Barón og eigendur Ófeigsfjarðar sýknaðir í landamerkjamáli
Ítalskur barón. Landanáma og Jarðabók Árna og Páls. Þrælskleif, Drangaskörð og Hrollleifsborg. Vörður og vatnaskil. Allt þetta og fleira kúnstugt kemur við sögu í dómi sem féll í Reykjavík í gær. Dómi sem tengist harðvítugum deilum um áformaða virkjun í víðernum Vestfjarða.
Hvaða jörðum tilheyrir vatnið sem nýtt yrði til að knýja túrbínur Hvalárvirkjunar ef af henni yrði? Um þetta snerist í grunninn dómsmál sem meirihluti eigenda eyðijarðar í Árneshreppi á Ströndum höfðaði og niðurstaða er nú komin í. Og hún er þeim ekki í vil. Ítalskur barón, Felix Von Longo-Liebenstein, getur hins vegar fagnað og þá jafnvel skálað í víni úr smiðju fjölskyldu sinnar.
Deilt var um landamerki á sögulegum slóðum. Fjarða, víka, heiða, áa, fossa og heiðarvatna – jarða sem koma við sögu í sjálfri Landnámu. Jarða undan Drangajökli sem bræðurnir Eyvindur, Ingólfur og Ófeigur Herröðarsynir námu við upphaf Íslandsbyggðar og kenndar eru við þá.
En það voru eigendur annarrar landnámsjarðar, Drangavíkur, sem tóku sig saman og höfðuðu málið enda töldu þeir land forfeðra sinna annað en það sem birt var á kortum sem stuðst var við á skipulagsuppdráttum Árneshrepps og í áætlunum um virkjun á Ófeigsfjarðarheiði: Hvalárvirkjun.
Sá sem nam land í Drangavík var Þorvaldur Ásvaldsson. Síðustu ábúendur pökkuðu saman föggum sínum árið 1947 og lagðist jörðin þá í eyði. Hún hefur síðustu áratugi verið nytjuð til reka, selveiða og dúntekju. Ekkert íveruhæft hús er lengur á takmörkuðu láglendinu undir Drangavíkurfjalli. Einu húsin, ef hús má kalla, eru skjólhúsin smáu yfir hreiðrum æðarkollanna á skerjunum undir hinum hrikalegu Drangaskörðum sem rísa eins og vígtennur upp úr Norður-Íshafinu.
Norðan Drangaskarða eru Drangar, jörð sem nú hefur verið friðlýst, en næstu jarðir sunnan Drangavíkur eru Engjanes í Eyvindarfirði og Ófeigsfjörður. Á þeirri síðarnefndu er enn búið á sumrin og það er á heiðinni ofan hennar, Ófeigsfjarðarheiði, sem áformað er að virkja þrjár ár sem myndi hafa áhrif á rennsli í fossum er bera nöfn á borð við Rjúkandi og Drynjandi.
Minnihlutinn stendur með barón
En rennur ein þessara áa, Eyvindará, um land Engjaness, jörð ítalska barónsins, eða Drangavík?
Drangavík, segja 74,5 prósent eigendanna, tólf manns, sem vildu fá það viðurkennt fyrir dómstólum að landamerki Drangavíkur væru eins og þeir túlka lýsingar í landamerkjabréfum frá árinu 1890. 25,5 prósent eigendanna, þrjár systur og ein kona til, voru hins vegar á öðru máli og tóku undir gagnkröfur barónsins. Um að mörk jarðanna séu eins og þau eru dregin upp á skipulagsuppdráttum sveitarfélagsins í seinni tíð. Þessi ósamstaða eigendanna flækir málin, líkt og Kristrún Kristinsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, fjallar um í niðurstöðu sinni. Því ef kröfur eigenda óskiptrar eignar eru ósamrýmanlegar verða þeir sem málið höfða að sýna fram á með óyggjandi hætti að krafa gagnaðila, barónsins í þessu tilviki, sé röng. Og það tókst þeim ekki að mati dómarans.
Meirihluti eigenda Drangavíkur telja að þegar jörðin hafi ásamt Dröngum verið numin á landnámsöld hafi landnámið náð til vatnaskila á Drangajökli. Engar vísbendingar eða skriflegar heimildir séu um annað. Í þeim tilvikum sem öðrum heimildum sé ekki til að dreifa hafi almennt verið litið svo á að land hafi verið numið milli fjalls og fjöru. Því megi álykta að lönd landnámsmanna á Ströndum hafi náð frá hábungu á vatnaskilum í vestri og til sjávar.
Hópurinn benti á að Engjanes hafi verið eyðijörð um aldir, sé ekki eiginleg landnámsjörð heldur hafi fengið land frá Drangavík og Eyvindarfirði. Þeir lögðu fram margvísleg gögn, sum mörg hundruð ára gömul, máli sínu til stuðnings. Þannig bentu þeir á ummæli í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 þar sem segi að Engjanes „kann eigi að byggjast nema sá í Drangavík hafi það með“. Bendi það til þess að þar hafi verið „vesælt og landlítið kot“. Það sé einnig staðfest í fleiri gögnum.
Um jörðina segi til dæmis í gögnum um úttektir kirkna og staða í Mýraprófastsdæmi árið 1707: „... Eynginesi ä Stróndum Sem Vm nockur är hefur verid i Eydi og Stafholltz presti Ägödalaus“. Í jarðamati Strandasýslu frá 1804 segi svo að jörðin hafi verið í eyði frá 1740 og að þar þrífist engar skepnur.
Landamerkjabréfin svonefndu, sem eru meðal helstu gagna í málinu, hafi verið öruggar heimildir síns tíma, séu þinglýstar heimildir fyrir eignarrétti. Eftir skráningu landamerkjabréfanna á jörðunum þremur árið 1890 hafi engir samningar verið gerðir sem breyti merkjunum.
Eigendurnir tólf segja að fyrsti uppdráttur þeirra merkja Drangavíkur og Engjaness sem stuðst sé við í skipulagsuppdráttum Árneshrepps og hjá framkvæmdaaðilum Hvalárvirkjunar hafi verið gerður árið 2002 í tengslum við svokallað Nytjalandsverkefni. Tilgangur þess hafi verið að safna upplýsingum um bújarðir og skrá þær í gagnagrunn. Grunninum hafi ekki verið ætlað að vera heimild um landamerki. Við vinnslu verkefnisins hafi verið aflað heimilda hjá ábúendum og eigendum jarða en enginn eigenda Drangavíkur hafi verið spurður.
Þeir bentu ennfremur á að Engjanes hefði nánast verið kot út frá landnámsjörðinni Drangavík, hún hafi verið „óbyggileg eyðijörð í ómunatíð“. Því sé fráleitt að ætla að eigandi Drangavíkur og/eða Eyvindarfjarðar hafi látið þann sem fékk Engjanes eiga land úr landnáminu upp á hálendið, miklu frekar að hann hafi úthlutað nýju jörðinni hlíðinni fyrir ofan ströndina eins og landamerkjabréfið beri með sér.
Segja Þorvald hafa komið á eftir Eyvindi
Sama fjölskyldan hefur átt jörðina Ófeigsfjörð í um tvær aldir. Forsvarsmenn Vesturverks, fyrirtækisins sem áformað hefur Hvalárvirkjun síðustu ár, keyptu hluta hennar fyrir nokkru. Þeir eru því meðal þeirra sem stefnt var í landamerkjamálinu. Bæði eigendur Ófeigsfjarðar og eigandi Engjaness sömdu á sínum tíma við Vesturverk um vatnsréttindi vegna virkjunarinnar.
Eigendur Ófeigsfjarðar taka undir kröfur ítalska barónsins. Þeir segja líklegt að Eyvindur hafi numið land á undan Þorvaldi. Hefði Þorvaldur komið fyrr hefði hann væntanlega kosið að hafa Eyvindará að landamerkjum. Land Drangavíkur hafi lítið breyst allt frá landnámsöld. Útlegging eigendahópsins á stærð landnáms Þorvaldar samræmist ekki texta Landnámu og kenningum fræðimanna sem rýnt hafi í það verk.
Óskhyggja og rangtúlkun
Engjanes var um aldir í eigu kirkjunnar í Stafholti í Borgarfirði, að minnsta kosti frá árinu 1140. Árið 1958, er jörðin var komin í ríkiseigu, var hún seld Guðjóni Guðmundssyni hreppstjóra Árneshrepps. Guðjón arfleiddi Ólaf Ingólfsson að jörðinni og hann seldi ítalska baróninum hana svo árið 2006.
Baróninn og eigendur Ófeigsfjarðar telja að málatilbúnaður meirihluta eigenda Drangavíkur einkennist af „óskhyggju og rangtúlkun“ eða „valkvæðri túlkun á heimildum“.
Benda þeir máli sínu m.a. til stuðnings á kort danska herforingjaráðsins en á þeim megi „glöggt sjá“ hvernig kortagerðarmenn dragi upp vatnasvið Eyvindarárinnar. Ekkert stöðuvatn í líkingu við Efra- og Neðra-Eyvindarfjarðarvatn sé hins vegar að finna á kortunum, vatna sem „hefðu vart farið framhjá mönnum hefðu þau á annað borð verið þar“. Sem sagt: Að vötnin sem Eyvindará rennur úr í dag hafi ekki myndast fyrr en síðar. Það setji túlkun eigendahóps Drangavíkur á landamerkjabréfunum frá árinu 1890 í annað ljós.
Mælingamenn herforingjaráðsins hafi verið á ferðinni á Ströndum sumarið 1914. Stöðuvötnin hafi líklega ekki farið að myndast fyrr en minnkaði í upptakakvísl úr Drangajökli við hop hans. Myndun og nafngift stöðuvatnanna eigi sér því ekki stað fyrr en eftir árið 1914.
Ágreiningur um upptökin
Eigendahópurinn sem höfðaði málið viðurkenni að landamerki Ófeigsfjarðar og Engjaness séu Eyvindarfjarðará frá upptökum til ósa, en ágreiningurinn snúist um hvar upptökin séu. „Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að Eyvindarfjarðará eigi upptök sín á vatnaskilum við Djúp og áður hafi meginupptakakvísl hennar runnið úr Drangajökli og geri jafnvel enn.“
Ekkert geti rökstutt það að við úrlausn málsins verði miðað við önnur landamerki „en þau sem til þessa hafi verið talin gilda,“ segir í rökum eigenda Engjaness og Ófeigsfjarðar. Ekki verði byggt á gagni sem stefnendur hafi aflað „einhliða og án vitundar eigenda 25,5% hlutar í Drangavík sumarið 2019 og gefi til kynna allt önnur landamerki sem margfaldri stærð jarðarinnar“.
Þrjár systur
25,5 prósent eigenda Drangavíkur eru fjórir einstaklingar, m.a. þrjár systur sem hlutu hluta jarðarinnar í föðurarf og segjast í uppvexti sínum hafa komið þangað á sumrin til að aðstoða við nýtingu rekans. Systurnar segjast alla tíð hafa vitað að Drangavík væri lítil, aðeins víkin og landið upp af henni. Það hafi því komið flatt upp á þær er þær sáu fréttir í fjölmiðlum um að sumir eigendur jarðarinnar teldu sig eiga „víðfeðmi lands langt upp að jökli“. Þetta telja systurnar rangt. Málshöfðun meirihluta eigendanna hafi verið í þeirra óþökk.
Með stefnunni telja systurnar að vegið sé að heiðarleika þeirra og æru föður, afa og frænda „sem aldrei hafi talið sig eiga þetta land og hafi sýnt það í orði og verki“.
Snúin niðurstaða
Samkvæmt lögum um meðferð einkamála eiga þeir óskipta aðild að máli sem saman bera óskipt réttindi eða skyldu, segir í upphafi rökstuðnings dómarans. Vísa beri máli frá dómi ef þeim sem bera óskipta skyldu er ekki öllum veittur kostur á að svara til sakar eða ef þeir sem eiga óskipt réttindi sækja ekki mál í sameiningu. Þetta lagaákvæði eigi við í málinu að því leyti að eigendur fjórðungs hlutar Drangavíkur taki ekki þátt í málsókninni.
Í lögum um meðferð einkamála er svo fyrir mælt að séu kröfur eða yfirlýsingar þeirra sem eiga óskipta aðild ósamrýmanlegar skuli telja aðilana alla bundna við þá kröfu eða yfirlýsingu sem er gagnaðila hagkvæmust. Í þessu tilfelli er það eigandi Engjaness. Á þessu er þó undantekning ef sýnt þykir að krafa gagnaðila sé röng eða byggð á skorti á vitneskju um málsatvik.
Í landamerkjamálinu taka sameigendurnir fjórir „í einu og öllu“ undir kröfur eiganda Engjaness, segir dómarinn. „Eru kröfur þeirra sem eiga óskipta samaðild því ósamrýmanlegar“ og ekki hægt að telja að minnihluti eigenda Drangavíkur hafi skort vitneskju um atvik málsins.
Eigendahópur Drangavíkur sem höfðaði málið hafi því þurft að sýna fram á að landamerkin sem stuðst er við á skipulagsuppdráttum sveitarfélagsins og í gögnum framkvæmdaaðila Hvalárvirkjunar séu sannarlega röng.
Hvar endar fjallsbrún?
Ágreiningslaust er að landamerki jarðanna Engjaness og Drangavíkur liggja frá sjó eftir fjallsbrún Drangavíkurfjalls, en inn til landsins er verulegur ágreiningur um landamerkin, bendir dómarinn á. Allir aðilar málsins hafi einnig verið sammála um að leggja bæri þinglýst landamerkjabréf frá árinu 1890 til grundvallar landamerkjum. En túlkun þeirra á lýsingum í bréfunum var ólík.
Dómarinn segir landamerkjabréf Drangavíkur um mörk gagnvart Engjanesi og landamerkjabréf um Engjanes um mörk gagnvart Drangavík séu þó ekki afgerandi um jarðamörkin inn til landsins. „Hér er deilt um það hvar fjallsbrúnin endar og hvaða stað sé átt við í Eyvindarfjarðará, sem ræður svo merkjum til sjávar milli Engjaness og Ófeigsfjarðar,“ segir í niðurstöðu dómsins. Hvort það sé þá við upptök árinnar í kvíslum uppi á heiðinni eða við ána þar sem hún rennur í fossi niður gljúfur úr Eyvindarfjarðarvatni. Þann stað vill eigendahópur Drangavíkur miða við. Ítalski baróninn og eigendur Ófeigsfjarðar telja á hinn bóginn upptök árinnar vera ofan vatnsins í tveimur kvíslum.
Dómarinn telur kort herforingjaráðsins frá 1914 styrkja túlkun eigenda Engjasels og Ófeigsfjarðar á landamerkjabréfum jarðanna. Fleiri gögn renna að mati dómarans frekari stoðum undir það. „Að því marki sem stefnendur vísa til sömu gagna hafa þeir að mati dómsins ekki fært sannfærandi rök fyrir túlkun sinni á þeim heimildum.“
Svo segir: „Að virtum aðstæðum á vettvangi og að teknu tilliti til allra gagna málsins telur dómurinn að sú lýsing í óumdeildu landamerkjabréfi Engjaness að landamerki fylgi hæstu fjallsbrún sé fremur í samræmi við það sem [eigandi Engjaness] og [eigendur Ófeigsfjarðar] halda fram.“
Dómurinn kemst því að þeirri niðurstöðu að eigendahópnum sem höfðaði málið hafi ekki tekist að sýna fram á að kröfur eiganda Engjaness, sem sameigendur þeirra að Drangavík tóku undir, séu rangar.
Og niðurstaðan: Allir stefndu, eigendur jarðanna Engjaness og Ófeigsfjarðar, eru sýknaðir af kröfum eigendahóps Drangavíkur og viðurkennt er að landamerkin séu líkt og þau birtast á skipulagsuppdráttum sveitarfélagsins – þau sömu og virkjunaraðilinn Vesturverk dregur upp í áformum sínum um Hvalárvirkjun.
12,4 milljónir í málskostnað
Eigendahópurinn sem höfðaði málið þarf að greiða stefndu 12,4 milljónir í málskostnað samkvæmt niðurstöðu dómsins. Felix Von Longo-Liebenstein og eigendum Ófeigsfjarðar eiga þeir að greiða 8,4 milljónir, konunum fjórum sem eiga Drangavík með þeim 3 milljónir og íslenska ríkinu 1 milljón.
Hægt er að áfrýja dómnum til Landsréttar innan fjögurra vikna. Lögmaður meirihluta eigenda Drangavíkur sagði í gær að ákvörðun um hvort það yrði gert lægi enn ekki fyrir.
Lesa meira
-
6. júlí 2022Barón og eigendur Ófeigsfjarðar sýknaðir í landamerkjamáli
-
10. maí 2022Rannsóknir vegna Hvalárvirkjunar „áfram á fullu“
-
9. desember 2021Hvað er svona merkilegt við þessa Dranga?
-
7. desember 2021Rannsóknarleyfi Hvalárvirkjunar útrunnið
-
19. september 2020Megi sú hönd visna
-
14. september 2020Auður Árneshrepps
-
4. september 2020Stjórnarformaður Vesturverks: Hægt að bæta afhendingaröryggi án Hvalárvirkjunar
-
7. maí 2020Vesturverk segir upp starfsfólki og lokar skrifstofunni
-
17. apríl 2020Vesturverk: Við höldum okkar striki
-
17. apríl 2020Höfða landamerkjamál á Ströndum sem gæti sett áform um Hvalárvirkjun í uppnám