Aðsend

Af varamannabekknum inn í framkvæmdastjórn

Elísabet Grétarsdóttir hefur starfað hjá tölvuleikjafyrirtækinu DICE í Stokkhólmi frá árinu 2015. Hún þurfti að setjast á varamannabekkinn, eins og hún orðar það, á árinu 2020 eftir að hún greindist með krabbamein. Meinið er nú á bak og burt og Elísabet hefur snúið aftur til starfa í nýja stöðu hjá fyrirtækinu. Elísabet ræðir við Kjarnann um tölvuleikjageirann, lífið í Stokkhólmi og langhlaupin sem veittu henni styrk í krabbameinsmeðferðinni.

Elísa­bet Grét­ars­dótt­ir, eða Beta eins og hún gjarnan köll­uð, hefur starfað í tölvu­leikja­geir­anum um langt ára­bil. Hún byrj­aði sinn starfs­feril hjá CCP árið 2006 en starfar nú í Stokk­hólmi, hjá dótt­ur­fé­lagi EA Games, DICE. Hún hefur starfað hjá félag­inu sem mark­aðs­stjóri og tók síðar við sem yfir­maður yfir félags­legum leikja­kerf­um. Nú er Elísa­bet nýsest í fram­kvæmda­stjórn fyr­ir­tæk­is­ins og hefur tekið við sem yfir­maður stefnu­mót­unar og við­skipta­þró­un­ar.

„Heyr­irðu í mér?“ hafa orðið algeng upp­hafs­orð manna­móta á liðnu ári. „Já. Heyrir þú í mér?“ er þá gjarnan svarað með sér­stakri áherslu á orðið „þú“. Kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn hefur haft það að verkum að fjöldi fólks hefur til­einkað sér tækn­ina til þess að eiga í sam­skipt­um, hvort sem það sé landa á milli eða jafn­vel bara innan sama hverf­is. Og nokkurn veg­inn svona hefst sam­tal blaða­manns við Betu.

Elísa­bet hefur komið sér fyrir á heima­skrif­stof­unni þar sem hún hefur unnið við hlið manns­ins síns á meðan á far­aldr­inum stend­ur. Maður Elísa­betar er Jón Grétar Guð­jóns­son sem starfar sem alþjóð­legur stjórn­enda­ráð­gjafi. Þau Elísa­bet hafa verið saman frá því að þau hitt­ust fyrst, 16 ára gömul á balli í Flens­borg, en þau eru bæði úr Hafn­ar­firði.

Elísa­bet heldur tölv­unni á lofti svo úr verður nokk­urs konar leið­sögn um kontór­inn sem áður var sjón­varps­her­bergi heim­il­is­ins. Sjón­varpið fór inn í borð­stofu og borð­stofu­borðið niður í kjall­ara enda hafa hjónin ekki átt von á stórum hópi fólks í mat meðan ástandið er eins og það er.

En við byrjum á byrj­un­inni, á ung­lings­ár­unum en þá teikn­ast gjarnan upp lín­urnar sem ákvarða hvaða leið verður fyrir val­inu í starfi.

Áhugi á mark­aðs­málum fylgt henni frá því í æsku

Elísa­bet seg­ist lengi hafa haft áhuga á mark­aðs­mál­um, hún ákvað á ung­lings­aldri að læra mark­aðs­fræði og lauk BS gráðu í alþjóða­mark­aðs­fræði frá Tækni­skóla Íslands sem var og hét en skól­inn skipti síðar um nafn, varð Tækni­há­skóli Íslands og sam­ein­að­ist að lokum Háskól­anum í Reykja­vík. Elísa­bet renndi ekki blint í sjó­inn þegar hún ákvað að feta inn á þá braut

Auglýsing

„Þegar ég var ung­lingur þá ein­hvern tím­ann hringi ég í aug­lýs­inga­skrif­stofu og spyr hvort ég megi koma og vera með graf­íska hönn­uð­inum og sjá hvernig það sé að vinna sem graf­ískur hönn­uður á aug­lýs­inga­stofu og ég gerði það. Fékk að sitja fyrir aftan graf­íska hönn­uði og það tók mig tvo tíma að átta mig á því að ég myndi nú ekki nenna þessu.

Það var alltaf ein­hver að koma inn og segja þeim hvað þau ættu að gera. Þannig að ég spurði: „Hvað gerir þessi mann­eskja sem er alltaf að koma og segja hvað á að ger­a?“ og þá var það útskýrt fyrir mér hvaða starf það væri. Og ég spurði hvað maður þyrfti að læra til þess að vinna í svo­leiðis störf­um, að vinna með við­skipta­vin­unum á aug­lýs­inga­stofum við að búa til her­ferð­irnar og svo fram­vegis og þá var það kynnt fyrir mér að það væri eitt­hvað til sem héti mark­aðs­fræði sem ég vissi ekki að væri til. Þá fór ég að fletta upp hvar ég gæti lært það og það var í þessu námi þannig að ég end­aði þar að lok­um.“

Hvað varstu gömul þegar þetta var?

„Ég giska á að ég hafi verið svona 18 ára, kannski 17 ára, þegar ég gerði þetta.“

Og mark­aðs­málin þá vænt­an­lega fylgt þér í öllum þínum störfum síðan þá?

„Já kannski svo­lít­ið. Þegar ég var krakki þá tróð ég mér í allar aug­lýs­inga­nefndir til þess að gera aug­lýs­ingar fyrir böll, bæði í grunn­skóla og svo í mennta­skóla. Var alltaf þar. Kannski er þessi hug­mynd komin það­an. Ég var alltaf hrif­inn af þessu krea­tíva elem­ent­i.“

„Klikk­un“ að fara ekki að vinna í banka eftir nám

Eftir BS námið hér heima flutti Elísa­bet til Stokk­hólms ásamt mann­inum sínum til þess að fara í fram­halds­nám í mark­aðs­fræði. Þau undu sér vel og hún segir að þau hefðu vel getað ílenst í Sví­þjóð ef ekki hefði verið fyrir starf á Íslandi sem hana lang­aði mikið í. Hún var ráð­in, þau fluttu heim og í kjöl­farið hófst fer­ill Elísa­betar í tölvu­leikja­geir­an­um.

Auglýsing

„Það var eitt starf sem ég hafði áhuga á á Íslandi og það var að vinna í mark­aðs­málum hjá CCP sem var mjög lítið fyr­ir­tæki á þessum tíma, árið 2006. Það var bara rétt í start­hol­unum og ég kann­að­ist aðeins við þá. Akkúrat þegar ég er að gera loka­verk­efnið mitt þá aug­lýsa þeir eftir fólki í mark­aðs­mál og fyrir ein­hverja slembi­lukku þá fæ ég starf þar í mark­aðs­mál­un­um. Það er þá 2006 sem ég fer inn í leikja­brans­ann. Þá var það talin vera algjör klikkun af öllum vinum okkar vegna þess að ef þú varst að koma til íslands átt­irðu „að sjálf­sögðu“ að fara að vinna í banka.“

Það eru því komin 15 ár síðan Elísa­bet hóf störf í tölvu­leikja­geir­an­um. „Það er slatt­i!“ segir hún þegar hún hefur kom­ist að nið­ur­stöðu í útreikn­ing­un­um. Eftir að hafa tekið þátt í vexti CCP og leitt mark­aðsteymi EVE Online söðl­aði Elísa­bet um og hóf störf í banka.

„Þegar CCP var orðið stórt og stöndugt fyr­ir­tæki og EVE var búið að ná hæstu hæðum og CCP var orðið svalasta fyr­ir­tæki lands­ins þá hugs­aði ég með mér að núna væri orð­inn rétti tím­inn fyrir mig til að vinna í banka. Svo ég fór og varð mark­aðs­stjóri hjá Arion banka í tvö ár,“ segir Elísa­bet og bendir á að á þeim tíma­punkti hafi það ekki þótt jafn flott að vinna í banka og þegar hún kom heim úr námi. Henni hafi hins vegar þótt það mjög góð hug­mynd, enda hafi henni alltaf gef­ist vel að synda á móti straumn­um.

„Sví­arnir segja að það eru bara dauðir fiskar sem fljóta með straumn­um.“

Á þessum tíma var staf­ræn umbreyt­ing bank­anna að hefj­ast. Þar að auki voru bank­arnir að end­ur­skapa sjálfa sig og sitt fram­tíð­ar­sjálf eftir hrun­ið, líkt og Elísa­bet orðar það, en hún hóf störf hjá Arion banka árið 2012.

„Það tvennt var áskorun sem mér fannst of spenn­andi til þess að taka ekki þátt í. Og það var mjög gaman að vinna með góðu fólki grunn­vinnu að því sem átti eftir að koma fyrir sjónir almenn­ings seinna meir,“ segir Elísa­bet um starf sitt í bank­an­um. Síðan kom kallið frá Stokk­hólmi.

„Svo er haft sam­band við mig frá EA og ég er ráðin þaðan til Stokk­hólms.“

Margt breyst í vinnu­staða­menn­ing­unni á síð­ustu árum

Elísa­bet sneri því aftur til Sví­þjóðar þar sem hennar beið starf í mark­aðs­málum hjá DICE sem er dótt­ur­fé­lag EA Games, eins stærsta tölvu­leikja­fyr­ir­tækis heims. DICE hefur fram­leitt tölvu­leikja­ser­í­una Battlefi­eld frá árinu 2002. Leik­irnir eru svo­kall­aðir fyrstu per­sónu skot­leikir en ser­ían er ein sú vin­sælasta sinnar teg­und­ar. Fyrir starf sitt í aðdrag­anda útgáfu Battlefi­eld 1 var Elísa­bet verð­launuð af EA.

Elísabet var verðlaunuð fyrir nýstarlega herferð sína fyrir EA.
Aðsend

„Þeir velja fimm starfs­menn á hverju ári, eins konar starfs­menn árs­ins og ég var verð­launuð fyrir mitt fram­tak, fyrir nýstár­lega her­ferð sem ég hafði hannað og séð til þess að yrði fram­kvæmd hjá fyr­ir­tæk­in­u,“ segir Elísa­bet. Í kjöl­farið var búin til ný stra­tegísk staða fyrir hana hjá fyr­ir­tæk­inu. Málin hafa svo þró­ast þannig að nú er hún sest í fram­kvæmda­stjórn DICE og hefur yfir­um­sjón með stefnu­mótun og við­skipta­þró­un.

Spurð að því hvort tölvu­leikja­geir­inn sé jafn opinn fyrir konum og fyrir körlum segir Elísa­bet margt hafa breyst til batn­aðar á síð­ustu árum. „Þegar ég fer inn í þennan leikja­bransa þá var mikið meira áber­andi að maður þurfti næstum að rétt­læta til­veru sína þar en það var fyrir 15 árum síðan og margt breyst.“

En hvað hefur breyst?

„Fyr­ir­tækin eru orðin mun þroskaðri, fólkið er þroskaðra og mikið af nýrri reynslu. En það sem hefur breyst hvað mest er að fyr­ir­tækin eru orðin miklu meira opin fyrir því og skilja það að árangur þeirra í fram­tíð­inni, og reyndar núna, er undir því kom­inn að hafa fjöl­breytt­ara starfs­fólk í vinn­u,“ segir Elísa­bet og bendir í þessu sam­hengi á að vinnu­staða­menn­ing hafi þró­ast í átt að meira umburð­ar­lyndi og að tekið hafi verið á ómeð­vit­aðri hlut­drægni (e. bias) í ráðn­ing­um.

Auglýsing

„Við þurfum ólíka reynslu, ólíkan bak­grunn, ólíkan hugs­un­ar­hátt og mis­mun­andi upp­runa fólks, kyn­slóð­ir, ald­ur, kyn, kyn­þátt, kyn­hneigð til þess að fá sem víð­asta sjón­ar­horn og til þess að leysa þessi vanda­mál sem við stöndum frammi fyr­ir. Því eins­leit­ari hóp sem þú ert með því eins­leit­ari hug­myndir færðu. Við vinnum í bransa sem stendur frammi fyrir rosa­lega miklum vexti og það eru rosa­lega stórar áskor­anir framundan og stór tæki­færi. En það sem kom okkur hingað er ekki að fara að koma okkur á þann stað sem við viljum vera á í fram­tíð­inn­i.“

Ísland í góðri stöðu til að efla tölvu­leikja­geir­ann hér heima

Að mati Elísa­betar er Ísland í mjög góðri stöðu til þess að nýta sér tæki­færin sem eru til staðar í tölvu­leikja­brans­anum með því að auð­velda tækni­fyr­ir­tækjum að opna hér starfs­stöðv­ar. Hægt sé að horfa til Finn­lands og Kanada og þeirra til­rauna sem þar hafa verið gerðar til þess að laða tækni­fyr­ir­tæki að með því að búa til gott og hag­stætt umhverfi fyrir fyr­ir­tæk­in. Lega lands­ins mitt á milli Evr­ópu og Banda­ríkj­anna er að hennar mati gíf­ur­lega verð­mæt enda geti fólk sem stað­sett er hér á landi átt í sam­skiptum við annað fólk beggja vegna Atl­ants­hafs­ins.

„Leikja­fyr­ir­tæki eru að fara að bjóða upp á „hy­brid“ vinnu­staði, þannig að þú getir unnið í fjar­vinnu. Fólk vill flytja sig um set og Ísland er hipp og kúl stað­ur, mitt á milli tíma­belta. Það er stutt til Evr­ópu og Banda­ríkj­anna og það er kom­inn ákveð­inn þekk­ing í þessum geira nú þeg­ar,“ segir Elísa­bet og telur upp nokkur sprota- og tölvu­leikja­fyr­ir­tæki sem nú þegar hafa haslað sér völl. Fyr­ir­tæki á borð við CCP, Solid Clouds, Myrkur Games og Ald­in.

„Enda sér maður það að það er fólk frá CCP að vinna í tölvu­leikja­brans­anum út um allan heim í dag og við Íslend­ingar eigum kyn­slóð af braut­ryðj­endum út um allan heim á þessu sviði og það er mjög gaman að sjá það.“

En betur má ef duga skal að mati Elísa­betar og hún segir að meira ætti að vera gert til þess að auð­velda komu erlendra sér­fræð­inga til lands­ins og, líkt og áður seg­ir, auð­velda komu erlendra fyr­ir­tækja í geir­anum hingað til lands. Eins og sakir standa sé erfitt fyrir erlent starfs­fólk að flytja hing­að, kom­ast inn í heil­brigð­is­kerfið og banka­kerf­ið, fá hús­næð­is­lán og kaupa hús­næði að mati Elísa­bet­ar.

Elísabet í faðmi fjölskyldunnar. Þau Jón Grétar hafa verið saman frá því þau hittust fyrst, sextán ára gömul á balli í Flensborg.
Aðsend

„Þetta gæti styrkt íslenskt efna­hags­líf gríð­ar­lega. Tölvu­leikja­brans­inn er það stór, hann er orð­inn stærri en tón­list­ar­brans­inn og það á bara eftir að aukast. Við fórum á eftir kvik­mynda­brans­anum og buðum upp á sér­sniðnar lausnir fyrir kvik­mynda­brans­ann til að koma til Íslands. Það er svipað tæki­færi í boði líka fyrir tölvu­leikja­brans­ann þannig að þau störf geti komið og þau geta ver­ið.“

Svo kom krabb­inn

Árið 2020 var sér­stakt í marga staði fyrir Elísa­betu og að hennar sögn frekar súr­r­eal­ískt. Hún greind­ist með brjóstakrabba­mein og tókst á við það á sinn hátt, með jákvæðn­ina að vopni, enda lítur hún svo á að árið 2020 hafi ef til vill verið til­val­inn tími „til þess að setj­ast á var­manna­bekk­inn,“ fyrst það var á annað borð nauð­syn­legt. Hún tók auk þess upp á því að iðka lang­hlaup á meðan á lyfja­með­ferð­inni stóð. Hún fann ákveð­inn styrk í hlaup­unum sem hún leit einnig á sem ákveðið verk­efni sem hún þurfti að sinna. Krabba­meinið er sem betur fer á bak og burt.

„Ég fékk að vita það í byrjun jan­úar að það væri afgreitt. Það er nátt­úr­lega gríð­ar­lega mik­ill léttir og góðar fréttir að hafa náð að klára þann kafla.“

En hvernig til­finn­ing var það að grein­ast með krabba­mein?

„Það er ein­stak­lega súr­r­eal­ískt, ég get alveg sagt það. Það er súr­r­eal­ískt að því leyti að ég held í raun og veru að allir trúi því upp að ein­hverju marki að þeir séu ódauð­legir þangað til þeir þurfa kannski að horfast í augu við það. Á sama tíma þá get ég sagt eftir að hafa gengið í gegnum þessa reynslu, þá er þetta eins og allur per­sónu­legur vöxt­ur. Hann er óþægi­legur en þetta er líka að vissu leyti hollt.“

Auglýsing

Elísa­bet líkir ferl­inu við ber­skjöld­un­ar­með­ferð, það sem á ensku kall­ast expos­ure ther­apy. Með því að vera hrein­lega settur í aðstæður sem maður ótt­ast þá hverfur ótt­inn á end­an­um. „Ef maður gengur í gegnum svona hluti þá fær maður ákveðið sjón­ar­horn á líf­ið. Það sem maður var feim­inn við og hræddur við áður, það er ekk­ert rosa­lega mikið mál í dag.“

Fann styrk í lang­hlaupum

Vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru var Elísa­bet og hennar nán­asta fjöl­skylda, eig­in­maður og þrjú börn, mikið ein­angruð á meðan á krabba­meins­með­ferð­inni stóð. Þau reyndu hins vegar að gera gott úr stöð­unni.

„Mað­ur­inn minn tók ákvörðun um að slá upp kær­leikskúlu í kringum fjöl­skyld­una því við gátum ekk­ert ferð­ast og máttum nátt­úr­lega ekki fara á strönd­ina og svo fram­veg­is. Það var pant­aður hingað lít­ill heitur pottur og ísvél og svo var bara slegið upp veislu,“ segir Elísa­bet glað­lega og bætir því við að kannski hafi árið í fyrra verið heppi­legur tími til þess að fara í gegnum þessa raun.

„Þegar fólk spurði mig: „Er þetta ekki súr­r­eal­ískt að vera að ganga í gegnum krabba­meins­með­ferð á sama tíma og COVID?“ þá í raun og veru var ég merki­lega róleg yfir þessu öllu sam­an. Storm­ur­inn þarna úti „matchaði“ voða mikið við storm­inn hérna inni í mér. Kannski var þetta líka bara frá­bær tíma­setn­ing. Ef ég ætl­aði að fara á vara­manna­bekk­inn í heilt ár þá var kannski bara fínt að gera það á sama tíma og heim­ur­inn þurfti að gera það.“

Í lyfjameðferðinni fann Elísabet að hún hresstist öll við eftir langhlaup. Hér er hún nýbúin að hlaupa tíu kílómetra.
Aðsend

Þegar Elísa­bet er spurð að því hvort það hafi ekki verið skrítið að fara í gegnum lyfja­með­ferð á tímum COVID þá bendir hún rétti­lega á að hún hafi ekki neinn sam­an­burð. Hún hafi samt ekki mátt taka neinn með sér á spít­al­ann í lyfja­gjöf og það voru ekki neinir hóp­tímar í boði. Hún leit­aði því til hreyf­ing­ar.

„Maður verður bara að reyna að finna út úr þessu eftir sinni bestu getu. Og mér var sagt að það væri rosa­lega gott fyrir mig að þjálfa mig og hreyfa mig. Og rann­sóknir sýndu það að það er það sem hjálpar fólki hvað best. Ég vissi ekk­ert hvað væri eðli­legt þar. Þannig að ég gerði bara eins vel og ég gat sem end­aði með því að ég þjálfa mig í þannig form að í lyfja­með­ferð­inni þá komst ég í betra form heldur en ég var í fyr­ir.“

Elísa­bet vandi sig á það að mæta i hlaupa­föt­unum þegar hún fór á spít­al­ann í lyfja­gjöf. Hún komst í gott hlaupaform og á einum tíma­punkti í miðri lyfja­með­ferð hljóp hún tíu kíló­metra, nokkuð sem kom lækni hennar á óvart.

„Eitt skipti þegar ég var að hitta lækn­inn minn spyr hún hvað ég hefði tekið mér fyrir hendur nýlega og ég sagði: „Ég hljóp tíu kíló­metra um helg­ina.“ Þá svar­aði hún: „Ha, gerð­irðu hvað? Ég get ekki einu sinni hlaupið tíu kíló­metra!“ og ég svar­aði „Já, en þú sagðir mér að ég ætti að hreyfa mig, átti ég ekki að gera það?“ þannig að þegar maður hefur ekki við­mið um hvað er eðli­legt þá er það merki­legt hvað maður getur afrek­að.“

Og lækn­ir­inn hefur ekk­ert viljað stoppa þig af?

„Nei, svo lengi sem mér leið vel og allt var í góðu. Ég var heppin með það að frænka mín er sjúkra­þjálf­ari og vinnur hjá Ljós­inu sem er end­ur­hæf­ing­ar­mið­stöð fyrir krabba­meins­greinda þannig að ég gat fengið góð ráð frá henni. Það sem ég held að hafi líka skipt mig hvað mestu máli er það hvað mað­ur­inn minn treysti mér vel og hann sagði: „Gerðu það sem þú þarft að ger­a.“ Þó það sé kannski ekki eðli­legt að hlaupa 10 kíló­metra í lyfja­með­ferð þá ákvað hann bara að treysta mér.“

Hún segir að henni hafi liðið betur eftir hlaup­in: „Þegar maður er í lyfja­með­ferð þá finnst manni eins og maður eigi að hvíla sig því það gerum við þegar við erum veik. Þetta er lyfja­með­ferð þannig að ég fatt­aði það fljótt að þegar mér leið illa og heil­inn sagði “Nú þarftu að hvíla þig,” þá þurfti ég í raun og veru að hreyfa mig til að líða bet­ur.“

Mik­il­vægt að búa til gott plan

Vegna kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins gafst Elísa­betu ekki mik­ill kostur á að hitta stór­fjöl­skyld­una sem býr á Íslandi. Hún náði þó að „skjót­ast heim“ í haust til að hitta þau, rétt í tæka tíð áður en ný bylgja far­ald­urs­ins skall á. Tæknin hjálp­aði að vísu til með að minnka fjar­lægð­ina auk þess sem þau hjónin hafi verið í nánum sam­skiptum við vina­fjöl­skyldu sína sem býr í næsta nágrenni.

Spurð að því hvort hún hafi lært eitt­hvað nýtt um sjálfa sig á meðan á bar­átt­unni stóð segir Elísa­bet eftir smá umhugs­un: „Ég er bara langtum meiri töffari en ég hélt. Sem er kannski kjána­legt að segja en ef ég hefði vitað fyrir fram hvað ég væri að fara að gera þá hefði mér ekk­ert lit­ist voða­lega vel á það. En svo þegar þú lendir í því, þá andarðu djúpt, segir „Hel­vítis fokk­ing fokk!“, býrð til plan og svo bara byrjar þú að fram­kvæma.“

Þau hjónin hafi sest niður og búið til plan.

„Planið var bara, og við sögðum það við vini og ætt­ingja, að þetta væri fjall­ganga sem við værum að fara af stað í með öllu sem því fylg­ir. Við ætl­uðum líka að eiga góðar stund­ir. Minn­ing­arnar áttu ekki að snú­ast um að ég væri veik. Með dass af góðum stundum og svörtum húmor og hlát­ur­sköstum þá yrði þetta fjall með tím­anum að hraða­hindr­un. Þó að þetta væri ógur­lega stórt fjall að klífa, þá eftir ákveðið mörg ár myndum við líta til baka og segja að í minn­ing­unni hafi þetta verið meira eins og hraða­hindr­un.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiViðtal