Íhugaði að skila inn kjörbréfinu vegna persónuárása
Lenya Rún Taha Karim er fimmti yngsti varaþingmaðurinn í Íslandssögunni. Stjórnmálaáhuginn kviknaði af alvöru þegar hún var búsett í Kúrdistan um tíma. Lenya var full sjálfstrausts þegar hún tók sæti á Alþingi sem varaþingmaður í fyrsta sinn í desember en íhugaði alvarlega að skila inn kjörbréfinu vegna rætinna persónuárása, rasisma og hatursorðræðu vegna uppruna síns. Hún ákvað að halda áfram og vill vera fyrirmynd fyrir komandi kynslóðir og vonast til að Alþingi muni í náinni framtíð endurspegla fjölbreytileika þjóðarinnar.
Lenya Rún Taha Karim var 22 ára og 9 daga gömul þegar hún tók fyrst sæti á Alþingi undir lok síðasta árs. Hún er fimmta yngsta manneskjan sem tekur sæti á Alþingi sem varamaður.
Lenya er fædd og uppalin á Íslandi en bjó um tíma í Kúrdistan þar sem stjórnmálaáhuginn kviknaði. „Ég átti heima í Kúrdistan frá 2013 til 2016. Það var rosalega skrýtið pólitískt umhverfi þarna, þar ríkir rosalega mikil spilling. Í kjölfar þess að ISIS reynir að ráðast inn í Kúrdistan fellur efnahagurinn, efnahagslífið og efnahagskerfið bara hrynur. Ég byrjaði að pæla í pólitíska umhverfinu þarna en svo þurftum við að flytja aftur Íslands þegar ISIS reynir að ráðast inn í landið,“ segir Lenya í samtali við Kjarnann.
Kosningabarátta fyrir alþingiskosningar var í fullum gangi þegar Lenya kom aftur til Íslands haustið 2016, þá 15 ára gömul. Boðað var til kosninga í kjölfar Panama-skjalanna og Lenya segir að það hafi verið áhugavert að koma aftur inn í íslenskt samfélag á þessum tíma. „Hvað gerðist? Ég var ekkert búin að vera að fylgjast með íslenskum stjórnmálum. Svo var mynduð ríkisstjórn. Og hún fellur. Aftur kosningar 2017.“
„Einn daginn verður þú forsætisráðherra“
Lenya hóf nám í Menntaskólanum við Sund þar sem hún var virk í pólitískri umræðu og tók sögukennarinn hennar eftir því. „Hann labbar upp að mér og segir: „Einn daginn verður þú forsætisráðherra“. Og þá kviknaði áhugi minn virkilega mikið,“ segir Lenya, sem var á þessum tímapunkti á öðru ári í MS og var virk í málfundafélagi skólans þar sem hún varð síðar formaður. Hún bauð sig einnig fram í alls konar stjórnir og skipulagði pallborðsumræður um ýmis samfélagsmál.
„Fólk tók vel í áhugann minn og vildi vita meira og kom til mín þegar það vildi vita meira um pólitík. Það var svolítið gaman og ágætis hvatning.“ Lenya segist hafa fundið fyrir auknum áhuga ungs fólks á stjórnmálum í aðdraganda Alþingiskosninganna síðasta haust. „Ungt fólk er byrjað að fylgjast með pólitík en þegar ég var í menntaskóla voru allir að kjósa það sem mamma og pabbi voru að kjósa. Ég var kannski með þeim fyrstu að brjótast út úr þeim hring.“
Skrifaði fyrstu þingsályktunartillöguna eftir Twitter-færslu
Að loknu stúdentsprófi lá leið Lenyu í lögfræði í Háskóla Íslands. Þar tók hún þátt í í stúdentapólitíkinni sem leiddi hana inn í starf Pírata. Lenya var oddviti í Stúdentaráði þegar heildarendurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna fór fram. „Sem oddviti er maður að leiða sína fylkingu í gegnum stúdentaráð og þar vaknaði alvöru áhugi minn. Ég hugsaði:
Ég get gert þetta. Ef ég er að stunda stúdentapólitíkina svona ótrúlega vel þá get ég kannski líka meikað það í stjórnmálum.
Segja má að stjórnmálaferillinn hafi einnig hafist á Twitter en sumarið 2020 birti Lenya ákall til þingmanna í utanríkismálanefnd vegna innrásar Tyrklands í Kúrdistan. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, svaraði kallinu. „Hann bauð mér á fund með sér þar sem við ræddum hvað er hægt að gera og hann gaf mér verkefni: Að skrifa þingsályktunartillögu.“ Sem Lenya og gerði og Smári flutti á þinginu. Lenya ákvað í kjölfarið að bjóða sig fram í prófkjöri Pírata fyrir alþingiskosningarnar haustið 2021. „Ég sagði bara „fokk it“, hvað er það versta sem getur gerst? Ég verð allavega einhvers staðar á listanum og get tekið þátt í grasrótarstarfinu og haft einhver áhrif og hvatt fleira ungt fólk til að taka þátt.“
Úrslit prófkjörsins komu Lenyu á óvart en niðurstaðan varð sú að Lenya skipaði 3. sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. „Ég var glæný í Pírötum, ég hélt að ég ætti engann séns. Ég ákvað að vera einlæg á kynningarkvöldinu. Ég er ung og veit hvað ungt fólk vill. Svo talaði ég mikið um fjölbreytileikann á þingi, akkúrat núna endurspeglar Alþingi ekki fjölbreytileika þjóðarinnar.“
Sárt að detta út af þingi en óvissan verst
Lenya lýsir kosningabaráttunni sem skrautlegri en lærdómsríkri. Kjördagur rann upp, 25. september, og kosninganóttin var æsispennandi. Um tíma var útlit fyrir að Lenya yrði uppbótarþingmaður Pírata í Reykjavík og þá um leið sú yngsta til að ná kjöri til Alþingis frá upphafi, en eftir að atkvæði voru talin á ný í Norðvesturkjördæmi varð það ekki raunin. Hún bjóst aldrei við að komast inn á þing og lýsir kosninganóttinni og vikunum þar á eftir sem einhvers konar hringekju.
Þegar Lenya fór að sofa um kosninganóttina var hún ekki þingmaður en ansi nálægt því. Snemma um morguninn var hún orðin þingmaður. „Þegar ég vaknaði fóru skilaboðin að hrúgast inn og „missed calls“ frá alls konar fjölmiðlum og fólki sem vildi óska mér til hamingju. Það tók mig svona 20 mínútur að meðtaka að ég hafi komist inn og slegið met. Og að ég hafi velt Brynjari Níelssyni úr sessi, þvílík skipti. Ég var í rosalega miklu spennufalli.“
Fréttir um að í fyrsta skipti skipuðu konur meirihluta á Alþingi voru birtar, bæði í innlendum og erlendum miðlum. Erlendir fjölmiðlar höfðu samband við Lenyu og forseti Írak hafði einnig áhuga á að ræða við hana um kosningaúrslitin. „Ég var skjálfandi allan daginn.“ Á fyrsta þingflokksfundi síðar um daginn bárust svo þær fregnir að endurtalning yrði í Norðvesturkjördæmi. Fréttirnar breyttu öllu.
„Ég kláraði þennan fund og fór og var eiginlega bara að bíða eftir alvöru úrslitunum. Ég náði ekki einu sinni að meðtaka að komast inn á þing. Svo dett ég út. Auðvitað var það sárt, en svona er þetta. Kjörbréfanefnd komst að þeirri niðurstöðu sem hún komst að, en það þýðir ekki að hún hafi verið lýðræðislegust eða réttust. Þetta var eiginlega bara versta niðurstaðan. Svo var alltaf smá von í mér. Ég var í þessari hringekju í tvo mánuði,“ segir Lenya.
Í stað þess að taka sæti á þingi reyndi Lenya að einbeita sér aftur að lögfræðinni. Alþingi staðfesti niðurstöðu kjörbréfanefndar, að láta endurtalningu í Norðvesturkjördæmi gilda, viku fyrir fyrsta lokaprófið. „Þannig mér gekk ekki vel í jólaprófunum. Ekki bara af því að ég datt út af þingi. Þessi óvissa, hún fór gjörsamlega með mig. Hún var hræðileg. Það var ekki bara ég sem var að halda í vonina. Það var fólk að hvetja mig áfram og segja mér að gera hitt og þetta, kæra þetta svona eða hinsegin og fara með til mannréttindadómstóls Evrópu. Svo endaði þetta eins og þetta endaði. En þarna kviknaði áhugi minn á kosningum almennt.“
Varð vör við hatursorðræðu daginn sem hún tók sæti á þingi
Þingið var hins vegar ekki búið að vera lengi starfandi þegar Lenya var fyrst kölluð inn sem varaþingmaður milli jóla- og nýárs. Sama dag tók Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir einnig sæti á Alþingi fyrir Pírata og er hún fyrsta manneskjan sem fædd er eftir aldamót til að taka sæti á þingi. Lenya birta mynd af þeim á Twitter og í annarri færslu minntist hún á „gellu takeover á Alþingi“. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, flest jákvæð, en sum á neikvæð. En þetta var einungis forsmekkurinn. Lenya fór að taka eftir hatursfullum ummælum um hana í kommentakerfum, sem flest snerust að uppruna hennar en einnig um aldur hennar, klæðaburð og kyn.
Þarna eru þær. Þarna eru gellurnar sem eru með aldursyfirtöku á Alþingi.
— Lenya Rún (@Lenyarun) December 27, 2021
Guð blessi Ísland. pic.twitter.com/yDdCA0JEQC
„Þegar við vorum inni á þingi tók ég þetta ekki það mikið til mín. Okkar hugsun var að við erum hluti af nýrri kynslóð og við erum að fara að vera inni á þingi, hvort sem að fólk tekur því vel eða ekki. Það er komið að okkur að taka við keflinu. En eftir á þá hefur þetta fylgt manni. Fólk í kommentakerfinu vísar í okkur sem krakka og mig sem íslamista. Þetta vakti töluverð viðbrögð en einhvers staðar þarf maður að hætta að taka mark á þessu fólki. Ég tók líka eftir stuðningnum sem við vorum að fá, hann var svo miklu, miklu meiri en hatrið. Það er það sem heldur manni gangandi í pólitík, í svona erfiðu starfsumhverfi og sviðsljósinu. Því meira áberandi sem þú verður, því fleiri stuðningsmenn færðu. En aftur á móti færðu líka fleiri gagnrýnendur. Þú þarft að vega og meta hvenær þú tekur mark á þeim og hvenær ekki.“
Lenyu fóru að berast mörg skilaboð, mörg hver mjög gróf. Hún ákvað bregðast við með því að birta hluta þeirra á Twitter. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og dreifðust víða, meðal annars á TikTok. „Fólk var byrjað að fylgjast með, þetta er fólk í grunnskóla að fylgjast með Alþingi. Það er ekki sjálfsagt og gaf mér von um það að kannski í næstu kosningum er einhver sem slær þetta aldursmet. Ekki að það skipti öllu máli en eina leiðin til þess að breyta umhverfinu hér á Íslandi er að leyfa unga fólkinu að taka þátt og þetta kannski veitti þeim einhverja hvatningu.“
Þið skiljið ekki hvað ég er þreytt á því að lesa svona um mig, væri ekki uppbyggilegra að gagnrýna áherslurnar mínar frekar en þjóðernið mitt og trúna sem ég var alin upp í en stunda ekki í dag? pic.twitter.com/4zxbSACnRw
— Lenya Rún (@Lenyarun) January 4, 2022
Lenya hefur fjórum sinnum tekið sæti á þingi sem varamaður á yfirstandandi þingi og í hvert sinn sem hún tekur sæti berast henni hatursfull skilaboð þar sem hún verður fyrir aðkasti vegna uppruna síns.
„Þetta hrúgast inn alltaf þegar ég er í fréttum. Fyrst um sinn þá leiddi ég þetta hjá mér. Ég opnaði umræðuna og allt það en þetta skar mig ekki of djúpt. En svo varð þetta svo ótrúlega mikið. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa tilfinningunni, ég fann sjálfa mig vera að leka niður, ég gat ekki meir.“
Íhugaði alvarlega að skila inn kjörbréfinu
Lenya óskaði eftir fundi með þingflokki Pírata eftir fyrstu reynslu sína sem varaþingmaður í desember. „Ég bað þau um hjálp. Ég var aldrei að segja neinum frá þessu, hvar ég var að finna þessi komment og hvað þetta var í miklum mæli. Ég sagði þeim frá þessu og sagði að ég væri alvarlega að íhuga að skila inn kjörbréfinu mínu og segja af mér sem varaþingmaður. Þetta var orðið það mikið. Það eru ennþá færslur sem ég vil ekki sýna fólkinu í kringum mig af því að ég skammast mín.“
Ég veit alveg að skömmin er ekki mín en þegar einhver smánar þig á opinberum vettvangi þá auðvitað finnur maður fyrir skömm.
Færslan sem gerði útslagið og varð til þess að Lenya íhugaði alvarlega að segja skilið við þingið fyrir fullt og allt birtist á Facebook-hópnum „Stjórnmálaspjallið“. Færslan er ein af þeim sem Lenya hefur ekki birt opinberlega en segir hún tímabært að skila skömminni. Færslan er löng og í henni spyr höfundur færslunnar hvort Lenya sé „jafnmikill Íslendingur og allir aðrir?“ Færsluna í heild sinni má sjá hér að neðan.
Í kjölfar fundarins í janúar sendi þingflokkur Pírata frá sér yfirlýsingu þar sem hatur og rasismi sem Lenya hefur orðið fyrir frá því hún hóf feril sinn í stjórnmálum er fordæmt.
„Ég kunni auðvitað að meta stuðninginn, en þetta hætti ekkert. Í hvert einasta sinn sem ég er í fréttum þá koma inn þessi komment. Ég vildi svo innilega að þau væru að gagnrýna áherslur mínar eða hvernig ég tala á þingi. En þetta er alltaf húðliturinn minn, uppruni minn, kynþátturinn minn, múslimisti eða íslamisti eða hvað sem er, sem ég er ekki einu sinni, ég er ekki múslimi, ég ólst vissulega upp við það en ég iðka ekki íslam í dag,“ segir Lenya, sem segist fyrst núna vera að átta sig á að það skiptir ekki máli hvað hún segi eða geri.
Það mun alltaf vera fólk þarna úti sem að hatar mig út af uppruna mínum.
„Þau hafa ekkert annað til að setja út á því ég hef ekkert gert af mér. Ég held að ég tali alltaf með málefnalegum og yfirveguðum hætti, það er ekki mikið til að setja út á. Ég held að fólk sé ekki vant því að sjá brúna manneskju vera áberandi í íslensku samfélagi og auðvitað kemur það fólki á óvart, sérstaklega þar sem við búum á svona litlu landi eins og Íslandi, en þau þurfa bara að venjast þessu því ég get lofað þér því að ég er ekki að fara að vera eina manneskjan af erlendum uppruna í næstu kosningum.“
En er hægt að uppræta rasisma á Íslandi?
„Ég held að það þurfi mikið samstarf milli alls konar hópa. Þetta þarf að byrja á Alþingi með lagabreytingu á hatursorðræðu, eitthvað sem hefur verið að hrjá, ekki bara mig, heldur alls konar baráttuhópa og fólk á netinu,“ segir Lenya. Auk þess þurfa fjölmiðlar, að hennar mati, að endurskoða athugasemdakerfi og taka aukna ábyrgð á þeim. „Þar kemur mesti viðbjóðurinn fram, þetta eru ekki bara skilaboð sem ég fæ, þetta er aðallega í kommentakerfum þar sem fólk leyfir sér að tjá sig með þessum hætti.“
Og þar er þetta sýnilegt öllum. „Það er nefnilega málið. Þess vegna skammast ég mín svona mikið. Ef ég sé þetta, hverjir fleiri sjá þetta? Mig langar stundum að svara, en það er kannski illa séð. Venjan er ekki að þingmenn fari í kommentakerfin og svari fyrir sig. Ég opinberaði sumt og ég vel vandlega, ég opinbera aldrei mesta viðbjóðinn því ég skammast mín alltaf mest fyrir hann. En þetta er eitthvað skref.“
„En ég ætti ekki að þurfa að gera þetta. Ef kommentakerfunum verður lokað eða þeim ritstýrt þá yrði þetta kannski ekki svona mikið mál, ef að fólk gæti kært fyrir hatursorðræðu og raunverulega trúað því að málið gæti farið í gegn og sett fordæmi, þá myndi ég trúa því meira að ég gæti leitt þetta hjá mér.“
Lenya kallar eftir heildarskoðun á löggjöf um hatursorðræðu og að fjölmiðlar taki það virkilega til skoðunar að endurskoða athugasemdakerfi sín. „Ég hef alveg sagt að mig langi að halda áfram inni á þingi. En ef hatrið er svona ótrúlega mikið þegar ég er bara varaþingmaður, hvernig verður þetta þegar ég verð þingmaður?“
Hræðist fordæmið sem Sigurður Ingi setur með afsökunarbeiðninni
Rasismi hefur verið til umfjöllunar í samfélaginu upp á síðkastið eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lét rasísk ummæli falla um Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, á móttöku sem Framsóknarflokkurinn hélt í tilefni af Búnaðarþingi bændasamtakanna. Vigdís vildi fá forystufólk úr Framsóknarflokknum til að taka mynd með sér þar sem hún „plankaði“ á meðan að það hélt á henni á Sigurður Ingi að vísað til Vigdísar sem „hinnar svörtu“.
Sigurður Ingi baðst afsökunar og fundaði nokkrum dögum síðar með Vigdísi sem birti í kjölfarið færslu á Facebook í framhaldinu þar sem hún sagði að þau hefðu átt „hreinskilið, heiðarlegt og opið samtal“. Sagðist Vigdís hafa meðtekið afsökunarbeiðni Sigurðar Inga og að hún hefði upplifað hana sem einlæga. Málinu væri lokið af hennar hálfu. Því er þó ekki alveg lokið þar sem Sigurður Ingi hefur verið kærður fyrir brot á siðareglum Alþingis.
Lenya fylgdist með málinu frá upphafi. „Þegar þetta var staðfest helltist yfir mig sorg og reiði. Ég hef fengið svona komment og jafnvel verri. Það að heyra ráðherra tala með þessum hætti, ég var rosaleg hrædd um fordæmið sem hann var að setja. Ég hef fengið afsökunarbeiðni í skilaboðum frá fólki sem hefur tjáð sig á hátt þar sem það er að gerast brotleg við lög. Afsökunarbeiðni bætir ekki alltaf allt, ekki þegar þú lætur svona orð falla.“
Nokkrum klukkustundum eftir að Sigurður Ingi baðst afsökunar á rasískum ummælum sínum fékk Lenya skilaboð frá einstaklingi sem hafði sent henni rasísk skilaboð fyrir einhverju síðan. Lenya er ekki búin að svara afsökunarbeiðninni og hyggst ekki gera það.
Lenya segir tilhugsunina um að sitja í þingsal með Sigurði Inga í raun ógnvekjandi. „Þetta sló mig rosalega mikið, ég sit í þingsal og hann er þarna stundum. Þetta er manneskja sem ég hef sagt hæ við og hef átt í einhvers konar samskiptum við. Ég varð eiginlega bara svolítið hrædd því ráðherrar hafa mikil áhrif í íslensku samfélagi, fólk lítur upp til þeirra, auðvitað.“
Ríkisstjórnin ber ábyrgð að mati Lenyu og hún kallar eftir frekari viðbrögðum frá henni. „Mér finnst að við ættum að færa ábyrgðina þar sem hún á heima, til Katrínar Jakobsdóttur, Sigurðar Inga og Framsóknarflokksins. Þau eiga virkilega að taka þetta mál til athugunar og umræðu á sínum vettvangi. Þau þurfa að spyrja sig: Hvers konar skilaboð erum við að senda út til samfélagsins og kjósenda ef við leyfum þessu að viðgangast án nokkurra afleiðinga? Þetta er líka umræða sem hefur verið í gangi lengi. Ég hef verið virk í þeirri umræðu og fólkið sem ég reyni að ná til er einmitt ráðherra, ég hef talað um hatursorðræðu í þingsal og ég trúi ekki að þetta hafi ekki náð til eyrna ráðherra.“
Fimmtán prósent þjóðarinnar eru innflytjendur og Lenya spyr hvort innviðaráðherra njóti trausts þeirra? „Ég bara veit það ekki. Ef ráðherra finnur fyrir því að hann nýtur ekki trausts kjósenda sinna lengur þá ber honum skylda til að segja af sér, við bara búum ekki í þannig umhverfi núna. Ég hef reynt að opna á þetta samtal inni á þingi en mér líður samt eins og enginn sé að hlusta, það er það versta.“
Vill ryðja brautina fyrir fólk af erlendum uppruna eða öðrum kynþætti
Lenya er ekki viss um að hún muni þola áreitið, persónuárásirnar, rasismann og hatursorðræðuna. „En mér finnst ég líka bera ábyrgð, mig langar að setja gott fordæmi og ryðja veginn fyrir komandi kynslóðir sem eru einmitt af erlendum uppruna eða öðrum kynþætti, til þess að geta tekið þátt í pólitík. Við erum í alvörunni mjög fjölbreytt samfélag. Alþingi endurspeglar það ekki. Vonandi er ég að hvetja fleira fólk til að bjóða sig fram og ef að ég þarf að þola þennan skít þannig að annað fólk þurfi ekki að þola það jafn mikið og ég skal ég glaðlega gera það.“
En einhvern tímann fær maður nóg og ég veit ekki hvenær það verður.
Þegar stjórnmálaáhugi Lenyu kviknaði af alvöru á unglingsárunum sá hún samt ekki fram á feril sem stjórnmálamaður. Hún ákvað að fara í lögfræði en stjórnmálaáhuginn var enn til staðar og ríkari en áður. „Þetta er svo góður grunnur og í lögmennskunni er hægt að láta gott af sér leiða. En það var ekki pláss fyrir manneskju eins og mig. Ég var ekki með neina fyrirmynd,“ segir Lenya.
Í dag er óhætt að fullyrða að Lenya sé orðin fyrirmynd fyrir komandi kynslóðir. „Ég vona það, ég hef allavega fengið að heyra það. Ef að það sem ég er að gera akkúrat núna hvetur fleira fólk til að bjóða sig fram, sérstaklega unga fólkið. Hefur maður það í sér að hætta? Ég veit það ekki, ég held ekki.“
Þingveturinn hingað til hefur verið viðburðaríkur og þrátt fyrir hatur og mótlæti sem Lenya hefur fundið fyrir langar hana að halda áfram.
„En ég veit ekki hvað getur gerst á þremur árum, ef ríkisstjórnin endist það lengi. Ég er líka á svo fullkomnum aldri til að prófa mig áfram, bæði í þingmennsku og lögmennsku. Akkúrat núna er svo mikið búið að vera í gangi að mig langar ennþá meira að breyta hlutum. Og ég held að á næsta kjörtímabili verði fólk raunverulega til í breytingar og vilji kannski nýja ríkisstjórn. Þá auðvitað vill maður vera hluti af því og hjálpa til við að bæta Ísland.“
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars