Pólitíkin lituð af sérhagsmunagæslu – og ekki í neinu sambandi við almenning
Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að mörg hundruð milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Næstur í röðinni er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Það er nýtt fólk í brúnni með hugmyndir sem mér finnst í sjálfu sér vera ógn við þá samfélagsmynd sem ég sé fyrir mér og vil sjá. Þar kemur einhvern tónn og einhver stemning eða hugarfar sem mér finnst ég ekki hafa séð áður og það hræðir mig mjög.“
Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við Kjarnann en miklar væringar hafa verið í stéttabaráttu á Íslandi síðustu ár. Með þessum orðum á hann við það sem hann kallar nýja kynslóð stjórnenda fyrirtækja og forystufólks í Samtökum atvinnulífsins.
Þetta lýsir sér í ákveðinni hörku gagnvart samningsrétti fólks, að mati Ragnars Þórs, og í því að fara yfir ákveðnar línur og leikreglur sem verkalýðshreyfingin og atvinnulífið hafi sett sér síðustu ár og áratugi með því að ráðast gegn kjörum fólks en ekki gegn kröfuhöfum. Þarna tekur hann Icelandair sem dæmi og ákvörðun þeirra að fara harkalega gegn kjörum félagsmanna VR og segja upp öllum flugfreyjum á einu bretti í miðri kjarabaráttu og hóta að semja við annað stéttarfélag.
Varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins þá segir hann að þær séu mikið litaðar af sérhagsmunum. Sem dæmi nefnir hann að þrýstingurinn hafi verið gríðarlega mikill í byrjun sumars að opna landið og sömuleiðis þegar því var aftur lokað. Þannig sé lobbíismi fyrir ákveðnum aðgerðum mjög mikill á bak við tjöldin en einnig í sjálfri orðræðunni.
Segir stjórnarflokkana standa fyrir sérhagsmunagæslu
Ragnar Þór segir að þeir flokkar sem nú eru við völd – og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn – standi fyrir sérhagsmunagæslu. Pólitíkin virki þannig. „Hún er mjög lituð af sérhagsmunagæslu, sama hvar hún drepur niður. Við í verkalýðshreyfingunni erum ekkert undanskilin þessu í sjálfu sér. Við erum að lobbía allan daginn fyrir aðgerðum og aðgerðapökkum og málum sem snerta hagsmuni okkar félagsmanna. Þannig að við erum hinum megin við borðið. Til dæmis erum við núna að þrýsta á um hærri atvinnuleysisbætur – við erum að taka slaginn við fólk sem hefur ofboðslega ógnvænlega sýn á það hvernig samfélagið ætti að vera byggt upp.“
Ragnar Þór telur að verkalýðshreyfingin sé þannig að takast á við nýja kynslóð af stjórnendum og nýja kynslóð af forystufólki í Samtökum atvinnulífsins og öllum þeim félögum sem þar eru innan borðs.
„Samtök atvinnulífsins fara í raun gegn því að hækka atvinnuleysisbætur í þessu ástandi vegna þess að þau telja hækkunina letja fólk til vinnu þegar enga eða litla vinnu er að fá – sem er gríðarlega alvarlegt fyrir íslenskt samfélag. Það er svo sjúkt hugarfar að vilja þrengja sultarólina til þess að halda fólki í einhvers konar kúgunarsambandi við atvinnulífið og við samfélagið,“ segir hann og bætir því við að þetta sé litlu skárra í pólitíkinni.
En er það ekki gömul saga og ný að stjórnmálin og atvinnulífið eigi samleið með þessum hætti sem Ragnar Þór lýsir? Hann segist í því samhengi áður fyrr hafa upplifað hægrið sem eilítið mannlegt. „En núna upplifi ég hægrið á hátt sem ég óttast mjög. Ég óttast það mjög því mér finnst það vera orðið sjúklega litað sérhagsmunum og það vinnur svo kerfisbundið gegn mikilvægum samfélagslegum góðum breytingum að þetta er orðið í mínum augum alvarlegt mein í íslensku samfélagi.“
Það er svo sjúkt hugarfar að vilja þrengja sultarólina til þess að halda fólki í einhvers konar kúgunarsambandi við atvinnulífið og við samfélagið.
Ragnar Þór segist aðspurður gera lítinn greinarmun á milli stjórnarflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins eða Vinstri grænna. Hann segist sjálfur hafa verið alinn upp við það að standa við orð sín – en ekki finnast það vera hinn eðlilegasti hlutur að svíkja fólk eða gefin loforð. Það telur hann hefðbundna stjórnmálaflokka gera.
Hann segir þessa menningu innan stjórnmálanna vera sjúka og að hún brjóti niður traust. „Það er ekki að ástæðulausu að traust til stjórnmálamanna og traust almennings til stjórnmálanna sem afl sem virkar og vinnur fyrir fólkið sé ekki til staðar. Það traust hefur ekki verið til staðar í langan tíma. Ég held að pólitíkin lifi í einhverri „búbblu“ – hún heyrir ekki hvað fólkið er að kalla eftir. Hún er ekki í neinu sambandi við fólkið.“
ASÍ skrapaði botninn hvað traust varðar
Ekki eru það þó einungis stjórnmálin sem hafa þurft að endurvekja traust almennings en Ragnar Þór bendir á að svipað hafi gerst hjá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) á sínum tíma þegar forystan þar „skrapaði botninn hvað traust varðar í íslensku samfélagi. Mig minnir að á einhverju tímabili hafi ASÍ – fjöldahreyfing launafólks – náð neðar en fjármálakerfið og Alþingi á einhverjum tímapunkti. Og þá er nú mikið sagt,“ segir hann.
Ragnar Þór bendir á að verkalýðshreyfingin hafi þó náð að snúa þessari þróun við. Núna mælist Alþýðusambandið og verkalýðshreyfingin í hæstu hæðum hvað traust varðar í íslensku samfélagi. Mikið hafi breyst innan hreyfingarinnar og hafi forystan meðal annars hætt að umkringja sig fólki sem gagnrýnir aldrei gjörðir hennar.
Hann telur að ástæðan fyrir því að traust til stjórnmálanna mælist eins lítið og raun ber vitni sé vegna þess að fólki finnist stjórnmálamennirnir ekki vera málsvarar þess – og það sama mætti segja um verkalýðshreyfinguna hér áður fyrr.
Ragnar Þór segir að varast beri að fara í sama farið á ný og að hægt sé að koma í veg fyrir það. Það sé meðal annars hægt með því að vera í meira sambandi við fólk og almenning. Nauðsynlegt sé að kanna vilja fólksins en það sé hægt með margvíslegum hætti.
„Við hjá VR gerum reglulega kannanir þar sem fólk getur sagt sínar skoðanir á því hvort það sé ánægt með stefnu félagsins og forystu. Hvað vill það að verði betur gert? Og þú tekur vilja fólksins og ferð eftir honum í einu og öllu – þrátt fyrir að það sé náttúrulega ekki hægt að gera öllum til geðs – í staðinn fyrir að vera með einhverja hugmyndafræði sem þú telur vera góða og treður henni ofan í kokið á fólkinu.“ Boðleiðin verði þannig öfug.
„Stemning fyrir því“ að bæta kjör þeirra lægst settu
Stéttarfélög verkalýðshreyfingarinnar eru eins ólík og fólkið innan hennar og oft þarf að miðla málum. „Þarna ertu með ólíka einstaklinga; tekjuhátt fólk og láglaunafólk og allt þar á milli. Þarna er ómenntaða láglaunakonan með tvö börn sem býr ein. Svo eru þarna einnig millistjórnendur með mun hærri laun,“ segir Ragnar Þór.
Hvernig gengur þá að samrýma sjónarmið og hagsmuni þessara hópa? „Það er mjög krefjandi en ég held að við gerum það rétt. Það sem er ennþá meira krefjandi er að vinna á vettvangi Alþýðusambandsins með ólík félög og ólík samsett félög þar sem kröfurnar og áherslurnar eru mjög mismunandi. Það er kannski einfaldara að vera með félag með einni starfsgrein og meiri fókus en það sem við hjá VR þurfum að gera og reynum að smita út er bæði að finna eitthvað fyrir alla og síðan lesa stemninguna í þjóðfélaginu. Það var til dæmis stemning fyrir því í lífskjarasamningunum að bæta kjör þeirra lægst settu. Þeir sem voru tekjuhærri voru sammála því að fara krónutöluleiðina; þ.e. að þeir tekjulægri fengju hlutfallslega meira en allir samt jafnt.“
Ekki klofningur í hreyfingunni
Talið berst því næst að ákvörðun Ragnars Þórs að segja sig úr miðstjórn ASÍ í apríl síðastliðnum. „Ég sagði mig ekki úr henni vegna þess að ég var í slæmum samskiptum við þau. Ég er til dæmis í góðum samskiptum við Drífu og ég er í góðum samskiptum við Sólveigu Önnu.“
Þarna á hann við forseta ASÍ og formann Eflingar. „Fólk kannski skynjar að það sé einhver klofningur í hreyfingunni en það er alls ekki þannig. Ég held að Drífa sé sammála mér í því að við þurfum að endurskoða Alþýðusambandið – hvernig við vinnum og erum. Eigum við að vera með Alþýðusamband sem virkar eins og stjórnmálin þannig að við komum okkur saman um lægsta samnefnarann svo allir séu sáttir eða eigum við að virkja okkur og vera öflugri sem talsmenn okkar félaga og vera beittari út á við?“ spyr hann.
Hann segir að hann sé ekki með fullmótaðar hugmyndir hvernig leysa eigi þetta mál en hann vill til dæmis í dag sjá ákveðna formgerðarbreytingu á Alþýðusambandinu. Hann telur að það muni gera ASÍ að öflugri heildarsamtökum en „samt ekki detta í þá gryfju að geta aldrei verið sammála um neitt nema vera búin að þynna það út“.
„Við þurfum einnig að sýna styrkleika okkar og þessar sterku raddir – því það er svo mikið hjarta í þessari nýju verkalýðshreyfingu. Við endurheimtum þennan neista sem hvarf og ég er samt svo hræddur um að þessi neisti og þessi kraftur nái ekki að koma almennilega fram nema fólk fái að blómstra – alveg sama hvar það er,“ segir hann.
Hann nefnir Icelandair-málið sem dæmi um það hvernig verkalýðshreyfingin geti staðið vel saman. „Hreyfingin er auðvitað mjög öflug og mun verða enn öflugri. Það er mótlætið sem hvetur okkur svo oft áfram og þjappar okkur saman. Þannig virkar hreyfingin.“ Hann segir að þó sé mikilvægt að fólk geti tjáð tilfinningar sínar og skoðanir. „Þá færðu líka meiri tengingu.“
SA hefur „rúllað upp lobbíisma á Íslandi“
Ragnar Þór segir að hann sé enn að vinna að því að gera breytingar innan frá í hreyfingunni en staður hans sé þó ekki innan miðstjórnar ASÍ. „Mér finnst það vera vettvangur sem hentar mér persónulega ekki. Mér finnst hann draga úr mér orku. Hitt er annað mál að ég held að við þurfum að endurskipuleggja okkur.“
Endurskoðun er hér lykilhugtak í huga Ragnars Þórs. „Við búum ekki til kerfi sem eru eilíf, þau eru alltaf í endurskoðun og ættu að vera það. Þótt eitthvað virki í dag þá er ekki víst að það geri það eftir fimm ár.“
Þá telur hann að Samtök atvinnulífsins hafi „rúllað upp lobbíisma á Íslandi“. Hagsmunaöflin og hagsmunagæsla peningaaflanna og auðvaldsins hafi þannig valtað yfir almenning. Hann segir jafnframt að stjórnmálin á Íslandi séu vanmáttug til að takast á við spillingu. „Maður skynjar ákveðna uppgjöf og ómöguleika gagnvart því að það sé hægt að breyta einhverju þarna inni. Ég upplifi þetta sem svo að maður sé búinn að missa trúna á að nokkuð muni breytast – pólitíska kerfi, þingið og strúktúrinn í kringum flokkana og stjórnmálin. Það kemur uppgjafatilfinning.“
Þó komi tímar þar sem hann sé bjartsýnni og öðlist trú á að breytingar séu mögulegar. „Eftir að okkur tókst að rífa þessa hreyfingu upp þá held ég að allt sé nú hægt. En ég sé ekki breytinguna fyrir mér í dag – ég sé ekki þennan neista koma þarna inn í stjórnmálin. Hvorki í forystu flokkanna né í framboði sem virðast ætla að verða nægilega sterk til þess að þrýsta á einhverjar breytingar.“ Hann tekur þó sérstaklega fram að þarna eigi hann ekki við grasrótarflokka á borð við Flokk fólksins og Sósíalistaflokkinn.
Hreyfingin er auðvitað mjög öflug og mun verða enn öflugri. Það er mótlætið sem hvetur okkur svo oft áfram og þjappar okkur saman.
Verkalýðshreyfingin peningalegt stórveldi
Varðandi framtíðarsýn Ragnars Þórs þá sér hann fyrir sér að verkalýðshreyfingin þurfi að endurskipuleggja sig, eins og áður segir. „Hún þarf að gera það mjög rækilega vegna þess að við höfum hingað til verið að tapa baráttunni fyrir sérhagsmunaöflunum, til dæmis í auðlindamálunum.“ Allar ákvarðanir séu gerðar á forsendum atvinnulífsins.
„Verkalýðshreyfingin getur haft svo mikil áhrif – mikið meiri en hún nú hefur. Hér á landi eru sterk sérhagsmunaöfl eins og Samtök atvinnulífsins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu, Samtök iðnaðarins, Viðskiptaráð og svo framvegis. Þetta er massíft fyrirbæri sem er þaulskipulagt og hefur gríðarleg ítök. Fyrirtæki og peningaöfl hafa ítök í stjórnmálunum og síðan er búið að smita þetta út í allt embættismannakerfið. Það verður erfitt að breyta þessu en ég held að það sé hægt,“ segir hann.
Þá segir hann að fjölmiðlaumhverfið sé einnig í vanda. „Stærstu fjölmiðlarnir eru reknir af einhverjum svona auðvaldsklíkum. Þessi klíka er með þennan miðil og önnur með annan,“ segir hann og spyr í framhaldinu hvað verkalýðshreyfingin sé að gera í þessum málum. Af hverju sé verkalýðshreyfingin ekki með öfluga miðla á sínum snærum?
„Við ættum að vera miklu skipulagðari í því að vera meira málsmetandi í orðræðunni og umræðunni. Vegna þess að hreyfingin er allt öðruvísi en hún var. Í dag er hún peningalegt stórveldi. Stéttarfélögin eru rík og liggja á gríðarlegum sjóðum, milljörðum. Og við höfum alla burði til að gera betur. Ég er alls ekki að segja að við séum handónýt en við getum gert svo miklu miklu betur. Og við eigum að sýna hvað í okkur býr því við erum með svo mikið á bak við okkur. Við eigum að vera það gildandi í orðræðunni að við eigum ekki að biðja um hlutina, við eigum að segja hvernig þeir eru gerðir.“
Þannig eigi hreyfingin að byggja sig upp en „ekki lifa í búbblu eða enda eins og allt annað í íslensku samfélagi“.
„Elítan fór á límingunum“
Af þessum ástæðum hefur Ragnar Þór velt því fyrir sér hvort ástæða sé til að verkalýðshreyfingin eigi að bjóða fram til Alþingis. Hann veltir því enn fremur fyrir sér hvort breyta eigi lífeyrissjóðskerfinu en misjafnar skoðanir eru um það innan hreyfingarinnar. Hann segir að sumum finnist kerfið virka vel vegna þess að svona hafi hlutirnir alltaf verið gerðir. „Sumir kunna að fara með möntrurnar: „Þetta er besta kerfi í heimi. Við erum öfunduð af þessu kerfi og svo framvegis“.“
Ragnar Þór segir að þessar möntrur standist enga skoðun. „Svo kem ég fram og tala um að breyta sjóðunum með einhverjum hætti eða að taka ekki þátt að fjárfesta í félögum sem brjóta illa gegn vinnulöggjöfinni og fara yfir línur og leikreglur sem ekki hefur verið farið yfir áður eða í langan tíma – og allt fer á hliðina. Elítan fór á límingunum,“ segir hann og bætir því við að maður viti að maður sé kominn að kjarna sólarinnar þegar viðbrögðin verða þessi.
Hann segir jafnframt að þarna hafi hann fundið fyrir því að hann væri á hárréttri leið vegna þess að viðbrögðin urðu svona ofsafengin. „Þarna liggur kjarni málsins – og þá þurfum við að halda áfram á þessari braut. Ef við höfum fólkið með okkur þá erum við með slagkraft sem ekki er hægt að vinna. Þess vegna skiptir svo miklu máli fyrir okkur, ef við ætlum að ná fram einhverjum breytingum í samfélaginu til framtíðar, að byggja okkur upp inn á við. þ.e. skipuleggja okkur upp á nýtt og forðast það eins og heitan eldinn að lenda í samnefnarabúbblu.“
Blákaldur veruleiki sem Íslendingar standa frammi fyrir núna
Ragnar Þór bendir á að miklar tæknibreytingar séu framundan, sem og sjálfvirknivæðing, og því þurfi að endurskoða öll grunnkerfi samfélagsins. Hann telur því það vera gríðarlega mikilvægt að samfélagið fari í mikla naflaskoðun. „Vegna þess að kerfin sem við erum með í dag eru byggð utan um allt annað landslag og allt annað samfélag.“ Mikilvægt sé að skattleggja tæknina svo fólk hafi framfærslu fyrir það fyrsta.
„Ef það verða ekki til ný störf í staðinn þá verður að tryggja fólki framfærslu. Við getum ekki bara verið með einhverjar vélar í gangi sem moka auð undir örfá rassgöt og síðan er fólkið heima hjá sér á einhverjum bótum sem duga annað hvort fyrir mat eða húsnæði – en ekki hvoru tveggja. Og það er óásættanlegt ástand og við eigum að byrja að ræða þetta af miklu meiri alvöru.“
Hann ítrekar að hann vilji sjá breytingar í stjórnmálunum, breytingar innan verkalýðshreyfingarinnar og breytingar á hugarfari á Alþingi. „Af hverju erum við með kerfi þar sem örfáir ráða en allir kraftarnir nýtast ekki á meðan. Við verðum að fá sem mest út úr flestum. Þannig þarf pólitíkin og þingið að virka. Síðan þurfum við að ráðast á þessi grunnkerfi. Við þurfum algjörlega að endurskoða lífeyris- og almannatryggingakerfið og koma í veg fyrir þessa innbyggðu mismunun í kerfunum. Og í þessari endurskoðun verðum við tryggja fólki framfærslu á meðan okkur er ekki að takast að skapa ný störf fyrir þau sem tapast. Þetta er blákaldur veruleiki sem við stöndum frammi fyrir núna. Þetta er að gerast núna – ekki eftir tíu eða tuttugu ár. Þarna þarf fólk að vera með opinn hug.“
Þá skipti máli að fá rétta fólkið í þessar breytingar. Ekki sé hægt að stóla á þá sem unnið hafa innan kerfisins í langan tíma heldur þurfi fólk sem er með aðra sýn. Það þurfi að hugsa þetta alveg frá grunni.
Erum fyrirmynd spillingar – ástandið oft yfirþyrmandi
Ragnar Þór segir að það sé auðvelt fyrir Ísland að vera góð fyrirmynd í hinum ýmsu málum, til að mynda í loftslagsmálum. „En við getum líka verið annars konar fyrirmynd – ekki spennandi fyrirmynd. Við erum fyrirmynd spillingar, við erum fyrirmynd misskiptingar og við erum fyrirmynd fyrir vegferð sem aðrir ættu ekki að fara.“
Hann segir að almennt sé hann vongóður um að hægt sé að ná fram þessum breytingum sem hann talar um. „Annars gæti ég ekki verið í þessu starfi. Ég er í þessu starfi vegna þess að ég hef trú á því að eitthvað muni breytast en auðvitað hef ég tilfinningar eins og allir – og auðvitað verður ástandið oft yfirþyrmandi af því að þetta er svo miklu verra en ég hélt. Ég taldi mig vera mjög vel undirbúinn fyrir þetta starf og til að fara í þessa baráttu. Að reyna að fylgja þessum hugsjónum en þetta er allt erfitt. Það er erfitt að gera málamiðlanir og það er erfitt og yfirþymandi að finna hversu ógnvænleg þessi ákveðna þróun er og hversu ógnvænleg þessi öfl eru. Að sjá hversu sterk þau eru í raun og veru en líka hvað þau eru veik. Þú þarft einungis bara fólkið með þér en það er líka heilmikið. Þetta er bara líka risastórt. Svo er maður bara mismótíveraður í þetta. Stundum er maður „high on life“ og stundum ekki. Sama gildir um baráttuna, stundum er maður í góðum gír en trúin er alltaf til staðar. En þegar trúin er farin þá er ég farin líka, það er bara þannig. Þegar ég hætti að trúa því að við getum breytt þessu verður það síðasti dagurinn minn í þessari vinnu,“ segir hann að lokum.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði