Stéttaaðgreining eykst á höfuðborgarsvæðinu – „Himinn og haf“ á milli ákveðinna skólahverfa
Þrátt fyrir að skólakerfið sé býsna blandað á Íslandi þá gefa niðurstöður nýrrar rannsóknar það til kynna að stéttaaðgreining á milli grunnskólahverfa á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist umtalsvert á undanförnum 20 árum – en fyrst og fremst var dreifing ríkustu og eignamestu 20 prósentanna skoðuð.
Sum skólahverfi á höfuðborgarsvæðinu sem voru nánast einungis samansett af Íslendingum árið 1997 halda áfram að vera það núna tuttugu árum síðar en í öðrum hefur blöndun Íslendinga og fólk af erlendum uppruna verið mun meiri. Enn fremur er samband á milli þess að vera með háar tekjur og að vera af íslenskum uppruna. „Því lægra sem hlutfallið er af foreldrum af íslenskum uppruna í hverfum því lægri eru tekjur í skólahverfunum.“
Þetta segir Berglind Rós Rós Magnúsdóttir, dósent við menntavísindasvið í Háskóla Íslands, í samtali við Kjarnann en hún og meðhöfundar hennar, Auður Magndís Auðardóttir, aðjúnkt og doktorsnemi við Háskóla Íslands og Kolbeinn Stefánsson, lektor við félagsráðgjafardeild í Háskóla Íslands, birtu í síðustu viku niðurstöður sínar „Dreifing efnahags- og menntunarauðs meðal foreldra í skólahverfum höfuðborgarsvæðisins 1997–2016“ í ritinu Stjórnmál & stjórnsýsla.
Í greininni eru hverfin ekki nefnd á nafn, heldur gefa höfundar þeim einungis númer. Ástæðan er, að sögn Berglindar Rósar, til að umræðan færi ekki út í eitthvað persónulegt. „Við erum bara að skoða mynstur í búsetuvali þeirra sem hafa raunverulegt val,“ segir hún.
Þrjú ríkustu hverfin haldið nánast óbreyttu hlutfalli foreldra af íslenskum uppruna
Í greininni segir að samsetning foreldrahópa með tilliti til efnahags, uppruna og menntunar hafi afgerandi áhrif á hvert skólasamfélag en í rannsókninni var stéttaaðgreining milli skólahverfa skoðuð með fræðilegum hætti í íslensku borgarsamfélagi.
„Byggt er á auðshugtökum Bourdieu við öflun og greiningu á sérvinnslugögnum um foreldra grunnskólabarna frá Hagstofu Íslands 1997 til 2016. Farin var sú leið að skoða sérstaklega dreifingu foreldra sem hafa mestan efnahags- og menntunarauð og hafa fjölskyldutengsl til Íslands, því þau eru líklegust til að hafa raunverulegt val og táknrænan auð til að móta hugmyndir um gæði skóla og hverfa,“ segir í inngangi greinarinnar.
Þá var í rannsókninni dregin fram landfræðileg aðgreining milli efnahagsauðs- og menningarauðsstéttar í íslensku borgarsamfélagi. Fram kemur að erlendur uppruni, menntunar- og efnahagsauður hafi almennt vaxið meðal foreldra grunnskólabarna á þessu 20 ára tímabili en dreifingin á skólahverfin sé skautuð.
Annars vegar hafi auðurinn í auknum mæli safnast í tiltekin fimm hverfi af 42 og hins vegar horfið brott frá þremur svæðum þar sem meirihluti foreldra býr við krefjandi félags- og efnahagslegar aðstæður og hefur engin fjölskyldutengsl á Íslandi. Hins vegar hafi þau þrjú hverfi sem eru með hæst hlutfall eigna- og hátekjufólks haldið nánast óbreyttri stöðu varðandi hlutfall foreldra af íslenskum uppruna.
Fólk hér á landi á að vissu leyti erfitt með stéttaumræðu
Berglind Rós segir í samtali við Kjarnann að ýmsir eigi að vissu leyti erfitt með stéttaumræðu hér á landi og tengi það fyrst og fremst við fjármagn.
„Í greininni erum við hins vegar að útvíkka stéttahugtakið í anda Pierre Bourdieu. Við eigum í tungumálinu hugtök eins og auðstétt og auðjöfrar og allt þetta en það er einungis bundið við efnahag. Í raun getum við talað um efnahagsauðjöfra og efnahagsauðstétt – og menningarauðjöfra og menningarauðstétt. Af því að við erum með tvo póla, annars vegar efnahagsauðstéttina sem í rauninni hefur mjög mikil umsvif og völd en hinn póllinn hefur náttúrulega svokallað táknrænt auðmagn. Það hefur rödd og kapítal í formi virðingar, þekkingar og stöðu og að tekið sé mark á því.
Það er í raun þessi hópur sem hefur mjög hátt menntunarstig og skapað sér sess þeirra sem móta orðræðuna um gæði skóla – og mótar umræðu um búsetu og alls konar þætti sem er vald í sjálfu sér,“ segir hún.
Skilgreina stétt út frá valdahugtakinu
Berglind Rós segir að í greininni séu þau að skilgreina stétt út frá valdahugtakinu. „Bæði erum við að skoða dreifingu foreldra út frá efnahag og svo framhaldsgráðum út háskóla. Við komust að því að það er til dæmis ekki nóg að skoða bara háskólagráðu vegna þess að 60 prósent foreldra á höfuðborgarsvæðinu eru með háskólagráðu. Á 20 ára tímabili hefur þetta hlutfall tvöfaldast,“ segir hún en þarna er Berglind Rós að tala um ákveðna gráðuvæðingu sem hefur verið til umræðu í mörg ár.
Til þess að átta sig á aðgreiningu þá megi ekki of margir vera með það sem talið er eftirsóknarvert til að það teljist auðmagn þannig að aðgreiningin í rannsókninni er í meistara- og doktorsgráðum.
„Við erum með rannsókninni að reyna að átta okkur á hvar 20 ríkustu prósentin af foreldrunum – ríkustu út frá tekjum og eignum – eru staðsett í skólahverfunum og hvar þau dreifast,“ segir hún.
Hvað er táknrænn menningarauður?
Berglind Rós útskýrir hvað hugtakið menntunarauður sé. „Það er í rauninni bara fólk með meistara- eða doktorsgráðu. Það sem við eigum við með táknrænum menntunarauði er að við erum að fanga gildismuninn. Við erum með ólík gildi í samfélaginu, auðstéttin líka. Það er meðal annars hægt að mæla það með því að sjá hvað fólk lærir í háskóla. Táknrænn menntunarauður er nám sem er „abstract“ – það er mögulega ekki bein tenging við efnahagsleg gæði. Heldur er þetta kenningarlegt, heimspekilegt og listrænt. Á móti fara aðrir í lögfræði, læknisfræði og þessar praktísku greinar.
Þeir sem eru með táknrænan menntunarauð hafa þyrpst saman í önnur skólahverfi á höfuðborgarsvæðinu heldur en þeir sem búa við mikinn efnahagsauð, að sögn Berglindar Rósar.
„Þannig erum við líka að sjá aðgreiningu innan þessarar stéttar út frá þessum þáttum og hægt er að finna skóla í dag þar sem fjórðungur foreldra er með slíka menntun. Þetta er líka hópur sem hefur safnað sér saman í tiltekin hverfi. Þú getur ímyndað þér aðstöðumuninn hjá börnum varðandi árangur og alla þessa mælikvarða,“ segir hún.
Berglind Rós bendir á að mikið hafi breyst frá árinu 1997 varðandi hlutfall foreldra og barna sem eru fædd á Íslandi eða eiga að minnsta kosti eitt foreldri fætt á Íslandi. Staðan í skólahverfum árið 1997 var meira og minna þannig að um 95 til 97 prósent foreldra voru fædd á Íslandi. Tæpum tuttugu árum seinna er þetta hlutfall mikið breytt.
„Það sem okkur þótti rosalega athyglisvert var að hvernig þessi hverfi sem voru hvítust árið 1997 hafi enn verið jafn hvít árið 2016.“ Hún segir að þetta séu jafnframt ríkustu hverfin á höfuðborgarsvæðinu.
Í einu hverfinu hefur orðið mesta breytingin. „Það er himinn og haf á milli þessara hverfa og þetta er það sem við köllum umpólun í sumum skólahverfum á þessu tímabili.“
Hvað mætti teljast eðlileg þróun?
„Þessir skólar sem eru þarna í miðjunni eru mjög eðlilegir, eða á milli 80 og 90 prósent. Það er svosem allt í lagi að það sé einhver breytileiki, ég er ekki að segja það. En það að halda sér svona þýðir einfaldlega að sveitarfélagið hlýtur að vera með tiltekna stefnu um það, til dæmis að taka ekki á móti innflytjendum eða flóttafólki en þetta þyrfti að kanna nánar.“
Berglind Rós bendir jafnframt á að mikið samband sé á milli þess að vera foreldri með háar tekjur og að vera af íslenskum uppruna. „Því lægra sem hlutfallið er af íslenskum foreldrum í hverfum því lægri eru tekjur í skólahverfunum.“
Kom á óvart hversu afgerandi tölurnar voru
Hvað kom mest á óvart varðandi niðurstöður rannsóknarinnar?
„Sko, þetta var eitthvað sem mig hefur klæjað í puttana síðan ég var í kennaranámi – og fór í vettvangsnám í skólum þar sem aðstöðumunurinn var þá þegar augljós. Ég kom sem gestur inn í þetta, alin upp út á landi, og sá þetta bara. Ég sérhæfði mig í stéttarannsóknum við Cambridge-háskóla til að búa mig undir þróun sem ég sá alls staðar í kringum okkur, þ.e. meiri aðgreiningu út frá stétt og uppruna. Svo þróaðist rannsóknarhugmyndin þegar Auður Magndís, félagsfræðingur og doktorsnemi kom til samstarfs, en hún hafði fengið innsýn í þessi mál í gegnum starf sitt hjá Reykjavíkurborg.
Þannig að þessar niðurstöður eru staðfesting á einhverju sem við höfðum tilfinningu fyrir. En að tölurnar og þróunin á þessum 20 árum hefði verið svona stöðug og pólarnir orðnir svona afgerandi kom á óvart. Við erum nú annars vegar með skólasamfélag þar sem helmingur foreldranna tilheyrir ríkustu 20 prósent og hins vegar þar sem helmingur foreldra er með framhaldsgráðu úr háskóla,“ svarar Berglind Rós.
Enn fremur segir hún að ekki megi gleyma því að margir skólar eru blandaðir. „Við erum fyrst og fremst að horfa á pólana,“ segir Berglind Rós og bætir því að að vissulega sé það gleðiefni að mörg skólahverfi séu blönduð hvað þessa þætti varðar.
„Eitt af því sem vert er að halda á lofti er að við erum enn með býsna blandað skólakerfi og þetta er ekki það ýkt að ekki sé hægt að vinna í þessu. Víða erlendis virðist aðgreining komin á það stig að mjög erfitt er að snúa henni við, eins og til dæmis í Bandaríkjunum þar sem endalaust er verið að kljást á við kynþáttaaðgreininguna, með slælegum árangri. Við ættum ekki á Íslandi að þurfa að lenda í því ef við grípum boltann núna. Þetta er ekki orðið það slæmt – þetta er alveg gerlegt með smá stefnubreytingu, meiri meðvitund, og samtakamætti allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún.
Stjórnvöld og sveitarfélög bera ábyrgð á stöðunni
Í samantekt greinarinnar kemur fram að tvö sveitarfélög hafi ekki tekið á móti innflytjendum að sama marki og önnur og segir Berglind Rós að þau beri jafnframt ábyrgð á stöðunni.
„Þar sem tvö efnahagshverfanna eru utan Reykjavíkur lítur út fyrir að sum sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki beitt sér fyrir félagslegri blöndun innan vébanda sinna, til dæmis með því að bjóða upp á félagslegt húsnæði í sama mæli og önnur sveitarfélög. Þetta á einnig við um þátttöku við að taka á móti innflytjendum og flóttafólki, því auðugustu hverfin voru jafnframt þau sem höfðu einna hæst hlutfall foreldra af íslenskum uppruna, sem hafði haldist svipað frá árinu 1997 þrátt fyrir viðvarandi fjölgun innflytjenda á þessu tímabili. Reykjavík virðist hafa borið hitann og þungann af því ásamt þremur öðrum sveitarfélögum svæðisins. Aðgreining skólahverfa eftir stétt og uppruna á þátt í að viðhalda og auka á jaðarsetta stöðu barna sem nú þegar búa við krefjandi aðstæður,“ segir í greininni.
Berglind Rós bendir á að ekki sé hægt að kenna fólki sem flytur hingað til lands um ástandið. „Innflytjendur sem margir hverjir hafa lítið milli handanna, fara þangað sem húsnæði er ódýrt og þeir eru eins og aðrir foreldrar að reyna að finna öflugt skólahverfi og góðan aðbúnað, en þeim er oft safnað saman í gegnum stefnur stjórnvalda og sveitarfélaga. Þannig að kerfislægt gerist þetta,“ segir hún.
„Fólk áttar sig ekki á því hverju það er að tapa“ með því að hafa blöndun í lágmarki, segir Berglind Rós að lokum.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
26. desember 2022Árið 2022: Húsnæðismarkaðurinn át kaupmáttinn
-
23. desember 2022Íslensk veðrátta dæmd í júlí
-
22. desember 2022Verðbólgan upp í 9,6 prósent – Einungis tvívegis mælst meiri frá 2009
-
21. desember 2022VR búið að samþykkja kjarasamninga – 82 prósent sögðu já
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
19. desember 2022Kjarasamningur SGS samþykktur hjá öllum 17 aðildarfélögunum
-
18. desember 2022Kaupmáttur ráðstöfunartekna ekki dregist jafn mikið saman í næstum tólf ár