Hitnandi heimur versnandi fer
Á fyrstu sex mánuðum ársins höfðu 188 hitamet verið slegin, þurrkarnir í Evrópu í sumar voru þeir verstu í 500 ár og í Pakistan hafa að minnsta kosti 1.300 manns látið lífið vegna flóða. Þetta er raunveruleiki loftslagsbreytinga vegna hlýnunar andrúmslofts um 1.2°C. En hvernig mun heimurinn líta út við tveggja eða jafnvel þriggja gráðu hlýnun?
Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur það hlutverk að taka saman upplýsingar um loftslagsbreytingar af mannavöldum og upplýsa stjórnvöld um stöðu og afleiðingar loftslagsbreytinga. Nefndin hefur bent á að nauðsynlegt sé að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C að meðaltali fyrir árið 2100, miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar, annars muni það hafa skelfilegar afleiðingar. Ríki heims hafa, með undirritun á Parísarsáttmálanum, skuldbundið sig að ná þessu markmiði. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur hins vegar ekki dregist saman á undanförnum árum eins og vonir stóðu til og án tafarlausra aðgerða er útilokað að standist markmið um að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C.
Ófullnægjandi loftslagsmarkmið
Rannsóknir hafa sýnt fram á að ef öll ríki myndu standast loftslagsmarkmiðin sem þau sjálf hafa sett sér mun hlýnun jarðar þó ekki haldast undir 1,5°C. Samdrátturinn í losun væri það lítill að hlýnunin yrði að öllum líkindum 2,4 gráður. Með öðrum orðum, loftslagsmarkmið ríkja eru langt frá því að vera nógu metnaðarfull til að standast markmið Parísarsáttmálans. Hér er einnig um að ræða stórt ef, en flest ríki heims eru fjarri því að ná markmiðum sem þau sjálf hafa sett sér.
Til að standast markmiðið um 1,5 gráðu hlýnun þarf heimslosun að dragast saman um 45 prósent fyrir árið 2030. Fátt bendir til að svo verði. Þvert á móti er áætlað að losun muni aukast um 14 prósent fyrir árið 2030. Þetta þýðir einfaldlega að markmið um að halda hlýnun jarðar undir 1,5 gráðu - fyrir árið 2100 - mun renna okkur úr greipum fyrir árið 2030.
Það er nokkuð ljóst að án tafarlauss samdráttar í losun stefnir heimbyggðin í tveggja til þriggja gráðu hlýnun á innan við 80 árum og því við hæfi að fara yfir það hvernig slík framtíð lítur út.
„Enginn lifir við meðalhita jarðar“
Mikilvægt er að hafa í huga að þegar talað er um að jörðin muni hlýna um tvær eða þrjár gráður er um að ræða meðalhlýnun. Raunveruleikinn er sá að mismunandi svæði jarðarinnar eru að hitna mismikið og mishratt. Líkt og loftslagsvísindamenn segja gjarnan: „Enginn lifir við meðalhita jarðar.“ Frá árinu 2000 hefur til dæmis Norðurheimskautið hlýnað rúmlega tvisvar sinnum hraðar en aðrir staðir á jörðinni. Svalbarði er sá staður á jörðinni þar sem hitastig hefur hækkað hraðast. Síðan 1971 hefur hitastigið hækkað um 4°C, en það er fimm sinnum hraðar en hnattræn hlýnun. Ef ekkert breytist er áætlað að hitastigið í Longyearbyen, sem er stærsta byggðin á Svalbarða, muni hækka að meðaltali um 10°C fyrir lok þessara aldar, með tilheyrandi afleiðingum á samfélagið.
Hitabylgjur eru orðnar tíðari, heitari og vara lengur
Þegar hitabylgjan skall á í Englandi fyrr í sumar sagði Claire Nullis, talsmaður Alþjóða veðurfræðistofunnar „Við höfum sagt það áður og við segjum það aftur: Vegna loftslagsbreytinga munu hitabylgjur byrja fyrr, þær eru að verða algengari og ákafari vegna þess að magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hefur aldrei verið meira. Það sem við erum að sjá núna er hinn óheppilegi forsmekkur að framtíðinni.“
Hitabylgjur geta vissulega átt sér stað óháð loftslagsbreytingum, en hitamet hafa á undanförnum árum verið slegin á methraða. Hitabylgjur eru orðnar tíðari, heitari og vara lengur.
Meðalhitastig jarðar milli áranna 2011 og 2020 var hærra en nokkru sinni síðan síðustu ísöld eða fyrir 125 þúsund árum síðan. Frá miðri tuttugustu öld hefur sumarið á norðurhveli jarðar lengst úr 78 dögum í meira en 95 daga. Fyrir lok þessarar aldar er gert ráð fyrir að sumarið á norðurhveli jarðar muni vara helming af árinu.
Árið 2003 var heitasta sumar í Evrópu í rúmlega 500 ár og 70 þúsund manns létu lífið vegna hita. Í kjölfarið var gerð rannsókn þar sem reiknað var út hversu líklegt það væri að hitabylgjan hefði átt sér stað, annars vegar með og hins vegar án hlýnunar jarðar. Niðurstaðan var sú að hlýnun jarðar af mannavöldum gerði það að verkum að hitabylgjan árið 2003 var tvisvar sinnum líklegri en ef engin hlýnun af mannavöldum hefði átt sér stað. Önnur sambærileg rannsókn leiddi í ljós að hlýnun jarðar hefur valdið því að hitabylgjur í Evrópu eru nú um tíu sinnum líklegri en ella. Einnig voru flóðin í Evrópu árið 2021 níu sinnum líklegri til að eiga sér stað heldur en í heimi án hlýnunar.
Þau sem munu mest finna fyrir afleiðingum hækkandi hitastigs á komandi árum eru viðkvæmir hópar í lágtekjulöndum og þau sem ekki hafa aðgang að loftræstingu. Einnig mun hitinn verða hlutfallslega hærri í stórborgum m.a. vegna steypu og malbiks, mengunar, skorts á gróðri og afgangshita frá athöfnum manna. Flest dauðsföll, af þeim 70.000 sem áttu sér stað sumarið 2003, áttu sér stað í borgum þar sem þau sem eldri og viðkvæmari voru gátu einfaldlega ekki flúið hitann.
Ákafar hitabylgjur eru ekki eina afleiðing loftslagsbreytinga. Með hækkandi hitastigi munu jöklar bráðna, sjávarmál hækka, gróðureldar verða algengari og sama má segja um flóð og öfgafulla þurrka.
Bráðnun jökla og hækkun sjávarmáls
Bráðnun jökla er ein helsta birtingarmynd hækkandi hitastigs. Talið er að Norðurheimskautið muni verða með öllu íslaust yfir sumarmánuðina fyrir árið 2050 og að bráðnun jökla Grænlands sé nú þegar komið að svo kölluðum vendipunkti, þ.e. óafturkræfra breytinga. Bráðnun jökla er, líkt og önnur loftslagstengd vandamál, dæmi um snjóboltaáhrif. Það er að segja, því meira sem jörðin hitnar, því meira bráðna jöklarnir og því minni er endurspeglun sólargeisla frá jöklunum, og því meiri hitnar jörðin.
Bráðnun jökla leiðir m.a. til hækkandi sjávarmáls en fyrir hverja einnar gráðu hlýnun er talið að sjávarmál geti hækkað um 2,3 metra. Þetta þýðir að jafnvel þótt við takmörkum hlýnun jarðar við 1,5 gráðu mun hækkun sjávarmáls verða meiri en nemur þremur metrum til langs tíma litið - en óvíst er hversu langan tíma það mun taka nákvæmlega fyrir sjávarmál að hækka.
Nýleg rannsókn sýndi fram á að bráðnun jökla Grænlands fram til þessa mun leiða til að minnsta kosti 27 sentimetra hækkun á sjávarmáli. Höfundar rannsóknarinnar segja að með áframhaldandi losun á gróðurhúsalofttegundum, bráðnun jökla og varmaþenslu er ekki ólíklegt að sjávarmál hækki um nokkra metra.
Tveggja til þriggja metra hækkun sjávarmáls þýðir að borgir eins og Amsterdam, New York og Jakarta munu glíma við óviðráðanleg flóð og eyjar eins og Maldíveyjar munu einfaldlega sökkva í sæ. Jakarta er að að sökkva um 10 sentimetra á ári en það er tuttugu sinnum hraðar en meðal hækkun sjávarmáls. Maldíveyjar liggja að meðaltali 1,2 metrum yfir sjávarmáli og ef hlýnun jarðar heldur áfram eins og spár gera ráð fyrir er áætlað að 80% af eyjunum verði óbyggilegar árið 2050.
Skógareldar
Skógareldar hafa geisað um Evrópu í sumar, líkt og undanfarin ár. Samkvæmt Evrópsku skógarelda-upplýsingastofnuninni (EFFIS) brunnu 660.000 hektarar af landi í Evrópu á fyrstu sex mánuðum þess árs. Það eru mestu skógareldar sem skráðir hafa verið hjá stofnunni á þessum árstíma, allt frá því að mælingar á gróðureldum hófust árið 2006.
Hlýnun jarðar hefur undanfarna áratugi ýtt undir stærri og kraftmeiri skógarelda sem verður sífellt erfiðara að ná tökum á. Segja má að afleiðingar skógarelda hafi tvöföld neikvæð áhrif á loftslagið en skógareldar eyðileggja ekki einungis stór landsvæði, sem annars hefði bundið kolefni, heldur losa skógarnir einnig kolefni þegar þeir brenna. Árið 2021 samsvaraði losun frá skógareldum tvöfaldri losun Þýskalands á einu ári.
Fordæmalaus flóð og þurrkar
Þar sem heitara andrúmsloft inniheldur meira vatn í formi gufu, hefur úrkoma og tíðni alvarlegra flóða aukist eftir því. Fyrir iðnbyltingu átti úrhelli (e. extreme rainfall) sér stað á tíu ára fresti. Í dag eiga slíkir atburðir sér stað á sjö og hálfs árs fresti og ef losun heldur áfram að aukast eins og spár gera ráð fyrir munu þeir eiga sér stað á þriggja til fjögurra ára fresti.
Í september 2021 lýsti New York-borg, í fyrsta skipti, yfir neyðarástandi vegna úrhellis og flóða. Vatn flæddi niður í neðanjarðarlestarstöðvar og nokkrir drukknuðu þegar vatn flæddi of hratt í kjallaraíbúðir til að fólk náði að flýja.
Flóð hafa geisað í Pakistan síðan í lok ágúst á þessu ári og talið er að um 33 milljónir manna séu þegar á vergangi vegna þeirra. Minnst 1.300 manns hafa farist í flóðunum, þar af hátt í 450 börn. Rúmlega milljón heimili eru í rúst og innviðir landsins í lamasessi. Á Twittersíðu sinni sagðist Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, aldrei hafa séð afleiðingar loftslagsbreytinga af sömu stærðargráðu og flóðin í Pakistan.
I have never seen climate carnage on the scale of the floods here in Pakistan.
— António Guterres (@antonioguterres) September 10, 2022
As our planet continues to warm, all countries will increasingly suffer losses and damage from climate beyond their capacity to adapt.
This is a global crisis. It demands a global response. pic.twitter.com/5nqcJIMoIA
Á meðan mörg svæði á jörðinni munu þjást af úrhelli og flóðum með hækkandi hitastigi munu önnur þjást af þurrkum vegna of lítilla rigninga. Þurrkarnir í Evrópu í sumar eru þeir mestu í 500 ár og hafa þeir meðal annars ýtt undir skógarelda, valdið uppskerubresti og skorti á drykkjarvatni. Sumarið 2022 ríkti neyðarástand vegna vatnsskorts í Frakklandi, og reyndar í fleiri Evrópulöndum, vegna vatnsskorts og var fólki meðal annars meinað að vökva garða og þvo bíla sína sökum vatnsskortsins. Þá gátu bændur ekki vökvað hluta af ræktarlöndum sínum.
Hungursneyð, vatnsskortur og átök
Langstærsti hluti ræktaðs lands í heiminum er háður reglulegri úrkomu og munu útbreiddir þurrkar í framtíðinni því að öllum líkindum hafa skelfilegar afleiðingar á matvælaframleiðslu í heiminum. Í nýrri bók „Hothouse Earth“ rekur vísindamaðurinn Bill McGuire hvernig heitari heimur mun líta út og segir hann m.a. fátt skýra afleiðingar loftslagsbreytinga betur en sambandið milli þurrka, uppskerubrests, hungursneyða, fólksflutninga og átaka. Í heitari heimi munu þurrkar, óumflýjanlega, hafa aukin áhrif á landbúnað, sem leiðir til uppskerubrests og hungursneyðar í stórum hluta heimsins. Í hinu hnattræna norðri munu áhrifin fyrst og fremst birtast í vöruskorti og hærra verðlagi.
Samkvæmt Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna voru 41 milljón manns í 43 löndum á barmi hungursneyðar árið 2021, samanborið við 27 milljónir árið 2019. Eftir því sem hlýnun jarðar verður meiri og öfgar í veðri verða algengari, mun fólki sem lifir við hungursneyð fjölga.
Sex vendipunktar í hættu
Þrátt fyrir að vísindamenn geti spáð fyrir um - með þó nokkurri vissu - hvað gerist þegar jörðin hitnar, ríkir ákveðin óvissa svo kallaða vendipunkta (e. tipping points), það er að segja óafturkræfra breytinga á vistkerfum jarðar.
Lítið er til dæmis vitað um hvort Golfstraumurinn muni stöðvast, hvað gerist við slíkar aðstæður og ef svo er, hvenær það muni eiga sér stað. Sama má segja um sífrerin í Síberíu. Ef sífrerin þiðna er hætta á svo kölluðum snjóboltaáhrifum. Undir sífrerinu er mikið magn metangass sem losnar þegar sífrerin þiðna með hækkandi hitastigi, sem leiðir til enn meiri hlýnunar, sem leiðir til enn meiri þiðnunar osfrv. Nýleg rannsókn sýndi fram á að miðað við núverandi losun gróðurhúsalofttegunda eru sex „vendipunktar“ í hættu, m.a. bráðnun Grænlandsjökuls, dauði kóralrifa og þiðnun sífreris.
Í bók sinni segir McGuire lærdóminn einfaldlega vera þann að í heitari heimi geti losun koltvíoxíðs í andrúmsloftið af náttúrulegum ferlum mögulega haldið áfram, jafnvel þótt við drögum úr losun. Jafnframt sé loftslagið að breytast töluvert hraðar en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Það þurfi því að taka öllum spám um hækkun hitastigs sem algjöru lágmarki – „við þurfum að undirbúa okkur undir það versta, á meðan við vonum það besta,“ segir McGuire.
Lestu meira:
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Öfgafullar hitabylgjur 160 sinnum líklegri vegna loftslagsbreytinga
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
23. desember 2022Trú og náttúra
-
22. desember 2022Tíu jákvæðar fréttir af dýrum
-
18. desember 2022Kemur að skuldadögum
-
17. desember 2022Vilja flytja út íslenska orku í formi fljótandi metangass
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind