Aðsendar Framlínufólkið

Þau stóðu vaktina

Langar vaktir á öllum tímum sólarhringsins. Hlífðarfatnaður frá toppi til táar. Allir, allir, allir samstíga. Kjarninn tók viðtöl við framlínufólk í faraldrinum þegar fyrsta bylgjan stóð sem hæst. Fólkið sem notaði alla sína þekkingu og innsæi til að reyna að bjarga mannslífum.

Þessi hjúkrun er það erfiðasta sem þú getur lent í,“ sagði Ólöf Sveinbjörg Sigurðardóttir, hjúkrunardeildarstjóri gjörgæslunnar í Fossvogi, í samtali við Kjarnann 2. apríl. Að veikjast af nýjum sjúkdómi, lenda á gjörgæslu og jafnvel í öndunarvél er ógnvekjandi. „Já, fólk er hrætt,“ sagði Ólöf.


Þennan dag voru yfir þúsund manns í einangrun með COVID-19 hér á landi og enn hafði faraldurinn ekki náð hámarki. Daginn á undan höfðu 99 greinst með veiruna. Fjórtán sjúklingar lágu á gjörgæsludeild með sjúkdóminn, gjörgæsludeild sem hafði verið stækkuð um helming til að takast á við álagið sem skapaðist. Nokkrum dögum áður, 24. mars, varð fyrsta dauðsfallið á Landspítalanum vegna COVID-19. Þau áttu eftir að verða tíu í þessari fyrstu bylgju farsóttarinnar.


Aðstandendur gátu ekki verið við hlið ástvina sinna á dánarbeði vegna sýkingarhættunnar en Ólöf sagði þá sýna ástandinu skilning og að auðmýkt einkenndi allt og alla.


Auglýsing

Innlagnir á sjúkrahús urðu fleiri en spár gerðu ráð fyrir. Alvarleiki veikindanna var meiri. Oftsinnis hafa verið fluttar fréttir af óboðlegu álagi á Landspítala síðustu ár en það sem blasti við í mars og apríl var allt að því óraunverulegt.


„Það er verið að gera allt sem hægt er fyrir þessa sjúklinga, allt sem við vitum að hægt er að gera við þessar aðstæður,“ sagði Ólöf. „Við erum alltaf að læra, við erum að sjá hvað er hægt að gera betur. Og kynnum okkur það allra nýjasta í þeim efnum. Við ætlum að láta þetta ganga og gerum eins vel og við getum.“


Þegar í upphafi faraldursins var stofnuð sérstök bakvarðasveit heilbrigðisstarfsfólks og fjölmargir skráðu sig og voru mættir „á gólfið“ á Landspítalanum skömmu síðar.  „Ég stend á öxlum risa,“ sagði Laufey Steindórsdóttir hjúkrunarfræðingur um endurkomu sína á gjörgæsludeild Landspítalans og hið færa fagfólk sem þar starfar, í viðtali við Kjarnann 13. apríl. Laufey hafði vaknað einn morguninn og fundið að hún ætti að skrá sig í bakvarðasveitina. „Ég hlustaði á hjarta mitt sem er minn besti vegvísir og það sagði að þetta væri það sem mér væri ætlað að gera.“


Laufey hafði unnið á gjörgæsludeildinni áður en fyrir nokkrum árum, eftir gríðarlegt álag, örmagnaðist hún á sál og líkama. Hún hóf að hlúa betur að sjálfri sér og lærði að kenna jóga og hugleiðslu.


Laufey hafði staðið utan við gjörgæsluna í áratug og horft með lotningu á starfið sem þar fer fram. Þetta er fólkið sem stendur ávallt sína plikt, sagði hún, hvort sem það er mótvindur eða meðvindur í samfélaginu og efnahagslífinu. „Þau eru þarna á sínum stað, tilbúin að gera allt sem þau geta til að bjarga lífi.“


Þrátt fyrir að það hafi verið sérstaklega mikið álag á gjörgæsludeildinni í fyrstu bylgju faraldursins sagði Laufey allt ganga eins og vel smurð vél. „Þetta ástand er auðvitað engu líkt. Deildin hefur stækkað dag frá degi og nýtt starfsfólk komið inn. Samtakamátturinn og samstaðan hjá öllu starfsfólkinu er ótrúlega mikil. Það er eins og þetta fólk verði bara öflugra þegar svona ástand skellur á.“


Hjúkrunarfræðingurinn og fjögurra barna móðirin Arna Rut O. Gunnarsdóttir, sem búsett er á Akureyri, skráði sig einnig í bakvarðasveitina og flaug suður til að leggja sitt af mörkum. „Ég er búin að vinna tíu vaktir á níu dögum. Svo já, ég neita því ekki að ég er lúin. Ég þurfti aðeins að kúpla mig út og sjá börnin,“ sagði hún í viðtali við Kjarnann 11. apríl. Arna hætti að vinna sem hjúkrunarfræðingur árið 2018 og hafði ekki endilega hugsað sér að snúa aftur í það starf. Hún hafði sérhæft sig í svæfingahjúkrun og sú þekking og reynsla sem hún hafði frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, varð til þess að fljótlega eftir að hún skráði sig í bakvarðasveitina var hún beðin að koma strax til starfa enda álagið á Landspítalanum í hámarki. Um það leyti sem Arna kom inn á gjörgæsluna í Fossvogi voru yfir fjörutíu inniliggjandi með COVID-19 á sjúkrahúsi, þar af yfir tíu á gjörgæslunni. Deildinni var umturnað á fyrstu dögum hennar í starfi. Nauðsynlegt var að þrefalda mönnunina og rúmum var fjölgað úr sex í átján.


„Þetta var alveg svakalegt ástand, satt best að segja,“ sagði Arna. Álagið var það mikið að hún þurfti tvisvar sinnum að framlengja veru sína í Reykjavík og breyta flugmiðanum norður. „Maðurinn minn er líka í vaktavinnu svo að við urðum að undirbúa pössun fyrir börnin okkar á meðan ég færi suður og hann væri að vinna. Allir voru boðnir og búnir að hjálpa okkur. Það eru fleiri en við heilbrigðisstarfsfólk sem hafa svarað kallinu!“

Niðurlægjandi álagsgreiðsla


Arna sneri svo aftur á gjörgæsludeild Landspítalans og vann alla páskana. Í viðtali við Kjarnann í lok júní, þegar sérstakar álagsgreiðslur til heilbrigðisstafsmanna voru greiddar úr, var þyngra hljóð í henni. Fyrir 170 vinnustundir í miðjum faraldri hafði höfðu rúmar 16 þúsund krónur komið í hennar hlut. Það fannst henni niðurlægjandi eftir að hafa gefið sig alla í vinnuna. Ríkið hafði sett milljarð í álagsgreiðslurnar en þær voru miðaðar við fast starfshlutfall í mars og apríl en Arna, líkt og aðrir bakverðir, voru ekki í fastri vinnu. „Ég tók allan mesta álagstímann,“ sagði Arna. „Og niðurstaðan er þessi upphæð.“


Sjúkraliðinn og lögfræðineminn Ásta Marteinsdóttir skráði sig einnig í bakvarðaveitina. Hún tók ekki lokapróf í lögfræðinni í Háskólanum í Reykjavík síðasta vor heldur nýtti sér það að geta fengið árangur annarinnar metinn svo hún gæti lagt sitt af mörkum í baráttunni við kórónuveiruna. Fyrsta dag aprílmánaðar var hún mætt á vakt á smitsjúkdómadeildina í Fossvogi þar sem fjöldi COVID-sjúklinga lá. Hún viðurkenndi í viðtali við Kjarnann um miðjan apríl að fyrst þegar hún mætti inn á sjúkrastofu til sjúklinga, klædd varnarbúnaði frá hvirfli til ilja, hafi hún orðið andstutt og hugsað hvað hún væri eiginlega búin að koma sér út í. „En þessi hræðsla gufaði fljótt upp. Óttinn við að vera að setja sig í hættulegar aðstæður hvarf. Ég treysti gallanum mínum og aðlagaðist ástandinu mjög fljótt.“


Stór hluti af starfi sjúkraliða fellst í að hlúa að líðan sjúklingana, tala við þá og hughreysta. Fólk sem þarf að leggjast inn á spítala líður oft illa andlega, ekki síst þegar það er með nýjan sjúkdóm sem getur verið lífshættulegur. „Fyrst þegar sjúklingar leggjast inn á deildina þá líður mörgum þeirra ekki vel,“ sagði Ásta.


Hún vann langar og erfiðar vaktir í hlífðarfatnaðinum sem gat tekið verulega á. „En peppið frá samfélaginu er gífurlega gefandi. Manni líður pínulítið eins og íþróttamanni með stuðningsmenn á hliðarlínunni. Að finna þennan stuðning er virkilega hvetjandi.“


Kristín Bára Bryndísardóttir hjúkrunarfræðingur sagðist í samtali við Kjarnann í byrjun apríl ekki hafa hikað í „eina mínútu“ við að skrá sig í bakvarðasveitina þrátt fyrir að hafa glímt við flókin veikindi í nokkur ár. 

„Við tökum því sem svo sjálfsögðum hlut að vakna hvern dag, fá að draga andann og vera til En það er ekki sjálfsagður hlutur. Ég veit það, því ég hef unnið á krabbameinsdeild Landspítalans,“ sagði hún um þann lærdóm sem hún hefur dregið af sínum veikindum. „Og þegar það er heimsfaraldur þá hjálpar maður til. Það er bara þannig. Eitt sinn hjúkrunarfræðingur ávallt hjúkrunarfræðingur. Við erum öll í þessu saman.“


Sjúkraliðinn Hafdís E. Bjarnadóttir sagðist hafa upplifað allskonar tilfinningar í upphafi faraldursins. Hún er í skurðstofuteymi Landspítalans við Hringbraut og sinnir því veigamikla hlutverki að sótthreinsa tæki og tól, m.a. svæfingarvélarnar. „Þetta var svo nýtt og ólíkt öllu því sem við þekktum,“ sagði hún í viðtali við Kjarnann 1. maí. Hún, líkt og aðrir starfsmenn Landspítala, voru nánast í einangrun utan vinnu, hitti fáa til að lágmarka smithættu.  „Barnabörnin eru ofboðslega vonsvikin að fá ekki að knúsa okkur og við söknum öll fjölskyldumatarboðanna. En maður tekur þetta ástand alvarlega og vill að allt gangi upp því maður er einn hlekkur í þessu öllu. Ef maður er kærulaus getur það haft vondar afleiðingar fyrir svo marga,“ segir hún og bætir svo við: „En mikið hlakka ég til að geta farið að knúsa og kyssa börnin og barnabörnin aftur.“

Álagið var líka mikið á hjúkrunarheimilum líkt og Hulda Birna Frímannsdóttir, sjúkraliði með um fjögurra áratuga reynslu í starfi, lýsti í viðtali við Kjarnann 21. apríl. Hún sagði íbúa á Hrafnistu Laugarási í Reykjavík langflesta hafa sýnt því skilning að heimsóknarbann var sett á þeim til varnar. „Ég hef nú verið í töluvert meira en 100 prósent vinnu síðustu vikur,“ sagði Hulda Birna. „Og líklega síðustu mánuði. Í um viku var ég að vinna meira og minna frá átta á morgnana og til miðnættis.“ Þrátt fyrir álagið var hún ekki að kvarta.


Hún sagði það hafa komið sér á óvart hvað allt gekk vel þrátt fyrir ýmsa hnökra og miklar breytingar vegna heimsóknarbannsins. „Þetta er auðvitað mikið inngrip í líf fjölda fólks, snýr lífi þess á hvolf. Svo það er aðdáunarvert að eldra fólkið í samfélaginu taki þessu öllu svona vel.“


„Það er farið að róast talsvert hjá okkur eftir mikið álag síðustu daga og vikur,“ sagði Sigurbergur Kárason, yfirlæknir gjörgæslulækninga, á Landspítalanum við Hringbraut í samtali við Kjarnann, 16. apríl. Í upphafi fyrstu bylgjunnar var stefnt að því að COVID-sjúkum yrði alfarið sinnt í Fossvogi en fljótlega varð álagið það mikið að flytja þurfti nokkra á Hringbraut.


Dregið var tímabundið úr aðgerðum á spítalanum, fyrir utan bráðaaðgerðir, og þar með minnkaði álag á gjörgæsluna að einhverju leyti. Þá hefur sóttkví og einangrun vegna nýju kórónuveirunnar einnig áhrif á útbreiðslu annarra baktería og veira meðal fólks.


Sigurbergur sagði það sama hafa gerst í bankahruninu, um leið og hægðist á þjóðfélaginu fækkaði þeim sem þurftu gjörgæslumeðferð. „Það á sér sjálfsagt ýmsar skýringar, meðal annars þá að umferð minnkar og þá fækkar slysum, svo dæmi sé tekið.“


Það er að ákveðnu leyti flókið að sinna sjúklingum með COVID-19. Til þess þarf fleiri starfsmenn en oftast undir hefðbundnum kringumstæðum á gjörgæslunni. „Sjúkdómurinn setur það starfsfólk sem sinnir sjúklingum í hættu og þess vegna þarf það að vera í miklum hlífðarbúnaði,“ útskýrði Sigurbergur. „Þessi búnaður gerir það að verkum að öll vinna í kringum sjúklinginn verður þyngri og erfiðari og skipta þarf um áhöfn oftar.“


Þegar Kjarninn ræddi við Sigurberg sagði hann heldur „rólegra yfir vötnum“ en rúmri viku áður er álagið var mest. En áfram þarf að vera í viðbragðsstöðu, bætti hann við.


Í lok júní sagði Þóra Gunnlaugsdóttir, aðstoðardeildarstjóri gjörgæsludeildarinnar í Fossvogi, frá því í viðtali við Kjarnann að dagana á undan hefðu fyrrverandi skjólstæðingar deildarinnar komið þangað í heimsókn. Þetta er fólk sem veiktist alvarlega af COVID-19 og þurfti sumt hvert að vera í öndunarvél dögum saman. „Það hefur verið ótrúlegt að sjá þau koma gangandi inn á deildina eftir allt sem á undan er gengið.“


 „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa þessu,“ sagði Þóra um hvernig ástandið hefði verið á hennar vinnustað er faraldurinn stóð sem hæst. Vinnudagarnir voru langir, oftast vann hún sex daga í viku í 10-12 tíma í senn. Á þeim tíma sem viðtalið var tekið var töluvert síðan síðasti sjúklingurinn sem fékk COVID-19 var útskrifaður. Og Þóra á leiðinni í langþráð sumarfrí. Upp úr stóð hvað allir lögðu sig fram. Hvað allir stóðuð saman. Og hvað allir voru ákveðnir í að gera sitt besta og komast í gegnum þetta. „Það voru allir starfsmenn í ákveðnum baráttugír,“ rifjaði Þóra upp. „Við stóðum saman í þessu. Fólk mætti tilbúið í slaginn á hverjum degi – tilbúið í hvað sem var. Þannig var stemningin í hópnum. Hún var mjög sérstök.“


Þegar síðasti sjúklingurinn var útskrifaður af gjörgæsludeildinni í lok apríl var haldið upp á tímamótin með vöfflukaffi. Þóra stóð þá við vöfflujárnið og fann fyrir töluverðum létti. „En ég held að við séum flest enn á þeim stað að gera okkur grein fyrir að þetta er ekki endilega alveg búið. Það gætu lagst inn fleiri vegna COVID. Auðvitað vona allir að svo verði ekki. Vegna fólksins sem veikist. Þessi sjúkdómur er alvarlegur. Ég sá oft örvæntinguna í augunum á sjúklingunum sem vissu að þeir voru að fara í öndunarvél. Það voru svo hræðilegar fréttir búnar að berast að utan um örlög fólks sem þurfti á þannig meðferð að halda. Eitt af því sem ég minnist sérstaklega þegar ég lít til baka er hvað allir voru hræddir. Það var og er svo mikil óvissa með þennan sjúkdóm.“


Við vitum hvað gerðist svo. Önnur og svo þriðja bylgja COVID-19 skall á. Sú þriðja olli aftur gríðarlegu álagi á gjörgæsluna og aðrar deildir Landspítalans. Samtals hafa 53 sjúklingar með COVID þurft á gjörgæslumeðferð að halda frá því faraldurinn hófst í lok febrúar.


29 hafa látist vegna sjúkdómsins hér á landi, þar af nítján í þriðju bylgjunni.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent