Ekki á hreinu hvernig setning um fjármagn til rannsóknar á Samherja rataði inn í tilkynningu ríkisstjórnar
Dómsmálaráðuneytið segist standa við að sakamál hafi ekki lotið pólitískum afskiptum þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands hafi gefið út tilkynningu um sértæka fjármögnun rannsóknar á Samherjamálinu í nóvember 2019. Ráðuneytið getur ekki svarað því hvernig setning þar um hafi ratað í umrædda tilkynningu og segir að „nokkrar mannabreytingar hafi orðið síðan þetta var“.
„Nokkrar mannabreytingar hafa orðið síðan þetta var á flestum stöðum og því virðist ekki alveg á hreinu hvernig þessi setning rataði inn í tilkynningu eftir ríkisstjórnarfund. Þær tilkynningar koma frá forsætisráðuneyti.“
Þetta segir í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um úr hvaða ráðuneyti setning úr tilkynningu ríkisstjórnar Íslands frá 19. nóvember 2019, eigi uppruna sinn. Setningin er eftirfarandi: „Þá verður hugað sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjamálinu“.
Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra fullyrti í nýlegu svari við skriflegri fyrirspurn á Alþingi að meðferð tiltekinna sakamála lúti ekki pólitískum afskiptum þrátt fyrir að ríkisstjórnin með ofangreindri tilkynningu heitið sérstakri fjármögnun fyrir tveimur og hálfu ári vegna rannsóknar á Samherja fyrir meint mútubrot, skattasniðgöngu og peningaþvætti, meðal annars í tengslum við starfsemi samstæðunnar í Namibíu, Íslandi og í þekktum skattaskjólum.
Kjarninn greindi frá því 6. júní síðastliðinn að Jón stæði við þessa fullyrðingu þrátt fyrir að ríkisstjórn skipuð sömu flokkum og nú stjórna landinu hafi með opinberri tilkynningu heitið fjármagni í rannsókn á sérstöku sakamáli. Í svari sem barst Kjarnanum frá dómsmálaráðuneytinu í aðdraganda birtingu þeirrar umfjöllunar sagði einfaldlega: „Setningin sem vísað er í frá 19. nóv. 2019 á ekki uppruna sinn í minnisblöðum frá dómsmálaráðuneytinu í tengslum við þann fund.“
Í fyrirspurn sem Kjarninn sendi í kjölfarið var spurt hvort það þýddi að umrædd setning ætti uppruna sinn í öðru ráðuneyti en dómsmálaráðuneytinu. Samkvæmt svarinu sem barst, og birt er í upphafi þessarar umfjöllunar, virðist það ekki alveg á hreinu hvernig umrædd setningin rataði inn í tilkynningu ríkisstjórnarinnar, meðal annars vegna mannabreytinga í ráðuneytinu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, flokkssystir núverandi ráðherra, var dómsmálaráðherra þegar tilkynningin var send út.
Eina sem ráðuneytið telur sig geta gert til að upplýsa um hvaðan setningin kom er að benda á tilkynningin í heild hafi komið frá forsætisráðuneytinu, sem var þá eins og nú stýrt af Katrínu Jakobsdóttur. „Hér í dómsmálaráðuneytinu eru embættismenn sem tengjast þessum málaflokki mjög meðvitaðir um það að gera hvorki fyrirspurnir né eiga samskipti um einstök sakamál, dómsmál eða annað sem farið er með í stofnunum sem heyra undir ráðuneytið nema þegar slíkt er gert í skilgreindum og formlegum farvegi. Dómsmálaráðuneytið og ráðherra standa því við það að sakamál hafa ekki lotið og eiga ekki að lúta pólitískum afskiptum.“
Fengu aukið fjármagn í kjölfar tilkynningarinnar
Á títtnefndum ríkisstjórnarfundi í nóvember 2019 voru samþykktar sjö tölusettar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í heild til að auka traust á íslensku atvinnulífi í kjölfar þess að Samherjamálið var opinberað í Kveik og Stundinni viku áður, 12. nóvember 2019.
Sjötta aðgerðir snerist um varnir gegn hagsmunaárekstrum og mútubrotum og þar var að finna setninguna um að sérstaklega yrði hugað að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara á Samherjamálinu.
Sjöunda aðgerðin sneri svo að því að ríkisstjórnin hefði fjallað um Samherjamálið með tilliti til alþjóðasamskipta og sagt að utanríkisráðuneytið væri að fylgjast „með umfjöllun erlendis og hefur undirbúið viðbrögð vegna hugsanlegs orðsporshnekkis.“
Tveimur dögum eftir ofangreindan ríkisstjórnarfund, 21. nóvember 2019, sendi Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari minnisblað til dómsmálaráðherra þar sem hann lagði til að starfsmönnum embættisins yrði fjölgað. Þótt Samherjamálið sé ekki sérstaklega nefnt í minnisblaðinu kemur þar fram að þáverandi starfsmannafjöldi dugi ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem embættið hafi á hendi.
Embætti héraðssaksóknara, Skatturinn og skattrannsóknarstjóri fengu svo 200 milljóna króna aukafjárveitingu á árinu 2020.
Kjarninn hefur opinberað að á Íslandi séu átta manns hið minnsta með réttarstöðu sakborning við rannsókn embættis héraðssaksóknara á meintu peningaþvætti, mútugreiðslum og skattasniðgöngu Samherjasamstæðunnar. Á meðal þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, en allir hinir annað hvort starfa fyrir samstæðuna eða hafa gert það. Kjarninn greindi frá því í október 2021 að rannsókn á meintum skattalagabrotum Samherjasamstæðunnar hefði færst yfir til embættis héraðssaksóknara skömmu áður.
Lestu meira:
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
11. nóvember 2022Samherji hótaði Forlaginu málsókn erlendis ef bók um Namibíumálið yrði ekki innkölluð
-
27. október 2022„Áhrifin á ásýnd íslensks sjávarútvegs eru gríðarleg innan lands sem utan“
-
27. október 2022Það sem helst sé vandræðalegt við Samherjamálið sé að þingmenn vilji ræða það
-
21. september 2022Kallar eftir upplýsingum um fund namibísks ráðherra í dómsmálaráðuneytinu
-
24. ágúst 2022„Fitty“ segist ekki hafa beðið tengdapabba um að redda Samherja kvóta í Namibíu
-
31. júlí 2022Fishrot-málið bar á góma hjá utanríkismálanefnd Bandaríkjaþings
-
22. júlí 2022Hagnaður Samherja nam 17,8 milljörðum
-
15. júlí 2022„Guð minn góður, af hverju hefði ég átt að fá greiddar mútur?“