Elísabet Grétarsdóttir, eða Beta eins og hún gjarnan kölluð, hefur starfað í tölvuleikjageiranum um langt árabil. Hún byrjaði sinn starfsferil hjá CCP árið 2006 en starfar nú í Stokkhólmi, hjá dótturfélagi EA Games, DICE. Hún hefur starfað hjá félaginu sem markaðsstjóri og tók síðar við sem yfirmaður yfir félagslegum leikjakerfum. Nú er Elísabet nýsest í framkvæmdastjórn fyrirtækisins og hefur tekið við sem yfirmaður stefnumótunar og viðskiptaþróunar.
„Heyrirðu í mér?“ hafa orðið algeng upphafsorð mannamóta á liðnu ári. „Já. Heyrir þú í mér?“ er þá gjarnan svarað með sérstakri áherslu á orðið „þú“. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft það að verkum að fjöldi fólks hefur tileinkað sér tæknina til þess að eiga í samskiptum, hvort sem það sé landa á milli eða jafnvel bara innan sama hverfis. Og nokkurn veginn svona hefst samtal blaðamanns við Betu.
Elísabet hefur komið sér fyrir á heimaskrifstofunni þar sem hún hefur unnið við hlið mannsins síns á meðan á faraldrinum stendur. Maður Elísabetar er Jón Grétar Guðjónsson sem starfar sem alþjóðlegur stjórnendaráðgjafi. Þau Elísabet hafa verið saman frá því að þau hittust fyrst, 16 ára gömul á balli í Flensborg, en þau eru bæði úr Hafnarfirði.
Elísabet heldur tölvunni á lofti svo úr verður nokkurs konar leiðsögn um kontórinn sem áður var sjónvarpsherbergi heimilisins. Sjónvarpið fór inn í borðstofu og borðstofuborðið niður í kjallara enda hafa hjónin ekki átt von á stórum hópi fólks í mat meðan ástandið er eins og það er.
En við byrjum á byrjuninni, á unglingsárunum en þá teiknast gjarnan upp línurnar sem ákvarða hvaða leið verður fyrir valinu í starfi.
Áhugi á markaðsmálum fylgt henni frá því í æsku
Elísabet segist lengi hafa haft áhuga á markaðsmálum, hún ákvað á unglingsaldri að læra markaðsfræði og lauk BS gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniskóla Íslands sem var og hét en skólinn skipti síðar um nafn, varð Tækniháskóli Íslands og sameinaðist að lokum Háskólanum í Reykjavík. Elísabet renndi ekki blint í sjóinn þegar hún ákvað að feta inn á þá braut
„Þegar ég var unglingur þá einhvern tímann hringi ég í auglýsingaskrifstofu og spyr hvort ég megi koma og vera með grafíska hönnuðinum og sjá hvernig það sé að vinna sem grafískur hönnuður á auglýsingastofu og ég gerði það. Fékk að sitja fyrir aftan grafíska hönnuði og það tók mig tvo tíma að átta mig á því að ég myndi nú ekki nenna þessu.
Það var alltaf einhver að koma inn og segja þeim hvað þau ættu að gera. Þannig að ég spurði: „Hvað gerir þessi manneskja sem er alltaf að koma og segja hvað á að gera?“ og þá var það útskýrt fyrir mér hvaða starf það væri. Og ég spurði hvað maður þyrfti að læra til þess að vinna í svoleiðis störfum, að vinna með viðskiptavinunum á auglýsingastofum við að búa til herferðirnar og svo framvegis og þá var það kynnt fyrir mér að það væri eitthvað til sem héti markaðsfræði sem ég vissi ekki að væri til. Þá fór ég að fletta upp hvar ég gæti lært það og það var í þessu námi þannig að ég endaði þar að lokum.“
Hvað varstu gömul þegar þetta var?
„Ég giska á að ég hafi verið svona 18 ára, kannski 17 ára, þegar ég gerði þetta.“
Og markaðsmálin þá væntanlega fylgt þér í öllum þínum störfum síðan þá?
„Já kannski svolítið. Þegar ég var krakki þá tróð ég mér í allar auglýsinganefndir til þess að gera auglýsingar fyrir böll, bæði í grunnskóla og svo í menntaskóla. Var alltaf þar. Kannski er þessi hugmynd komin þaðan. Ég var alltaf hrifinn af þessu kreatíva elementi.“
„Klikkun“ að fara ekki að vinna í banka eftir nám
Eftir BS námið hér heima flutti Elísabet til Stokkhólms ásamt manninum sínum til þess að fara í framhaldsnám í markaðsfræði. Þau undu sér vel og hún segir að þau hefðu vel getað ílenst í Svíþjóð ef ekki hefði verið fyrir starf á Íslandi sem hana langaði mikið í. Hún var ráðin, þau fluttu heim og í kjölfarið hófst ferill Elísabetar í tölvuleikjageiranum.
„Það var eitt starf sem ég hafði áhuga á á Íslandi og það var að vinna í markaðsmálum hjá CCP sem var mjög lítið fyrirtæki á þessum tíma, árið 2006. Það var bara rétt í startholunum og ég kannaðist aðeins við þá. Akkúrat þegar ég er að gera lokaverkefnið mitt þá auglýsa þeir eftir fólki í markaðsmál og fyrir einhverja slembilukku þá fæ ég starf þar í markaðsmálunum. Það er þá 2006 sem ég fer inn í leikjabransann. Þá var það talin vera algjör klikkun af öllum vinum okkar vegna þess að ef þú varst að koma til íslands áttirðu „að sjálfsögðu“ að fara að vinna í banka.“
Það eru því komin 15 ár síðan Elísabet hóf störf í tölvuleikjageiranum. „Það er slatti!“ segir hún þegar hún hefur komist að niðurstöðu í útreikningunum. Eftir að hafa tekið þátt í vexti CCP og leitt markaðsteymi EVE Online söðlaði Elísabet um og hóf störf í banka.
„Þegar CCP var orðið stórt og stöndugt fyrirtæki og EVE var búið að ná hæstu hæðum og CCP var orðið svalasta fyrirtæki landsins þá hugsaði ég með mér að núna væri orðinn rétti tíminn fyrir mig til að vinna í banka. Svo ég fór og varð markaðsstjóri hjá Arion banka í tvö ár,“ segir Elísabet og bendir á að á þeim tímapunkti hafi það ekki þótt jafn flott að vinna í banka og þegar hún kom heim úr námi. Henni hafi hins vegar þótt það mjög góð hugmynd, enda hafi henni alltaf gefist vel að synda á móti straumnum.
„Svíarnir segja að það eru bara dauðir fiskar sem fljóta með straumnum.“
Á þessum tíma var stafræn umbreyting bankanna að hefjast. Þar að auki voru bankarnir að endurskapa sjálfa sig og sitt framtíðarsjálf eftir hrunið, líkt og Elísabet orðar það, en hún hóf störf hjá Arion banka árið 2012.
„Það tvennt var áskorun sem mér fannst of spennandi til þess að taka ekki þátt í. Og það var mjög gaman að vinna með góðu fólki grunnvinnu að því sem átti eftir að koma fyrir sjónir almennings seinna meir,“ segir Elísabet um starf sitt í bankanum. Síðan kom kallið frá Stokkhólmi.
„Svo er haft samband við mig frá EA og ég er ráðin þaðan til Stokkhólms.“
Margt breyst í vinnustaðamenningunni á síðustu árum
Elísabet sneri því aftur til Svíþjóðar þar sem hennar beið starf í markaðsmálum hjá DICE sem er dótturfélag EA Games, eins stærsta tölvuleikjafyrirtækis heims. DICE hefur framleitt tölvuleikjaseríuna Battlefield frá árinu 2002. Leikirnir eru svokallaðir fyrstu persónu skotleikir en serían er ein sú vinsælasta sinnar tegundar. Fyrir starf sitt í aðdraganda útgáfu Battlefield 1 var Elísabet verðlaunuð af EA.
„Þeir velja fimm starfsmenn á hverju ári, eins konar starfsmenn ársins og ég var verðlaunuð fyrir mitt framtak, fyrir nýstárlega herferð sem ég hafði hannað og séð til þess að yrði framkvæmd hjá fyrirtækinu,“ segir Elísabet. Í kjölfarið var búin til ný strategísk staða fyrir hana hjá fyrirtækinu. Málin hafa svo þróast þannig að nú er hún sest í framkvæmdastjórn DICE og hefur yfirumsjón með stefnumótun og viðskiptaþróun.
Spurð að því hvort tölvuleikjageirinn sé jafn opinn fyrir konum og fyrir körlum segir Elísabet margt hafa breyst til batnaðar á síðustu árum. „Þegar ég fer inn í þennan leikjabransa þá var mikið meira áberandi að maður þurfti næstum að réttlæta tilveru sína þar en það var fyrir 15 árum síðan og margt breyst.“
En hvað hefur breyst?
„Fyrirtækin eru orðin mun þroskaðri, fólkið er þroskaðra og mikið af nýrri reynslu. En það sem hefur breyst hvað mest er að fyrirtækin eru orðin miklu meira opin fyrir því og skilja það að árangur þeirra í framtíðinni, og reyndar núna, er undir því kominn að hafa fjölbreyttara starfsfólk í vinnu,“ segir Elísabet og bendir í þessu samhengi á að vinnustaðamenning hafi þróast í átt að meira umburðarlyndi og að tekið hafi verið á ómeðvitaðri hlutdrægni (e. bias) í ráðningum.
„Við þurfum ólíka reynslu, ólíkan bakgrunn, ólíkan hugsunarhátt og mismunandi uppruna fólks, kynslóðir, aldur, kyn, kynþátt, kynhneigð til þess að fá sem víðasta sjónarhorn og til þess að leysa þessi vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Því einsleitari hóp sem þú ert með því einsleitari hugmyndir færðu. Við vinnum í bransa sem stendur frammi fyrir rosalega miklum vexti og það eru rosalega stórar áskoranir framundan og stór tækifæri. En það sem kom okkur hingað er ekki að fara að koma okkur á þann stað sem við viljum vera á í framtíðinni.“
Ísland í góðri stöðu til að efla tölvuleikjageirann hér heima
Að mati Elísabetar er Ísland í mjög góðri stöðu til þess að nýta sér tækifærin sem eru til staðar í tölvuleikjabransanum með því að auðvelda tæknifyrirtækjum að opna hér starfsstöðvar. Hægt sé að horfa til Finnlands og Kanada og þeirra tilrauna sem þar hafa verið gerðar til þess að laða tæknifyrirtæki að með því að búa til gott og hagstætt umhverfi fyrir fyrirtækin. Lega landsins mitt á milli Evrópu og Bandaríkjanna er að hennar mati gífurlega verðmæt enda geti fólk sem staðsett er hér á landi átt í samskiptum við annað fólk beggja vegna Atlantshafsins.
„Leikjafyrirtæki eru að fara að bjóða upp á „hybrid“ vinnustaði, þannig að þú getir unnið í fjarvinnu. Fólk vill flytja sig um set og Ísland er hipp og kúl staður, mitt á milli tímabelta. Það er stutt til Evrópu og Bandaríkjanna og það er kominn ákveðinn þekking í þessum geira nú þegar,“ segir Elísabet og telur upp nokkur sprota- og tölvuleikjafyrirtæki sem nú þegar hafa haslað sér völl. Fyrirtæki á borð við CCP, Solid Clouds, Myrkur Games og Aldin.
„Enda sér maður það að það er fólk frá CCP að vinna í tölvuleikjabransanum út um allan heim í dag og við Íslendingar eigum kynslóð af brautryðjendum út um allan heim á þessu sviði og það er mjög gaman að sjá það.“
En betur má ef duga skal að mati Elísabetar og hún segir að meira ætti að vera gert til þess að auðvelda komu erlendra sérfræðinga til landsins og, líkt og áður segir, auðvelda komu erlendra fyrirtækja í geiranum hingað til lands. Eins og sakir standa sé erfitt fyrir erlent starfsfólk að flytja hingað, komast inn í heilbrigðiskerfið og bankakerfið, fá húsnæðislán og kaupa húsnæði að mati Elísabetar.
„Þetta gæti styrkt íslenskt efnahagslíf gríðarlega. Tölvuleikjabransinn er það stór, hann er orðinn stærri en tónlistarbransinn og það á bara eftir að aukast. Við fórum á eftir kvikmyndabransanum og buðum upp á sérsniðnar lausnir fyrir kvikmyndabransann til að koma til Íslands. Það er svipað tækifæri í boði líka fyrir tölvuleikjabransann þannig að þau störf geti komið og þau geta verið.“
Svo kom krabbinn
Árið 2020 var sérstakt í marga staði fyrir Elísabetu og að hennar sögn frekar súrrealískt. Hún greindist með brjóstakrabbamein og tókst á við það á sinn hátt, með jákvæðnina að vopni, enda lítur hún svo á að árið 2020 hafi ef til vill verið tilvalinn tími „til þess að setjast á varmannabekkinn,“ fyrst það var á annað borð nauðsynlegt. Hún tók auk þess upp á því að iðka langhlaup á meðan á lyfjameðferðinni stóð. Hún fann ákveðinn styrk í hlaupunum sem hún leit einnig á sem ákveðið verkefni sem hún þurfti að sinna. Krabbameinið er sem betur fer á bak og burt.
„Ég fékk að vita það í byrjun janúar að það væri afgreitt. Það er náttúrlega gríðarlega mikill léttir og góðar fréttir að hafa náð að klára þann kafla.“
En hvernig tilfinning var það að greinast með krabbamein?
„Það er einstaklega súrrealískt, ég get alveg sagt það. Það er súrrealískt að því leyti að ég held í raun og veru að allir trúi því upp að einhverju marki að þeir séu ódauðlegir þangað til þeir þurfa kannski að horfast í augu við það. Á sama tíma þá get ég sagt eftir að hafa gengið í gegnum þessa reynslu, þá er þetta eins og allur persónulegur vöxtur. Hann er óþægilegur en þetta er líka að vissu leyti hollt.“
Elísabet líkir ferlinu við berskjöldunarmeðferð, það sem á ensku kallast exposure therapy. Með því að vera hreinlega settur í aðstæður sem maður óttast þá hverfur óttinn á endanum. „Ef maður gengur í gegnum svona hluti þá fær maður ákveðið sjónarhorn á lífið. Það sem maður var feiminn við og hræddur við áður, það er ekkert rosalega mikið mál í dag.“
Fann styrk í langhlaupum
Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var Elísabet og hennar nánasta fjölskylda, eiginmaður og þrjú börn, mikið einangruð á meðan á krabbameinsmeðferðinni stóð. Þau reyndu hins vegar að gera gott úr stöðunni.
„Maðurinn minn tók ákvörðun um að slá upp kærleikskúlu í kringum fjölskylduna því við gátum ekkert ferðast og máttum náttúrlega ekki fara á ströndina og svo framvegis. Það var pantaður hingað lítill heitur pottur og ísvél og svo var bara slegið upp veislu,“ segir Elísabet glaðlega og bætir því við að kannski hafi árið í fyrra verið heppilegur tími til þess að fara í gegnum þessa raun.
„Þegar fólk spurði mig: „Er þetta ekki súrrealískt að vera að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð á sama tíma og COVID?“ þá í raun og veru var ég merkilega róleg yfir þessu öllu saman. Stormurinn þarna úti „matchaði“ voða mikið við storminn hérna inni í mér. Kannski var þetta líka bara frábær tímasetning. Ef ég ætlaði að fara á varamannabekkinn í heilt ár þá var kannski bara fínt að gera það á sama tíma og heimurinn þurfti að gera það.“
Þegar Elísabet er spurð að því hvort það hafi ekki verið skrítið að fara í gegnum lyfjameðferð á tímum COVID þá bendir hún réttilega á að hún hafi ekki neinn samanburð. Hún hafi samt ekki mátt taka neinn með sér á spítalann í lyfjagjöf og það voru ekki neinir hóptímar í boði. Hún leitaði því til hreyfingar.
„Maður verður bara að reyna að finna út úr þessu eftir sinni bestu getu. Og mér var sagt að það væri rosalega gott fyrir mig að þjálfa mig og hreyfa mig. Og rannsóknir sýndu það að það er það sem hjálpar fólki hvað best. Ég vissi ekkert hvað væri eðlilegt þar. Þannig að ég gerði bara eins vel og ég gat sem endaði með því að ég þjálfa mig í þannig form að í lyfjameðferðinni þá komst ég í betra form heldur en ég var í fyrir.“
Elísabet vandi sig á það að mæta i hlaupafötunum þegar hún fór á spítalann í lyfjagjöf. Hún komst í gott hlaupaform og á einum tímapunkti í miðri lyfjameðferð hljóp hún tíu kílómetra, nokkuð sem kom lækni hennar á óvart.
„Eitt skipti þegar ég var að hitta lækninn minn spyr hún hvað ég hefði tekið mér fyrir hendur nýlega og ég sagði: „Ég hljóp tíu kílómetra um helgina.“ Þá svaraði hún: „Ha, gerðirðu hvað? Ég get ekki einu sinni hlaupið tíu kílómetra!“ og ég svaraði „Já, en þú sagðir mér að ég ætti að hreyfa mig, átti ég ekki að gera það?“ þannig að þegar maður hefur ekki viðmið um hvað er eðlilegt þá er það merkilegt hvað maður getur afrekað.“
Og læknirinn hefur ekkert viljað stoppa þig af?
„Nei, svo lengi sem mér leið vel og allt var í góðu. Ég var heppin með það að frænka mín er sjúkraþjálfari og vinnur hjá Ljósinu sem er endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda þannig að ég gat fengið góð ráð frá henni. Það sem ég held að hafi líka skipt mig hvað mestu máli er það hvað maðurinn minn treysti mér vel og hann sagði: „Gerðu það sem þú þarft að gera.“ Þó það sé kannski ekki eðlilegt að hlaupa 10 kílómetra í lyfjameðferð þá ákvað hann bara að treysta mér.“
Hún segir að henni hafi liðið betur eftir hlaupin: „Þegar maður er í lyfjameðferð þá finnst manni eins og maður eigi að hvíla sig því það gerum við þegar við erum veik. Þetta er lyfjameðferð þannig að ég fattaði það fljótt að þegar mér leið illa og heilinn sagði “Nú þarftu að hvíla þig,” þá þurfti ég í raun og veru að hreyfa mig til að líða betur.“
Mikilvægt að búa til gott plan
Vegna kórónuveirufaraldursins gafst Elísabetu ekki mikill kostur á að hitta stórfjölskylduna sem býr á Íslandi. Hún náði þó að „skjótast heim“ í haust til að hitta þau, rétt í tæka tíð áður en ný bylgja faraldursins skall á. Tæknin hjálpaði að vísu til með að minnka fjarlægðina auk þess sem þau hjónin hafi verið í nánum samskiptum við vinafjölskyldu sína sem býr í næsta nágrenni.
Spurð að því hvort hún hafi lært eitthvað nýtt um sjálfa sig á meðan á baráttunni stóð segir Elísabet eftir smá umhugsun: „Ég er bara langtum meiri töffari en ég hélt. Sem er kannski kjánalegt að segja en ef ég hefði vitað fyrir fram hvað ég væri að fara að gera þá hefði mér ekkert litist voðalega vel á það. En svo þegar þú lendir í því, þá andarðu djúpt, segir „Helvítis fokking fokk!“, býrð til plan og svo bara byrjar þú að framkvæma.“
Þau hjónin hafi sest niður og búið til plan.
„Planið var bara, og við sögðum það við vini og ættingja, að þetta væri fjallganga sem við værum að fara af stað í með öllu sem því fylgir. Við ætluðum líka að eiga góðar stundir. Minningarnar áttu ekki að snúast um að ég væri veik. Með dass af góðum stundum og svörtum húmor og hlátursköstum þá yrði þetta fjall með tímanum að hraðahindrun. Þó að þetta væri ógurlega stórt fjall að klífa, þá eftir ákveðið mörg ár myndum við líta til baka og segja að í minningunni hafi þetta verið meira eins og hraðahindrun.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Eigum að flytja inn þekkingarstarfsmenn
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
4. janúar 2023Án nýsköpunar væru „hrútskýring“ og „þriðja vaktin“ ekki til
-
11. desember 2022Ætla að meta árangur af stórauknum styrkjum til rannsókna og þróunar á næsta ári
-
18. nóvember 2022Skatturinn hafði áhyggjur af svindli fyrirtækja til að fá hærri styrki – Engu hefur verið breytt til að hindra það
-
17. september 2022Varanleg hækkun á endurgreiðslum vegna nýsköpunar kostar þrjá milljarða á ári
-
3. júlí 2022„Krakkar eru hugmyndasmiðir og framtíðin er þeirra“
-
9. júní 2022Segja áhuga erlendra fjárfesta minnka ef styrkir til nýsköpunarfyrirtækja lækka
-
2. febrúar 2022Miklar fjárfestingar í nýsköpun en konur sniðgengnar
-
8. janúar 2022Tæknispá 2022: Breyttir vinnustaðir, bálkakeðjuæðið og hlutverk Íslands í orkuskiptum