Íslenska ríkið tekur 146,5 krónur af hverjum seldum lítra af bensíni sem hefur aldrei kostað fleiri krónur
Bensínverð er sums staðar komið yfir 300 krónur á lítra. Viðmiðunarverð á þessu mest notaða eldsneyti íslenskra heimila hefur hækkað um meira en helming frá því í maí 2020, og hefur aldrei verið hærra. Hækkunin mun bíta veski margra heimila landsins tvisvar, fyrst beint og síðan óbeint vegna hærri verðbólgu.
Viðmiðunarverð á bensínverði hérlendis, samkvæmt nýjustu bensínvakt Kjarnans, var 294,8 krónur á lítra. Af þeirri tölu tekur íslenska ríkið 146,5 krónur, eða tæplega 50 prósent, til sín í formi virðisaukaskatts, almenns bensíngjalds, sérstakt bensíngjalds og kolefnisgjalds. Hlutur ríkisins hefur aldrei verið hærri í krónum tali. Frá því í maí 2020 hafa tekjur ríkisins vegna sölu á eldsneyti aukist um 17,5 prósent vegna verðhækkana á eldsneyti. Hækkunin er að mestu tilkomin vegna þess að virðisaukaskattur sem leggst á seldan bensínlítra skilar meiru í ríkiskassann eftir því sem útsöluverð hækkar. Hin gjöldin eru öll föst krónutala sem var reyndar hækkuð lítillega í byrjun árs.
Viðmiðunarverðið náði því að vera hæsta krónutala frá upphafi í febrúar síðastliðnum. Síðan þá hefur það hækkað um 8,8 prósent. Frá því í maí 2020 hefur bensínverð hérlendis hækkað um 52 prósent. Vert er að taka fram að ef tekið er tillit til verðbólgu þá var eldsneytisverð hærra árið 2012 en það er nú. Uppreiknað miðað við þróun vísitölu neysluverðs þá kostaði bensínlítrinn í apríl 2012 tæplega 353 krónur.
Mikilvægt er að hafa í huga að viðmiðunarverðið miðar við næstlægstu verðtölu í yfirliti síðunnar Bensínverð.is, sem hugbúnaðarfyrirtækið Seiður heldur úti, til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó ætið með lægstu verðum. Hæstu verð á bensíni í dag er nú 303,9 krónur á bensínlítra, á ýmsum bensínstöðvum N1, en lægsta verðið er 260,9 krónur á lítra, á bensínstöð Costco. Því munar sem stendur 16,5 prósent á hæsta og lægsta verði.
Verðið getur hækkað meira
Ástæðuna fyrir hækkunum síðustu vikur er að finna í gríðarlegum hækkunum á heimsmarkaðsverði á jarðefnaeldsneyti vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Líklegt innkaupaverð íslenskra eldsneytissala hefur hækkað um 24,3 prósent á innan við mánuði og um 58,4 prósent frá því um miðjan desember. Ljóst má vera að hækkanir á heimsmarkaði hafa verið meiri en hækkanir á innkaupaverði íslensku eldsneytissalanna og því má búast við því að verðið geti hækkað enn meira þegar næstu pantanir af bensíni berast til landsins.
Kjarninn greindi frá því í lok febrúar að spá fjárfestingabankans J.P. Morgan um eldsneytishækkanir vegna innrásar Rússa í Úkraínu gerði ráð fyrir að verð á bensíni gæti farið upp í 327 krónur á lítra á næstu mánuðum, ef gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal héldist óbreytt. Það hefur veikst um yfir sex prósent frá því að innrásin hófst sem þýðir að bensínið verður enn dýrara en ella.
Hefur mikil áhrif á heimilisbókhaldið
Ísland framleiðir vitanlega ekkert jarðefnaeldsneyti heldur flytur það allt inn. Bílar sem nota jarðefnaeldsneyti er enn í miklum meirihluta hérlendis. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru bensín og dísilbílarnir um 320 þúsund í lok árs 2020.
Því hafa skarpar hækkanir á eldsneytisverði mikil áhrif á rekstrarkostnað heimila. Ef horft er til þeirrar hækkunar sem orðið hefur á viðmiðunarverði frá því í maí 2020 þarf sá sem eyddi að jafnaði 15 þúsund krónum á mánuði í bensín þá þarf nú að borga 22.800 krónur fyrir sama magn af bensíni. Á ársgrundvelli er það aukinn kostnaður um 93.600 krónur. Sú tala hefur hækkað um meira en 22 þúsund krónur síðastliðinn mánuð.
Til viðbótar er eldsneytisverð einn helsti innflutti orsakavaldur verðbólgu hérlendis. Þegar heimsmarkaðsverð hækkar, eða krónan veikist, þá leiðir það til hærri verðbólgu vegna innflutnings á eldsneyti, sem verður fyrir vikið dýrari. Verðbólgan er sem stendur 6,2 prósent og hefur ekki verið hærri í næstum tíu ár. Hinar miklu hækkanir á eldsneytisverði síðustu daga og vikur munu auka verðbólguþrýsting umtalsvert.
Í Fréttablaðinu í dag var greint frá því að Alþýðusamband Íslands, Félag íslenskra bifreiðareigenda, Neytendasamtökin og fleiri félög hefðu krafist þess að ríkisstjórnin lækki skatta á bensín tímabundið vegna hækkana eða beiti sér með öðrum hætti til að létta byrðar almennings.
Olíufélögin taka minna til sín
Í útreikningum Bensínvaktarinnar er hlutur olíufélags reiknaður sem afgangsstærð þegar búið er að draga frá hlutdeild ríkisins í hverjum seldum bensínlítra og líklegt innkaupaverð á honum frá reiknuðu viðmiðunarverði, enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar.
Samkvæmt þeim útreikningum má vera ljóst að olíufélögin eru ekki að velta öllum verðhækkunum á heimsmarkaði út í verðið sem neytendur þurfa að borga við dælurnar. Hlutur olíufélags í hverjum seldum lítra er í dag 38,8 krónur á lítra og lækkar um tíu prósent milli mánaða. Hann hefur ekki verið minni síðan í september í fyrra en hann fór í 58,8 krónur á lítra í desember síðastliðnum. Síðan þá hefur sá hlutur í seldum bensínlítra sem rennur til olíufélaga í krónum talið dregist saman um 30 prósent.
Fréttaskýringin hefur verið uppfærð þar sem reiknivélin sem hún byggir á innihélt ekki hækkanir á föstum krónutölugjöldum sem leggjast á eldsneyti og tóku gildi í byrjun árs. Þær hækkanir juku hlut ríkisins í hverjum seldum olíulítra um 2,2 krónur. Það hefur nú verið lagað og allar upplýsingar nú réttar.
Gögn og aðferðafræði
Hér að ofan er birt niðurstaða útreikninga og áætlunar á því hvernig verð á lítra af bensíni skiptist milli aðila í framsetningu GRID.
- Viðmiðunarverð er fengið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Seið ehf. sem meðal annars heldur úti síðunni Bensínverð.is og fylgst hefur með bensínverði á flestum bensínstöðum landsins daglega síðan 2007. Miðað er við næstlægstu verðtölu í yfirlitinu til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó með lægstu verðum og sýnir þar með lægri hlut olíufélagsins en reikna má með að raunin sé meðaltalið af öllu seldu bensíni á landinu.
- Hlutur ríkisins liggur ljós fyrir út frá sköttum sem eru ýmist fastir og hlutfallslegir. Upplýsingar um breytingar á skattalögum eru fengnar frá Viðskiptaráði sem fylgst hefur með slíkum breytingum um árabil.
- Líklegt innkaupaverð er reiknað útfrá verði á bensíni til afhendingar í New York-höfn í upphafi mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands. Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu, skammtímasveiflna á markaði o.s.frv. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
- Hlutur olíufélags er loks reiknaður sem afgangsstærð enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar. Hafa ber í huga að þar sem viðmiðunarverð er með lægstu verðum á hverjum tíma er þessi liður ef til vill einhverju hærri sé litið til heildarviðskipta með bensín á Íslandi.
Verðupplýsingar miðast við verðlag hvers tíma. Gögnin eru uppfærð mánaðarlega í kringum 15. hvers mánaðar. Fyrirvari er gerður um skekkjumörk sem þó ættu í mesta lagi að nema fáeinum krónum á útreiknaða liði. Ábendingar um villur, lagfæringar og betrumbætur skal senda á gogn@kjarninn.is og er tekið fagnandi.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi