Birgir Þór Harðarson

Stéttaaðgreining eykst á höfuðborgarsvæðinu – „Himinn og haf“ á milli ákveðinna skólahverfa

Þrátt fyrir að skólakerfið sé býsna blandað á Íslandi þá gefa niðurstöður nýrrar rannsóknar það til kynna að stéttaaðgreining á milli grunnskólahverfa á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist umtalsvert á undanförnum 20 árum – en fyrst og fremst var dreifing ríkustu og eignamestu 20 prósentanna skoðuð.

Sum skóla­hverfi á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sem voru nán­ast ein­ungis sam­an­sett af Íslend­ingum árið 1997 halda áfram að vera það núna tutt­ugu árum síðar en í öðrum hefur blöndun Íslend­inga og fólk af erlendum upp­runa verið mun meiri. Enn fremur er sam­band á milli þess að vera með háar tekjur og að vera af íslenskum upp­runa. „Því lægra sem hlut­fallið er af for­eldrum af íslenskum upp­runa í hverfum því lægri eru tekjur í skóla­hverf­un­um.“

Þetta segir Berg­lind Rós Rós Magn­ús­dótt­ir, dós­ent við mennta­vís­inda­svið í Háskóla Íslands, í sam­tali við Kjarn­ann en hún og með­höf­undar henn­ar, Auður Magn­dís Auð­ar­dótt­ir, aðjúnkt og dokt­or­snemi við Háskóla Íslands og Kol­beinn Stef­áns­son, lektor við félags­ráð­gjaf­ar­deild í Háskóla Íslands, birtu í síð­ustu viku nið­ur­stöður sínar „Dreif­ing efna­hags- og mennt­un­ar­auðs meðal for­eldra í skóla­hverfum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins 1997–2016“ í rit­inu Stjórn­mál & stjórn­sýsla.

Í grein­inni eru hverfin ekki nefnd á nafn, heldur gefa höf­undar þeim ein­ungis núm­er. Ástæðan er, að sögn Berg­lindar Rós­ar, til að umræðan færi ekki út í eitt­hvað per­sónu­legt. „Við erum bara að skoða mynstur í búsetu­vali þeirra sem hafa raun­veru­legt val,“ segir hún. 

Auglýsing

Þrjú rík­ustu hverfin haldið nán­ast óbreyttu hlut­falli for­eldra af íslenskum upp­runa 

Í grein­inni segir að sam­setn­ing for­eldra­hópa með til­liti til efna­hags, upp­runa og mennt­unar hafi afger­andi áhrif á hvert skóla­sam­fé­lag en í rann­sókn­inni var stétta­að­grein­ing milli skóla­hverfa skoðuð með fræði­legum hætti í íslensku borg­ar­sam­fé­lagi.

„Byggt er á auðs­hug­tökum Bour­dieu við öflun og grein­ingu á sér­vinnslu­gögnum um for­eldra grunn­skóla­barna frá Hag­stofu Íslands 1997 til 2016. Farin var sú leið að skoða sér­stak­lega dreif­ingu for­eldra sem hafa mestan efna­hags- og mennt­un­ar­auð og hafa fjöl­skyldu­tengsl til Íslands, því þau eru lík­leg­ust til að hafa raun­veru­legt val og tákn­rænan auð til að móta hug­myndir um gæði skóla og hverfa,“ segir í inn­gangi grein­ar­inn­ar. 

Þá var í rann­sókn­inni dregin fram land­fræði­leg aðgrein­ing milli efna­hagsauðs- og menn­ing­ar­auðs­stéttar í íslensku borg­ar­sam­fé­lagi. Fram kemur að erlendur upp­runi, mennt­un­ar- og efna­hag­sauður hafi almennt vaxið meðal for­eldra grunn­skóla­barna á þessu 20 ára tíma­bili en dreif­ingin á skóla­hverfin sé skaut­uð. 

Ann­ars vegar hafi auð­ur­inn í auknum mæli safn­ast í til­tekin fimm hverfi af 42 og hins vegar horfið brott frá þremur svæðum þar sem meiri­hluti for­eldra býr við krefj­andi félags- og efna­hags­legar aðstæður og hefur engin fjöl­skyldu­tengsl á Íslandi. Hins vegar hafi þau þrjú hverfi sem eru með hæst hlut­fall eigna- og hátekju­fólks haldið nán­ast óbreyttri stöðu varð­andi hlut­fall for­eldra af íslenskum upp­runa.

Berglind Rós Magnúsdóttir
Aðsend mynd

Fólk hér á landi á að vissu leyti erfitt með stéttaum­ræðu

Berg­lind Rós segir í sam­tali við Kjarn­ann að ýmsir eigi að vissu leyti erfitt með stéttaum­ræðu hér á landi og tengi það fyrst og fremst við fjár­magn. 

„Í grein­inni erum við hins vegar að útvíkka stétta­hug­takið í anda Pierre Bour­di­eu. Við eigum í tungu­mál­inu hug­tök eins og auð­stétt og auð­jöfrar og allt þetta en það er ein­ungis bundið við efna­hag. Í raun getum við talað um efna­hagsauð­jöfra og efna­hagsauð­stétt – og menn­ing­ar­auð­jöfra og menn­ing­ar­auð­stétt. Af því að við erum með tvo póla, ann­ars vegar efna­hagsauð­stétt­ina sem í raun­inni hefur mjög mikil umsvif og völd en hinn póll­inn hefur nátt­úru­lega svo­kallað tákn­rænt auð­magn. Það hefur rödd og kap­ítal í formi virð­ing­ar, þekk­ingar og stöðu og að tekið sé mark á því. 

Það er í raun þessi hópur sem hefur mjög hátt mennt­un­ar­stig og skapað sér sess þeirra sem móta orð­ræð­una um gæði skóla – og mótar umræðu um búsetu og alls konar þætti sem er vald í sjálfu sér,“ segir hún. 

Skil­greina stétt út frá valda­hug­tak­inu

Berg­lind Rós segir að í grein­inni séu þau að skil­greina stétt út frá valda­hug­tak­inu. „Bæði erum við að skoða dreif­ingu for­eldra út frá efna­hag og svo fram­halds­gráðum út háskóla. Við komust að því að það er til dæmis ekki nóg að skoða bara háskóla­gráðu vegna þess að 60 pró­sent for­eldra á höf­uð­borg­ar­svæð­inu eru með háskóla­gráðu. Á 20 ára tíma­bili hefur þetta hlut­fall tvö­faldast,“ segir hún en þarna er Berg­lind Rós að tala um ákveðna gráðu­væð­ingu sem hefur verið til umræðu í mörg ár.

Til þess að átta sig á aðgrein­ingu þá megi ekki of margir vera með það sem talið er eft­ir­sókn­ar­vert til að það telj­ist auð­magn þannig að aðgrein­ingin í rann­sókn­inni er í meist­ara- og dokt­ors­gráð­um. 

„Við erum með rann­sókn­inni að reyna að átta okkur á hvar 20 rík­ustu pró­sentin af for­eldr­unum – rík­ustu út frá tekjum og eignum – eru stað­sett í skóla­hverf­unum og hvar þau dreifast,“ segir hún. 

Breytingar á hæsta og lægsta hlutfalli barna á heimilum með mestan efnahagsauð (tekjur/eignir), og þar sem menntunarauður er mestur (almennur/ táknrænn)
Skjáskot úr skýrslunni

Hvað er tákn­rænn menn­ing­a­r­auð­ur?

Berg­lind Rós útskýrir hvað hug­takið mennt­un­a­r­auður sé. „Það er í raun­inni bara fólk með meist­ara- eða dokt­ors­gráðu. Það sem við eigum við með tákn­rænum mennt­un­arauði er að við erum að fanga gild­is­mun­inn. Við erum með ólík gildi í sam­fé­lag­inu, auð­stéttin líka. Það er meðal ann­ars hægt að mæla það með því að sjá hvað fólk lærir í háskóla. Tákn­rænn mennt­un­a­r­auður er nám sem er „abstract“ – það er mögu­lega ekki bein teng­ing við efna­hags­leg gæði. Heldur er þetta kenn­ing­ar­legt, heim­speki­legt og list­rænt. Á móti fara aðrir í lög­fræði, lækn­is­fræði og þessar praktísku grein­ar. 

Þeir sem eru með tákn­rænan mennt­un­ar­auð hafa þyrpst saman í önnur skóla­hverfi á höf­uð­borg­ar­svæð­inu heldur en þeir sem búa við mik­inn efna­hagsauð, að sögn Berg­lindar Rós­ar. 

„Þannig erum við líka að sjá aðgrein­ingu innan þess­arar stéttar út frá þessum þáttum og hægt er að finna skóla í dag þar sem fjórð­ungur for­eldra er með slíka mennt­un. Þetta er líka hópur sem hefur safnað sér saman í til­tekin hverfi. Þú getur ímyndað þér aðstöðumun­inn hjá börnum varð­andi árangur og alla þessa mæli­kvarða,“ segir hún. 



Hlutfall foreldra og barna sem eru fædd á Íslandi eða eiga að minnsta kosti eitt foreldri fætt á Íslandi 1997 og 2016 Mynd: Skjáskot úr greininni



Berg­lind Rós bendir á að mikið hafi breyst frá árinu 1997 varð­andi hlut­fall for­eldra og barna sem eru fædd á Íslandi eða eiga að minnsta kosti eitt for­eldri fætt á Íslandi. Staðan í skóla­hverfum árið 1997 var meira og minna þannig að um 95 til 97 pró­sent for­eldra voru fædd á Íslandi. Tæpum tutt­ugu árum seinna er þetta hlut­fall mikið breytt. 

„Það sem okkur þótti rosa­lega athygl­is­vert var að hvernig þessi hverfi sem voru hvítust árið 1997 hafi enn verið jafn hvít árið 2016.“ Hún segir að þetta séu jafn­framt rík­ustu hverfin á höf­uð­borg­ar­svæð­in­u. 

Í einu hverf­inu hefur orðið mesta breyt­ing­in. „Það er him­inn og haf á milli þess­ara hverfa og þetta er það sem við köllum umpólun í sumum skóla­hverfum á þessu tíma­bil­i.“

Auglýsing

Hvað mætti telj­ast eðli­leg þró­un?

„Þessir skólar sem eru þarna í miðj­unni eru mjög eðli­leg­ir, eða á milli 80 og 90 pró­sent. Það er svosem allt í lagi að það sé ein­hver breyti­leiki, ég er ekki að segja það. En það að halda sér svona þýðir ein­fald­lega að sveit­ar­fé­lagið hlýtur að vera með til­tekna stefnu um það, til dæmis að taka ekki á móti inn­flytj­endum eða flótta­fólki en þetta þyrfti að kanna nán­ar.“

Berg­lind Rós bendir jafn­framt á að mikið sam­band sé á milli þess að vera for­eldri með háar tekjur og að vera af íslenskum upp­runa. „Því lægra sem hlut­fallið er af íslenskum for­eldrum í hverfum því lægri eru tekjur í skóla­hverf­un­um.“

Kom á óvart hversu afger­andi töl­urnar voru

Hvað kom mest á óvart varð­andi nið­ur­stöður rann­sókn­ar­inn­ar?

„Sko, þetta var eitt­hvað sem mig hefur klæjað í putt­ana síðan ég var í kenn­ara­námi – og fór í vett­vangs­nám í skólum þar sem aðstöðu­mun­ur­inn var þá þegar aug­ljós. Ég kom sem gestur inn í þetta, alin upp út á landi, og sá þetta bara. Ég sér­hæfði mig í stétta­rann­sóknum við Cambridge-há­skóla til að búa mig undir þróun sem ég sá alls staðar í kringum okk­ur, þ.e. meiri aðgrein­ingu út frá stétt og upp­runa. Svo þró­að­ist rann­sókn­ar­hug­myndin þegar Auður Magn­dís, félags­fræð­ingur og dokt­or­snemi kom til sam­starfs, en hún hafði fengið inn­sýn í þessi mál í gegnum starf sitt hjá Reykja­vík­ur­borg. 

Þannig að þessar nið­ur­stöður eru stað­fest­ing á ein­hverju sem við höfðum til­finn­ingu fyr­ir. En að töl­urnar og þró­unin á þessum 20 árum hefði verið svona stöðug og pól­arnir orðnir svona afger­andi kom á óvart. Við erum nú ann­ars vegar með skóla­sam­fé­lag þar sem helm­ingur for­eldr­anna til­heyrir rík­ustu 20 pró­sent og hins vegar þar sem helm­ingur for­eldra er með fram­halds­gráðu úr háskóla,“ svarar Berg­lind Rós.  

Enn fremur segir hún að ekki megi gleyma því að margir skólar eru bland­að­ir. „Við erum fyrst og fremst að horfa á pól­ana,“ segir Berg­lind Rós og bætir því að að vissu­lega sé það gleði­efni að mörg skóla­hverfi séu blönduð hvað þessa þætti varð­ar. 

„Eitt af því sem vert er að halda á lofti er að við erum enn með býsna blandað skóla­kerfi og þetta er ekki það ýkt að ekki sé hægt að vinna í þessu. Víða erlendis virð­ist aðgrein­ing komin á það stig að mjög erfitt er að snúa henni við, eins og til dæmis í Banda­ríkj­unum þar sem enda­laust er verið að kljást á við kyn­þátta­að­grein­ing­una, með slæ­legum árangri. Við ættum ekki á Íslandi að þurfa að lenda í því ef við grípum bolt­ann núna. Þetta er ekki orðið það slæmt – þetta er alveg ger­legt með smá stefnu­breyt­ingu, meiri með­vit­und, og sam­taka­mætti allra sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­in­u,“ segir hún. 

Stjórn­völd og sveit­ar­fé­lög bera ábyrgð á stöð­unni

Í sam­an­tekt grein­ar­innar kemur fram að tvö sveit­ar­fé­lög hafi ekki tekið á móti inn­flytj­endum að sama marki og önnur og segir Berg­lind Rós að þau beri jafn­framt ábyrgð á stöð­unn­i. 

„Þar sem tvö efna­hags­hverf­anna eru utan Reykja­víkur lítur út fyrir að sum sveit­ar­fé­lög á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hafa ekki beitt sér fyrir félags­legri blöndun innan vébanda sinna, til dæmis með því að bjóða upp á félags­legt hús­næði í sama mæli og önnur sveit­ar­fé­lög. Þetta á einnig við um þátt­töku við að taka á móti inn­flytj­endum og flótta­fólki, því auð­ug­ustu hverfin voru jafn­framt þau sem höfðu einna hæst hlut­fall for­eldra af íslenskum upp­runa, sem hafði hald­ist svipað frá árinu 1997 þrátt fyrir við­var­andi fjölgun inn­flytj­enda á þessu tíma­bili. Reykja­vík virð­ist hafa borið hit­ann og þung­ann af því ásamt þremur öðrum sveit­ar­fé­lögum svæð­is­ins. Aðgrein­ing skóla­hverfa eftir stétt og upp­runa á þátt í að við­halda og auka á jað­ar­setta stöðu barna sem nú þegar búa við krefj­andi aðstæð­ur,“ segir í grein­inn­i. 

Berg­lind Rós bendir á að ekki sé hægt að kenna fólki sem flytur hingað til lands um ástand­ið. „Inn­flytj­endur sem margir hverjir hafa lítið milli hand­anna, fara þangað sem hús­næði er ódýrt og þeir eru eins og aðrir for­eldrar að reyna að finna öfl­ugt skóla­hverfi og góðan aðbún­að, en þeim er oft safnað saman í gegnum stefnur stjórn­valda og sveit­ar­fé­laga. Þannig að kerf­is­lægt ger­ist þetta,“ segir hún. 

„Fólk áttar sig ekki á því hverju það er að tapa“ með því að hafa blöndun í lág­marki, segir Berg­lind Rós að lok­um. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar