Umdeild úrslit forsetakosninga í Hvíta-Rússlandi hafa leitt til mótmælabylgju þar í landi gegn sitjandi forseta, Alexander Lúkasjenkó. Ríkisstjórnir annarra Evrópulanda, þar á meðal Íslands, hafa einnig gagnrýnt framferði forsetans, sem hefur setið í embætti í 26 ár og hefur nær algjört einræðisvald yfir landinu. Á laugardaginn bauð svo Pútín fram hernaðaraðstoð sína, en óvíst er hvort rússneski herinn verði notaður gegn mótmælendum.
Mannréttindi fótum troðin
Lúkasjenkó tók við völdum í fyrstu lýðræðislegu kosningum Hvíta-Rússlands árið 1994, en landið hafði þá verið sjálfstætt í þrjú ár eftir fall Sovétríkjanna. Útlit er fyrir að kosningarnar hafi einnig verið þær síðustu sem voru haldnar með lýðræðislegum hætti í landinu, en erlendar eftirlitsstofnanir hafa gefið öllum kosningum í Hvíta-Rússlandi frá árinu 1995 falleinkunn.
Á valdatíð sinni hefur Lúkasjenkó haldið völdum með lögreglusveitum sem berja niður tilraunir til friðsamlegra mótmæla og fangelsa blaðamenn sem gagnrýna ríkisstjórnina. Samkvæmt nýjustu skýrslu Human Rights Watch um landið er tjáningarfrelsi, félagafrelsi og frelsi fjölmiðla þar mjög takmarkað, en Hvíta-Rússland er einnig eina Evrópulandið þar sem dauðarefsing er enn stunduð.
Með stjórnarskrárbreytingum árið 2012 kom afnam Lúkasjenkó svo takmörk á valdatíð forseta og getur hann því setið í embætti sínu til dauðadags.
Svetlana Tsikanovskaja
Síðustu forsetakosningar í landinu voru haldnar fyrir viku síðan, en samkvæmt opinberum tölum frá kosningastjórn Hvíta-Rússlands fékk Lúkasjenkó yfir 80 prósent allra greiddra atkvæða. Úrslitin eru þó víða dregin í efa, en samkvæmt BBC bentu skoðanakannanir til þess að helsti keppinautur forsetans, Svetlana Tsikanovskaja, væri með 70-80 prósenta fylgi.
Framboði Tsikanovskaja var vel tekið af stjórnarandstæðingum, en samkvæmt umfjöllun New York Times er nær öruggt að hún hafi í raun og veru unnið kosningarnar. Hins vegar lýsti Lúkasjenkó yfir sigri og Tsikanovskaja flúði til Litháen, þar sem hún taldi að líf sitt og barna sinna væru í hættu í heimalandi hennar.
Brugðist við mótmælum með hörku
Í kjölfar úrslita kosninganna síðasta sunnudag hafa sprottið upp fjöldamótmæli víðs vegar um Hvíta-Rússland. Samkvæmt vefnum Politico voru mótmælin í smærra lagi í fyrstu en hafa svo stækkað með hverjum deginum. Í gær voru svo stærstu mótmælin haldin en þá komu um 200 þúsund manns saman í miðbæ Minsk, höfuðborgar landsins, og kröfðust afsagnar Lúkasjenkó.
Mótmælunum hefur oft verið mætt af hörku, en fyrr í vikunni voru rúmlega sjö þúsund mótmælendur handteknir auk þess sem tveimur var banað.
Lögregluofbeldið fordæmt
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fordæmdi, ásamt hinum þjóðarleiðtogum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, lögregluofbeldi hvítrússnesku ríkisstjórnarinnar með sameiginlegri yfirlýsingu sem gefin var út síðasta þriðjudag. Evrópusambandið samþykkti einnig að setja viðskiptaþvinganir á þá sem eru ábyrgir fyrir viðbrögðum hvítrússneskra stjórnvalda síðasta föstudag.
Atburðir síðustu viku hafa líka dregið úr stuðningi við Lúkasjenkó innan ríkisstjórnar Hvíta-Rússlands, en sendiherra landsins í Slóvakíu, Ígor Leskenja, lýsti yfir stuðningi við mótmælendur í myndbandsupptöku sem birt var í gær. Einnig greinir Politico frá því að hvítrússneskir hermenn og lögreglumenn hafi dreift myndböndum af sér að henda einkennisbúningum sínum í ruslið.
Vandamálin „bráðum leyst“
Lúkasjenkó á sér þó einn hauk í horni, en það er Vladímír Pútín forseti Rússlands. Löndin tvö eru meðlimir í bandalagi fyrrum Sovétríkjanna, sem kallað er CIS, ásamt Armeníu, Rúmeníu, Moldóvu og ýmsum Mið-Asíuríkjum. Samkvæmt yfirlýsingu frá yfirvöldum Rússlands í Kreml Fullvissaði Pútín Lúkasjenkó á laugardaginn að hernaðarbandalag ríkjanna tveggja yrði heiðrað og bauð hann fram hernaðaraðstoð ef utanaðkomandi ógn steðjaði að Hvíta-Rússlandi.
Hins vegar er enn óvíst hvort Pútín telji hvítrússneska mótmælendur vera utanaðkomandi ógn, en yfirvöld í Kreml sögðu slíka ógn steðja að landinu núna.Í símtalinu sagðist Pútín einnig vera „fullviss“ um að núverandi ástand „yrði bráðum leyst“.