Grundvallarafstaðan til opinberra stöðuveitinga – og svo „heimurinn sem við búum við“
Lilja Alfreðsdóttir ráðherra menningarmála hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að skipa þjóðminjavörð án auglýsingar. Árið 2018 lýsti hún opinberlega þeirri afstöðu sinni að ráða ætti forstöðumenn hins opinbera með auglýsingu og segir þau orð enn gilda, þrátt fyrir að hafa ekki farið eftir þeim er þjóðminjavörður var skipaður í síðustu viku. „[Þ]ar sem þessi heimild er til staðar og verið er að nýta hana taldi ég til dæmis í þessu tilfelli að það gæti verið farsælt að taka safnstjóra úr einu höfuðsafni yfir í það næsta,“ segir Lilja við Kjarnann.
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra lýsti því í viðtali við Fréttablaðið árið 2018 að hennar afstaða til mannaráðninga hins opinbera væri sú að störf forstöðumanna skyldu auglýst. „Það er mín skoðun að almennt eigi að auglýsa stöður forstöðumanna ríkisins til að tryggja faglegt mat, eðlilega endurnýjun og gagnsæi í opinberri stjórnsýslu,“ sagði Lilja við blaðið.
Umfjöllun Fréttablaðsins þarna í upphafi árs 2018 snerist um að ómögulegt hafði verið að auglýsa stöðu forstöðumanns Kvikmyndasjóðs lausa til umsóknar vegna mistaka sem höfðu í tvígang verið gerð hjá ráðuneyti menningarmála við að skrá niður skipunartíma forstöðumanns sjóðsins. Því framlengdist skipanin einfaldlega sjálfkrafa, þar sem ekki var hægt að láta þáverandi forstöðumann vita af því að til stæði að auglýsa stöðuna með sex mánaða fyrirvara.
Fremur undarlegt mál – og ekki endilega gott afspurnar fyrir faglegheit íslenskrar stjórnsýslu. Hvað sem því líður, þá hefur annað mál sem snýr að mannaráðningum hins opinbera tröllriðið umræðunni undanfarna daga – skipan Lilju í embætti þjóðminjavarðar, forstöðumanns Þjóðminjasafns Íslands, án auglýsingar.
Það að Lilja kaus að auglýsa ekki starfið hefur verið harðlega gagnrýnt af ýmsum.
Fagfélög stétta á borð við fornleifafræðinga, sagnfræðinga og þjóðfræðinga hafa til dæmis verið harðorð í garð Lilju og jafnvel krafist þess að skipun Hörpu Þórsdóttur í stöðuna verði afturkölluð. Sérstaklega er tekið fram í sameiginlegri yfirlýsingu Félags fornleifafræðinga og Félags þjóðfræðinga, sem gerðu þá kröfu, að gagnrýnin beinist ekki að Hörpu, sem verið hefur safnstjóri Listasafns Íslands undanfarin ár, heldur að vinnubrögðum ráðherra við setningu í embættið.
Ekki „heimurinn sem við búum við“ að allar stöður séu auglýstar
Þau vinnubrögð eru sannarlega á skjön við þau vinnubrögð sem ráðherra sagði í áðurnefndu viðtali við Fréttablaðið árið 2018 að hún teldi að almennt skyldi beita við skipan forstöðumanna hjá hinu opinbera – að auglýsa allar stöður til að „tryggja faglegt mat, eðlilega endurnýjun og gagnsæi í opinberri stjórnsýslu“ eins og ráðherrann sagði sjálf.
Kjarninn ræddi við Lilju um þessi mál í vikunni og hún sagði að í grundvallaratriðum hefði sú afstaða sem hún lýsti við Fréttablaðið árið 2018 ekki breyst. „Það viðtal við mig sem var tekið við mig árið 2018 stendur,“ sagði Lilja við blaðamann – grundvallarafstaða hennar til þess hvernig ætti almennt að standa að skipan forstöðumanna hjá hinu opinbera stæði enn.
„Hins vegar er það svo að það er bara ekki sá heimur sem við búum við [að allar stöður séu auglýstar]. Það er þessi heimild í lögum um opinbera starfsmenn [...] og almennt væri ég fylgjandi því að öll störf væru auglýst, en þar sem þessi heimild er til staðar og verið er að nýta hana taldi ég til dæmis í þessu tilfelli að það gæti verið farsælt að taka safnstjóra úr einu höfuðsafni yfir í það næsta,“ sagði Lilja.
„Umræðan“ gæti skaðað tilflutning
Hún segir hins vegar að viðbrögðin hafi verið slík við skipan þjóðminjavarðar „að maður hugsar um það hvort það sé skynsamlegt að nýta þessa heimild yfir höfuð.“
„Við sjáum það af umræðunni að hún gæti verið til þess fallin að hún gæti verið til þess fallin að skaða svona tilflutning,“ segir Lilja og aðspurð segir hún að eftir á að hyggja hefði hún getað nálgast skipunina með öðrum hætti.
„Ef það er þannig að umræða í kringum flutninginn sætir gagnrýni og sé þá kannski til þess fallin að það geti verið ákveðin áskorun fyrir viðkomandi forstöðumann að hefja störf, að þá er ég bara eins og allir aðrir og hugsa: Ég hefði nú getað gert þetta öðruvísi,“ segir Lilja og bætir við að tíminn eigi eftir að leiða í ljós hvernig fari.
„Ég tek á móti gagnrýni, hlusta á hana og reyni að meta það hvernig ég vinn með hana og vil styðja umhverfið í tengslum við söfn. Í minni ráðherratíð hef ég lagt mikla áherslu á söfn og aukið fjárveitingar til höfuðsafnanna,“ segir Lilja og hvetur fólk til þess að horfa til þess.
Í ljósi aukinna fjárveitinga til höfuðsafnanna þriggja, Listasafns Íslands, Þjóðminjasafnsins og Náttúruminjasafnsins, segir ráðherra að „allt tal um metnaðarleysi og áhugaleysi“ eigi ekki við rök að styðjast.
„Það er ekki í þeim anda sem ég vil starfa að veikja samvinnu og samstarf við safnafólk í landinu og þess vegna hlustar maður á þetta, fer yfir hverja einustu ályktun og ég hef verið að boða til funda með viðkomandi félögum til að hlusta á þau og heyra þeirra málflutning. En ég er alltaf opin fyrir því að gera betur, það er ekkert leyndarmál,“ segir Lilja.
Tilbúin að ræða kosti og galla undanþáguheimilda
Í umræðu um þessi mál í vikunni steig Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingar fram og boðaði að er þing kæmi saman núna á í upphafi hausts hygðist hann leggja fram frumvarp sem ætlað væri að þrengja „verulega að heimildum ráðamanna til að víkja frá meginreglu starfsmannaréttar um auglýsingaskyldu við skipun í embætti“.
Lilja segir að sjálfsögðu sé hægt að fara yfir þessi mál á Alþingi og taka kosti og galla til skoðunar. „Þessi heimild er nýtt af ráðuneytum og stjórnsýslunni vegna þess að það hefur verið talið að hreyfanleiki innan stjórnsýslunnar sé jákvæður og til þess fallinn að efla viðkomandi starfsmenn og hvetja þá áfram. Ef einhver hefur staðið sig vel á einum stað er hann líklegur til að standa sig vel á þeim næsta,“ segir ráðherra.
Í umræðu um skipun þjóðminjavarðar hefur verið bent á að eitt geti átt við um tilflutning starfsmanna innan ráðuneyta, og annað um tilflutning yfir í embætti forstöðumanna við stofnanir eins og Þjóðminjasafns Íslands.
Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og formaður starfshóps sem skipaður var af forsætisráðherra um leiðir til þess að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu, sagði til dæmis við fréttastofu RÚVað honum þætti tilfærslur starfsmanna innan ráðuneyta yfir í stöðu ráðuneytisstjóra án auglýsingar stundum gagnrýndar að ósekju, þær væru stundum „eðlilegar og mjög góðar“.
Þetta mál væri hins vegar öðruvísi vaxið, vegna eðlis embættis þjóðminjavarðar. „Þarna er ráðherra að túlka þessa heimild til að færa fólk innan stjórnsýslunnar sem svo, að hún geti bara skipað hvern sem er úr stjórnsýslunni, í hvaða starf sem er. Það er að mínu mati ekki réttur skilningur á þessu,“ sagði Jón, sem talaði í fyrirsögnum og sagði þessa tilteknu skipun jaðra við misbeitingu á valdi.
Harpa standi fyrir gildi sem Lilja telji farsæl fyrir safnastarf
Í umræðunni um málið í vikunni hafa sem áður segir komið fram kröfur um að ráðherra dragi skipanina til baka. Það segir Lilja ekki koma til greina og ítrekar að framkomin gagnrýni hafi ekki beinst gegn Hörpu Þórsdóttur sem skipuð var í embættið.
„Ég held að við ættum að gefa þessu tækifæri og líta á reynsluna og það sem hún hefur áorkað á Listasafni Íslands. Ég lít bara á það sem fólk er að segja og tek það til mín, en það er búið að skipa viðkomandi einstakling,“ segir Lilja.
Lilja segir við blaðamann að hún hafi „auðvitað ákveðna sýn á safnastarf í landinu“ og á henni er að heyra að nýr þjóðminjavörður smellpassi við þá sýn.
„Ég tel að við eigum að opna þau enn frekar og það sé markmið okkar að fá sem flesta inn í söfnin til að kynna sér sögu landsins, listir, menningu og vísindi. Sérstaklega börn og ungt fólk, því söfnin eiga að taka þátt í menningarlegu og vísindalegu uppeldi barna. Það hefur verið mitt meginmarkmið öll þessi ár,“ segir Lilja.
„Það er líka hugmyndafræðileg nálgun sem knýr þetta áfram, að vera með góðan stjórnanda og stjórnanda sem hefur sýnt það að geta farið af stað, umbreytt safni og opnað það. Hún stendur fyrir ákveðin gildi sem ég tel að séu farsæl fyrir safnastarf í landinu,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
16. desember 2022Einn Héraðsdómur verði með yfirstjórn í Reykjavík en átta starfsstöðvar um landið
-
9. desember 2022Ekki upplýst formlega en leitað til hennar „í krafti vináttu og persónulegra tengsla“
-
9. desember 2022Fullyrt að stjórnvöld hafi breytt reglugerð til að aðstoða Pussy Riot eftir beiðni Ragnars
-
2. desember 2022Tíu atburðir og ákvarðanir sem okkur hefur verið sagt að læra af
-
7. nóvember 2022Umræður innan ráðuneytis leiddu til þess að leitað var til Hörpu
-
17. október 2022Nýr forstjóri Menntamálastofnunar ráðinn og tilkynnt um að stofnunin verði lögð niður
-
7. október 2022Persónuvernd verði ekki skylt að rannsaka allar kvartanir sem berast
-
3. október 2022Óheimilt verði að skipa í embætti ráðuneytisstjóra með flutningi