Aðsend mynd

Margir fara af landi brott áður en þeir fá nokkurn tímann réttlæti

Sprenging hefur orðið í fjölgun fólks af erlendum uppruna hér á landi undanfarin ár og nú í COVID-kreppu standa margir þeirra höllum fæti eftir að hafa misst vinnuna. Kjarninn spjallaði við rúmenska konu sem búið hefur á Íslandi frá árinu 2006 um lífið hér á landi og hvernig það er að aðlagast íslensku samfélagi.

Ég fékk aldrei neina aðstoð þegar ég kom hingað fyrst. Mér fannst það mjög erfitt en fólk af erlendum upp­runa er oft ekki með­vitað um rétt­indi sín hér á landi, til dæm­ist varð­andi kjara­mál. Margir vita ekki að þeir geti borgað í stétt­ar­fé­lag og að það sé gott fyrir þá að gera það, því þá geti þeir leitað sér aðstoðar ef á þarf að halda.“

Þetta segir Mira­bela Blaga í sam­tali við Kjarn­ann en hún hefur búið á Íslandi í 14 ár. Mira­bela er lög­fræð­ingur og mun útskrif­ast með fulln­að­ar­skír­teini næsta vor. Hún vinnur nú við að skrifa meist­ara­rit­gerð um man­sal erlendra verka­manna.

„Eins og allir vita hafa til­teknar starfs­manna­leigur mis­notað fólk hér á landi sem enn starfa undir öðrum nöfnum og á öðrum kenni­töl­um. Það þyrfti að gera þeim það erf­ið­ara fyrir að flakka svona á milli kennitalna og halda áfram að mis­nota fólk og kerf­ið. Það þarf að koma í veg fyrir að slíkir ein­stak­ling­ar, sem mis­nota kerf­ið, geti haft rekst­ur,“ segir hún.

Auglýsing

Fólki lofað öllu fögru

Þá séu þessar starfs­manna­leigur lík­leg­ast með tengiliði sem þekkja vel til erlendis og bein­línis sækja fólkið út til að vinna hér á landi. Mira­bela segir að þetta verka­fólk sé iðu­lega með litla menntun og fái lág laun fyrir störf sín. Því sé lofað öllu fögru við kom­una hingað til lands en raun­veru­leik­inn sé síðan allt ann­ar.

Mira­bela minnir á að þetta eigi ekki við um allar starfs­manna­leig­ur, sumar séu í lagi.

„Ég þekki ein­stak­linga sem komu hingað í gegnum starfs­manna­leigur sem virða samn­inga og borga laun­in. Allt sam­kvæmt samn­ingi. Svona er þetta bara mis­mun­andi og það eru alltaf ein­hverjir svartir sauðir alls stað­ar,“ segir hún.

Fólk af erlendum upp­runa í verstu stöð­unni í krepp­unni

Sam­hliða námi hefur Mira­bela unnið sem skjala­þýð­andi og túlkur síðan árið 2013. Hún stofn­aði nýlega fyr­ir­tæki sem sér um túlkun og lög­fræði­lega aðstoð. Hún vann síð­ustu tvö ár sem landamæra­vörður í Kefla­vík en starfar nú sem sér­fræð­ingur í nýrri deild útlend­inga­mála hjá Vinnu­mála­stofn­un.

„Stór hluti atvinnu­lausra er fólk af erlendum upp­runa en flestir unnu í ferða­manna­bransa og á veit­inga­stöð­um. Þeir eru í verstu stöð­unni eins og er,“ segir hún.

Þannig hafi COVID-19 far­ald­ur­inn haft gríð­ar­lega slæm áhrif á fjölda vinn­andi fólks enda atvinnu­leysi í hæstu hæð­um. En þrátt fyrir erfitt ástand sér Mira­bela ljós í myrkr­inu. Hún telur að ýmis­legt gott hafi átt sér stað á árinu og bendir hún meðal ann­ars á að margar stofn­anir séu „að vakna til lífs­ins“ er varðar útlend­inga­mál á Íslandi. Til dæmis hjá Vinnu­mála­stofnun sé verið að þróa ýmsar leiðir til þess að hjálpa fólki af erlendum upp­runa. Þá hafi raf­ræn sam­skipti auk­ist og batnað til muna.

Mirabela var fyrsti Rúmeninn sem útskrifaðist með BA í lögfræði á Íslandi. Hún mun útskrifast næsta vor með fullnaðarpróf í lögfræði.
Aðsend mynd

„Fest­ist“ á Íslandi

Mira­bela er fædd og alin upp í Rúm­eníu og kom fyrst til Íslands árið 2006. „Fyrst þegar ég kom til Íslands dvaldi ég í þrjá mán­uði. Ég kynnt­ist íslenskum eig­in­manni mínum og „fest­ist“ síð­an,“ segir hún og hlær. „Eins og ger­ist stund­um.“

Hún bjó í Aust­ur­ríki í nokkur ár áður en hún kom hingað til lands og hefur því búið utan heima­lands­ins í mjög langan tíma. Þegar hún er spurð út í upp­lifun sína af því að flytja til Íslands þá segir hún að það hafi verið gott að búa og dvelja hér árið 2006.

„Launin voru ekki mikið lægri en þau eru í dag. Ég starf­aði á veit­inga­stað í Kringl­unni og launin voru fín. Það var mjög gott að vera á Íslandi árið 2006 þegar ég kom. Eftir þá vinnu fór ég að vinna á snyrti­stofu sem nagla­snyrti­fræð­ingur og síðan tveimur árum síðar fór ég í fæð­ing­ar­or­lof, eða akkúrat í krepp­unn­i,“ segir hún.

Mikil breyt­ing á íslensku sam­fé­lagi á þessum tíma

Mira­bela segir að mikil breyt­ing hafi orðið á íslensku sam­fé­lagi á þessum tíma frá því að hún flutti fyrst til lands­ins. „Maður sá ekki mikið af útlend­ing­um. Ég til dæmis kynnt­ist ekki neinum frá Rúm­eníu fyrr en miklu miklu seinna. Maður sá ekki svo marga erlenda verka­menn eða fólk af erlendum upp­runa eins og maður sér í dag.“

Hún segir að þegar hún byrj­aði að vinna sem túlkur árið 2013 þá hafi hún nán­ast ekk­ert haft að gera. „Það var kannski eitt verk­efni á mán­uði, í mesta lagi. Núna gæti ég, ef ég myndi gefa mér tíma, verið að vinna allan dag­inn í þessu; að túlka á rúm­ensku. Þá er ég ekki einu sinni að tala um Pól­verj­ana eða fleiri þjóð­ern­i.“

Þessi aukn­ing hófst þegar ekki þurfti lengur dval­ar- og atvinnu­leyfi til að vinna hér á landi. „Þegar EES-­samn­ing­ur­inn tók gildi og fleiri lönd fengu aðild að honum þá byrjar sprengjan – eða ég tók alla­vega meira eftir þessu þá. Hvað rúm­enska fólkið varðar þá hefur komin sprengja und­an­farin fjögur til fimm ár. Allt í einu kom fjöldi fólks, sem til dæmis bjó í hinum Norð­ur­lönd­unum og Bret­landi. Svo komu margir frá Spáni, þar sem kreppan var slæm, til að vinna hér.“

Auglýsing

Pólska sam­fé­lagið mjög öfl­ugt hér á landi

Mikið af þessu erlenda fólki vann í veit­inga­brans­an­um, sem og í ferða­manna­iðn­að­in­um. Mira­bela nefnir sér­stak­lega bygg­ing­ar­geir­ann og segir hún að heilu hóp­arnir af Rúm­enum hafi komið í gegnum starfs­manna­leigur til að vinna við hann. „Einnig komu stórir hópar frá Búlgar­íu, Úkra­ínu og Pól­landi en mér finnst reyndar Pól­verjarnir öðru­vísi, þeir eru með svo allt á hrein­u.“

Hún bendir á að pólska sam­fé­lagið sé mjög öfl­ugt hér á landi og að upp­lýs­inga­flæðið þeirra á milli sé meira en hjá fólki af öðrum þjóð­ern­um. „Þeir eru komnir með sendi­ráð og ýmis konar sam­tök. Það eru eig­in­lega allar stofn­anir komnar með helstu upp­lýs­ing­arnar á pólsku. Enda eru þeir miklu fjöl­menn­ari en aðrir hóp­ar.“

Hvernig upp­lifir þú að rétt­indi fólks af erlendum upp­runa séu virt hér á landi?

„Ein af ástæð­unum fyrir því að ég fór í laga­námið var til þess að geta aðstoðað aðra, en ég fékk aldrei neina aðstoð þegar ég kom hingað fyrst. Mér fannst það mjög erfitt en fólk af erlendum upp­runa er oft ekki með­vitað um rétt­indi sín hér á landi, til dæm­ist varð­andi kjara­mál. Margir vita ekki að þeir geti borgað í stétt­ar­fé­lag og að það sé gott fyrir þá að gera það, því þá geti þeir leitað sér aðstoðar ef á þarf að halda. Margir vinnu­veit­endur láta fólk ekki einu sinni vita að það geti farið í stétt­ar­fé­lag,“ segir hún og bætir því við að margir verði einnig fyrir launa­mis­munun og að brotið sé á þeim. „Þá veit þetta fólk ekki hvaða leiðir eru í boði fyrir það til þess að sækja rétt­indi sín og kæra.“

Helst er það í kjara­mál­um, að hennar sögn, sem brotið er á fólki. „Fólk veit ekki hvaða leiðir það hefur og er smeykt við að krefj­ast sinna rétt­inda vegna þess að margir skrifa aldrei undir ráðn­ing­ar­samn­ing,“ segir hún.

1. desember 2019: Fyrsta fjölskylduhátíð Rúmena á Íslandi sem Mirabela tók þátt í.
Aðsend mynd

Mira­bela segir að margir af erlendum upp­runa sem hún hefur hitt í gegnum störf sín segi að vinnu­veit­endur komi ekki endi­lega illa fram við sig en nefni frekar sam­starfs­fé­laga. „Að það sé gert lítið úr þeim vegna þess að þeir tali ekki tungu­mál­ið. Fjöldi fólks af erlendum upp­runa er lagður í ein­elti, hef ég heyrt. Fólki er hótað eða það mis­not­að. Bara nefndu það. Þannig er það ekki alltaf vinnu­veit­andi sem fer illa með fólk. Og fólk þorir ekki að kvarta, það er svo hrætt við að missa vinn­una. Það er bara mjög sorg­leg­t.“

Var sjálf fljót að aðlag­ast íslensku sam­fé­lagi

Eins og fjallað var um hér að ofan er pólska sam­fé­lagið mjög þétt á Íslandi, en hvernig standa Rúm­enar í því sam­hengi?

Mira­bela segir að fólk frá Rúm­eníu eigi almennt mjög auð­velt með að aðlag­ast öðrum sam­fé­lög­um, menn­ingu og aðstæð­um. „Ég var til dæmis mjög fljót að aðlag­ast og hef alltaf verið mjög for­vitin að eðl­is­fari; að læra, skilja og vita. Það eru ekki mörg dæmi þess að rúm­enskt fólk hafi ekki aðlag­ast hér á landi, alla­vega ekki sem ég veit um. Fólk kvartar aðal­lega yfir veðr­in­u,“ segir hún og hlær en bætir því við að auð­vitað telji ýmsir sig verða fyrir ein­hverri mis­mun­un. Fólk leggi þó ólíkan skiln­ing í hug­takið „að vera mis­mun­að“.

„Mér finnst Íslend­ingar alla­vega almennt hafa tekið vel á móti þessum hóp en ég hef auð­vitað heyrt um til­vik þar sem svo var ekki. Það er þá helst ef fólk kemur í gegnum gervi­-­starfs­manna­leigur og eitt­hvað slíkt. En hvar sem maður leitar hér á Íslandi þá eru stofn­anir alltaf til­búnar að veita aðstoð.“

Hún bendir á að þetta sé einnig ein­stak­lings­bund­ið. „Þetta fer líka eftir því hvernig maður er sjálf­ur. Hvort þér finn­ist alltaf allt ömur­legt eða hvort þú viljir leysa mál­ið. Mér finnst margir sem koma hingað með enga tungu­mála­kunn­áttu vera mjög fljótir að læra, alla­vega ensku,“ segir hún.

Auglýsing

Margir kunna lítið á tölvur

Helst finnst Mira­belu mik­il­vægt að upp­lýs­inga­flæði til fólks af erlendum upp­runa sé gott og er hún til dæmis dug­leg að deila með sam­löndum sínum fróð­leik sem kemur sér vel við það að búa á Íslandi. „Margir af erlendum upp­runa sem koma hingað að vinna kunna lítið á tölvu og hafa ekki einu sinni tölvu­póst. Hafa ekki fer­il­skrá á net­inu. Eiga ekki snjall­síma eða skilja raf­ræn skil­rík­i.“ Mik­il­vægt sé að þessi hópur fái hjálp við tækni­mál­in.

Hvernig er hægt að bæta upp­lýs­inga­flæðið til fólks af erlendum upp­runa, hvernig er hægt að ná til þessa hóps?

Mira­bela segir að ein leiðin sé að stofn­anir taki sig saman og að upp­lýs­inga­flæðið milli þeirra sé sýni­legt á fleiri tungu­mál­um. „Svo er líka nauð­syn­legt að vera á sam­fé­lags­miðlum því allt í dag ger­ist til dæmis á Face­book. Fólk er mjög sjaldan að fylgj­ast með því sem ger­ist eða nýj­ustu fréttum á vef­síðum stofn­ana eða sam­taka. Auð­veldasta leiðin væri að búa til ein­föld mynd­bönd með leið­bein­ing­um. Reyndar eru margar stofn­anir farnar að fara þá leið.“

Margt jákvætt í kort­unum

Það besta sem komið hefur fyrir varð­andi útlend­inga­mál á Íslandi und­an­farin miss­eri, að mati Mira­belu, er ráð­gjaf­ar­stofa inn­flytj­enda en Alþingi hefur sam­þykkt þings­á­lykt­un­ar­til­lögu þess efnis að stofnuð verði slík stofa. Mira­bela segir að til standi að hún taki til starfa næsta vor.

Í þings­á­lykt­un­inni segir að hlut­verk ráð­gjaf­ar­stofu verði að bjóða upp á aðgengi­lega ráð­gjöf, leið­bein­ingar og upp­lýs­ingar fyrir inn­flytj­endur um nauð­syn­lega þjón­ustu, rétt­indi þeirra og skyld­ur. Áætl­unin verði unnin í sam­vinnu við inn­flytj­enda­ráð, opin­berar stofn­an­ir, sveit­ar­fé­lög­in, félaga­sam­tök og aðila vinnu­mark­að­ar­ins.

„Mér finnst íslenska rík­ið, sveit­ar­fé­lög og stofn­anir standa sig mjög vel þarna. Það eru fullt af verk­efnum í gangi og allir að gera sitt besta. Við erum að læra og allir eru að læra. Oft þurfa leið­in­legir hlutir að ger­ast til að eitt­hvað lag­ist, því mið­ur,“ segir Mira­bela.

Nefnir hún sem dæmi brun­ann á Bræðra­borg­ar­stíg en hún von­ast til þess að tekið verði á hús­næð­is­málum í fram­hald­inu.

Við erum öll með ýmis rétt­indi – en líka skyldur

Mira­bela segir að hún hafi tekið eftir því þegar hún byrj­aði að aðlag­ast íslensku sam­fé­lagi og læra tungu­málið að tekið væri vel á móti fólki á Íslandi. „Þú sem per­sóna getur ekki alltaf beðið eftir öðrum að koma til þín og veita þér upp­lýs­ingar eða stuðn­ing. Þú þarft líka að leita sjálf­ur.

Við erum með ýmis rétt­indi en við erum líka með skyldur – og verður fólk að átta sig á því einnig. Það er kannski auð­velt að kvarta en fólki ber líka skylda til dæmis að læra tungu­málið í því landi sem það býr. Það er líka skylda fólks að reyna að aðlag­ast sam­fé­lag­inu sjálft en ekki hóp­ast bara saman með þeim sem eru frá sama land­i.“

Að end­ingu, hvað er hægt að gera betur varð­andi útlend­inga­mál á Íslandi?

Mira­bela telur að bæta mætti heim­ildir stétt­ar­fé­laga til að sekta vinnu­veit­end­ur. „Ekki er nóg að hafa vinnu­eft­ir­lit, það greini­lega nær ekki öllu. Mér þætti betra ef stétt­ar­fé­lögin fengju meiri heim­ildir til að hafa eft­ir­lit með vinnu­mark­að­in­um. Alla­vega til að beita sekt­u­m,“ segir hún. Þetta eigi auð­vitað líka við um íslenska laun­þega.

Svo myndi hún vilja auka fjár­fram­lög til lög­regl­unnar þannig að hún gæti sinnt þeim málum sem snúa að brotum á vinnu­mark­aði. „Það mætti þróa ákveðnar deildir innan lög­regl­unnar til að takast á við mál hjá til dæmis starfs­manna­leig­unum og til að taka á móti fólki sem brotið hefur verið á.“ Þá þyrfti sam­vinnu á milli lög­reglu, stétt­ar­fé­laga og stofn­ana til að hjálpa fólki ef erlendum upp­runa til að leita réttar síns.

Hún segir að margir útlend­ingar fari ein­fald­lega heim áður en þeir fái nokkurn tím­ann rétt­læti. Hún hvetur aftur á móti fólk sem verður fyrir órétt­læti til að kvarta og ekki sam­þykkja neitt sem það telur brjóta gegn grund­vall­ar­rétt­indum þess.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal