Bjarni Benediktsson lifir af enn ein pólitísku endalokin
Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki náð inn í ríkisstjórn eftir nýafstaðnar kosningar töldu margir að tími Bjarna Benediktssonar á formannsstóli væri liðinn. En nú er hann, eftir tólf og hálft ár á formannsstóli, að mynda fjórðu ríkisstjórn sína. „Teflon-maðurinn“ hefur gengið í gegnum hæðir og lægðir, séð fylgi flokksins skreppa saman, komið sjálfum sér í vandræði, staðist atlögur samherja og andstæðinga, en alltaf lent á fótunum.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins í könnun Gallup sem birtist sex dögum fyrir nýliðnar kosningar mældist 21,2 prósent. Fylgi flokksins hefur einungis einu sinni mælst lægra í könnunum fyrirtækisins, í könnun sem birt var 30. nóvember 2008, nokkrum vikum eftir bankahrunið, þegar það mældist 20,6 prósent. Nokkrum mánuðum síðar hlaut Sjálfstæðisflokkurinn sína verstu útreið í kosningum í sögu hans, og endaði í stjórnarandstöðu í fyrsta sinn í 18 ár.
Hann komst aftur til valda 2013 og hefur síðan þá, einn flokka, verið samfellt í ríkisstjórn. Kannanir í aðdraganda kosningana sem fóru fram um síðustu helgi bentu um margt til þess að það gæti breyst. Ef sú staða sem birtist í Gallup-könnuninni tæpri viku fyrir kosningar hefði raungerst, og flokkurinn endað í stjórnarandstöðu, hefði það sennilega leitt til endaloka formannsferils Bjarna Benediktssonar.
En líkt og svo oft áður breytti Sjálfstæðisflokkurinn stöðunni á síðustu metrunum. Fylgið endaði í 24,4 prósent og flokkurinn tapaði fyrsta þingmanni í tveimur kjördæmum, en hélt sama þingmannafjölda og ríkisstjórnin sem hann á aðild að bætti við sig þingstyrk.
Á nokkrum dögum breyttist staðan úr því að geta leitt af sér pólitísk endalok fyrir formanninn, í að nær öruggt þykir að Bjarni sé að fara að mynda sína fjórðu ríkisstjórn.
Tók við formennsku á erfiðum tíma
Formannsferill Bjarna hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Hann tók við Sjálfstæðisflokknum 39 ára gamall í mars 2009, nokkrum mánuðum eftir áðurnefnda Gallup-könnun sem sýndi flokkinn í sögulegum vandræðum. Bjarni sigraði þá hinn eldri og reyndari Kristján Þór Júlíusson í formannsslag á landsfundi. Bjarni fékk 58 prósent atkvæða en Kristján Þór 40,4 prósent.
Hans fyrsta stóra verkefni var að leiða flokkinn í gegnum kosningar um mánuði síðar. Niðurstaða þeirra varð, líkt og áður sagði, sú versta í sögu Sjálfstæðisflokksins, 23,7 prósent atkvæða.
Þar skipti tvennt mestu máli. Í fyrsta lagi að Sjálfstæðisflokknum var kennt um að hafa skapað það umhverfi sem leiddi til bankahrunsins með veikingu eftirlits, fleytingu krónunnar og einkavæðingu bankakerfisins. Fortíð Bjarna í viðskiptalífinu – þar sem hann var stórtækur til loka árs 2008 – hjálpaði ekki til.
Í öðru lagi var greint frá því í fjölmiðlum, skömmu eftir að Bjarni tók við sem formaður, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið við styrkjum upp á 50 milljónir króna frá útrásarfjárfestingafélaginu FL Group, þá aðaleigenda Glitnis, og Landsbanka Íslands, seint á árinu 2006. Þeir styrkir hafa enn ekki verið endurgreiddir í dag, 15 árum eftir að þeir voru veittir, þrátt fyrir vilyrði um að það yrði gert.
Líkt og við var búist skilaði niðurstaðan í kosningunum 2009 flokknum í stjórnarandstöðu gegn fyrstu hreinu, tveggja flokka vinstristjórn lýðveldissögunnar. Þetta var í fyrsta sinn síðan 1991 sem flokkurinn var í þeirri stöðu að stýra ekki landinu.
Atlaga að innan
Í aðdraganda kosninganna 2013 hélt Sjálfstæðisflokkurinn landsfund og þar fékk Bjarni óskorað umboð, þegar hann var endurkjörinn sem formaður með 80 prósent atkvæða. Halldór Gunnarsson í Holti, sem boðið hafði sig fram gegn Bjarna fékk einungis tvö prósent atkvæða en Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, sem var ekki í formannsframboði, fékk samt sem áður 19 prósent atkvæða.
Það óskoraða umboð entist ekki lengi. Sjálfstæðisflokkurinn mældist dapurlega í aðdraganda kosninganna 2013 og margir flokksmenn voru farnir að sjá fyrir sér fjögur ár til viðbótar utan ríkisstjórnar sem raunverulegan möguleika. Á þessum tíma sveiflaðist fylgið úr 19 í um 23 prósent í sumum könnunum og allt stefndi í nýtt lágfylgismet.
Þann 11. apríl birti Viðskiptablaðið niðurstöður skoðanakönnunar þar sem kom fram að mun fleiri sögðust reiðubúnir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður flokksins, væri formaður í stað Bjarna Benediktssonar. Sama kvöld sat Bjarni fyrir svörum í Forystusætinu, kosningaþætti á RÚV. Þar var hann spurður út í þessa skoðanakönnun.
Íhugaði stöðu sína sem formanns
Bjarni sagði að hann hefði aldrei kveinkað sér undan árásum andstæðinga sinna og að sér hefði aldrei komið til hugar að hætta sem formaður þess vegna. Það væri hins vegar erfiðara að takast á við gagnrýni innan flokksins. Hann sagði það augljóst að könnuninni væri beint gegn sér og að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem könnun sem þessi birtist í Viðskiptablaðinu, sem væri í eigu fyrrverandi kosningastjóra Hönnu Birnu og þar væri starfsmenn sem styddu Hönnu Birnu. Þar átti hann við Pétur Árna Jónsson, eiganda blaðsins, og Gísla Frey Valdórsson, þáverandi blaðamann þess sem síðar varð aðstoðarmaður Hönnu Birnu í innanríkisráðuneytinu. Könnunin hafi þó fengið Bjarna til að velta hlutunum fyrir sér og íhuga sína stöðu sem formanns.
Í viðtalinu ræddi Bjarni einnig heiðarlega stöðu flokksins í skoðanakönnunum svona skömmu fyrir kosningar. „Þetta fylgistap er okkur mjög mikið áhyggjuefni og fyrir mig persónulega mikil vonbrigði vegna þess að flokkurinn hafði verið með um 30 prósent og yfir frá miðju ári 2010, alveg fram í febrúar á þessu ári[...]Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað mjög miklu fylgi á mjög skömmum tíma og ég held að það sé blanda af mörgum þáttum og ég skal alls ekki taka sjálfan mig út úr þeirri mynd. En ég bendi á að ég hef verið formaður í fjögur ár og að jafnaði hefur fylgið verið langt um meira en það er í dag,“ sagði Bjarni. „Ég hef áhyggjur af fylgi flokksins, ég vil allt gera til að auka það.“
Í framhaldinu sagðist Bjarni ekki vera búinn að taka ákvörðun um afsögn en útilokaði hana ekki. „Í dag verð ég að játa, í þessari krísu sem flokkurinn er í, að ég get ekki útilokað neitt.“
Sama dag, þann 11. apríl 2013, birti Gallup nýjustu skoðanakönnun sína. Þar mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 22,2 prósent 16 dögum fyrir kosningar.
Vítamínssprauta sem skilaði flokknum í ríkisstjórn
Á endanum varð Forystusætis-viðtalið, þar sem Bjarni virtist nánast beygja af um tíma, vítamínsprauta fyrir kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins. Hann afréð að halda áfram sem formaður og flokkurinn fékk á endanum 26,7 prósent atkvæða, 19 þingmenn og gat myndað tveggja flokka ríkisstjórn með Framsóknarflokknum, sem vann mikinn kosningasigur vorið 2013.
Svo komu Panamaskjölin sem leiddu til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, neyddist til að segja af sér vegna þess að hann hafði átt aflandsfélagið Wintris og sagt ósatt í viðtali sem tekið var við hann vegna þess. Inni í félaginu voru að minnsta kosti á annan milljarð króna og Wintris átti kröfur upp á mörg hundruð milljónir króna í bú föllnu bankanna, sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafði unnið að því að semja um.
Skjölin sýndu líka að Bjarni hefði átt þriðjungshlut í félaginu Falson&Co. sem skráð var á Seychelles-eyjum. Þær eyjar eru þekkt skattaskjól. Bjarni átti hlut í félaginu vegna fasteignaviðskipta í Dubai sem hann tók þátt í árið 2006. Falson-hópurinn gekk út úr viðskiptunum árið 2008 og ári seinna var félagið gert upp með tapi og Falson sett í afskráningarferli.
Sex af hverjum tíu vildu að Bjarni segði af sér
Staða Bjarna var í lausu lofti í byrjun apríl 2016, eftir að fyrstu fréttir úr Panamaskjölunum voru sagðar. Í könnun Félagsvísindastofnunar, sem gerð var í byrjun apríl 2016, kom fram að 60 prósent landsmanna vildu að Bjarni segði af sér ráðherraembætti vegna aflandsfélagaeignar sinnar.
Á meðan Sigmundur Davíð stóð í ströngu hér á Íslandi, og sagði síðan af sér, missti Bjarni af fluginu sínu úr fjölskyldufríi á Flórída. Ekkert heyrist í honum í fjölmiðlum fyrr en hann var kominn til landsins og á fund forseta Íslands á Bessastöðum. Þá hafði Bjarna tekist að afla sér nógu miklum stuðningi bak við tjöldin til þess að halda velli sem mikilvæg stoð í annars flóknu stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn.
Kosningar voru þó boðaðar um haustið og þegar leið að þeim styrktist staða Sjálfstæðisflokksins jafnt og þétt. Á endanum fékk flokkurinn 29 prósent atkvæða þegar búið að var telja atkvæðin og þingmenn hans urðu 21 talsins. Það er besti árangur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð undir stjórn Bjarna frá því að hann tók við flokknum.
Í fyrsta sinn forsætisráðherra
Staðan var þó áfram flókin. Vegna ýmissa útilokana á samstarfi reyndist afar erfitt að mynda stjórn og þegar leið að jólum var jafnvel viðruð sú hugmynd að fjórflokkurinn gamli: Sjálfstæðisflokkur, Framsókn, Vinstri græn og Samfylkingin, sem hafði næstum dottið út af þingi, myndu slá saman í fordæmalausa stjórn.
Á endanum var þó mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem hafði minnsta mögulega meirihluta á þingi, 32 þingmenn á móti 31 sem sátu í stjórnarandstöðu. Bjarni settist í fyrsta sinn í stól forsætisráðherra.
Á sama tíma og myndun þeirrar stjórnar var á lokametrunum kom í ljós að fjármála- og efnahagsráðuneyti Bjarna hafði setið á tveimur skýrslum, sem fjölluðu annars vegar um aflandsfélagaeign Íslendinga og hins vegar um Leiðréttinguna, tvö stærstu mál þess kjörtímabils sem hófst árið 2013 og lauk haustið 2016, frá því fyrir kosningarnar. Þær voru loks birtar í janúar 2017.
Svandís Svavarsdóttir, þáverandi þingflokksformaður Vinstri grænna, óskaði eftir því skriflega að umboðsmaður Alþingis myndi fjalla um hvort Bjarni hefði brotið gegn 6. grein c siðareglna ráðherra með því að birta ekki skýrslu um aflandsfélög fyrr en nokkrum vikum eftir að hún lá fyrir.
Umboðsmaður tilkynnti síðar um að ekki væri tilefni til að taka til athugunar hvort Bjarni hefði brotið gegn siðareglum ráðherra með því að birta ekki skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum fyrr en raun bar vitni. Ástæðan var fyrst og fremst að Bjarni hafði viðurkennt að það hafi verið mistök af hans hálfu að birta ekki skýrsluna mun fyrr en gert var.
Klaufaskapur og slök dómgreind
Ríkisstjórnin var kynnt til leiks 10. janúar 2017. Benedikt Jóhannesson, þáverandi formaður Viðreisnar, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook að Bjarni hafi ekki sýnt af sér ásetning um feluleik þegar hann ákvað að birta ekki skýrsluna um aflandseignir Íslendinga fyrr en þremur mánuðum eftir að hún var kynnt honum og tæpum fjórum mánuðum eftir að henni var skilað inn til ráðuneytis hans. Eftir að hafa rætt málið við Bjarna telur Benedikt að um hafi verið að ræða klaufaskap og slaka dómgreind. „Það breytir því ekki að mín skoðun (og allra í þingflokknum) er sú að hann hefði átt að birta skýrsluna strax og hann fékk hana í hendur.“
Samstarfið reyndist erfitt og flokkarnir sem stóðu að henni voru ítrekað ósammála um stór málefni. Ágreiningur skapaðist um Reykjavíkurflugvöll, um hvernig ætti að leysa sjómannaverkfall, áfengisfrumvarp, endurskipun á nefnd um endurskoðun búvörusamninga, jafnlaunavottun og um sölu á hlut í Arion banka til erlendra vogunarsjóða, einkarekstur í heilbrigðis- og menntakerfum, svo fátt eitt sé nefnt. Þeim tókst meira að segja að vera ósammála um lykilforsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Í maí sýndu mælingar að einungis 31,4 prósent landsmanna voru ánægðir með hana.
