Það kann að hljóma einkennilega, en á þessum tíma fyrir ári síðan voru takmarkanir vegna COVID-19 enn í gildi hérlendis. Fjöldi fólks eyddi jólum og/eða áramótum í einangrun eða sóttkví og Landspítalinn var á neyðarstigi vegna hraðrar útbreiðslu COVID-19. Ómíkron-afbrigðið var allsráðandi.
Þótt mörgum finnist eins og faraldurinn hafi staðið yfir í tíu ár fyrir tíu árum síðan þá var takmörkunum vegna sóttvarna ekki aflétt að fullu og endanlega, jafnt innanlands sem á landamærunum, fyrr en 25. febrúar á þessu ári, tveimur árum eftir að veiran lét fyrsta á sér kræla hérlendis.
Frá 25. febrúar kvöddu landsmenn það sem hafði verið hluti af hversdagsleikanum í tæplega tvö ár, þar á meðal fjöldatakmarkanir, nálægðarmörk, grímunotkun og takmarkaðan afgreiðslutíma vínveitingastaða. Daglegir upplýsingafundir heyrðu sögunni til og heimsóknum á covid.is snarfækkaði. Áfram var þó hvatt til persónulegra smitvarna og fólk var hvatt til að fara í sýnatöku ef það fann fyrir einkennum.
Fjórum sinnum neyðarstig og óvissustig en í gildi
Óvissustigi almannavarna var lýst yfir 27. janúar 2020 og hættu- eða neyðarstig almannavarna var samfellt í gildi frá því að fyrsta kórónuveirusmitið greindist 28. febrúar 2020 til 29. apríl á þessu ári þegar hættustigið var fært niður á óvissustig, sem gildir enn. Neyðarstig almannavarna var virkjað fjórum sinnum, hættustig fimm sinnum og óvissustig tvisvar á meðan faraldurinn stóð yfir.
Upplýsingafundir almannavarna voru meðal vinsælustu dagskrárliða Ríkisútvarpsins þegar faraldurinn stóð sem hæst og urðu yfir 200 talsins. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá fyrsta upplýsingafundinum sem haldinn var í Samhæfingarmiðstöð almannavarna 27. febrúar 2020, degi áður en fyrsta smitið greindist hér á landi, þar sem sóttvarnalæknir var fullviss um að heilbrigðiskerfið myndi ráða við verstu mögulegu sviðsmynd vegna veirunnar: 300 tilfelli og tíu dauðsföll.
Smitin urðu aðeins fleiri en 300, eða alls 207.874 samkvæmt nýjustu tölum. 55,3 prósent landsmanna hafa greinst með COVID-19.
Einu sinni máttu bara 10 manns koma saman
Sem fyrr segir greindist fyrsta COVID-smitið á Íslandi 28. febrúar 2020. Samkomubann var fyrst sett 16. mars 2020 og voru mörkin sett við samkomur með 100 manns eða fleiri. Tveimur dögum seinna voru reglurnar enn hertar og fjöldatakmörkin sett við 20 manns.
Fjöldatakmarkanir voru nýttar allan faraldurinn, með hléum þó, allt fram til 25. febrúar 2022 þegar allar takmarkanir voru afnumdar hérlendis. Þegar reglurnar voru harðastar máttu einungis 10 manns koma saman en þegar mest var voru takmarkanir settar við 2000 manns. Enn strangari tilmæli voru þó við lýði á stundum, til dæmis á norðanverðum Vestfjörðum þar sem öllu var skellt í lás og fjöldatakmarkanir miðuðust við fimm manns í apríl 2020.
Í lok ágúst 2021 var tekin upp sú nýlunda að leyfilegt var að taka á móti fleirum en almennt gilti, eða jafnvel víkja frá reglum um hámarksfjölda á viðburðum, að því gefnu að allir gestir framvísuðu neikvæðu hraðprófi sem ekki væri eldra en 48 klst gamalt. Þannig var þess vænst að hægt væri að draga úr sérstaklega neikvæðum áhrifum COVID-19 á sviðslistir og menningu.
Sóttvarnalæknir ákvað að láta gott heita
COVID-19 hefur kannski ekki alveg sagt skilið við okkur en það gerði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sem lét af störfum í lok ágúst. Bæði faglegar og persónulegar ástæður voru fyrir ákvörðuninni að hans sögn.
Fáir vissu hver sóttvarnalæknir var fyrir faraldurinn. Þórólfur sinnti starfinu í tuttugu ár og verður alltaf maðurinn sem leiddi íslensku þjóðina í gegnum heimsfaraldur, maðurinn sem brýndi endalaust fyrir okkur að viðhafa persónubundnar sóttvarnir – sagði okkur að þvo hendur og spritta oftar er nokkur annar. Kenndi okkur að lesa í kúrfur, hvað R-tala væri, hjarðónæmi, raðgreining, nýgengi og svo mætti áfram telja endalaust.
Þórólfur greindi frá ákvörðun sinni í maí og sagði stöðuna í COVID-19 einmitt meðal ástæða þess að hann ákvað að hætta á þessum tímapunkti, við værum komin á góðan stað í þeirri bylgju faraldursins sem gengið hafði yfir vikurnar og mánuðina á undan.
En Þórólfur ítrekaði, eins og margoft áður, að faraldurinn væri ekki búinn. Það reyndist rétt og þegar líða fór á árið fóru að berast fregnir af tíðari andlátum vegna COVID-19.
180 andlát á árinu – 219 í heildina
Guðrún Aspelund, sem tók við starfi sóttvarnalæknis í september, bað landsmenn í byrjun nóvember að nálgast umræðu um andlát vegna COVID-19 af virðingu og vinsemd.
180 létust hér á landi á árinu, beint af völdum COVID-19 eða COVID-19 var meðvirkandi þáttur andláts, að því er fram kemur í pistli sóttvarnalæknis. Fjöldi andláta frá upphafi faraldursins í febrúar 2020 er 219.
129 létu lífið vegna COVID-19 frá febrúar fram í apríl og 25 létust í júlí. Fimm andlát voru skráð í ágúst og september. Sóttvarnalæknir segir líkur á að fjöldi andláta á árinu sé afleiðing af mikilli útbreiðslu á COVID-19 á þessu tímabili enda gengu þá yfir tvær stærstu bylgjur frá upphafi.
Er þetta ekki alveg búið?
Lítið fer fyrir kórónuveirunni í íslensku samfélagi nú í lok árs en veiran er enn þarna úti. Í Kína er ný COVID-bylgja á uppleið eftir að stjórnvöld sögðu lok skilið við „núll-stefnuna“ og afléttu hörðum samkomutakmörkunum.
Þar er COVID-19 að sækja verulega í sig veðrið. Fáir eru bólusettir í Kína, íbúar eru 1,4 milljarða manna í víðfeðmu landi þar sem erfitt getur reynst að veita heilbrigðisþjónustu. Ástandið virðist þó enn sem komið er verst í borgunum, m.a. í Peking. Þar anna bálstofur og líkhús þó enn eftirspurn en í öðrum borgum, m.a. Chongqing, þar sem 30 milljónir búa, er allt orðið yfirfullt og ekki hægt að taka við fleiri líkum að svo stöddu.
Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, ættu flestir að kannast við eftir fréttaflutning síðustu tveggja ára en hann er veruleggja áhyggjufullur yfir stöðunni í Kína.
Áhyggjurnar tengjast ekki síst upplýsingagjöf kínverskra yfirvalda um stöðu mála. Samkvæmt opinberum tölum hafa aðeins 5.242 látist af völdum COVID-19 í Kína.
Frá því að núll-stefnan svokallaða, það er að segja að stefna að engu smiti af kórónuveiru í landinu með mjög hörðum takmörkunum, var aflétt nýverið hafa sjúkrahús yfirfyllst af fólki og hillur apóteka standa tómar. Þetta tvennt þykir sterk vísbending um að eitthvað meiriháttar sé á seyði og flestir benda á kórónuveiruna.
Þetta er því ekki alveg búið.