1. Fjöldatakmarkanir og smithætta setja strik í reikninginn
Þessa verslunarmannahelgi gilda enn fjöldatakmarkanir vegna COVID-19 og því mega að hámarki 500 manns koma saman. Þessar fjöldatakmarkanir hafa gert það að verkum að hátíðum hefur verið aflýst eða dagskrá þeirra breytt að miklu leyti. Fjöldatakmarkanir verða rýmkaðar 4. ágúst og þá mega að hámarki þúsund manns koma saman.
2. Engin Þjóðhátíð í fyrsta sinn síðan í fyrri heimsstyrjöld
Ein þeirra hátíða sem ekki verður haldin í ár er Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Hún hefur verið haldin á hverju ári frá 1901, að heimsstyrjaldarárunum 1914 og 1915 undanskildum. Eldgosið á Heimaey kom ekki í veg fyrir að hátíðin yrði haldin, en árið 1973 stóð Þjóðhátíð í einn dag og var hún haldin fyrir starfsmenn sem unnu að hreinsun eyjarinnar.
3. Ein lítil með öllu
Ein með öllu verður haldin á Akureyri en þó með gjörbreyttu sniði. Sú breyting verður á hátíðinni að ekki verða haldnir stórir útitónleikar í miðbænum né svokallaðir Sparitónleikar sem fram áttu að fara við Samkomuhúsið. Á fésbókarsíðu hátíðarinnar er sagt að boðið verði upp á litla fjölskylduvæna viðburði í bænum og að tryggt verði að aldrei komi fleiri en 500 saman.
4. Innipúkar geta vel við unað
Ferðalatir Reykvíkingar, sem og gestir höfuðborgarinnar, geta sótt tónlistarhátíðina Innipúkann um verslunarmannahelgina. Að þessu sinni fer dagskráin fram í Gamla bíó og á skemmtistaðnum Röntgen. Þetta er í 19. sinn sem hátíðin er haldin um verslunarmannahelgi.
5. Neistinn slokknar í bili
Strax í maí var tekin sú ákvörðun að aflýsa Neistaflugi á Neskaupstað. Í tilkynningu á fésbókarsíðu hátíðarinnar kemur fram að stjórn Neistaflugs telji það samfélagslega skyldu sína að minnka möguleika á smithættu með því að aflýsa hátíðinni sem haldin hefur verið árlega síðan árið 1993.
6. Síldarbrestur á Siglufirði
Engin formleg dagskrá verður um verslunarmannahelgi fyrir gesti Siglufjarðar. Til að lífga upp á tilveruna hefur verið ákveðið að halda í tvær nýjungar sem reyndust vel á Síldarævintýri um verslunarmannahelgi í fyrra. Hverfi bæjarins verða hvert um sig skreytt hverfislitum sínum og verða verðlaun veitt fyrir skreytingar. Þá verða skipulagðar götugrillveislur fyrir íbúa bæjarins. Á fésbókarsíðu hátíðarinnar er bent á að nóg verði um að vera í bænum um verslunarmannahelgi líkt og aðrar helgar sumarsins
7. Vímulaus sæla í Vatnaskógi
Í Vatnaskógi halda Skógarmenn KFUM Sæludaga sem er vímulaus fjölskylduhátíð. Dagskrá hátíðarinnar er í anda sumarbúða KFUM og KFUK og sögð höfða til flestra. Sæludagar hafa verið haldnir árlega frá árinu 1992 og þátttakendur hátíðarinnar að jafnaði ríflega þúsund samkvæmt heimasíðu Vatnaskógar. Í ár er miðasala takmörkuð til að hægt sé að tryggja að ekki komi fleiri en 500 saman á svæðinu.
8. Gestir við Ísafjarðardjúp verða í það minnsta hreinir
Þetta sumarið hafa engar auglýsingar dunið á áhugafólki um mýrarbolta þar sem það er hvatt til að drulla sér vestur um verslunarmannahelgi. Ástæðan er sú að Evrópumót í mýrarbolta fer ekki fram í ár en það hefur verið haldið á Ísafirði og í Bolungarvík á hverju ári síðan árið 2004.
9. Unglingalandsmóti frestað um ár
Unglingalandsmót UMFÍ hafa verið haldin reglulega frá árinu 1992 og á hverju ári frá árinu 2002. Í ár átti Unglingalandsmótið að fara fram á Selfossi um verslunarmannahelgina en því hefur verið frestað um ár. Til stóð að keppt yrði í ýmsum keppnisgreinum. Auk íþróttagreina er til að mynda keppt í kökuskreytingum, stafsetningu og upplestri.
10. Margir verða á faraldsfæti
Þrátt fyrir að skipulögð dagskrá yfir verslunarmannahelgi hafi breyst í kjölfar kórónuveirufaraldurs er ljóst að margir verða á faraldsfæti. Á síðasta upplýsingafundi Almannavarna sagði Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn nokkuð ljóst að verslunarmannahelgi, sem og þessi helgi, verði nokkur áskorun fyrir lögregluna í landinu. Hann brýndi sérstaklega fyrir fólki að virða þær reglur sem eru í gildi auk þess sem hann hvatti fólk til að virða tveggja metra regluna.