Við lok vorþings varð svo allt vitlaust þegar Landsréttarmálið knúði litlu flokkanna tvo til að standa við bakið á Sigríði Á. Andersen, þá dómsmálaráðherra, þrátt fyrir að margir innan þeirra hafi í einkasamtölum síðar sagt að þeir hafi haft megna andstyggð á málsmeðferðinni. Hæstiréttur dæmdi síðan í desember 2017 að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún fór gegn mati hæfnisnefndar við skipun dómara við Landsrétt. Enn síðar komst Mannréttindadómstól Evrópu að sömu niðurstöðu.
Uppreist æru sprengir allt upp að nýju
Ríkisstjórnin virtist fegin að sleppa inn í sumarfrí Alþingis sem átti að standa í um þrjá og hálfan mánuð. Fríið varð þó ekki jafn friðsælt og reiknað hafði verið með þegar fjölmiðlar fóru að greina frá því að dæmdir kynferðisbrotamenn hefðu fengið uppreist æru haustið 2016.
Þolendur og aðstandendur þeirra, ásamt fjölmiðlum og þingmönnum stjórnarandstöðu, fóru að kalla eftir gögnum um málin.
Mestur fókus var á tveimur þeirra. Annars vegar uppreist æru Róberts Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, og hins vegar uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Krafist var aðgengis að meðmælabréfum sem skilað var inn þegar mönnunum var veitt uppreist æra, en dómsmálaráðuneytið hafnaði að afhenda gögnin.
Í september komst úrskurðarnefnd um upplýsingamál síðan að þeirri niðurstöðu að þau ættu að verða opinber. Þann 13. september kynnti Benedikt Jóhannesson, þá fjármála- og efnahagsmálaráðherra, fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Daginn eftir sendi Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar þá forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, frá sér yfirlýsingu þar sem hann gekkst við því að vera einn þeirra sem skrifuðu undir meðmælabréf með uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Dómsmálaráðherra greindi frá því síðar sama dag að hún hefði greint Bjarna frá því í júlí að faðir hans væri á meðal meðmælenda Hjalta, en á þeim tíma fengu aðrir ekki upplýsingar um málið.
Skömmu eftir miðnætti 15. september 2016 tók stjórn Bjartrar framtíðar þá ákvörðun að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu vegna alvarlegs trúnaðarbrests. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar reyndist því skammlífasta meirihlutastjórn lýðveldissögunnar. Hún sat í 247 daga.
Boðað var til kosninga í annað sinn á einu ári.
Erfiðar kosningar 2017
Niðurstaða kosninganna var ekki til að gera stöðuna í stjórnmálunum skýrari. Átta flokkar náðu inn á þing og höfðu aldrei verið fleiri. Þáverandi stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir, Vinstri græn, Samfylking, Framsóknarflokkur og Píratar náðu minnsta mögulega meirihluta þingmanna og gátu myndað ríkisstjórn ef þeir vildu. Flokkarnir voru samt sem áður ekki með meirihluta atkvæða á bak við sig, tæplega 49 prósent landsmanna kusu þá.
Ríkisstjórn Bjarna beið afhroð og tapaði tólf þingmönnum. Flokkarnir sem hana mynduðu höfðu 32 þingmenn en voru nú með 20. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði flestum þeirra, eða fimm, og fékk sína næst verstu kosninganiðurstöðu í sögunni og jafnaði sögulegt lágmark sitt í þingmannafjölda á 63 sæta Alþingi.
Í aðdraganda kosninganna gerðist sá fordæmalausi atburður að lögbann var sett á fréttaumfjöllun Stundarinnar að beiðni Glitnis HoldCo, eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis. Umfjöllunarefnið sem lögbannið var sett á: Bjarni Benediktsson, fjölskylda hans og tengsl viðskipta og stjórnmála.
Hin ólíklega stjórn um stöðugleika
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafði sett það á oddinn hjá flokki sínum að komast í ríkisstjórn í aðdraganda kosninga. Hún fékk stjórnarmyndunarumboð hjá forseta Íslands til að mynda stjórn stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra, Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokksins.
Fulltrúar flokkanna hófu formlegar viðræður í byrjun nóvember 2017 en Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins sleit þeim 6. nóvember. Forystumenn hinna flokkanna sem tóku þátt í þeim hafa síðar ásakað Framsókn og Vinstri græn um að hafa sett á fót leikrit. Markmið þeirra hafi aldrei verið að mynda miðju-vinstri stjórn heldur að horfa til Sjálfstæðisflokksins sem samstarfsaðila.
Undir lok nóvembermánaðar lá sú niðurstaða fyrir að mynda þá stjórn. Forsætisráðherra yrði Katrín Jakobsdóttir. Hún yrði þá önnur konan til að gegna því embætti á eftir Jóhönnu Sigurðardóttur og fyrsti formaður Vinstri grænna til að leiða ríkisstjórn.
Stjórnarsáttmálinn bar þess merki að vera málamiðlun þriggja flokka með mjög ólíkar áherslur. Þar af leiðandi var lítið um útfærðar aðgerðir eða skýrar stefnur í honum. Þess í stað var mikill texti í sáttmálanum sem hver flokkur fyrir sig sem á aðild að ríkisstjórninni gat nýtt til að sýna að hann hafi náð helstu áherslum sínum fram. Þeim áherslum varð þó fyrst og fremst náð fram í gegnum þá ráðherrastóla sem hver flokkur fékk í sinn hlut.
Í sáttmálanum var skýrt kveðið á um hvert meginmarkmið ríkisstjórnarinnar væri. Þar stóð að „umfram allt er á kjörtímabilinu lögð áhersla á að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og að aðgerðir tengdar vinnumarkaði skili sér í raunverulegum kjarabótum.“
Flókin verkefni
Ríkisstjórnin tókst á við flókin verkefni. Landsréttarmálið tapaðist fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og Sigríður Á. Andersen var knúin til að segja af sér embætti dómsmálaráðherra í kjölfarið.
Síðan tók við erfitt og langt stríð á vinnumarkaði á sama tíma og annað flugfélag landsins, WOW air, barðist fyrir lífi sínu. Það þurfti þrot þess til að ýta á að hinir svokölluðu lífskjarasamningar voru loks undirritaðir í apríl 2019, en stjórnvöld lögðu til langan loforðalista til að þeir myndu klárast.
Snemma árs 2020 skall svo á kórónuveirufaraldur sem kúventi öllum fyrri áformum ríkisstjórnarinnar og breytti verkefni hennar algjörlega. Heilbrigðisvá sem á sér enga hliðstæðu í nútíma-Íslandi herjaði á og efnahagslegar afleiðingar urðu þær að ríkissjóður verður rekinn í mörg hundruð milljarða króna halla yfir nokkurra ára tímabil vegna lægri tekna og aukinna gjalda sem félli til vegna aðgerða sem ríkissjóður borgar fyrir.
Bjarni kom sér í vanda á Þorláksmessu 2020 þegar hann var viðstaddur viðburð í Ásmundarsal þar sem grunur var um að sóttvarnarbrot hefði verið framið. Hann baðst afsökunar og forsætisráðherra tjáði Bjarna óánægju sína um málið en fór ekki fram á afsögn hans.
Tæp staða skömmu fyrir kosningar
Í ágúst 2021, rúmum mánuði fyrir kosningar, virtist staða Sjálfstæðisflokks og ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur ágæt. Hún var fyrsta ríkisstjórnin sem hefur setið heilt kjörtímabil sem meirihlutastjórn á Íslandi frá árinu 2007. Þrátt fyrir að tveir þingmenn Vinstri grænna hafi gengið úr skaftinu á kjörtímabilinu og stefnumál flokkanna þriggja sem hana mynduðu virtust á pappír mörg hver vera ósamrýmanleg þá tókst að halda samstarfinu saman, meira að segja í gegnum veirufaraldur.
Í kosningaspá Kjarnans mældust flokkarnir þrír með næstum 49 prósent samanlagðan stuðning seint í ágúst og um 60 prósent líkur á að geta haldið meirihluta. Þegar leið á kosningabaráttuna breyttist þessi staða skarpt og tveimur dögum fyrir kosningar var hún þannig að samanlagt fylgi þeirra mældist 45,1 prósent en líkurnar á áframhaldandi setu rétt yfir 30 prósent.
Þar spilaði inn í að þá mældust níu flokkar með mann inni á þingi en þeir höfðu verið átta í ágúst. Við það fluttust jöfnunarmenn frá stjórnarflokkunum til smærri flokka.
Í fyrsta sinn í langan tíma hafði líka örlað á gagnrýni frá áhrifamönnum innan flokksins á Bjarna.
„Hollusta við formann má ekki breytast í meðvirkni“
Páll Magnússon, þáverandi oddviti Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi sem hafði ákveðið að hætta þingmennsku, skrifaði fyrst grein í Morgunblaðið þar sem hann sagði að helstu vandamál flokksins fælust annars vegar í klofningi í báða enda og hins vegar í víðtækum trúverðugleikabresti vegna umsvifa fjölskyldu formannsins í viðskiptalífinu og tengsla sjávarútvegsráðherrans Kristjáns Þórs Júlíussonar við Samherja.
Í viðtali við Fréttablaðið í ágúst bætti Páll svo í og sagði að honum fyndist stundum eins og flokkur sinn væri orðinn nokkurs konar framkvæmdastjóri Íslands. Ástæða þess sé að flokkurinn hafi verið svo lengi í ríkisstjórn og formaður hans svo lengi í fjármálaráðuneytinu. Að mati Páls hefði þessi staða orsakað það að hugsjónir og raunveruleg stjórnmál víki fyrir skriffinnsku og embættisræði. „Í Sjálfstæðisflokknum hefur skapast andrými fyrir þá skoðun að þú sért að bregðast flokknum með því að gagnrýna forystuna [...] Ég vil hins vegar meina að þú sért að bregðast með því að gera það ekki þegar þörf er á, eins og nú er. [...] Hollusta við formann má ekki breytast í meðvirkni, því þá er hún skaðleg. Sjálfstæðismenn hljóta að ræða hvort það sé fullreynt að ná árangri með núverandi formanni og forystu.“
Ríkisstjórnin ríghélt
Þegar búið var að telja atkvæðin sem landsmenn greiddu stjórnmálaflokkum 25. september 2021 lá fyrir þó fyrir að ríkisstjórnin myndi ríghalda. Framsóknarflokkurinn bætti verulega við sig og fjölgaði þingmönnum sínum um átta. Vinstri græn töpuðu mun minna en kannanir höfðu gefið til kynna og fengu einum þingmanni færri en flokkurinn hafði endað síðasta kjörtímabil með og var þriðju kosningarnar í röð stærsti vinstri flokkur landsins. Sjálfstæðisflokkurinn hélt sínum þingmannafjölda en fékk hlutfallslega færri atkvæði en fyrir fjórum árum, og næst minnsta fylgið í sögu sinni.
Það þýddi að Bjarni hafði þar með leitt flokkinn í gegnum fjórar af fimm verstu kosningar sem hann hefur átt. En samt hafði hann nær örugglega tryggt Sjálfstæðisflokknum enn eina ríkisstjórnarþátttökuna og áframhaldandi völd. Enginn starfandi formaður stjórnmálaflokks kemst nálægt því að hafa leitt flokk sinn jafn lengi og Bjarni, sem hefur nú verið formaður í tólf og hálft ár. Einungis tveir formenn Sjálfstæðisflokks hafa setið lengur en hann, Ólafur Thors sem var formaður í 27 ár, og Davíð Oddsson, sem stýrði flokknum í rúmlega 14 og hálft ár.
Ef Bjarni heldur áfram í rúm tvö ár í viðbót nær hann Davíð en verður samt sem áður ekki orðinn 55 ára.
„Teflon-maðurinn“
Bjarni hefur sýnt að hann getur staðið að sér pólitískar aðstæður, hneykslis sem fáir aðrir geta og gagnrýni bæði innan og utan flokks. Þá hefur formaður Sjálfstæðisflokksins sýnt að hann býr yfir getu til að snúa erfiðri stöðu í sigra. Fyrir vikið er Bjarni oft kallaður „teflon-maðurinn“ með skírskotun í pönnurnar sem ekkert á að festast við.
Minnkandi fylgi hefur ekki dregið úr áhrifum Sjálfstæðisflokksins né tækifærum Bjarna til að stjórna. Alltaf eru til aðrir sem eru tilbúnir að leiða flokkinn til valda.
Umræður innan Sjálfstæðisflokksins og utan um hvort það sé fullreynt að ná árangri með núverandi formanni og forystu verða því að bíða betri tíma.
Sem stendur bendir nefnilega allt til þess að Bjarni Benediktsson sé að mynda enn eina ríkisstjórnina.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars