Eftir lok kalda stríðsins voru margir sem efuðust um hlutverk NATO, þar sem ekki væri lengur ógn af Sovétríkjunum og því tilgangslaust að halda uppi jafn umfangsmiklu varnarbandalagi. Hins vegar er ljóst að miklar og stöðugar breytingar eiga sér stað í skipan heimsmála og munu verða meiri á komandi árum. Lýðræði á nú aftur undir högg að sækja því stjórnmálaleiðtogar með einræðistilburði ná nú víða meiri hylli og þekkt einræðisríki breiða úr sér með aukinni spennu í ríkjasamskiptum. NATO stendur því frammi fyrir ýmsum áskorunum sem varða ógn við lýðræði, frið og stöðugleika.
Þessar aðstæður hafa aukið álag á samstarfið og skapað deilur um hver stefna NATO eigi að vera. Þó sanngjarnt sé að segja að NATO búi yfir gríðarlegum hernaðarlegum styrk veikir þessi pólitíski órói og ósamstaða bandalagið. Hernaðarleg geta er því lítils virði nema að pólitísk samheldni sé til staðar. Og án hennar er stefnumótun og ákvarðanataka um hvar, hvort og hvernig eigi að bregðast við þeim ógnum sem að steðja, óframkvæmanleg.
Þörf á meiri pólitískri samheldni – Aftur átök um landsvæði
Nýlega kom út skýrsla sem unnin var að undirlagi Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra þar sem reynt er að greina hlutverk NATO næstu tíu ár. Lagði hann áherslu á að skoðað væri hvernig styrkja mætti pólitíska stöðu bandalagsins meðal aðildarríkjanna og auka samheldni sem stundum hefur þótt skorta undanfarin ár. Jafnframt þyrfti að viðhalda hernaðarlegum styrk en um leið þurfi NATO að vera búið undir breytta tíma. Þar verði að koma til þekking og geta á sviði upplýsinga-, net- og tölvutækni þar sem seigla samfélaga sé grundvallaratriði.
Skýrslan er ætluð sem upplegg fyrir nýja stefnumótunaráætlun (e. Strategic Concept) en síðast var slík gefin út árið 2010. Sú áætlun mælti með grundvallarstefnu um samstarf við Rússa sem voru á þeim tíma nánast komnir með annan fótinn inn í NATO. Þar var umfjöllun um hryðjuverk vart sjáanleg og ekkert var minnst á Kína.
Þegar ógnir gerast fjölbreyttari er viðbúið að bandalagsríkin hafi mismunandi forgangsröðun þegar kemur að viðbrögðum við þeim. Meginviðfangsefni skýrslunnar er því að leggja línurnar um hvernig efla megi pólitíska samheldni innan bandalagsins þegar tekist er á við þessar nútímaógnir og áskoranir. Það verkefni er þó líklega mun erfiðara nú en var á tímum kalda stríðsins þegar ógnin var aðeins ein eða kom úr einni átt.
Lagt er til að halda áfram tvíþættri nálgun á samskipti við Rússa, með fælingu og viðræðum. Að bregðast ákveðið og samtaka við hótunum og ögrandi aðgerðum þeirra, bæði hvað varðar hefðbundnar- og blendingsógnir, með kröfu um að farið sé að alþjóðalögum. Á sama tíma þurfi að tryggja að vettvangur sé til staðar fyrir friðsamlegar og uppbyggilegar viðræður af hálfu beggja aðila.
Samkvæmt skýrslunni ætti að verja mun meira tíma og pólitískum úrræðum til að fást við þær öryggisáskoranir sem frá Kína koma. Hegðun og málflutningur kínverskra stjórnvalda sé í andstöðu við opin og lýðræðisleg samfélög og Kínverjar hafi nú þegar mikil ítök í heimsviðskiptum og fjarskiptatækni og standi fyrir starfsemi sem gæti falið í sér ógn við öryggi. Mælt er með því að koma á fót sérstakri ráðgefandi stofnun sem sérhæfi sig í öryggishagsmunum bandalagsríkjanna gagnvart Kína.
„NATO er heiladautt“ – Hvert á hlutverk NATO að vera?
Nýlega setti Emanuel Macron fram harða gagnrýni á stöðuna í NATO og sagði bandalagið heiladautt, m.a. vegna skorts á forystu Bandaríkjanna og Evrópuríki þurfa að efla sjálfstæðar varnir sínar. Að einhverju leyti þarf að skoða þessi ummæli Macrons í ljósi nýliðinna hryðjuverkaárása í Frakklandi og versnandi samskipta við Tyrkland, sem einnig er bandalagsríki, og framkoma Tyrkja í Sýrlandi hefur valdið miklum núningi á vettvangi bandalagsins.
Macron hefur sagt eftir á að ummælin séu sett fram til að vekja upp umræðu um hver sé hinn raunverulegi óvinur, það séu ekki Rússar heldur hryðjuverk og NATO ætti að fá stærra hlutverk í baráttunni gegn þeim.
Þetta beinir sjónum að margþættu hlutverki NATO sem í grunninn er bandalag þar sem getan til að beita hernaðarlegum úrræðum er í forgrunni annars vegar. Hins vegar er það hinn pólitíski þáttur sem ávallt hefur verið hryggjarstykkið, að standa vörð um frelsi og lýðræði og að tryggja stöðugleika, allt frá upphafi þegar nauðsynlegt þótti að mynda vörn gagnvart útþenslustefnu Sovétríkjanna. Eftir langt tímabil friðar þar sem bein hernaðarógn virðist víðsfjarri Evrópu, og ógnir verða margþættari en um óljósari, er erindi NATO ekki lengur skýrt og erfiðara fyrir Evrópuríki að réttlæta fjárútlát til hermála.
Stofnanir leitast við að viðhalda sér
Stofnun eins og NATO er háð því að öryggi sé ógnað. Því verður ávallt að gjalda varhug við tilfæringum sem ganga út á að viðhalda hlutverki stofnunarinnar, til þess eins að halda henni á lífi. Krafa um tiltekið hlutfall af landsframleiðslu til varnarmála verður marklaus ef ekki liggur á borðinu hvers vegna slík krafa er sett fram, hvaða stefna liggur þar að baki. Ekki nægir að forysturíkið Bandaríkin, sem er það ríki sem leggur mest allra ríkja heims til hermála, sé fyrirmynd sem allir eigi að reyna að fylgja gagnrýnislaust. Þegar jafn viðkvæm pólitísk mál eins og öryggis- og varnarmál eru annars vegar leiðir slíkt fyrirkomulag einungis til ósættis og kemur í veg fyrir að samstaða náist.
Skýrslur eins og sú sem hér er aðeins fjallað um og framkvæmdastjóri bandalagsins lét gera hafa ákveðið notagildi, en rétt að hafa í huga að það er að vissu leyti takmarkað. Skýrslan er ekki formlegt stefnumörkunarskjal og var ekki samþykkt af ráðherrum á síðasta utanríkisráðherrafundi. Hún ber engu að síður með sér að vera ákveðin málamiðlun, þ.e. höfundar virðast reyna að leggja til það sem telja má nokkuð víst að bandalagið og aðildarríki vilji gera hvort eð er, en hafi vantað afsökun eða hvata til að stíga lokaskrefið til þess að skuldbinda sig til aðgerða.
Full þörf fyrir NATO
Þrátt fyrir að NATO-ríkin standi ekki frammi fyrir beinni stríðsógn eða viðlíka ógnum sem leiddu til stofnunar bandalagsins á sínum tíma, má fullyrða að mikil þörf sé fyrir stofnun eins og NATO. Reynslan hefur sýnt að ástand heimsmála er síkvikt og því varasamt að leggja árar í bát þegar allt virðist með kyrrum kjörum. Þegar ógnir steðja að er betra að til séu úrræði og geta til að bregðast við, og ekki síður virkur samráðsvettvangur, annars aukast líkur á röngum viðbrögðum. Er mikilvægi slíkra opinna virkra samræðu- og samskiptaleiða, bæði inn og út á við, áréttað í skýrslunni.
Umræða um að efla NATO gengur því ekki sjálfkrafa út á að efla hernaðarmátt og slíkan viðbúnað. Um leið og skýrslan bendir á mikilvægi þess að NATO sé ávalt vel í stakk búið til að beita hernaðarlegum úrræðum vísar hún til víðari skilgreiningar á öryggismálum; þar er samfélagslegt öryggi ofarlega á baugi, öryggi sem snýr að loftslagsmálum og að NATO þurfi að taka tillit til „grænnar“ þróunar meðal aðildarríkjanna.
Í nútímasamfélagi verður krafan um gagnsæi í stefnumótun háværari og að ákvarðanir séu ekki teknar í reykfylltum bakherbergjum, eins og gjarnan tíðkaðist. Þó leynd þurfi vitaskuld að ríkja um einstakar aðgerðir NATO er þessu ekki svo farið með stefnumótun. Í samstarfi um jafn viðkvæm mál er mikilvægt að skapaður sé lýðræðislegur umræðugrundvöllur, að hefð sé fyrir umræðum. Eins og lýðræðinu sæmir þurfa ekki allir að vera sammála en það eykur líkur á að rétt stefna sé tekin, í samræmi við grunngildi bandalagsins.
Þarna er trúverðugleiki NATO í húfi, bæði inn og út á við. Um leið og þetta skapar traust og vekur stuðning meðal almennings felst í því styrkur út á við gagnvart mögulegum ógnum eða keppinautum. Hin flóknu öryggismál nútímans þarfnast samvinnu og náins fjölþjóðasamstarfs því ekkert ríki, hversu voldugt sem það er, leysir þau verkefni eitt og sér. Það að varnarbandalag eins og NATO reyni að finna og þróa sitt rétta hlutverk, m.a. með því að leita aftur til fortíðar með vísun í grunngildi, má því túlka sem styrk fremur en að það afhjúpi tilgangsleysi.