Árið 1992 voru aðildarríki núverandi Evrópusambands orðin sammála um að kominn væri tími til að endurnýja og betrumbæta samstarfssamning aðildarríkjanna. Upphaf þessarar samvinnu má rekja til stofnunar Kola- og stálbandalags Evrópu árið 1952. Rómarsáttmálinn svonefndi var undirritaður árið 1957, og þá fengu samtökin nafnið Efnahagsbandalag Evrópu, en eftir endurnýjaðan og breyttan samning árið 1992 (Maastricht samkomulagið) var nafninu breytt í Evrópusambandið. Forsenda breytinganna 1992 var að öll aðildarríki myndu samþykkja samninginn, flest þeirra í almennum kosningum. Nýi samningurinn tók til mun fleiri þátta en sá eldri gerði, meðal annars varðandi utanríkis- og öryggismál, réttarfar og sameiginlegan gjaldmiðil.
Danir felldu samninginn
Danir kusu um Maastricht samninginn 2. júní 1992. Kosningaþátttaka var 83,1% og niðurstaðan var að samningnum var hafnað en mjótt var á munum. 50,7% kjósenda sögðu nei en 49,3% sögðu já. Þeir þingflokkar á danska þinginu, Folketinget, sem vildu samþykkja samninginn unnu í framhaldinu að samningsdrögum. Sjö af átta þingflokkum á danska þinginu samþykktu að fara með drögin (det nationale kompromis) á fund fulltrúa hinna landanna 11 í Edinborg í desember 1992.
Edinborgarsamkomulagið og fyrirvararnir fjórir
Á fundinum í Edinborg var gengið frá sérstöku samkomulagi, ætíð nefnt Edinborgarsamkomulagið, við Dani. Í kjölfar þess var enn á ný kosið í Danmörku. 56,7% kjósenda samþykktu samkomulagið, og nýi samningurinn tók gildi 1. nóvember 1993. Fyrirvararnir sem Danir fengu samþykkta voru fjórir og í samkomulaginu var gert ráð fyrir að dönsk stjórnvöld skyldu tilkynna öðrum aðildarríkum Evrópusambandsins ef fella ætti einn, eða fleiri, fyrirvara úr gildi. Danska þingið samþykkti að fyrirvararnir yrðu því aðeins afnumdir ef slíkt yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fyrirvararnir fjórir sneru að varnarmálum, evrópskum gjaldmiðli (evrunni), dóms-og lögreglumálum og sameiginlegum evrópskum ríkisborgararétti.
Meirihluti danskra kjósenda hafnaði árið 2000 að taka upp evruna, vildi halda dönsku krónunni sem er þó, ef svo má segja, beintengd evrunni.
Árið 2015 felldu Danir að fella niður fyrirvarann varðandi dóms- og lögreglumál og fyrirvarinn varðandi sameiginlega evrópska ríkisborgararréttinn er úreltur eftir breytingar á Maastricht samkomulaginu. Kosningarnar 1. júní voru því þær fyrstu þar sem Danir samþykkja afnám fyrirvaranna sem settir voru 1992. Mette Frederiksen forsætisráðherra sagði í viðtali við danska útvarpið, DR, að ekki sjáist nein merki þess að Dönum hafi snúist hugur varðandi dóms- og lögreglumálin, hvað þá dönsku krónuna.
Hvað felst í afnámi fyrirvarans í varnar- og öryggismálum?
Afnám fyrirvarans þýðir að Danmörk tekur þátt í samstarfi ESB ríkjanna og tekur þátt í aðgerðum sem varða öryggis- og varnarmál, leggur til herlið ásamt tólum og tækjum til friðargæslustarfa á átakasvæðum. Danmörk verður nú ennfremur með í ákvarðanatöku og hefur atkvæðisrétt í ráðherraráði ESB. Evrópusambandið hefur ekki sameiginlegan her en hvert aðildarríki tekur ákvaðanir varðandi eigin her og þátttöku hans í verkefnum sambandsins. ESB hefur á síðustu árum meðal annars tekið þátt í friðargæslu í Bosníu-Hersegóvínu, verndun og aðstoð við flóttafólk frá Darfur í Súdan og sinnt eftirliti og gæslu úti fyrir ströndum Sómalíu.
Afnám fyrirvarans þýðir ennfremur að Danir verða þátttakendur í svonefndu Pesco samstarfi, sem lýtur að sameiginlegum vopnainnkaupum, samstarfi um flutning hermanna og hergagna milli svæða.
Hvað hefur breyst?
Eins og nefnt var hér að framan hafa tilraunir danskra stjórnvalda til að afnema fyrirvarana við Maastricht samninginn engan árangur borið, fyrr en nú. Danskir stjórnmálaskýrendur eru ekki í vafa um að stríðið í Úkraínu hafi haft umtalsverð áhrif á viðhorf danskra kjósenda.
Þótt Danir hafi alla tíð verið gagnrýnir á Evrópusambandið hefur dregið úr gagnrýninni á undanförnum árum. Úrslit kosninganna urðu til að mynda forystu Danska Þjóðarflokksins, sem mjög hefur talað fyrir úrsögn Danmerkur úr ESB og séð skrattann í hverju ESB horni (orðalag eins dönsku blaðanna) mikið áfall. Æ fleiri Danir virðast hallast að þeirri skoðun að Evrópa verði að standa saman og átökin í Úkraínu séu ótvíræð sönnun þess.
Kostar sitt
Afnám fyrirvarans í öryggis- og varnarmálum hefur í för með sér kostnað. Hversu mikill hann verður liggur ekki fyrir. Sérfræðingar í danska utanríkisráðuneytinu reiknuðu út að kostnaðurinn yrði um það bil 26 milljónir danskra króna á ári ( 500 milljónir íslenskar). Danskir hermálasérfræðingar segja þá tölu alltof lága, kostnaðurinn verði miklu meiri. Þeir hafa jafnframt bent á að Danir, hafi innan NATO, skuldbundið sig til að auka framlög sín til varnarmála umtalsvert.
Gerist ekki í einum grænum
Áður en afnám fyrirvarans verður að veruleika þarf ýmislegt að gera. Margrét Þórhildur drottning þarf að undirrita lögin. Þau verða síðan birt í danska lögbirtingablaðinu (Lovtidende) og taka þá formlega gildi. Samtímis birtingu laganna í lögbirtingablaðinu skal aðildarríkjum ESB og stofnunum þess tilkynnt um afnámið. Sú tilkynning skal vera skrifleg (enginn tölvupóstur þar) en aðildarríkin þurfa ekki að samþykkja ákvörðun Dana. Fulltrúar Danmerkur geta nú þegar setið fundi þar sem fjallað er um hernaðar- og varnarmál á vettvangi ESB en geta ekki tekið þátt í ákvörðunum fyrr en afnámið hefur formlega tekið gildi. Sem verður væntanlega eftir nokkrar vikur.
Verður þingkosningum flýtt ?
Þessari spurningu veltu margir danskir stjórnmálaskýrendur fyrir sér þegar niðurstaða kosninganna um fyrirvarann lá fyrir að kvöldi 1. júní. Þegar spurningunni var beint til Mette Frederiksen forsætisráðherra þegar úrslitin lágu fyrir að kvöldi kjördags brosti ráðherrann og svaraði að kosningar færu fram eigi síðar en 4. júní á næsta ári. Samkvæmt dönsku stjórnarskránni (grundloven) mega ekki líða meira en fjögur ár milli kosninga en síðast var kosið til þings 5. júní 2019.
Sínum augum lítur hver á silfrið
Ástæða vangaveltna um að kosningum verði flýtt, sem er á valdi forsætisráðherra að ákveða, er hin afdráttarlausa niðurstaða nýafstaðinna kosninga.
Mette Frederiksen forsætisráðherra og leiðtogi sósíaldemókrata, stærsta þingflokksins, lítur á niðurstöðu kosninganna sem sigur ríkisstjórnar sinnar. En það voru fleiri sem töluðu ákaft fyrir afnáminu. Jakob Ellemann-Jensen formaður Venstre, næst fjölmennasta flokksins á þinginu, hafði sig mjög í frammi og var ákafur talsmaður afnámsins. Sósíaldemókratar og Venstre eru á sitt hvorum arminum í dönskum stjórnmálum, eða blokkinni eins og Danir komast að orði. Jakob Ellemann-Jensen þótti standa sig vel í aðdraganda kosninganna og hefur, að mati stjórnmálaskýrenda, vaxið mjög í formannsstarfinu. Hann hefði líklega ekkert við það að athuga að kosningar færu fram með haustinu því þessa stundina blæs byrlega fyrir Venstre. En væri ekki sömuleiðis freistandi fyrir forsætisráðherrann að flýta kosningunum úr því að líka er vindur í seglum sósíaldemókrata?
Gæti verið ljón á veginum, réttara sagt minkur
Eitt erfiðasta mál sem stjórn Mette Frederiksen hefur mátt glíma við á kjörtímabilinu er minkamálið svonefnda.
Í nóvember 2020 fyrirskipaði danska ríkisstjórnin að allur danski minkastofninn, samtals um 17 milljón dýr, skyldi sleginn af. Ástæðan var kórónuveiran en nýtt afbrigði hennar hafði fundist í minkum. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var umdeild, sumum fannst allt of hart gengið fram, aðrir töldu þetta nauðsynlegt, í ljósi þess að talið var að minkaafbrigðið gæti borist í fólk.
Minkastofninn var felldur og hræin urðuð. Það reyndist ekki rétt staðið að þeim málum og síðar voru hræin grafin upp og brennd.
Ítarlega var fjallað um minkamálið hér í Kjarnanum og skal það ekki endurtekið hér en málinu er ekki lokið. Sérstök nefnd hefur mánuðum saman unnið að rannsókn minkamálsins og þar verður velt við hverjum steini: var nauðsynlegt að fella allan stofninn, hver ákvað það o.s.frv. Spurningarnar eru margar.
Skýrsla „minkanefndarinnar“ er væntanleg á næstu vikum og margir bíða í ofvæni eftir að sjá hvað þar kemur fram.
Ef niðurstaða nefndarinnar verður sú að eðlilega hafi verið staðið að ákvarðanatöku í þessu stóra máli gæti hugsast að Mette Frederiksen forsætisráðherra myndi ákveða að boða til kosninga í haust. Verði niðurstaðan á hinn bóginn sú að rangar ákvarðanir stjórnvalda hafi ráðið för gæti það haft áhrif, og dregið úr fylgi jafnaðarmanna. Þá sæi forsætisráðherrann sér ekki í hag í að flýta kosningum.