Alþingi - Janúar 2018

Ætti að taka ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir á Alþingi?

Innan flokkanna þriggja sem mynda ríkisstjórn á Íslandi í dag er ekki einhugur um það hvernig skuli glíma við kórónuveiruna. Stöku þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa verið gagnrýnir á sóttvarnaaðgerðir og hvernig ákvarðanir um þær eru teknar. Kjarninn bauð þingmönnum að tjá sína skoðun á málinu.

Á stjórn­mála­svið­inu hafa sótt­varnir æ oftar komið til umræðu að und­an­förnu og ljóst er að skoð­anir eru skiptar, meðal ann­ars á meðal stjórn­ar­þing­manna, meðal ann­ars um það hvert hlut­verk Alþingis eigi að vera í far­aldr­in­um.

Fyrr í mán­uð­inum sagð­ist Brynjar Níels­son þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks hættur „með­virkni“ sinni með sótt­varna­ráð­stöf­un­um, sem hann kall­aði stærstu skref sem hefðu til alræðis í Íslands­sög­unn­i. 

Annar þing­maður sama flokks, Sig­ríður Á. And­er­sen, hefur sagt að hún telji að Alþingi eiga að ræða og sam­þykkja þær ráð­staf­anir sem gripið sé til áður en þær komi til fram­kvæmda. Í gær steig hún svo fram sem einn þriggja for­svars­manna hóps­ins Út úr kóf­inu, sem hefur sett upp vef­síðu og seg­ist þar ætla að veita upp­lýs­ingar og „gefa fleirum tæki­færi til þess að láta rödd sína heyr­ast.“ 

Meðal ann­ars seg­ist hóp­ur­inn ætla að gefa sér­fræð­ingum mögu­leika á að setja skoð­anir sínar fram undir nafn­leysi, svo þeir geti gert það „án þess að eiga það á hættu að verða fyrir aðkasti innan sinnar starfs­stétt­ar.“ 

Einnig seg­ist hóp­ur­inn ætla að „[h]afa frum­kvæði að mótun heild­stæðrar stefnu sem grund­vall­ast á stjórn­ar­skrár­vörðum rétt­indum fólks og lýð­heilsu­stefnu ásamt stað­reyndum um sjúk­dóm­inn og með­höndlun hans,“ sem verði raun­hæf, fram­kvæm­an­leg og til þess fallin að lág­marka skað­ann af kór­ónu­veiru­far­aldr­in­um.

Auglýsing

Kjarn­inn bauð öllum þing­mönnum á Alþingi, nema þeim sem sitja í rík­is­stjórn, að koma því á fram­færi hvert sjón­ar­mið þeirra væri til þess­ara mála. Spurn­ing­arnar sem blaða­maður lagði fyrir þing­menn voru tvær og lutu beint að þeirri gagn­rýni sem hefur verið sett fram af þessum tveimur þing­mönnum Sjálf­stæð­is­flokks á aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Ann­ars vegar var spurt hvort þing­menn teldu að sótt­varna­ráð­staf­anir ættu að koma til umræðu og ákvörð­unar á Alþingi í stað þess að vera á for­ræði rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Hins vegar var spurt hvort þing­menn teldu Ísland vera að feta rétta leið í glímunni við far­ald­ur­inn, eða hvort að breyta ætti þeirri stefnu sem hér hefur verið varð­andi sótt­varn­ir.

Engin svör frá Píröt­um, Við­reisn né Flokki fólks­ins

Fyr­ir­spurnin var send á sjötta tug þing­manna fyrir um viku síð­an, en ein­ungis um fimmt­ungur þing­mann­anna svör­uðu. Heimtur voru því ekki stór­kost­leg­ar.

Eng­inn þing­maður Við­reisn­ar, Pírata né Flokks fólks­ins svar­aði fyr­ir­spurn­inni og Brynjar Níels­son var eini þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks sem veitti blaða­manni svar, en það var reyndar bara áminn­ing um að afstaða hans til spurn­ing­anna lægi fyrir í greinum og pistlum sem hann hefði skrifað og birt opin­ber­lega.

Efn­is­leg svör bár­ust frá full­trúum hinna fjög­urra flokk­anna á Alþingi; Mið­flokki, Sam­fylk­ingu, Fram­sókn­ar­flokki og VG.

Þing­menn VG: Fram­kvæmda­valdið með skýrar heim­ildir lögum sam­kvæmt

Svör þeirra þing­manna Vinstri grænna sem bár­ust til blaða­manns voru þau sem gefa til kynna skýr­ustu and­stöð­una við ofan­greind sjón­ar­mið þing­manna Sjálf­stæð­is­flokks.

„Sótt­varnir lúta lögum sem eru rædd og sam­þykkt á Alþingi. Þar er lög­unum breytt og þá verða umræður og ákvarð­anir tekn­ar. Nú eru í gildi lög sem verið er að end­ur­skoða með þeim til­gangi að bæta lögin og skýra sum ákvæð­in. Ein­stakar aðgerðir eru ekki ræddar á Alþingi með sam­þykkt, breyt­ingar á þeim eða höfnun í huga,“ skrifar Ari Trausti Guð­munds­son þing­maður flokks­ins í svari sínu til Kjarn­ans.

Auglýsing

Ari Trausti segir aðgerð­irnar koma til umræðu á þingi þegar for­sæt­is­ráð­herra eða aðrir ráð­herrar eru til form­legra svara í fyr­ir­spurn­ar­tíma eða vegna skýrslu­gjafar til þings­ins. Hann segir að lögum sam­kvæmt sé það fram­kvæmda­valdið og stofn­anir hins opin­bera sem hafi ákvarð­anir og aðgerðir með höndum í síbreyti­legu umhverfi og vegna snöggra breyt­inga á áhættu vegna far­ald­urs­ins.

„Við eigum ekki að sitja í þing­sal og ræða um eða þrátta um, til afgreiðslu, hvort sam­komu­bann varði 20 eða 100 manna hóp eða hvort ein­föld eða tvö­föld skimun skuli við­höfð á landa­mær­un­um,“ skrifar Ari Trausti, sem telur jafn­framt að í öllum helstu dráttum verið að fara rétt að hér á landi í bar­átt­unni gegn veirunni, „sér­lega hvað varðar sveigj­an­legar og tíma­bundnar en ört breyti­legar aðferðir vástjórn­un­ar.“ 

„Vissu­lega má sumt betur fara þegar reynsla hefur feng­ist og ég tel að vinna sem nú fer fram við end­ur­skoðun sótt­varn­ar­laga sé þörf. Fyr­ir­sjá­an­leiki er tak­mark­aður í alvar­legum heims­far­aldri. Almennt stöndum við okk­ur, lands­menn, þing og stjórn­völd, vel í glímunni við COVID-19,“ skrifar Ari Trausti.

Bjarkey Olsen Gunn­ars­dóttir þing­flokks­for­maður VG tekur í svip­aðan streng og Ari Trausti og seg­ist ekki endi­lega telja að hver og ein ákvörðun eigi að koma til umræðu og ákvörð­unar í þing­in­u. 

„Ég tel að það myndi lengja og flækja ferlið þegar oft er lyk­il­at­riði að bregð­ast fljótt við. Þeir ferlar sem ráð­herra hefur farið eftir vegna COVID-19 byggj­ast á gild­andi sótt­varn­ar­lögum og víð­tækum heim­ildum ráð­herra. Eins og við þekkjum hafa ítrekað komið upp aðstæður þar sem bregð­ast hefur þurft við með skjótum hætti til að reyna að koma í veg fyrir fjölgun smita eins og oft hefur verið rakið á fundum þrí­eyk­is­ins. Þetta er heim­ild sem við höfum falið fram­kvæmda­vald­inu með lög­um,“ skrifar Bjarkey til blaða­manns.

Við eigum ekki að sitja í þingsal og ræða um eða þrátta um, til afgreiðslu, hvort samkomubann varði 20 eða 100 manna hóp eða hvort einföld eða tvöföld skimun skuli viðhöfð á landamærunum

Hún bætir því að það hafi farið fram fjöl­margar umræður um mál­efni sem tengj­ast COVID-19 á Alþingi. Ráð­herrar hafi gefið skýrslur og setið fyrir svörum í fyr­ir­spurn­ar­tímum í hverri viku þar sem Alþingi hafi haft tæki­færi til að hafa eft­ir­lit og aðhald gagn­vart ráð­herr­um. Auk þess standi end­ur­skoðun sótt­varna­laga yfir og þegar frum­varp um þær breyt­ingar komi fram geti Alþingi rýnt lögin og athugað hvort það þurfi að breyta þessum verk­ferl­um.

Bjarkey telur að við séum að feta rétta leið í glímunni við far­ald­ur­inn. „Það sýnir sig vel þessa dag­ana þegar far­ald­ur­inn er á hraðri nið­ur­leið í sam­fé­lag­inu í kjöl­far hertra tak­mark­ana. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa ávallt mið­ast að því að tak­marka skað­ann af veirunni. Það hefur hingað til verið talið best að grípa til hertra ráð­staf­ana til styttri tíma svo ekki þurfi að  tak­marka margs konar starf­semi til lengri tíma. Ákvarð­an­irnar hafa verið byggðar á bestu vís­inda­legu þekk­ingu sem við höfum og ég tel ekki að aðkoma Alþingis að þeim á vinnslu­stigi sé rétt leið,“ skrifar Bjarkey.

Einn þing­maður flokks­ins til við­bótar svar­aði fyr­ir­spurn Kjarn­ans, en sá sagði að það væri „frá­leitt og ekki í sam­ræmi við eðli­lega verka­skipt­ingu lög­gjaf­ar­valds og fram­kvæmda­valds“ að fram­kvæmdin sem slík og ein­stakar ákvarð­anir rík­is­stjórn­ar, ráð­herra og sótt­varn­ar­læknis væru teknar á Alþing­i. 

Þing­mað­ur­inn, sem ekki vildi láta nafns síns getið í þess­ari umfjöll­un, sagði Alþingi hafa veitt rík­is­stjórn umboð til að fara með fram­kvæmda­valdið og minnti á að á ráð­herrum hvíldi líka fram­kvæmda­skylda, sem þýddi að ráð­herrar gætu sætt ábyrgð sam­kvæmt lögum vegna aðgerða­leysis eða van­rækslu. 

Einnig, segir þing­mað­ur­inn, yrði aðhalds- og eft­ir­lits­hlut­verk Alþingis með fram­kvæmda­vald­inu mark­laust ef Alþingi bland­aði sér inn í athafnir stjórn­sýslu og fram­kvæmda­valds, því þá væri það farið að hafa eft­ir­lit með sjálfu sér. Varð­andi það hvort Ísland væri á réttri braut sagð­ist þing­mað­ur­inn telja að svo væri.

„Hund­ruðum manns­lífa hefur án efa verið bjargað með því að taka þetta alvar­lega og setja líf og heilsu lands­manna í for­gang, borið saman við að gera lítið eða ekk­ert og við höfum ekki þurft að svara hroða­legum sið­ferði­legum spurn­ingum eins og þeim hverjum ætti að veita þjón­ustu og hverjum ekki í sprungnu heil­brigð­is­kerf­i,“ skrifar þing­mað­ur­inn til blaða­manns.

Rétt væri að upp­lýsa for­menn þing­flokka fyr­ir­fram um aðgerðir og for­sendur

Ólafur Ísleifs­son var eini mið­flokks­mað­ur­inn sem svar­aði fyr­ir­spurn­inni. Varð­andi hlut­verk Alþingis í sótt­varna­ráð­stöf­unum telur hann að Alþingi hafi hlut­verki að gegna og segir að rétt væri að upp­lýsa „for­menn þing­flokka á hverjum tíma um fyr­ir­hug­aðar aðgerðir í sótt­varn­ar­skyni og for­sendur þeirra.“ 

Ólafur telur ekki þörf á að breyta um stefnu í sótt­varna­mál­um: „Þriðja bylgjan sýn­ist á nið­ur­leið og virð­ist mega rekja til aðgerða sótt­varn­ar­yf­ir­valda. Ég treysti þeim sem gegnt hafa for­ystu á þessu svið­i,“ skrifar Ólafur til Kjarn­ans.

Alþingi taki allar aðgerðir til umfjöll­un­ar, þó ekki nema væri eftir á

Guð­jón S. Brjáns­son var eini þing­maður Sam­fylk­ing­ar­innar sem svar­aði fyr­ir­spurn Kjarn­ans. Hann sagði að eðli máls­ins sam­kvæmt þyrftu sótt­varna­yf­ir­völd að hafa hraðar hendur varð­andi ýmsar þær aðgerðir sem grípa þarf til á meðan á bráða­á­standi stend­ur. 

„Það hafa verið rökin og skýr­ing­arnar á því að Alþingi eigi erfitt með að vera sá aðili sem tekur á öllum mál­um, eins svifa­seint og það getur verið í sínum störf­um. Mín skoðun er hins vegar sú að mik­il­vægt sé að Alþingi taki allar aðgerðir til umfjöll­un­ar, þótt svo þær séu þegar komnar til fram­kvæmda og stað­fest­i,“ skrifar Guð­jón til blaða­manns og bætir því við að marg­vís­legar aðgerðir sótt­varna­læknis hafi verið boð­aðar með all­nokkrum fyr­ir­vara.

Auglýsing

„Fram­kvæmda­vald­inu hefur í þeim til­vikum gef­ist gott tóm til að vega þær og meta. Með sama hætti getur Alþingi hæg­lega gert það ef tíma­spönnin er 2–4 dag­ar. Það er brýnt að mínu áliti að skjóta tryggum laga­stoðum undir ýmsar aðgerðir sem eru afdrifa­ríkar í sam­fé­lag­inu með aðkomu lög­gjafans. Þetta verður enn til­finn­an­legra þegar tíma­bilið leng­ist, álag á ein­stak­linga, hópa og inn­viði eykst og óvissan um marg­vís­leg atriði eru umtals­verð,“ skrifar Guð­jón sömu­leið­is.



Hann telur þó að almennt hafi verið haldið vel á spil­unum af hálfu sótt­varn­ar­yf­ir­valda og að „úr því sem komið er sé ekki ástæða til að venda okkar kvæði í kross.“

Þrír þing­menn Fram­sóknar sam­mála um að verið sé að feta rétta leið

„Ég tel okkur vera á réttri leið og eigum að halda áfram á sömu braut við ákvarð­ana­töku,“ skrifar Líneik Anna Sæv­ars­dóttir þing­maður Fram­sóknar í svari sínu við fyr­ir­spurn Kjarn­ans og Silja Dögg Gunn­ars­dóttir sam­flokks­kona hennar tekur í sama streng. „Óbreytt,“ segir ein­fald­lega í svari hennar til blaða­manns.

Halla Signý Krist­jáns­dóttir segir sömu­leiðis að sótt­varna­ráð­staf­anir séu í góðum höndum höndum hjá sótt­varna­lækni, sem hafi sótt­varna­lögin til fyr­ir­myndar við sínar ákvarð­anir og starfi innan þeirra. Hún segir þó ekk­ert að því þær séu „yf­ir­farnar og rýndar til gagns,“ en það eigi ekki að ger­ast inni á Alþingi.

„Al­þingi er lög­gjaf­ar­vald og þar ættu sótt­varna­lög að sjálf­sögðu að vera til umræðu og það er eðli­legt að eftir þessa reynslu að þau verði tekin upp og end­ur­skoð­uð,“ segir Halla Signý.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent