Forsætisráðuneytið lét vinna minnisblað um bankasöluna í kjölfar viðtals við Sigríði
Þremur dögum eftir að fjármála- og efnahagsráðherra hafði falið Ríkisendurskoðun að gera stjórnsýsluúttekt á söluferlinu á hlutum í Íslandsbanka fékk forsætisráðuneytið minnisblað um ýmis álitamál tengd sölunni. Það var unnið af lögmanni að beiðni ráðuneytisins og í því fjallar hann um helstu álitamál sem tengjast henni.
Þann 8. apríl 2022 birti Kjarninn stutt viðtal við Sigríði Benediktsdóttur, hagfræðing við Yale háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, þar sem hún sagðist telja að lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hefðu verið brotin við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka rúmum tveimur vikum fyrr. Í því söluferli hafði 22,5 prósent hlutur í bankanum verið seldur til 207 fjárfesta í lokuðu útboði fyrir 52,65 milljarða króna. Verðið sem hópurinn greiddi var undir markaðsverði Íslandsbanka á þessum tíma. Söluferlið hafði verið kynnt þannig að fara ætti þessa lokuðu leið, svokallaða tilboðsleið, til að fá inn stóra fjárfesta sem ætluðu sér að verða eigendur bankans til lengri tíma. Þegar salan var afstaðin kom hins vegar í ljós að alls 59 fjárfestar hefðu keypt fyrir minna en 30 milljónir króna og 20 fyrir 30-50 milljónir króna. Alls 167 aðilar keyptu fyrir 300 milljónir króna eða minna. Innan við mánuði eftir útboðið höfðu að minnsta kosti 34 kaupendur þegar selt hlutina sem þeir keyptu.
Sigríður sagði í viðtalinu að þegar yfir lokaður hópur aðila væri valinn til að kaupa magn bréfa sem sé svo lítið að það hefði ekki hreyft við markaðsvirði Íslandsbanka ef þeir hefur keypt á eftirmarkaði, þá brjóti það í bága við 3. grein og mögulega einnig 2. grein umræddra laga. „Á grundvelli þess þarf einhver að axla ábyrgð fyrir að hafa heimilað þetta og auk þess þarf að rifta þessum viðskiptum við einstaklinga og ehf., enda eru þau ekki í samræmi við lög og kaupendum og miðlurum hefði mátt vera það ljóst sem og því stjórnvaldi sem heimilaði þetta.“
Sigríður var einn þriggja sem mynduðu rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið sem skilaði umfangsmikilli skýrslu í apríl 2010. Hún sat einnig um nokkurra ára skeið í bankaráði Landsbankans.
Ummælin vöktu mikla athygli og Bankasýsla ríkisins, sú stofnun sem hafði umsjón með sölumeðferðinni, brást við með tilkynningu sama dag þar sem því var hafnað að ferlið hefði verið í andstöðu við lög.
Degi áður, 7. apríl, hafði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og sá sem ber ábyrgð á meðferð eignarhluta ríkisins í bankakerfinu, falið Ríkisendurskoðun að framkvæma stjórnsýsluúttekt á söluferlinu. Sú vinna átti að ganga hratt fyrir sig og skýrsla með niðurstöðum Ríkisendurskoðunar að liggja fyrir í júní. Hún er enn ekki komin út þrátt fyrir að í dag sé 22. október, en ríkisendurskoðandi hefur sagt að hún muni líta dagsins ljós í þessum mánuði.
Þorri stjórnarandstöðunnar taldi þessa stjórnsýsluúttekt ekki vera nægjanlega og vildu að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir söluna.
Ótímabært að fullyrða um ólögmæti
Í ljósi þessarar atburðarásar lét forsætisráðuneytið Jóhannes Karl Sveinsson, virtan lögmann sem hið opinbera leitar oft til þegar við blasa erfið úrlausnarefni, vinna minnisblað um söluna á hlut ríkisins á eignarhlutum í Íslandsbanka. Minnisblaðið, sem er dagsett 10. apríl 2022, hefur aldrei komið fyrir augu almennings, en Kjarninn hefur það undir höndum. Af lestri þess má ráða að ráðuneytið hafi óskað eftir því að Jóhannes Karl tæki það saman í ljósi þess sem Sigríður Benediktsdóttir hélt fram í viðtali við Kjarnann tveimur dögum áður og þremur dögum eftir að Bjarni Benediktsson hafði ákveðið í hvaða farveg hann vildi setja könnun á söluferlinu. Viðtakandi minnisblaðsins var Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu.
Í minnisblaðinu segir Jóhannes Karl það algjörlega ótímabært að fullyrða nokkuð um að söluferlið hafi verið ólöglegt á þeim tíma sem það er unnið. „Það er hins vegar augljóslega aðkallandi verkefni að fara betur yfir ýmis atriði og meta ferlið og þær ákvarðanir sem voru teknar á ný útfrá því.“
Hann telur enn fremur ekki raunhæft að reyna að rifta eða ógilda hluta viðskiptanna, þar sem ekki hafi legið fyrir niðurstaða um ólögmæti útboðsins. Auk þess hafi verið búið að greiða fyrir, afhenda og í einhverjum tilfellum selja þá hluti sem seldir voru í útboðinu.
Ýmsar ábendingar
Minnisblaðið er 14 blaðsíður og í því koma fram ýmsar ábendingar. Þar er til að mynda bent á að engin almenn auglýsing hafi verið birt sem gaf öllum hæfum fjárfestum „sæti við borðið“ heldur var nokkrum fyrirtækjum falið að safna saman tilboðum og kynna söluna eftir lokun markaða 22. mars. „Ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir því að þeir sem gætu fallið undir að vera hæfir fjárfestar gætu skráð sig eða ættu rétt á að vera með ef ekki væri haft samband við þá af fyrra bragði. Þar sem einungis var samið við hluta af fyrirtækjum með leyfi til verðbréfamiðlunar voru það því fyrst og fremst viðskiptavinir þeirra fyrirtækja sem höfðu aðgang að kaupum.“
Í erindi Bankasýslunnar til Bjarna Benediktssonar að kvöldi 22. mars hafi komið fram að á milli 150 til 200 hæfir fjárfestar hefðu skráð sig fyrir hlutum í útboðinu fyrir meira en 100 milljörðum króna. Ráðherrann féllst í kjölfarið á að Bankasýslunni yrði veitt umboð til að undirrita fyrir hönd ríkisins sölusamninga.
Í minnisblaðinu segir að á þeim tíma virðist fjármála- og efnahagsráðuneytið ekki hafa búið yfir upplýsingum um bjóðendur eða hvernig til stóð að beita þeim sjónarmiðum við úthlutun hlutabréfanna sem sett höfðu verið fram í eigendastefnu ríkisins „t.d. mismunandi skerðingu eftir því hvort um væri að ræða skammtíma- og langtímafjárfesta, heldur var ákvörðunin um það falin Bankasýslunni sem og umboð til að ljúka sölumeðferðinni.“
Metnir hæfir að eigin ósk
Á endanum fengu 207 fjárfestar að kaupa hlut í Íslandsbanka í mars. Hluti þess hóps fellur sannarlega í þann hóp að teljast fagfjárfestar. Samkvæmt minnisblaðinu virðast aðrir, samansafn af einstaklingum og fyrirtækjum í fjölbreyttum rekstri, jafnt innlendir sem erlendir, hafa verið metnir sem hæfir fjárfestar samkvæmt eigin ósk, sem heimild er fyrir í lögum. „Ekki liggur fyrir hvaða aðferðum var beitt við að meta sölu til þeirra í ljósi þeirra sjónarmiða sem ráðherra höfðu verið kynnt.“
Þá virðist á listanum yfir kaupendur hafa verið tekið á móti tilboðum frá eignastýringardeildum fjármálafyrirtækja án þess að nöfn þeirra sem voru í raun að kaupa hafi verið gefin upp. Í minnisblaði Jóhannesar Karls segir að slíkt fyrirkomulag útiloki í raun að hægt sé að meta áhrif af sölunni með nákvæmni með tilliti til markmiða sem snúast um annað en verð. „Bent hefur verið á að sumir þeirra sem fengu hlutum úthlutað höfðu áður keypt hluti af ríkinu og selt þá mjög fljótt. Einnig hafa birst fréttir af því að aðilar tengdir þeim fyrirtækjum sem Bankasýslan réð til verksins keyptu hluti.“
Vísað í fordæmi úr einkavæðingu ÍAV
Þegar kemur að þeim hluta minnisblaðsins sem fjallar um mat á lögmæti söluferlis opinberra eigna bendir Jóhannes Karl meðal annars á að Hæstiréttur Íslands hafi komist að þeirri niðurstöðu í dómi sínum hinn 8. maí 2008, þar sem fjallað var um einkavæðingu Íslenskra aðalverktaka (ÍAV), að reglur þágildandi laga um verðbréfaviðskipti hefðu verið brotin þar sem stjórnendur fyrirtækis sem einkavætt var tóku þátt í útboðin. Þannig hafi jafnræði ekki verið tryggt með tilliti til innherjaupplýsinga sem þeir bjuggu yfir. „Framkvæmd þess útboðs var því talin ólögmæt en við mat á afleiðingunum, þ.e. skaðabótaskyldu ríkisins, var meðal annars litið til reglna um opinber innkaup sem eru spegilmynd þeirra reglna sem gilda við sölu.“
Hægt er að lesa um einkavæðingu ÍAV hér að neðan.
Þótt ekki væri annað séð en að farið væri eftir því formi sem lögin fyrirskrifa við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka væru þó atriði sem velta mætti upp og lúta að því hvernig ferlið var í raun útskýrt fyrir þeim sem um það fjölluðu á vettvangi framkvæmdavaldsins og löggjafans og hvort framkvæmdin endurspeglaði þá kynningu.
Var kynningin á söluferlinu í lagi?
Í minnisblaðinu segir að þar sé í fyrsta lagi um að ræða hvort upplýsingar í minnisblaði Bankasýslunnar og síðar skýrslu ráðherra til þingnefndanna hafi verið nægjanlega nákvæmar til að þeir sem komu að ferlinu hafi í raun getað áttað sig á því hvernig til stóð að selja hlutina, hvernig verð yrði ákvarðað og hvernig úthlutun til áskrifenda færi fram. Tilboðsfyrirkomulaginu hafði ekki verið beitt áður við sölu ríkiseigna á Íslandi áður og það var ekki fyrirskrifað í lögum.
Í öðru lagi hafi ekki legið fyrir hvernig ferlið átti að geta skilað raunhæfu mati á bjóðendum og úthlutun til þeirra miðað við fjölda bjóðendanna, fjölbreytileika þeirra sjónarmiða sem virðist hafa átt að taka tillit til og þann stutta tíma sem var til stefnu. Í þriðja lagi lá ekki fyrir í þeim gögnum sem ráðherra og þing höfðu aðgang að um nánari beitingu og vægi þeirra sjónarmiða sem áttu að ráða við úthlutun til bjóðenda. Í fjórða lagi hafi nánari forsendur og aðferðarfræði við ákvörðun söluverðsins ekki verið gerð opinber, hvorki fyrir söluna né eftir.
Í minnisblaðinu segir að þessar athugasemdir snúist um það að nokkur grunnatriði í söluferlinu hafi ekki ítarlega skýrð né hlutlægir mælikvarðar settir upp fyrirfram um ákvörðun verðs og niðurskurð á tilboðum. „Umfjöllun á vettvangi stjórnvalda var háð því að þetta lægi allt fyrir.“
Fyrir liggi að söluferlið hafi verið lokað. Jóhannes Karl veltir því sérstaklega upp hvort það hafi verið réttlætanlegt að takmarka söluferlið með þeim hætti að einungis þeir sem haft var samband við, og voru viðskiptamenn sölufyrirtækjanna, gátu í raun gert tilboð. „Úr því að takmarka átti aðkomu fjárfesta hefði mátt rökstyðja hvers vegna ekki var látið við það sitja að bjóða eiginlegum fagfjárfestum þátttöku, eða setja þá skilyrði sem komu í veg fyrir að annar og illskilgreinanlegri hópur fjárfesta væri boðið að kaupa umfram aðra.“
Styttist í skýrslu Ríkisendurskoðunar
Ríkisendurskoðun sendi fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Bankasýslu ríkisins drög að skýrslu sinni um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka miðvikudaginn 12. október til umsagnar. Til stóð að viðkomandi myndu ljúka við gerð slíkra umsagna fyrir miðja nýliðna viku en Bankasýslan óskaði eftir frekari fresti til þess, og fékk. Nú hafa ráðuneytið og undirstofnun þess til 25. október til að skila inn umsögnum sínum.
Þegar búið er að fara yfir umsagnir fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Bankasýslu ríkisins og stjórnar hennar mun Ríkisendurskoðun afhenda stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skýrsluna. Í kjölfarið verður skýrslan svo gerð opinber. Því má búast við að það gerist öðru hvor megin við næstu helgi.
Auk þess rannsakar Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) ýmsa þætti sölunnar, sérstaklega viðskipti sem áttu sér stað í aðdraganda sölunnar og atferli hluta þeirra söluráðgjafa sem ráðnir voru til að selja hluti í bankanum. Ekkert hefur verið gert opinbert um stöðu þeirrar rannsóknar en allir fimm innlendu söluráðgjafarnir hafa fengið fyrirspurnir frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands vegna rannsóknar þess.
Við upprunalega birtingu vantaði hluta af fréttaskýringunni. Það var lagað kl. 10:20 22. október 2022.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana