Samsett mynd Verkalýðshreyfingin 2020

Fólk sem hefur „svitnað fyrir góðærið“, þátttaka í mótun samfélagsins – og lobbíismi á bak við tjöldin

Árið 2020 verður lengi í minnum haft sem fordæmalaust. Tugir þúsunda sáu fram á að verða án atvinnu á árinu og mörg fyrirtæki stóðu frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau kæmu til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti á haustmánuðum fulltrúa launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála og hvernig best væri að komast út úr því ástandi sem upp er komið.

Íslenskt samfélag, sem og heimurinn allur, hefur gengið í gegnum erfitt ár og standa margir höllum fæti eftir að hafa misst lífsviðurværi sitt. Ríkið er búið setja mikla fjármuni í að takast á við þá stöðu sem nú er uppi í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldurs en aðgerðir stjórnvalda eru þó ekki óumdeildar og telja vissulega margir að betur megi ef duga skuli.

Kjarninn hitti forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar í byrjun vetrar og ræddi við þá um stöðuna og hver framtíðarsýn þeirra væri varðandi íslenskt samfélag.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, benti á að fólk hefði „sannarlega svitnað fyrir hagvöxtinn, svitnað fyrir góðærið og á ekki nokkurn skapaðan hlut. Á ekki þúsund krónur inni á bankareikningum sínum þegar atvinnuleysið kemur. Þetta veldur mér gríðarlegu hugarangri og ef stjórnvöld fara ekki að taka sig á og viðurkenna þessa bláköldu staðreynd, að það getur enginn komist af á svona lágum fjárhæðum, og bregðast við þá sé ég bara fyrir mér hræðilega hluti.“

Þá spurði hún hvort samfélagið væri tilbúið til þess að sætta sig við það að byrðarnar væru lagðar á fólkið sem hefur ekkert til saka unnið. „Ég held ekki. Ég held að við viljum ekki svoleiðis samfélag,“ sagði hún.

Auglýsing

Þakkar baráttu þeirra sem á undan komu

Sólveig Anna spurði enn fremur hvort nú ekki væri kjörið tækifæri fyrir stjórnvöld að sýna pólitíska og siðferðilega getu og forystu til að leysa það vandamál sem liggur mest á að leysa; að tryggja það að fólk hefði nóg á milli handanna til þess að sjá fyrir sér og sínum. Hún sagði að framtíðin myndi ráðast af því hvernig Íslendingar myndu tækla það ástand sem nú er uppi.

„Á tímum sem þessum þakka ég mjög fyrir baráttu þeirra sem á undan okkur fóru í verkalýðshreyfingunni og verkalýðsbaráttunni. Ég horfi til baka á síðustu öld og þær stórkostlegu fórnir sem fólk færði og þá ótrúlegu baráttu sem var háð,“ sagði hún.

Þá taldi Sólveig Anna það vera mikilvægt að búa í landi þar sem að þegar höggbylgjan fer í gegnum hið kapítalíska kerfi og vinnuaflið byrjar að hristast af skrímslinu þá væri sannarlega eitthvað sem tæki á móti því. Að fólk lenti ekki margbrotið á götunni.

Sólveig Anna Jónsdóttir
Bára Huld Beck

Hún sagðist jafnframt vera þakklát fyrir það á stundum sem þessum að á Íslandi væri stór verkalýðshreyfing sem í krafti stærðar sinnar – og þess gríðarmikla fjölda sem innan hennar er – getur krafist þess að hafa aðkomu að aðgerðum stjórnvalda. Þær aðgerðir sem gagnast hafa vinnandi fólki núna í þessari COVID-kreppu væru aðgerðir sem hreyfingin hefði lagt áherslu á og með því að stíga fram sterk náð að keyra í gegn.

Fólkið í landinu þarf að hafa meira um hlutina að segja

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands, sagði í samtali við Kjarnann að fólkið í landinu þyrfti að hafa meira um það að segja hvernig samfélagið ætti að mótast áfram. „Það á að vera á forsendum þess hvernig við rekum þetta samfélag – en ekki fjármagnsins. Við þurfum að taka höndum saman í því að vinna áfram á þeim forsendum.“

Aðgerðir stjórnvalda komu í nokkrum aðgerðapökkum og sagði Kristján Þórður að honum hefði litist vel á margt sem ríkisstjórnin hefði gert til að stemma stigu við ástandinu. „Sérstaklega í tengslum við kjarasamninga sem voru gerðir fyrir ári síðan. Það er margt í þessu sem skiptir okkar fólk miklu máli – en auðvitað er það líka alltaf þannig að maður er ekki sáttur við allt sem er gert. En svona heilt yfir þá eru þarna atriði sem skipta verulegu máli.“

Hann tók nokkur dæmi um það sem hann taldi hafa verið vel gert en meðal þess var breyting á tekjuskattskerfinu. „Það var mjög mikilvægt skref fyrir okkar fólk, sem og lenging á fæðingarorlofi.“ Hann nefndi sérstaklega verkefnið „Allir vinna“ en hann sagði að það hefði reynst félagsmönnum hans gríðarlega vel. Verkefnið gekk út á það að hækka endurgreiðsluhlutfallið á virðisaukaskatti á vinnu við viðhaldsverkefni íbúðarhúsnæðis og í bifreiðageiranum en það var framlengt út næsta ár.

Auglýsing

„Þetta verkefni skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkar félagsmenn. Þetta hefur ýtt undir fleiri verkefni í okkar greinum. Við höfum séð að fólk hefur verið mjög duglegt í nýta sér þetta og sinnt til dæmis viðhaldi á bílum. Fólk hefur einnig verið mjög duglegt að fara í framkvæmdir heima fyrir og fara í viðhaldsframkvæmdir á eigin húsnæði. Þetta klárlega ýtir undir það að verkefnastaðan sé nokkuð góð í dag,“ sagði hann.

Mikilvægt að fólk geti tekið þátt í samfélaginu – þrátt fyrir tekjumissi

Kristján Þórður áréttaði að nauðsynlegt væri að taka á þáttum sem snúa að fólkinu sjálfu. Þar tók hann sem dæmi atvinnuleysistryggingasjóð og atvinnuleysisbætur.

„Við höfum kallað eftir því að þarna verði gripið inn í: Að bætur verði hækkaðar, sem og tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Við teljum að það sé rétta leiðin til að takast á við svona ástand, eins og það sem við erum að upplifa núna, til þess að koma í veg fyrir enn meiri samdrátt í hagkerfinu. Þá skiptir það sköpum að þrátt fyrir atvinnumissi þá geti fólk samt sem áður tekið þátt í samfélaginu með nokkurn veginn eðlilegum hætti.

Því við vitum alveg að þegar þú missir atvinnuna þá í fyrsta lagi lækkar þú alltaf í tekjum niður í 70 prósent af því sem þú hafðir. Í öðru lagi er þakið á tekjutengdu atvinnuleysisbótunum það lágt að fólk, eins og innan okkar raða, er að meðaltali að falla um 40 til 50 prósent í tekjum. Það er auðvitað augljóst að ef þú verður fyrir slíku tekjutapi þá muntu þurfa að draga saman í öllu sem þú gerir.“

Kristján Þórður
Bára Huld Beck


Hefur áhyggjur af unga fólkinu

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, sagði að sú hætta væri raunverulega fyrir hendi að ungt fólk fyndi ekkert að gera eftir nám. „Við getum þá siglt inn í aðstæður sem eru svipaðar og í sunnanverðri Evrópu þar sem atvinnuleysi ungs fólks er gríðarlegt. Þetta má ekki gerast hér. Við getum ekki boðið nýjum kynslóðum upp á það að þau komi út úr sinni skólagöngu og að ekkert sé í boði.“

Sagðist hún hafa miklar áhyggjur af unga fólkinu sem er í háskóla og þeim sem koma út á vinnumarkað við aðstæðurnar sem eru uppi í dag.

Lausnin liggur í því, að hennar mati, að horfa til lengri tíma og ákveða hvernig atvinnuuppbygging eigi að vera hér á landi. „Við höfum langa reynslu af náttúruauðlindanýtingu og hún er að sjálfsögðu ástæða þess að við getum búið í þessu landi. Við eigum orkulindir og fisk í sjónum og svo er uppgangur ferðaþjónustunnar ein útgáfa af auðlindanýtingu. Næstum allir ferðamenn sem koma til Íslands segjast gera það vegna þess að þeir vilja sjá náttúruna og þetta stórkostlega land.

En náttúruauðlindanýtingin getur hrunið í einu vetfangi eins og dæmin sanna. Þess vegna er nauðsynlegt að byggja atvinnulífið líka á stoðum sem ekki er hægt að kippa undan okkur sí svona. Það er ekkert nýtt í því og engin geimvísindi. Það snýst um rannsóknir, hugvit, þekkingu, nýsköpun, nýjar útflutningsgreinar og svo framvegis,“ sagði hún.

Þórunn Sveinbjarnardóttir
BHM

Þórunn vonaðist til þess að Íslendingar yrðu færir um það að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem gæfi af sér sjálfbæran hagvöxt og velferð, og góð störf fyrir. „Við þurfum að horfa til langs tíma. Það krefst uppstokkunar og nýrrar hugsunar en ég er vongóð um að við getum gert þetta,“ sagði hún.

Mikill lobbíismi á bak við tjöldin

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði að nú væri nýtt fólk í brúnni með hugmyndir sem honum fyndist í sjálfu sér vera ógn við þá samfélagsmynd sem hann sá fyrir sér og vildi sjá. „Þar kemur einhvern tónn og einhver stemning eða hugarfar sem mér finnst ég ekki hafa séð áður og það hræðir mig mjög.“ Með þessum orðum átti hann við það sem hann kallaði nýja kynslóð stjórnenda fyrirtækja og forystufólks í Samtökum atvinnulífsins.

Þetta lýsti sér í ákveðinni hörku gagnvart samningsrétti fólks, að mati Ragnars Þórs, og í því að fara yfir ákveðnar línur og leikreglur sem verkalýðshreyfingin og atvinnulífið hefði sett sér síðustu ár og áratugi með því að ráðast gegn kjörum fólks en ekki gegn kröfuhöfum. Þarna tók hann Icelandair sem dæmi og ákvörðun þeirra að fara harkalega gegn kjörum félagsmanna VR og segja upp öllum flugfreyjum á einu bretti í miðri kjarabaráttu og hóta að semja við annað stéttarfélag.

Varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins þá sagði hann að þær væru mikið litaðar af sérhagsmunum. Sem dæmi nefndi hann að þrýstingurinn hefði verið gríðarlega mikill í byrjun sumars að opna landið og sömuleiðis þegar því var aftur lokað. Þannig væri lobbíismi fyrir ákveðnum aðgerðum mjög mikill á bak við tjöldin en einnig í sjálfri orðræðunni.

Auglýsing

Ragnar Þór sagði enn fremur að þeir flokkar sem nú eru við völd – og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn – stæðu fyrir sérhagsmunagæslu. Pólitíkin virkaði þannig. 


„Hún er mjög lituð af sérhagsmunagæslu, sama hvar hún drepur niður. Við í verkalýðshreyfingunni erum ekkert undanskilin þessu í sjálfu sér. Við erum að lobbía allan daginn fyrir aðgerðum og aðgerðapökkum og málum sem snerta hagsmuni okkar félagsmanna. Þannig að við erum hinum megin við borðið. Til dæmis erum við núna að þrýsta á um hærri atvinnuleysisbætur – við erum að taka slaginn við fólk sem hefur ofboðslega ógnvænlega sýn á það hvernig samfélagið ætti að vera byggt upp.“


Taldi hann að verkalýðshreyfingin væri þannig að takast á við nýja kynslóð af stjórnendum og nýja kynslóð af forystufólki í Samtökum atvinnulífsins og öllum þeim félögum sem þar eru innan borðs. 

Ragnar Þór Ingólfsson
Bára Huld Beck

„Samtök atvinnulífsins fara í raun gegn því að hækka atvinnuleysisbætur í þessu ástandi vegna þess að þau telja hækkunina letja fólk til vinnu þegar enga eða litla vinnu er að fá – sem er gríðarlega alvarlegt fyrir íslenskt samfélag. Það er svo sjúkt hugarfar að vilja þrengja sultarólina til þess að halda fólki í einhvers konar kúgunarsambandi við atvinnulífið og við samfélagið,“ sagði hann og bætti því við að þetta væri litlu skárra í pólitíkinni.

Hætta á í svona ástandi að ákveðin öfl vilji breyta samfélaginu í grundvallaratriðum

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði að hættan í svona kreppu væri alltaf sú að ákveðin öfl færu af stað í þeim tilgangi að breyta samfélaginu í grundvallaratriðum. „Þegar kreppa steðjar að þá á allt í einu að fara að snarlækka skatta, einkavæða, selja ríkiseignir og svo framvegis – allir þessir draumar ákveðinna hópa finna sér allt í einu farveg og fara að rætast. Það er aðalhættan við svona aðstæður.“

Í staðinn ætti samfélagið að styrkja stoðir sínar og grunnkerfi. „Við verðum að vernda okkar mjólkurkýr, hvort sem þær eru flugvöllurinn eða bankakerfið.“

Varðandi það hvernig Drífa sér fyrir sér íslenskt samfélag í framtíðinni þá benti hún á að hér á landi hefði verið byrjað að horfa til styttingar vinnuvikunnar áður en faraldurinn skall á. „Það er risastórt mál. Það er risastórt lýðheilsumál og risastórt umhverfismál. Með aukinni tækni ættum við einmitt að hafa svigrúm til að stytta vinnuvikuna. Þannig að það er framtíðarsýnin og eitthvað sem við ættum að fara að stefna aftur að. Það er fátt sem bætir lífsgæði jafn mikið og að stytta vinnuvikuna – að hægja aðeins á taktinum. Við erum léleg í því Íslendingar að hægja á taktinum,“ sagði hún. „En við höfum mjög gott af því að hugsa meðfram þessum brautum.“

Drífa Snædal
Bára Huld Beck

Fáum duldist að erfiður vetur væri framundan. Drífa sagði að Íslendingar myndu komast í gegnum hann með því að gera meira en minna, en þar vitnaði hún í orð fjármálaráðherra. „Við náttúrulega erum í algjöru óvissuástandi og við verðum að vera með alls konar verkfæri til þess að komast í gegnum veturinn.“

Þess vegna væri mikilvægt að styðja fólk til náms, aðstoða atvinnuleitendur, reyna að koma í veg fyrir frekari uppsagnir og halda hlutabótaleiðinni áfram.

Einnig þurfti að vanda sig vegna þess að á ýmsum póstum magnaðist upp hræðsla og reiði í samfélaginu, að hennar mati. „Þá hafa ýmis öfl hag af því að kynda undir þessa hræðslu. Þannig að einhvern veginn verður að taka tillit til þess að fólk sé í viðkvæmri og örvæntingarfullri stöðu. Það þarf að mæta fólki þar sem það er og ekki búa til samfélag þar sem fólkið upplifir sig ekki sem hluti af því en það er stórhættulegt ástand – sennilegast hættulegasta ástandið sem við gætum farið inn í núna.“

Drífa rifjaði upp í þessu samhengi brunann á Bræðraborgarstíg í sumar, þar sem þrír létust. Hún sagði að ákveðinn vísir að þessu hættulega ástandi hefði birst eftir brunann. „Pólverjar á Íslandi hugsuðu: „Já, svona er farið með okkur? Af hverju eigum við að spila eftir reglum samfélagsins þegar það fer svona með okkur?“.“

Hún taldi að mikið væri til í þessum vangaveltum. „Að einhverju leyti höfum við Íslendingar litið á útlendinga sem einnota vinnuafl. Þá finnst mér svakalegt að heyra raddir þeirra sem eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum eða eitthvað slíkt vegna þess að við sem samfélag berum ábyrgð á því fólki sem hér leggur hönd á plóg. Við hefðum ekki getað rekið samfélagið ein síðustu árin,“ sagði hún.

Auglýsing

Gefur lítið fyrir þá hugmyndafræði að hver sé sinnar gæfu smiður

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sagðist hafna því alfarið að við ættum að lifa eftir þeirri hugmyndafræði að hver væri sinnar gæfu smiður. „Það virkar ekki svoleiðis, það þarf að búa betur um fólk en svo og hjálpa til dæmis útlendingum að aðlagast samfélaginu þannig að þeir fái sömu tækifæri og möguleika.“

Henni fannst vanta markvissa stefnu hér á landi um það hvernig Íslendingar ætluðu að jafna möguleika og tækifæri fólks með raunverulegum hætti.

Ástandið í samfélaginu er flókið og erfitt fyrir marga og sagði hún að núna þyrftum við öll að læra að lifa með veirunni. „Ég hef trú á því að flest okkar muni standa saman í þessu verkefni og vinna það þannig að við getum átt tímabil eins og sumarið var þar sem við hlýddum fyrirmælum og gátum þá verið frjálsari en við erum núna. Þó er gott að minna sig á að við hér á Íslandi erum nokkuð frjáls miðað við aðrar þjóðir. Börnin okkar mega fara út að leika og í skólann.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir
BSRB

Hún benti enn fremur á að allt þetta ástand hefði minnt okkur á að heilbrigði væri það allra mikilvægasta. „Við þurfum líka að gæta að umhverfinu okkar og lifa í sátt og samlyndi við það. Ég vonast til þess að þetta ástand breyti gildismatinu okkar og að það skili sér líka í breyttum áherslum og hvernig við ætlum að búa okkur í haginn til framtíðar.“

Ísland hefur ekki ávallt verið ríkt land og benti Sonja Ýr á að þjóðin hefði farið á methraða í gegnum þroskaferli annarra ríkja. „Ég held að við getum bara byggt á þessum góða grunni og lært af mistökunum og ekki endurtekið þau. Svo ég er mjög bjartsýn á að við náum vel í gegnum þetta ástand. Allir sérfræðingar spá því nú að viðspyrnan verði fljót þegar við náum tökum á veirunni – og þá getum við aftur farið upp á við hratt og vel.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar