Syðst í Póllandi er nú safn til minningar um helför gyðinga í Seinni heimstyrjöldinni. Staðurinn þjónaði tilgangi aðal púslsins í „lokalausninni á gyðingavandamálinu“ allt stríðið og er talið að þar hafi 1,1 milljón manns verið aflífaðir á hrottafenginn hátt í steinsteyptum gasklefum eða látist úr næringarskorti og vosbúð.
Lestarteinarnir sem leiddu fólk til slátrunar í Auschwitz-Birkenau. Beggja vegna lestarteinanna stóðu svefnskálar fanganna þar sem þeir lágu, margir til dauðadags.
Í þessum stærstu útrýmingarbúðum nasista var fólki trillað inn um hliðið undir varðturninum í smekkfullum lestarvögnum sem komu hvaðanæfa að úr Evrópu. Fólkið um borð hafði verið skilið frá fjölskyldum sínum og vinum, til þess að vera tekið af lifi á afskektum stað. Allt vegna þess að ráðandi öflum fannst það ekki standast tilbúnar hugmyndir um mannkynið.
Í dag eru 70 ár liðin síðan Sovétmenn frelsuðu eftirlifandi fanga úr Auschwitz-útrýmingarbúðunum sem hér er lýst að ofan. Við þau tímamót er rétt að minnast hatursins sem leiddi til þess að um það bil sex milljónir gyðinga létu lífið. Sumir sagnfræðingar hafa gengið lengra og sagt fimm milljón manns til viðbótar hafa orðið fórnarlömb helfararinnar, án þess að hafa verið af semískum uppruna.
Niðurlæging og hörmungar
Mikilvægur þáttur helfararinnar var sú niðurlæging sem gyðingar þurftu að upplifa. Strax og Þjóðverjar réðust inn í Pólland 1939 var gyðingum skipað að flytja í gettó, sem síðar voru girt af frá öðrum hverfum borganna. Þýskir gyðingar voru fluttir til Póllands þar sem Þjóðverjar réðu.
Þegar Þjóðverjar hófu stríð við Sovétríkin 1941 hófu nasistar að úrýma gyðingum. Gyðingum í sovéska hernum sem Þjóðverjar tóku til fanga var skipað að grafa djúpa skurði sem áttu eftir að verða fjöldagrafir þeirra og fleiri gyðinga.
Stormsveitum Heinrich Himmlers var síðar sama ár skipað að útbúa áætlun sem síðar fékk nafnið „Lokalausnin á gyðingavandamálinu“. Þar lék Auschwitz lykilhlutverk. Flestir sem fluttir voru til Auschwitz voru teknir af lífi strax en fáeinir voru teknir til fanga og látnir svelta og vinna til dauða á skipulagðan hátt í fangabúðunum Auschwitz I.
Hliðið inn i Auschwitz-vinnubúðirnar er fyrir löngu orðið frægt. Þar stendur á þýsku: „Arbeit macht frei“, sem íslenskast sem „Vinnan frelsar“.
Til minningar um grimmd mannsins
Í Auschwitz er nú safn um helförina til minningar um fólkið sem þar lést vegna annarlegra hugmynda og hrottaskaps nasista. Í visarverum fanganna í Auschwitz I er búið að endurinnrétta til að hýsa ýmsa muni.
Safngestir eru leiddir þar um til að sjá holurnar í aftökuveggnum eftir byssuskotin sem geiguðu, hár sem rakað var af föngunum liggur í glerbúri og töskum fólksins sem svipt hafði verið réttinum til lífs hefur verið verið staflað.
Það er átakanlegt að ganga um safnið og upplifa óumflýjanlegar tilfinningar. Töskurnar, sem dæmi, eru flestar merktar með krít. Eigendur þeirra hafa teiknað Davíðsstjörnu á töskurnar og nöfnin sín sem gerir hryllinginn enn persónulegri. Þar áttar maður sig á hryllingnum fyrir alvöru. Grunlaust fólkið vonaði að eigur þeirra rötuðu aftur í hendur þeirra, einhverntíma þegar stríðinu og ofsóknunum lyki.
Nasistar ráku margar útrýmingarbúðir eins og í Auschwitz-Birkenau. Auschwitz var þó lang afkastamest, ef svo má að orði komast, því þar létust fimmtungur allra þeirra sem myrtir voru í helförinni. Víða hefur þessum stöðum verið breytt í söfn, til minningar um þá sem létust og til að fyrirbyggja að slíkt geti nokkurstaðar gerst aftur.
Hér að neðan má líta myndir frá Auschwitz-búðunum.
Loftmynd sem breski flugherinn tók af Auschwitz-Birkenau sumarið 1944. Neðarlega á myndinni má sjá brautarteinana sem fluttu fólk hvaðanæfa að úr Evrópu til aftöku. Varðturninn er hægramegin við svæðið en við enda teinanna eru gasklefar beggja vegna brautarinnar. Vinstramegin á myndinni má svo sjá hvar þéttur hvítur reykur stígur úr reykháfum líkbrennslunnar.
Horft yfir svæðið eins og það lítur út í dag. Búið að rífa nær alla skálana á svæðinu en tveir skálar standa enn næst innganginum á svæðið. Það er klósettskáli og svefnskáli. Allar lestirnar, fermdar fólki, runnu inn á svæðið undir varðturninn fyrir miðri mynd. Við enda teinanna voru gasklefarnir en þá er búið að leggja í rúst, til virðingar við hina látnu.