Hinn blákaldi veruleiki, svör til framtíðarkynslóða og traust til stjórnmálanna
Árið 2020 verður lengi í minnum haft sem fordæmalaust. Þess var vænst að mörg hundruð milljarða króna tap yrði á rekstri ríkissjóðs þetta árið, tugir þúsunda sáu fram á að verða án atvinnu og gríðar mörg fyrirtæki stóðu frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau kæmu til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti á vormánuðum alla þrjá leiðtoga stjórnarflokkanna og fékk sýn þeirra á stöðu mála.
Íslenska ríkið er búið setja gríðarlega fjármuni í að takast á við þá stöðu sem nú er uppi í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldurs. Deilt er um hvort nógu mikið, eða jafnvel of mikið, sé að gert til að mæta stöðu íbúa og fyrirtækja. Á meðan halda reikningarnir sem berast ríkissjóði áfram að hrannast upp.
Kjarninn hitti formenn stjórnarflokkanna þriggja í maí síðastliðnum, þau Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurð Inga Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og ræddi ástandið sem upp var komið.
„Gætum séð traust á stjórnmál vaxa“
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði á sínum tíma að hún teldi að stjórnmálin gætu „þróast í hvora áttina sem er“ þegar hún var spurð hvort hún hefði áhyggjur af þeim lengri tíma áhrifum sem COVID-19 faraldurinn gæti haft á stjórnmál á Íslandi.
„Ef okkur gengur vel í gegnum þetta þá held ég að við gætum séð traust á stjórnmál vaxa. Í skammtímaaðgerðum þá er þessi stemning að fólk sé að gera sitt besta og við stöndum saman í gegnum það. Ef erfiðleikarnir verða langvinnir þá eru meiri líkur á því að upp spretti öfl sem kalla eftir meiri lýðskrumspólitík. Þannig að ég held að það geti farið á hvort veginn sem er.“
Áhugavert að sjá hvaða lærdóm heimurinn muni draga
Þótt faraldurinn og eftirköst hans væru krefjandi þá sá Katrín ýmislegt áhugavert við stöðuna líka. Til að mynda stæðu allir þjóðir heims nánast á sama stað gagnvart afleiðingum faraldursins og taldi hún að það yrði áhugavert að sjá hvaða lærdóma heimurinn myndi draga af aðstæðunum.
„Ég held nefnilega að við munum geta dregið ákveðna lærdóma af því hvernig til dæmis heilbrigðiskerfið birtist okkur í þessum faraldri. Því er auðvitað haldið að stórum hluta uppi af mjög stórum kvennastéttum sem hafa brugðist við þegar á bjátaði af ótrúlegum sveigjanleika og styrkleika og í raun má segja að heilbrigðiskerfinu hafi verið umbylt til að takast á við þennan faraldur.
Við sáum líka að skólakerfið okkar gerði nánast það sama. Nánast yfir nóttu fóru framhaldsskólar og háskólar yfir í það að kenna í fjarkennslu. sem fram að því hafði verið mjög flókið og erfitt verkefni. Grunn- og leikskólar umbreyttu líka sínum kennsluháttum. Þannig að ég held að við getum mjög margt lært af þessum faraldri, séð hvernig okkar samfélagsstoðir reynast.
Síðan höfum við verið að reyna að bregðast við, kannski með snarpari hætti en við gerðum 2008 og 2009, í síðustu kreppu, því sem við vitum að verða alltaf afleiðingar svona ástandi. Þá er ég að tala um félagsleg vandamál og heilbrigðisvandamál sem eru ekki endilega tengd faraldrinum, heldur eru til dæmis geðheilsutengd. Við erum að reyna að bregðast við með því að koma með innspýtingu núna inn í þá málaflokka.“
Þurfum að ná til baka landsframleiðslunni
Bjarni Benediktsson, fjármála- efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við Kjarnann í maí að störfin væru nær öll að hverfa úr einkageiranum. „Það eru ekki margir opinberir starfsmenn sem að hafa áhyggjur af starfsöryggi sínu núna. Við þurfum að ná til baka landsframleiðslunni, verja störf eins og hægt er, endurheimta störf eins og til dæmis Í ferðaþjónustu og skapa ný.
Ef það mistekst, ef okkur gengur illa að gera þetta, þá hef ég verið að benda á að þá eigum við bara einfaldlega ekki fyrir opinberu þjónustunni sem við höldum úti í dag. En ég trúi því að við getum gert það, þess vegna erum við ekki að skera niður þar. Það verður þó ekki svigrúm á meðan að við erum í þessu endurreisnarstarfi til þess að fara að auka byrðar ríkisins vegna opinbera rekstursins,“ sagði hann.
Ekki endalaust hægt að setja af stað risaaðgerðir
Bjarni sagði að það hefði legið fyrir frá upphafi að stjórnvöld hefðu ekki treyst sér til að lögfesta hlutabótaleiðina svokölluðu, sem gerði fyrirtækjum kleift að lækka starfshlutfall starfsmanna niður í allt að 25 prósent og láta þá gera samning við ríkið um greiðslu allt að 75 prósent launa sinna tímabundið, í lengri tíma en tvo og hálfan mánuð. Hann taldi það hafa verið hárrétta ákvörðun og nú hefði verið boðuð framlenging á úrræðinu, en með hertum skilyrðum. Ljóst væri að þarna væri um ofboðslegar fjárhæðir að ræða en Bjarni taldi að aðgerðin hefði þrátt fyrir það heppnast vel og peningunum vel varið vegna þess að komið hefði verið í veg fyrir miklar uppsagnir sem hefðu verið yfirvofandi.
Ekki væri þó hægt að setja endalaust af stað risaaðgerðir eins og hlutabótaleiðina. Þar væri um neyðaraðgerðir að ræða til að bregðast við áfalli. Næsta skref yrði svo að setja mikla fjármuni í viðbragðið við áfallinu. „Það fer að koma tími til þess að við förum úr þessum neyðaraðgerðum og horfum til lengri tíma.“
Gera verður ráð fyrir því að þótt hagkerfið taki við sér með einhverjum hætti aftur strax á næsta ári, árið 2021, að það muni ekki duga í að brúa alfarið kostnaðargatið sem er milli þeirrar samneyslu sem við höfum vanist að ríkissjóður borgi fyrir. Því verða næstu ár tekin að láni.
Skuldum framtíðarkynslóðum svör
Bjarni var sannfærður um að Ísland myndi finna viðspyrnuna og að þeirri kynslóð sem nú stýrir landinu myndi takast að skila því í betra ásigkomulagi en hún tók við Íslandi. Það hefðu allar kynslóðir í yfir eitt hundrað ár gert og trúði hann því að þessi myndi gera slíkt hið sama þrátt fyrir yfirstandandi kreppu. „Við munum finna lausnir sem munu duga og finna nýjar leiðir til þess að verða sjálfbær. Taka högg sem eðlilegt er að þjóðfélög þurfi að gera við jafn miklar efnahagslegar hamfarir eins og eru hér að eiga sér stað og við finnum stað þar sem við finnum nýja viðspyrnu. Þetta er ekki mjög langt undan og það er erfitt að tímasetja þetta. En þetta tekur einhver ár.“
Takist þetta markmið ekki, að endurheimta landsframleiðslu sem nú er að tapast, á næstu misserum og árum, þá blasti við aðlögun. Henni væri hægt að mæta með því að auka skilvirkni í opinberum rekstri og ljóst að allt þyrfti að gera til að verja velferðina.
„Þetta velferðarstig sem að við Íslendingar höfum náð að byggja upp er framúrskarandi þótt okkur finnist oft að það megi gera betur. Fólk upplifir það í öllum könnunum að það sé öruggt í íslensku samfélagi á breiðum grundvelli séð.
Ef okkur mistekst að endurheimta landsframleiðsluna og fá tekjur til að standa undir samneyslunni þá hugsa ég þetta einfaldlega þannig að við munum skulda framtíðarkynslóðum svör. Þeim sem fá reikninginn fyrir því að við höfum viljað að fá að njóta þjónustunnar eins og hún er í dag án þess að eiga fyrir henni. Af því að þá erum við bara að taka hana alla að láni. Okkur líður vel með það á meðan að það er að gerast. En reikningurinn, hann verður sendur á krakkanna sem eru núna í barnaskóla. Maður verður þá að standa frammi fyrir þeim einhvern tímann og segja: „Við gátum ekki annað heldur en að búa okkur þau kjör sem við höfðum vanist og vorum ekki til í að gera annað en að velta þessu yfir á ykkur. Þið hljótið að vinna út úr þessu“,“ sagði hann.
Erum ekki að fara að endurskapa 2019
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði þegar hann var spurður út í það hvernig hann sæi Ísland rísa upp úr þeirri stöðu sem nú blasir við landinu efnahagslega að Íslendingar væru ekki að fara til baka og endurskapa samfélagið 2019. „Ég held að það þurfi allir að gera sér það ljóst. Við erum að fara að halda áfram í þróuninni og hún gerist býsna hratt.“
Hugur hans var hjá þeim tugum þúsunda sem voru atvinnulausir að hluta eða öllu leyti og taldi Sigurður Ingi augljóst að þar lægi næsta stóra verkefni: Að skapa þessu fólki störf hratt og örugglega.
Hinn blákaldi veruleiki
Sigurður Ingi sagði þessa stöðu einfaldlega vera orðinn hlut. „Ég held að það sé hinn blákaldi raunveruleiki sem að enginn vildi horfast í augu við upphaflega, en flestir eru að gera sér grein fyrir. Í starfsgrein sem var nokkuð mikið skuldsett og stóð frammi fyrir áskorunum allt síðastliðið ár, og jafnvel síðastliðin tvö ár, er óumflýjanlegt að það verði einhverjar breytingar. Ég held að það sé augljóst að nokkur hluti þeirra fyrirtækja mun ekki lifa þetta af. Það sem ég er að segja að í stað þess að það sé góð leið að ríkið haldi þessum fyrirtækjum gangandi án þess að þau séu í neinni starfsemi, þá held ég að það sé betra að nota fjármuni að ýta undir að þau sem geti bjargað sér eigi meiri möguleika með því að örva innlenda eftirspurn.
Ég held að þetta sé skynsamari leið, en hið óhjákvæmilega er að mörg fyrirtæki þurfa nú að taka þá ákvörðun hvað leið þau ætla að fara. Og síðan eru einhver sem geta komist í skjól og verið tilbúin til að takast á við það þegar heimurinn verður meira eðlilegur. En hann verður aldrei óbreyttur. Það er það sem að allir þurfa að átta sig á.“
Búin að vera að undirbúa okkur undir þessa áskorun fjárhagslega
Það blasir við að íslenska hagkerfið er betur undirbúið til að takast á við áfall nú en það hefur líklega verið nokkru sinni áður. Sigurður Ingi sagði að við værum í raun búin að vera að undirbúa okkur fyrir þessa áskorun fjárhagslega með ýmsum hætti. Þar vísaði hann í aðgerðir sem mörgum fundust umdeildir, eins og skuldaleiðréttingu heimilanna sem Sigurður Ingi sagði að hefði gert það að verkum að heimilin væru minna skuldsett en ella. Afnám fjármagnshafta skilaði síðan allt öðru Íslandi fjárhagslega og ábyrg ríkisfjármálastefna, allt frá 2009, hefði gert það að verkum að landið væri í allt annarri og miklu stöðu til að takast á við þennan efnahagslega vanda sem fylgir útbreiðslu COVID-19 í dag.
„Þess vegna getum við tekist á við svona tímabundinn vanda með því að skuldsetja okkur. Og það er ódýrara að fara þá leið sem við höfum verið að velja til þess að hafa þennan tíma niðursveiflurnar eins stuttan og hægt er.“
Hann viðurkenndi þó að hafa viljað vera laus við þetta verkefni. „En þegar þú stendur í storminum og ert að kljást við hana þá er auðvitað gott að vera Framsóknarmaður og geta horft í söguna. Við höfum áður sagt að það þurfi að skapa tólf eða fimmtán þúsund störf. Og gert það. Við munum ekki sætta okkur við 10 til 15 prósent atvinnuleysi.“
Hann taldi stöðuna vera tvíþætt alvarlega. Það þyrfti auðvitað að ná upp landsframleiðslu á ný til að hægt væri að standa undir velferðarkerfinu sem við viljum, en hún væri ekki síður alvarleg vegna manneskjulegu hliðarinnar. Það væri, að hans mati, í eðli Íslendinga að vera vinnusöm og vilja vera í virkni. Þess vegna skipti miklu máli að koma öllu þessu fólki sem nú er án atvinnu aftur út á vinnumarkaðinn. Þar gæti hið opinbera, bæði ríkið og sveitarfélög, leikið lykilhlutverk.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði