í félag sem hét My Mariu í miðju hruni. Það félag átti lystisnekkju sem upphaflega hafði verið smíðuð fyrir tískukónginn Giorgio Armani.
Upphæðin sem þau millifærðu var samtals um ein milljón evra. Hvorugt hafði nokkru sinni verið farþegi á snekkjunni og gat því ekki útskýrt af hverju þau væru að færa peninga inn á rekstrarfélag hennar. Fjármálaeftirlitinu grunaði að um væri að ræða ávinning af sölu skuldabréfanna.
My Mariu var á þessum tíma skráð á Isle of Man og í eigu Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar, Magnúsar Guðmundssonar, Ingólfs Helgasonar, Steingríms P. Kárasonar og Ármanns Þorvaldssonar, sem allir voru stjórnendur hjá Kaupþingi. Auk þess voru stærstu eigendur Kaupþings, bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, skráðir eigendur.
Færslurnar sem lagðar voru inn á My Mariu voru á endanum bakfærðar að skipan Fjármálaeftirlitsins.
„Umboðssvik? Það er bara kjaftæði“
Í yfirheyrslum hjá sérstökum saksóknara við rannsókn málsins viðurkenndi Hreiðar Már að skjalagerðin varðandi Lindsor hefði verið gerð eftir á. „Mér skilst að það hafi komið frá Magnúsi. Þetta væri mikilvægt fyrir Kaupþing Lúxemborg að þessi þarna opnunarskjöl yrðu kláruð.[...]Ég hef ekki gert það hvorki fyrr eða síðar sko. Þetta var eina skiptið sko sem ég undirritaði og ég svona aðeins velti því fyrir mér hvort ég ætti að gera þetta en þarna, ég taldi þetta væri bara, já að ég væri að staðfesta það sem hefði verið gert og hefði alltaf staðið til og það væri bara verið í sjálfu sér að klára þennan fæl og ef þetta var eitthvað sem var útistandandi við það að bjarga bankanum í Lúxemborg, þá fannst mér þetta bara, þá ákvað ég auðvitað að gera það,“ segir í afriti af yfirheyrslu yfir Hreiðari Má.
Varðandi uppkaupin á skuldabréfunum þá neitaði Hreiðar Már því ætið að eitthvað væri bogið við þau. „Þetta var aðferðarfræði okkar stjórnenda Kaupþings að fara í gegnum þessa krísu.“
Síðar sagði hann að: „Við ætluðum bara að kaupa þessi bréf og cancella þeim, þú veist, og bara bóka þann hagnaðinn.[...]Ég hafði ekki séð fyrir mér að Lindsor væri eitthvert svona framtíðarfélag.“
Þegar Hreiðari Má var tilkynnt að grunur væri um umboðssvik í málinu sagði hann: „Umboðssvik? Það er bara kjaftæði.“
Hér að neðan fara svo samskipti Hreiðars Más og starfsmanns sérstaks saksóknara við yfirheyrslur vegna málsins:
Hreiðar Már: „Þessi sko sakarefni að ég hafi stefnt fjármunum Kaupþings í stórfellda hættu með kaup á þessum skuldabréfum, það er náttúrulega ljóst þá að ef þetta er skoðun ykkar á kaupum á eigin bréfum að þá eigið þið nú að láta þá Helga Magnússon [átti líklega við Helga Magnús Gunnarsson, þá saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra] og efnahagsbrotadeildina vita að þetta sé nákvæmlega sama og Már Guðmundsson sé að gera við gjaldeyrisforða þjóðarinnar í dag, hann er að nota…
Starfsmaður Sérstaks saksóknara: Veist þú af hverjum Már er að kaupa eða hvað?
Hreiðar Már: Nei, nei, hann er að kaupa á markaði og það sama og ég taldi mig vera að gera og þarna og var gert.
Starfsmaður Sérstaks saksóknara: En erum við ekki búin að lýsa því fyrir þér að það hafi ekki verið þannig.
Hreiðar Már: Jú, það var keypt á markaði?
Starfsmaður Sérstaks saksóknara: Hm?
Hreiðar Már: Náttúrulega keypt á markaði.
Starfsmaður Sérstaks saksóknara: Keypt af félagi sem heitir Marple, starfsmönnum Kaupþings í Lúxemborg.
Hreiðar Már: Já, ég vissi það ekki. Ég hafði ekki hugmynd um það.“
Magnús, líkt og Hreiðar Már, viðurkenndi við yfirheyrslur að Lindsor viðskiptin hefðu verið ranglega færð inn í kerfi bankans en síðan leiðrétt eftir hrun Lindsor í hag. Magnús sagði að það hefði einfaldlega verið gert vegna þess að upplýsingarnar hefðu verið vitlaust færðar inn til að byrja með. „Ég ætla ekki einum eða neinum að það hafi verið gert með ásetningi. Þannig að þess vegna segi ég að það hafi verið mistök.“
Næstum 13 ár frá því að meint brot áttu sér stað
Sú skýring hefur verið gefin hérlendis að ástæða þess að yfirvöld hér hafi ekki lokið málinu með ákæru eða niðurfellingu sé að rannsókn lögregluyfirvalda í Lúxemborg njóti forgangs. Beðið sé niðurstöðu hennar áður en örlög Lindsor-málsins á Íslandi verði ákveðin.
Lögregluyfirvöld í Lúxemborg yfirheyrðu menn ytra í tengslum við rannsókn á því í mars 2015. Á meðal þeirra sem yfirheyrðir voru eru íslenskir ríkisborgarar.
Þrír menn sem vinna við rannsókn á Lindsor-málinu svokallaða komu til Íslands í desember 2016, lögðu fram réttarbeiðni og óskuðu eftir atbeina embættis héraðssaksóknara vegna rannsóknar málsins. Í kjölfarið yfirheyrðu þeir Íslendinga sem tengjast málinu. Einn þeirra sem kom hingað til lands er rannsóknardómarinn sem stýrði rannsókninni, Ernest Nilles.
Fyrir ári síðan greindi Morgunblaðið svo frá því að rannsókninni væri að ljúka.
Í ljósi þess að næstum ár var liðið frá því að þau svör fengust kannaði Kjarninn stöðu málsins hjá dómsmálaráðuneytinu í Lúxemborg og fékk þau svör að rannsóknin væri á lokametrunum. Fleiri grunaðir hefðu bæst við hana og það hefði tafið lok rannsóknarinnar. Stefnt væri að því að klára hana fyrir haustið og mjög liklegt (e.highly likely) væri að það yrði ákært í málinu, að mati aðstoðarsaksóknara sem vinnur að rannsókninni. Fari svo muni málið rata fyrir dómstóla í Lúxemborg á næsta ári, árið 2021. Þá verða liðin næstum 13 ár frá því að undirliggjandi atburðir áttu sér stað.
Fréttaskýringin byggir að stórum hluta á bókinni Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kom út síðla árs 2018 og er eftir sama höfund. Sú bók byggir meðal annars á tugþúsundum blaðsíðna af rannsóknar- og málsgögnum í málum sem embætti sérstaks saksóknara og önnur sambærileg embætti í öðrum löndum hafa viðað að sér við rannsókn og saksókn þeirra mála sem hrunið leiddi af sér.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi