Ástandið er að eyðileggja líf allra – Á vappinu í stórborginni Hólagarði
Á næstunni munu Auður Jónsdóttir rithöfundur og Bára Huld Beck blaðamaður rúnta um úthverfi höfuðborgarsvæðisins og kanna bæði stemninguna og rekstrarskilyrðin í kófinu í hinum ýmsu verslunarkjörnum. Hólagarður var fyrsti viðkomustaðurinn.
Í Hólunum er verslunarkjarninn Hólagarður, einn af þó nokkrum slíkum í Reykjavík, en svo iðandi af lifandi mannlífi að hann gæti sem best verið staðsettur í borg á meginlandinu. Í yfirlætislausu húsnæðinu dummar borgarstemning, nokkuð ólík því sem gerist í miðbæ Reykjavíkur þar sem búðir fyrir ferðafólk sköpuðu ásýndina fyrir kóvidpláguna, en minnir nú helst á notalegt þorp úti á landi. Það er líf í miðbænum, en kannski væri of djúpt í árina tekið að segja mannlífsiða. Hana má hins vegar finna í Hólagarði.
Við brugðum okkur í bíltúr upp í Breiðholt á fannhvítum þriðjudegi í þeim tilgangi að heyra í fólki utan miðbæjarins og spyrja hvernig lífið væri að leika það og fyrirtæki þess á tímum kóvid. Það var skyndidilla að fara þangað, frekar en eitthvert annað, okkur langaði bara að hitta einhverja aðra en þessa algengustu vegfarendur í 101 Reykjavík.
Miðausturlandamarkaðurinn
Við lögðum bílnum fyrir utan verslunarkjarnann og sáum strax þó nokkur áhugaverð fyrirtæki blasa við, en kannski er það raunveruleikinn í dag að lítil, spennandi og kannski ögn exótísk fyrirtæki eru oftar staðsett í úthverfum og iðnaðarhverfum, frekar en í miðbænum; mögulega er ástæðan hátt leiguverð á síðarnefndum staðnum, þó að í og með spili líklega samsetning íbúanna inn í ásýnd umhverfisins. Við héldum rakleiðis inn í fyrirtækið sem var næst bílnum, en það var búðin Miðausturlandamarkaðurinn.
Við lágt búðarborð sat eldri karlmaður og brosti fallega hlýlega til okkar. Við spurðum hvort við mættum eiga við hann örfá orð og það var sjálfsagt. Hann sagðist heita Najat. Í ljós kom að sonur hans, Shahez, sér líka um þessa búð, en við fengum að hringja í hann til að fá frekari upplýsingar. Þarna var vel við okkur gert; við fengum sætar kökur og ískaffi.
Okkur skildist á þeim feðgum að í þessari kóvidbylgju gengi svo sem ágætlega í búðinni sem hefur verið starfrækt síðan 2017, aðeins brösulegar en áður, samt vel. Eins virtist bara liggja vel á þeim.
Þegar við skoðuðum vöruúrvalið fannst okkur blasa við að búðin hljóti að eiga trygga vildarkúnna því þarna má finna ýmsar vörur sem er erfitt, ef ekki ómögulegt, að finna hér á landi. Önnur okkar keypti sér ýmilegt sem fæst yfirleitt bara í útlenskum borgum og bæjum. Hún hrósaði happi að geta keypt sér hnetur í hunangi, þykkar kanilstangir, súrgrjón innvafin í grænblöðunga og krydd.
Þegar við spurðum Najat hvort hann væri uggandi um ættingja sína í Írak kvaðst hann auðvitað hafa áhyggjur af kóvid, en að nánustu ættingjar byggju hér á Íslandi. Hann brosti jákvæður við spurningum okkar og virtist ekkert vilja velta sér upp úr kóvidástandinu, frekar gleðjast yfir áhuga okkar á vörunum í versluninni.
Álfurinn
Miðausturlandamarkaðurinn er staðsettur fyrir utan sjálfa verslunarkringluna, á leiðinni inn í hana sáum við hvar karlmaður stóð undir vegg, merktum áletruninni Álfurinn og sýnilega bar. Maðurinn kvaðst heita Erlendur, en hann rekur barinn ásamt eiginkonu sinni og líka öðrum hjónum. Rétt í því bar aðra konuna að og hún sagðist heita Soffía. Við spurðum þau hvernig gengi að reka barinn í þessu árferði.
„Það hefur auðvitað áhrif, “ sagði Erlendur. „Við höfum þurfti að loka, setja á fjöldatakmarkanir og skerða opnunartímann, stundum hefur bara verið opið til klukkan níu. Núna lokar húsið klukkan tíu, en fólk má vera inni til ellefu.“
Soffía samsinnti þessu og bætti við: „Sem betur fer stóð barinn vel þegar þetta skall á. Ég myndi ekki bjóða í það öðruvísi.“
Við spurðum hvort þau væru uggandi um framhaldið.
„Nei, svo sem ekki,“ sagði Erlendur með blendnu kímnisbrosi.
„En ef þetta fer niður í tíu til tuttugu manns, þá þurfum við bara að loka,“ sagði Soffía. „Það er ódýrara að loka bara. Hér þurfa alltaf að vera tveir starfsmenn á vakt. En við höfum sjálf tekið að okkur að telja inn fólk.“
Þau báru sig vel, þó að þau veigri sér ekki við að vera raunsæ. Við fengum á tilfinninguna að þeim væri virkilega annt um staðinn sinn og óskuðum þeim góðs gengis þegar við fórum inn í sjálfan Hólagarð. Vonandi eigum við eftir að gera okkur glaðan dag á Álfinum, eitthvert kvöldið í framtíðinni.
Nuddstofan Sarin
Nálægt innganginum er nuddstofan Sarin – Thai Massage. Við röltum upp stiga og komum síðan inn í hlýlega móttöku. Þar hittum við fyrir Sarinthip sem rekur nuddstofuna og fengum við einnig að heyra í eiginmanni hennar, Sverri, í gegnum síma. Það var elskulega tekið á móti okkur og þau voru til í að rabba við okkur um reksturinn í ástandinu, en vildu síður að við tækjum myndir. Okkur skildist á þeim að í Taílandi þættu þær ekki eins sjálfsagðar og hér á landi.
Þau hafa tvisvar þurft að loka í kóvid. Á nuddstofunni hefur verið minna að gera í kóvidbylgjunum en á venjulegum degi. En þau búa svo vel að eiga trygga vildarvini sem flestir koma, þrátt fyrir árferðið, þó að sumir óttist það.
Sverrir sagði þau vera með lægsta verðið í bænum, það er að segja hjá skráðum nuddstofum, og segir þau ekki hafa hækkað verðið síðan þau byrjuðu. Verðskrá á afgreiðsluborðinu sýnir þau orð hans í reynd, þarna er afar hagstætt verð og hægt að velja á milli mislangra tíma. Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að prófa fljótlega að koma í nudd á Sarin, kannski það væri ekki úr vegi að fara fyrst í nudd og fá sér síðan bjór á Álfinum!
„Þessir styrkir sem við höfum fengið, þeir hafa fleytt okkur í gegnum þetta tímabil,“ sagði Sverrir. „Svo njótum við tryggrar viðskiptavildar. En auðvitað er ástandið búið að taka alveg rosalega á. Þetta er búið að vera upp og ofan, sumir dagar fullbókaðir, aðrir tómir. Mismunandi hvernig fólk tekur þessu.“
Þegar við spurðum hvort hann væri uggandi svaraði Sverrir: „Er maður það ekki þegar svona stendur á? Ástandið er að eyðileggja líf allra.“
AfroZone og pólsk kjötbúð
Næst röltum við í búðina AfroZone, þar sem má finna „ ... afrískar vörur og sérvörur fyrir fólk á Íslandi með dökkt hörund og hár sem getur verið erfitt viðureignar ... “ svo vitnað sé í viðtal við eiganda búðarinnar í Morgunblaðinu árið 2018. Við höfðum báðar heyrt af búðinni sem hefur getið sér gott orð og á sér, ef marka má orð götunnar, marga fastakúnna, en því miður var eigandinn ekki við svo við gátum ekki fengið leyfi til að grennslast frekar fyrir í versluninni. En hún var full af áhugaverðum vörum, þarna sáum við háraliti, matvæli og trommur, svo eitthvað sé nefnt. Við sammæltumst um að gera okkur fljótt aftur ferð í Hólagarð til að skoða hana í makindum.
Andspænis AfroZone er ekki síður girnileg búð. Nefnilega kjötbúð með kjötvörur unnar með pólskum aðferðum. Búðin er svo sprengfull af girnilegu kjöti og allrahanda pylsum að myndrænt minnir hún á orðið Gósenland.
Við afgreiðsluborðið stóð kona og afgreiddi með vinalegu öryggi. Hún veigraði sér við að tala um búðina við okkur, en brosti blíðlega þegar hún beindi samtalinu til vinar síns sem var hlýlegur en vildi ekki láta nafn síns getið. Hann útskýrði fyrir okkur að í kjötvörunum byggi bragð æskunnar í Póllandi, kjötvörurnar væru unnar með gamalgrónum aðferðum sem hún þekkti frá blautu barnsbeini; þetta væru hefðbundnar pólskar fjölskylduuppskriftir. Sama gildir um þessa búð og aðrar sem við heimsóttum að viðskiptavinirnir eru tryggir. Að vísu urðu nokkur afföll í kóvidbylgjunni nú síðast í nóvember, en brátt líður senn að jólum og ef að líkum lætur fer fólk að gera sér sérstaka ferð í góða kjötbúð. Okkur fannst aldeilis fengur í framboðinu þarna, þessi búð var sannkölluð uppgötvun og kallar á fleiri heimsóknir.
Viðskiptavinur á ferð
Í Hólagarði eru þó nokkur fyrirtæki til viðbótar, þarna er margt að sjá og girnast. Við höfðum ekki tíma til að fara á fleiri staði, en á leiðinni út rákumst við á góðkunningja annarrar okkar. Sá býr í grenndinni, heitir Þórlindur og starfar sem yfirþjónn á Vinnustofu Kjarvals í Austurstræti. Við röbbuðum aðeins við hann sem sagðist vera búinn að búa í Haukshólum síðustu fjögur árin og virtist hinn ánægðasti.
„Það er búin að vera mikil bæting á umhverfinu hér síðustu árin,“ sagði hann. „Ekki eins mikið af glæpum, listaverk skreyta blokkirnar og ungt fólk er að flytja hingað og kaupa íbúðir. Hér hefur mikið breyst bara á þessum fjórum árum. Alveg fullt af skemmtilegum verslunum, eins og til dæmis AfroZone, og hægt að fá svo margt skemmtilegt, mjög mikið úrval. Hér er fólk af mörgum þjóðarbrotum og það býður upp á meira úrval. Ég bjó áður í Svíþjóð, í Gautaborg, og umhverfið hér minnir mig á það. “
Já, í Hólagarði má aldeilis finna jólagjafir, sagði önnur okkar – eða var það hin? – þegar við kvöddum Þórlind. Og það eru orð að sönnu, þarna má jú líka kaupa í jólamatinn! Og fá sér jólabjór á Álfinum! Í þessum líflega verslunarkjarna leynist allt á milli himins og jarðar. Vonandi verður raunin sú í framtíðinni, þrátt fyrir ástandið. Kannski við getum gefið okkur það sjálfum í jólagjöf að kaupa gjafirnar hjá smávörukaupmönnum sem þessum og stuðla þannig að því að við getum notið verslunarmenningar eins og hún gerist best. Margt vitlausara en að gefa skemmtilegt samfélag í jólagjöf.
Lesa meira
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
31. desember 2022WHO ýtir enn og aftur við Kínverjum – Nauðsynlegt að fá nýjustu gögn um COVID-bylgjuna
-
31. desember 2022Endalok COVID-19 – Eða hvað?
-
21. desember 2022Núll-stefnan loks frá og COVID-bylgja á uppleið
-
6. desember 2022Mikill veikindavetur framundan
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
27. ágúst 2022„Skunkurinn í lautarferðinni“ yfirgefur Hvíta húsið
-
21. júlí 2022Veruleg styrking rannsókna á kynferðisbrotum
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum