Viðreisn var formlega stofnuð á fundi í Hörpu 24. maí 2016. Stofnun flokksins hafði átt sér nokkurn aðdraganda, og má rekja til þess að hópur frjálslyndra og alþjóða sinnaðra áhrifamanna innan Sjálfstæðisflokksins fannst þeir blekktir eftir kosningarnar 2013.
Hópurinn taldi sig hafa fengið skýr loforð frá flokki sínum um að umsókn Íslands að Evrópusambandinu yrði ekki dregin til baka nema með þjóðaratkvæðagreiðslu í aðdraganda kosninga 2013. Þegar það var svo gert í febrúar án slíkrar atkvæðagreiðslu töldu þessir einstaklingar sig hafa verið illa svikna og hann fór fljótlega að vinna að mótun nýs framboðs. Benedikt Jóhannesson var fyrsti formaður Viðreisnar en á meðal annarra áhrifamanna úr Sjálfstæðisflokknum sem fylgdu með yfir í hið nýja stjórnmálaafl voru fyrrverandi formaðurinn Þorsteinn Pálsson og fyrrverandi varaformaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Í fyrstu kosningunum sínum, haustið 2016, náði Viðreisn í 10,5 prósenta atkvæða og eftir langar og strangar stjórnarmyndunarviðræðum endaði flokkurinn ásamt Bjartri framtíð í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Sú ríkisstjórn náði að verða óvinsælasta ríkisstjórn lýðveldistímans og sat í einungis átta mánuði. Viðreisn fór ekki vel út úr þeirri stjórnarsetu. Þegar allt stefndi í að flokkurinn myndi þurrkast út í aðdraganda kosninga 2017 hætti Benedikt sem formaður og Þorgerður Katrín tók við. Á endanum náði flokkurinn í 6,7 prósent atkvæða og hélt sér á lífi.
Flokkurinn bauð í fyrsta sinn fram í sveitarstjórnarkosningum árið 2018. Þar fékk hann til að mynda 8,2 prósent atkvæða í Reykjavík og myndaði meirihluta þar með þremur öðrum flokkum á miðjunni og til vinstri.
Flokkur fólks á miðjum aldri
Staða Viðreisnar nú er þannig að í síðustu tveimur könnunum MMR hefur fylgi flokksins mælst að meðaltali 9,1 prósent. Það er meira fylgi en Viðreisn fékk 2017 en minna en flokkurinn fékk 2016.
Flokkurinn á erfitt uppdráttar úti á landi. Fylgið er að mestu bundið við höfuðborgarsvæðið, þar sem Viðreisn mælist með 11,5 prósent stuðning, en stuðningurinn er einnig yfir heildarfylgi á Vesturlandi og Vestfjörðum. Á Norður- og Austurlandi mælist fylgi flokksins hins vegar undir tveimur prósentum og á Suðurlandi og Suðurnesjum er að 5,4 prósent.
Karlar og tekjuhærri hrifnir af Viðreisn
Karlar eru mun hrifnari af Viðreisn en konur. Um 70 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa flokkinn eru karlkyns. Það hlutfall var 56 prósent í könnunum MMR sem gerðar voru í kringum síðustu kosningar.
Þeir sem hafa mest lokið skyldunámi í grunnskóla hugnast ekki sérstaklega að kjósa Viðreisn. Hjá þeim hópi er fylgi flokksins 4,0 prósent. Hjá þeim sem lokið hafa háskólaprófi mælist Viðreisn hins vegar þriðji stærsti flokkur landsins með 14,3 prósent fylgi.
Flokkurinn höfðar líka mun betur til tekjuhærri landsmanna. Mestra vinsælda nýtur hann hjá tekjuhópnum sem er með 800 til 1.199 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur, en þar segjast 15,2 prósent að þeir myndu kjósa Viðreisn. Hjá þeim sem eru með meira en 1,2 milljónir króna á mánuði er fylgið 12,5 prósent.
Gamanið kárnar hins vegar þegar lægri tekjuhópar eru skoðaðir og hjá þeim landsmönnum sem eru með undir 400 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur mælist fylgi Viðreisnar 2,4 prósent. Enginn annar flokkur sem mældur er í könnunum MMR kemst nálægt því að vera jafn lítið vinsæll hjá tekjulægstu landsmönnunum. Sósíalistaflokkurinn er í næst neðsta sæti þar með 8,6 prósent fylgi.
Vilja eyða 123 milljörðum
Viðreisn kynnti aðgerðaráætlun sína til að bregðast við COVID-19 faraldrinum í byrjum september síðastliðinn. Pakkinn snerist um að hrinda alls sjö aðgerðum í framkvæmd. Áætlaður kostnaður við aðgerðirnar, sem áttu að skila sér til baka í auknum hagvexti, var 123 milljarðar króna.
Tillögurnar sjö fólu í sér að opinberum framkvæmdum yrði flýtt og þær auknar, að auknir hvatar yrðu innleiddir í loftlagsmálum, að brugðist yrði við auknu atvinnuleysi með tímabundnum úrræðum fyrir fólk í atvinnuleit, að fjárfest yrði í lýðheilsu þjóðarinnar, að álögum yrði létt á fyrirtæki, að störf yrðu varin og nýsköpun efld.
Stærsti, og dýrasti, hluti tillögupakkans sneri að því að flýta framkvæmdum hins opinbera, en Viðreisn vildi verja 80 milljörðum króna í það á næsta ári. Borgarlína og aðrar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu voru sérstaklega nefndar í því samhengi.