Frumvarp Páls breytir litlu um samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram frumvarp takmarkanir á úthlutaðri aflahlutdeild. Það gengur mun skemur en aðrar tillögur sem lagðar hafa verið fram til að draga úr samþjöppun í sjávarútvegi. Þrjár blokkir halda, beint og óbeint, á tæplega helmingi kvóta á Íslandi.
Frumvarp Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um frekari takmarkanir á úthlutaðri aflahlutdeild til hverrar útgerðarblokkar, mun ekki breyta miklu fyrir þær útgerðir sem halda á kvóta í dag. Eina blokkin sem virðist verða fyrir áhrifum af frumvarpinu, verði það samþykkt, er Samherji og eru þau áhrif lítilsháttar. Auk þess mun Samherjablokkin fá til ársins 2026 til að verða við breytingunum sem lagðar eru til, verði frumvarpið samþykkt.
Samkvæmt frumvarpinu á að gera þá breytingu á lögum um stjórn fiskveiða hlutfallsleg eign útgerðar í öðrum sem halda á kvóta telur þegar reiknaður er út sá kvóti sem blokkin heldur á. Samkvæmt lögum má hver blokk halda á 12 prósent af úthlutuðum kvóta en í gildandi lögum má eiga allt upp að helmingi í annarri útgerð án þess að kvóti sem hún heldur á teljist með. Þessi lög eiga að koma í veg fyrir mikla samþjöppun í sjávarútvegi á meðal þeirra fyrirtæki sem fá að vera vörsluaðili fiskimiðanna, sem eru samkvæmt lögum þó ekki eign þeirra heldur þjóðarinnar. Það markmið hefur ekki náðst enda halda þrjár stórar útgerðablokkir, beint og óbeint, á 44 til 46 prósent af úthlutuðum kvóta, eftir því hverjir eru taldir til þeirra.
Í greinargerð með frumvarpi Páls, sem hann er einn skrifaður á og var lagt fram fyrir helgi, segir að markmiðið með því sé „að kveða afdráttarlaust á um að þegar einstakur aðili kaupir hlut í öðru útgerðarfyrirtæki sem á fiskiskip með aflahlutdeild, hvort sem keyptur er minni hluti eða meiri hluti, leggst hið nýja hlutfall aflaheimildar við það sem fyrir var í eigu kaupanda.“
Þar er nefnt eftirfarandi dæmi: Ef eigandi útgerðarfyrirtækis A sem á fyrir fimm prósent aflahlutdeild kaupir 49 prósent í útgerðarfyrirtæki B sem á alls sex prósent aflahlutdeild verður heildaraflahlutdeild útgerðarfyrirtækis A samtals þau fimm prósent sem fyrir voru að viðbættum 49 prósent af sex prósent aflahlutdeild seljanda, eða tæp þrjú prósent, og alls tæp átta prósent. Þeirri breytingu sem lögð er til með frumvarpinu er því ætlað að koma í veg fyrir að allt að helmingur allra aflaheimilda geti safnast á hendur eins aðila.“
Þorri alls ávinnings situr eftir hjá útgerðunum
Ástæðan fyrir frumvarpinu er að mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á undanförnum áratugum, eftir að framsal kvóta var gefið frjálst og sérstaklega eftir að heimilt var að veðsetja aflaheimildir fyrir bankalánum, þótt útgerðarfyrirtækin eigi þær ekki í raun heldur þjóðin. Slík heimild var veitt árið 1997. Samhliða hefur eftirlit með framfylgd laga um stjórn fiskveiða lengi verið í lamasessi. Það var til að mynda staðfest í kolsvartri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í byrjun árs 2019. Þar gerði hún meðal annars verulegar athugasemdir við að Fiskistofa kannaði ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum, eða kvóta, væru í samræmi við lög. Eftirlitsaðilinn sinnti ekki eftirlitinu.
Samkvæmt síðustu birtu tölum Fiskistofu, sem gefnar voru út í lok apríl, héldu tíu stærstu útgerðir landsins samtals á tæplega 53 prósent af úthlutuðum kvóta. Sú tala hefur hækkað síðan þá. Þrjár stærstu blokkirnar í sjávarútvegi: Samherji/Síldarvinnslan, Útgerðarfélag Reykjavíkur/Brim og félög tengd Kaupfélagi Skagfirðinga halda á meginþorra þess kvóta, eða um 44 prósent alls úthlutaðs kvóta.
Þetta hefur gerst á sama tíma og hagur útgerða heilt yfir – vöxtur á eigin fé þeirra ásamt útgreiddum arði – hefur vænkast gríðarlega, nánar tiltekið um 480 milljarða króna á áratug. Á sama tímabili greiddu útgerðir landsins 70 milljarða króna í veiðigjöld. Af virðisaukningunni sem varð í geiranum fóru því tæp 13 prósent til eiganda auðlindarinnar en 87 prósent varð eftir hjá þeim sem fá að nýta hana.
Frumvarp Viðreisnar og annarra andstöðuflokka
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að taka á þessari miklu samþjöppun og brjóta upp hringamyndanir í sjávarútvegi
Fyrir um ári síðan, nánar tiltekið 6. desember 2019, lögðu til að mynda þingmenn úr þremur stjórnarandstöðuflokkum: Viðreisn, Samfylkingu og Pírötum, fram frumvarp sem fól í sér kúvendingu á því kerfi sem er við lýði vegna nýtingarréttar á fiskveiðiauðlindinni.
Í frumvarpinu fólust þrjár megin breytingar. Í fyrsta lagi yrðu þeir aðilar skilgreindir sem tengdir sem eiga að minnsta kosti tíu prósent hlutafjár í öðrum sem heldur á meira en eitt prósent kvóta. Sama átti að gilda um kröfur sem gerðu það að verkum að ætla megi að eigandi þeirra hafi áhrif á rekstur aðila sem ræður yfir eitt prósent hlutafjár eða meira. Samkvæmt gildandi lögum þarf sjávarútvegsfyrirtæki að eiga meirihluta í annarri útgerð til að hún teljist tengd, en eftirlit með því hvað teljist tengdir aðilar hefur auk þess verið í lamasessi.
Í öðru lagi gerði frumvarpið ráð fyrir að allir þeir sem ráða yfir eitt prósent heildaraflahlutdeildar þurfi að stofna hlutafélag um reksturinn og skrá félagið á markað. Það myndi þýða, að óbreyttu, að 21 sjávarútvegsfyrirtæki þyrftu að skrá sig á markað til viðbótar við Brim, sem er eina fyrirtækið sem heldur á kvóta sem er skráð í dag.
Í þriðja lagi lagði frumvarpið til að settar yrðu takmarkanir við hlutafjáreign eða atkvæðisrétt einstakra hluthafa og tengdra aðila í útgerðum sem fara með átta til tólf prósent af kvóta. Í frumvarpinu sagði að í slíkum útgerðarfyrirtækjum ætti enginn aðili, einstaklingur, lögaðili eða tengdir aðilar, að eiga „meira en tíu prósent af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í viðkomandi aðila. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir frekari samþjöppun eignaraðildar í allra stærstu útgerðarfyrirtækjunum.“
Frumvarpið, sem unnið var af þingmönnum Viðreisnar sem fengu svo stuðning úr hinum flokkunum tveimur, fékk að ganga til atvinnuveganefndar þar sem það var svæft.
Sex ár til að laga tengda aðila
Vegna þessa skapaðist nokkur þrýstingur á úrbætur og skipuð var verkefnastjórn sem fékk það hlutverk að leggja til slíkar. Vinnu hennar var flýtt eftir að Samherjamálið svokallaða, sem snýst um meintar stórfelldar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins, var opinberað.
Í febrúar 2020 kynnti Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, drög að frumvarpi um breyttar skilgreiningar á því hvað teljist tengdir aðilar sem byggði á vinnu verkefnastjórnarinnar.
Í þeim drögum kom fram að þeir sem lagabreytingin hefur áhrif á munu hafa fram á fiskveiðiárið 2025/2026 til að koma sér undir lögbundið kvótaþak, eða sex ár.
Í tillögunum, sem voru fimm talsins, fólst að skilgreining á tengdum aðilum verði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna eða fósturbarna þeirra, að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiði til þess að fyrirtækin eru talin tengd nema sýnt sé fram á hið gagnstæða, að skilgreint verði hvað felst í raunverulegum yfirráðum, að aðilar sem ráða meira en sex prósent af aflahlutdeild eða 2,5 prósent af krókaflahlutdeild skulu tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna, eða kaup í félagi sem ræður yfir hlutdeild eða kaup á hlutdeild og koma kaupin ekki til framkvæmda nema samþykki Fiskistofu liggi fyrir og að Fiskistofu verði veittar auknar heimildir til afla gagna.
Í tillögunum var hvorki tekin afstaða til reglna um hámarksaflahlutdeild né kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum.
Oddný talaði ein fyrir breytingum á kvótaþaki
Þegar lokaskýrsla verkefnastjórnarinnar var birt í sumar kom í ljós að hann gerði engar tillögur að breytingum á kvótaþaki eða kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum í nýrri skýrslu verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sem sat í nefndinni, gerði fyrirvara við niðurstöðuna og vildi að ákvæði laga um hámarksaflahlutdeild yrði breytt í samræmi við þau ákvæði sem er að finna í lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Þar er miðað við 25 prósent beinan eða óbeinan eignarhlut til að aðilar teljist tengdir eða aðili teljist raunverulegur eigandi.
Oddný talaði fyrir þessari breytingu á vettvangi nefndarinnar, en hún hlaut ekki hljómgrunn hjá hinum nefndarmönnunum. Þeir voru Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og áður bæjarstjóri Sjálfstæðisflokks í Vestmannaeyjum, Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, og Hulda Árnadóttir lögmaður.
Og nú er komið fram frumvarp Páls Magnússonar. Í því er gert ráð fyrir að hlutfallsleg eign útgerðar í öðrum sem halda á kvóta telji þegar reiknaður er út sá kvóti sem blokkin heldur á en að kvótaþakið verði áfram tólf prósent.
Útreikningar Kjarnans sýna að verði frumvarp Páls að lögum myndi það knýja eina sjávarútvegsblokk til að selja lítinn hluta af uppsöfnuðum kvóta sínum, en gefa öðrum tækifæri til að bæta mun meira við sig en t.d. ef stuðst væri við sömu viðmið og í lögum um raunverulega eigendur.
Samherji og samstarfsaðilar langstærstir
Samherjasamastæðan heldur á mestu kvóta á Íslandi. Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 prósent hans.
Samherji á svo, beint og óbeint, 49,9 prósent hlut í Síldarvinnslunni. Forsvarsmenn beggja fyrirtækja hafa ætið svarið það af sér opinberlega að þau séu tengd og vísað í að eignarhlutur Samherja í Síldarvinnslunni sé eins lítið undir því marki sem gildandi lög setja til að aðilar teljist tengdir.
Kjarninn greindi hins vegar frá því í fréttaskýringu 20. nóvember 2019 að þegar Samherji kynnti samstæðu sína erlendis á árum áður þá var Síldarvinnslan kynnt sem uppsjávarhluti hennar og myndir birtar af starfsemi fyrirtækisins. Þetta sýndu glærukynningar sem voru hluti af þeim gögnum sem Wikileaks birti vegna Samherjamálsins. Þá er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Síldarvinnslan með 5,2 prósent aflahlutdeild og Bergur-Huginn, í eigu Síldarvinnslunnar, er nú með tæplega 2,7 prósent af heildarkvóta til umráða.
Auk þess á Síldarvinnslan 75,20 prósent hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf., sem heldur á 0,62 prósent af úthlutuðum kvóta. Samanlagt er þessi blokk með að minnsta kosti 17,5 prósent aflahlutdeild.
Verði frumvarp Páls samþykkt mun hún þó ekki reiknast þannig heldur mun heildarumfang þess kvóta sem Samherji heldur á teljast tæplega 13,2 prósent. Samherji þyrfti því að losa sig við tæplega 1,2 prósent af þeim heimildum sem samstæðan heldur á á næstu tæpu sex árum.
Næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er félagið Kjálkanes ehf. Á meðal helstu hluthafa þess er Björgólfur Jóhannsson, hinn forstjóri Samherja, og fjölskylda hans. Sami hópur á einnig útgerðarfélagið Gjögur, sem heldur á 2,29 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum. Ef sá kvóti er talin með ofangreindu er ljóst að rétt undir fimmtungur (19,79 prósent) af öllum úthlutuðum aflaheimildum landsins eru á höndum fyrirtækja sem eru að einhverju leyti í eigu þeirra tveggja manna sem sitja í forstjórastólum Samherja.
Engin bein áhrif á hina risana
Hinir tveir risarnir í íslenskum sjávarútvegi: Brim og Kaupfélag Skagfirðinga, yrðu ekki fyrir neinum neikvæðum áhrifum af þessum breytingum. Þvert á móti má færa rök fyrir því að svigrúm þeirra til að safna að sér meiri kvóta aukist, sérstaklega þegar frumvarp Páls er borið saman við aðrar framkomnar hugmyndir um aðgerðir gegn samþjöppun í sjávarútvegi.
Brim, eina útgerðarfyrirtækið sem skráð er á íslenskan hlutabréfamarkað, heldur á 10,13 prósent af úthlutuðum kvóta. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 prósent af öllum aflaheimildum. Útgerðarfélag Reykjavíkur er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, fyrrverandi forstjóra og stjórnarmanns í Brimi.
Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 1,55 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi þrjú félög eru því með 15,19 prósent af úthlutuðum kvóta.
Samkvæmt reiknireglunni í frumvarpi Páls myndi Útgerðarfélag Reykjavíkur reiknast með um 8,6 prósent aflahlutdeild og gæti bætt við sig rétt um 3,4 prósent af heildarkvóta án þess að reka sig upp í þakið.
Kaupfélag Skagfirðinga á FISK Seafood, sem heldur á 5,5 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með 4,5 prósent heildaraflahlutdeild. Þá á Vinnslustöðin 48 prósent hlut í útgerðarfélaginu Huginn í Vestmannaeyjum, sem heldur á 0,76 prósent af útgefnum kvóta.
FISK á til viðbótar allt hlutafé í Soffanías Cecilsson, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja rétt yfir ellefu prósent, og er því undir 12 prósent markinu þótt þeir yrðu skilgreindir með öðrum hætti.
Verði frumvarp Páls að lögum myndi FISK skilgreinast með um 7,4 prósent aflahlutdeild og getur bætt við sig verulega til að rekast upp í þakið.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári