Katrín með öll tromp á hendi ... enn sem komið er
Tvö ríkisstjórnarmynstur virðast líkleg eins og er, miðað við stöðu mála í könnunum. Sitjandi ríkisstjórn nýtur nánast sama fylgis og útgáfa af svokölluðu Reykjavíkurmódeli. Ákvörðunarvaldið um hvað yrði myndi að óbreyttu liggja hjá langvinsælasta stjórnmálamanni þjóðarinnar, Katrínu Jakobsdóttur. Enn er þó langt í kosningar og margt getur breyst.
Nýjasta könnun Gallup sýnir að sitjandi ríkisstjórn myndi rétt halda velli ef kosið yrði í dag. Allir stjórnarflokkarnir þrír: Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndu tapa smávægilegu fylgi og samanlagt fylgi þeirra er undir 50 prósent, eða alls 48,6 prósent. Slík niðurstaða myndi samt sem áður skila þeim 34 þingmönnum og áframhaldandi meirihluta.
Könnunin sýnir líka að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, forsætisráðherra og sá stjórnmálamaður sem langflestir Íslendingar vilja að leiði næstu ríkisstjórn, á valkosti í stöðunni. Skýr möguleiki er að mynda fjögurra flokka ríkisstjórn frá miðju til vinstri. Í slíkri ríkisstjórn gætu verið, auk Vinstri grænna, Framsóknarflokkur og Samfylking og annað hvort Viðreisn eða Píratar. Samanlagður þingmannafjöldi hennar, miðað við könnun Gallup, yrði 33 og samanlagt fylgi á bakvið hana yrði það sama og yrði á bakvið óbreytta ríkisstjórn. Hið svokallaða Reykjavíkurmódel, með skírskotun í það meirihlutasamstarf sem er við lýði í Reykjavíkurborg, er því sannarlega í kortunum.
Auk þess væri hægt að skipta út annað hvort Framsóknarflokki eða Samfylkingu en þá færi þingmannafjöldinn niður í 32, sem er minnsti mögulegi meirihluti.
Fræðilegur möguleiki er einnig á því að mynda ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar, en líkurnar á því að Vinstri græn velji að fara í stjórn með þeim tveimur flokkum sem þau telja að séu mest til hægri í íslenskum stjórnmálum verða að teljast hverfandi.
Enn eru þó tæpir fjórir mánuðir í kosningar, kosningabaráttan er ekki hafin sem neinu nemur og ansi margt getur breyst þangað til að talið verður upp úr kjörkössunum 25. september næstkomandi.
Sósíalistarnir eiga ýmislegt inni
Línur eru þó farnar að skýrast á listum flestra stjórnmálaflokka fyrir komandi kosningar. Mannvalið sem er í boði liggur að mestu fyrir, þótt Sjálfstæðisflokkurinn og Flokkur fólksins eigi eftir að raða endanlega lista.
Þeir sem eiga eftir að sýna endanlega á mönnunarspilin, af þeim flokkum sem mælast með raunhæfan möguleika á að ná inn á þing, eru Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkurinn. Nær ekkert hefur spurst út um hverjir muni leiða lista Sósíalistaflokksins og Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar flokksins, hefur sagt að ekkert liggi á að birta listanna, enda langt í kosningar. Á móti hefur Sósíalistaflokkurinn verið að birta ýmis kosningatilboð. Eitt þeirra snýst um að byggja 30 þúsund íbúðir á tíu árum fyrir um 650 milljarða króna. Annað um að leggja þrepaskiptan auðlegðarskatt á ríkustu eitt prósent landsmenn en lækka skatta skarpt á miðlungstekjur og þar undir. Sósíalistaflokkurinn hefur verið að mælast reglulega inni á þingi í könnunum og gerir það áfram í nýjustu könnun Gallup, þar sem hann mælist með 5,4 prósent fylgi og þrjá þingmenn.
Miðflokkurinn fékk sjö þingmenn í kosningunum 2017 og vann kosningasigur. Enginn flokkur hefur fengið jafn mörg atkvæði í fyrstu kosningum sínum. Tveir þingmenn bættust svo við eftir Klausturmálið, þegar Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason gengu til liðs við flokkinn, og þingmennirnir þar með orðnir níu.
Hjá Miðflokknum virðist vera meira framboð en eftirspurn. Þ.e. kannanir hafa um nokkurt skeið mælt flokkinn töluvert undir kjörfylgi en þingmenn hans, að Gunnari Braga Sveinssyni undanskildum, vilja halda áfram þingsetu. Samkvæmt nýjustu könnun Gallup myndu 7,2 prósent kjósenda setja X við Miðflokkinn ef kosið yrði nú sem myndi skila honum fimm þingmönnum.
Flokkur fólksins er sá flokkur sem líklegastur er til að víkja af þingi fyrir Sósíalistaflokknum þannig að fjöldi flokka verði áfram átta, eins og hann hefur verið á þessu kjörtímabili. Hann hefur einungis einu sinni mælst með fimm prósent fylgi frá lokum árs 2018 og mælist nú með 4,3 prósent. Vert er þó að hafa hugfast að Flokkur fólksins mældist með fjögur prósent fylgi í síðustu könnun Gallup fyrir kosningarnar 2017, en frammistaða Ingu Sæland, formanns flokksins, í kappræðum í sjónvarpssal þann sama dag skilaði flokknum nægjanlegri aukningu til að ná inn.
Viðreisn má vel við una
Eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem mælist með umtalsvert meira fylgi nú en hann fékk fyrir fjórum árum er Viðreisn. Fylgi flokksins mælist 10,9 prósent sem myndi skila Viðreisn sinni bestu niðurstöðu í kosningum frá því að flokkurinn var stofnaður og sjö þingmönnum, en þeir eru fjórir í dag.
Viðreisn er búin að kynna oddvita í öllum kjördæmum og lista sína í öllum nema Norðvesturkjördæmi. Í nýjustu könnun Gallup mælist fjölmiðlamaðurinn Sigmar Guðmundsson, sem óvænt tilkynnti að hann yrði í öðru sæti á Lista Viðreisnar í Kraganum í haust, inni sem kjördæmakjörinn þingmaður og flokkurinn mælist auk þess með kjördæmakjörinn þingmann í Suðurkjördæmi, þar sem Guðbrandur Einarsson leiðir lista hans.
Samfylkingin virðist vera búin að finna botninn sinn í fylgi – í kringum tólf prósent kjörfylgi – eftir að hafa fallið skarpt í könnunum á þessu ári eftir að hafa kynnt framboðslista sína fyrir komandi kosningar. Fylgið virðist aðallega rata yfir á Vinstri græn sem hafa á sama tíma styrkt sig.
Erfiðlega virðist ganga fyrir Samfylkinguna að koma áherslum sínum með nægjanlegum þunga inn í umræðuna og sömu sögu er að segja með suma af nýju frambjóðendum hans sem raðað var í forystu fyrir næstu kosningar.
Í kosningunum 2017 fékk Samfylkingin nánast jafn mörg atkvæði í sitt hvoru Reykjavíkurkjördæminu og var yfir kjörfylgi í þeim báðum. Í könnun Gallup mælist staða flokksins mun sterkari í Reykjavíkurkjördæmi Norður, þar sem Helga Vala Helgadóttir leiðir listann og fylgið er 15 prósent, en í Reykjavíkurkjördæmi Suður þar sem Kristrún Frostadóttir leiðir og fylgið mælist ellefu prósent.
Píratar geta vel við unað ef staða þeirra í könnunum verður niðurstaða kosninga. Flokkurinn myndi bæta við sig smávægilegu fylgi og einum þingmanni. Píratar eru þó en aðeins frá því að ná þeim hæðum sem flokkurinn var í árið 2016 þegar 14,5 prósent landsmanna kusu hann og þingmennirnir urðu tíu talsins.
Sjálfstæðisflokkurinn ekki mælst yfir kjörfylgi síðan 2018
Sjálfstæðisflokkurinn siglir nokkuð lygnan sjó og hefur gert það í könnunum Gallup allt kjörtímabilið. Engar stórar dýfur – fylgi flokksins hefur farið lægst niður í 21,6 prósent – en fylgið hefur ekki mælst yfir kjörfylgi síðan í október 2018. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 25,2 prósent atkvæða haustið 2017 en mælist nú með 23,5 prósent. Það myndi þó skila flokknum sama þingmannafjölda en, í ljósi þess að tveir flokkar (Samfylking og Píratar) hafa útilokað samstarf við hann þá eru ekki margar aðrar sýnilegar leiðir sem stendur í áframhaldandi ríkisstjórnarsetu en núverandi ríkisstjórnarsamstarf, haldi það. Í könnun sem Maskína gerði nýverið fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar kom auk þess fram að þeim fækkar sem vilja að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, leiði næstu ríkisstjórn. Einungis 12,2 prósent eru á þeirri skoðun, sem er langt um minni hópur en segist ætla að kjósa flokkinn.
Framsóknarflokkurinn er búinn að kynna sína helstu lista og nokkuð augljóst hvernig þorri þess hóps sem flokkurinn bindur vonir við að skili sér inn á þing muni líta út. Fylgið mælist nú aðeins undir kjörfylgi, eða 10,4 prósent. Í sögulegu samhengi þýðir það að Framsóknarflokkurinn er að fá verstu útkomu sína í kosningum frá upphafi, gangi þetta eftir, en í þeim pólitíska veruleika sem er uppi í dag má flokkurinn ágætlega við una. Fylgi hans mældist 6,7 prósent í haust, einu ári fyrir kosningar og hann er annar af tveimur flokkum sem virðist vera í stöðu til að mynda ríkisstjórn til hægri eða vinstri eftir næstu kosningar.
Langflestir vilja Katrínu sem forsætisráðherra
Hinn flokkurinn eru Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Töluverð endurnýjum hefur orðið á listum flokksins og nýir oddvitar eru í fjórum af sex kjördæmum. Síðustu mánuði hefur fylgi Vinstri grænna verið að aukast hægt og rólega og mælist nú 14,3 prósent. Það hefur ekki mælst hærra síðan í febrúar 2018, skömmu eftir að sitjandi ríkisstjórn var mynduð. Til viðbótar eru persónuvinsældir Katrínar miklar.
Í könnun sem Gallup gerði í apríl kom fram að 67 prósent landsmanna væru ánægðir með hennar störf og í áðurnefndri könnun Maskínu sögðu 46,1 prósent aðspurðra að þeir vildu að hún yrði forsætisráðherra eftir næstu kosningar. Það er nánast sama hlutfall og nefndi leiðtoga Sjálfstæðisflokks, Pírata, Framsóknarflokks, Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Flokks fólksins til samans.
Allt bendir því til þess, eins og sakir standa nú, að Katrín sé langlíklegust til að verða áfram forsætisráðherra eftir næstu kosningar og að hún muni hafa valkosti í stöðunni. Þeir valkostir munu einnig styrkja stöðu hennar við samningaborðið þegar kemur að myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Lestu meira:
-
5. janúar 2023Ásmundur Einar Daðason staðið sig best allra ráðherra – Bjarni Benediktsson langverst
-
3. janúar 2023Samfylkingin ekki stærri hjá Gallup í tólf ár en Vinstri græn hafa aldrei mælst minni
-
21. desember 202242,1 prósent innflytjenda greiddu atkvæði í síðustu alþingiskosningum
-
26. nóvember 2022Allir formenn stjórnarflokkanna tapað umtalsverðu trausti á kjörtímabilinu
-
21. nóvember 2022Tíð ríkisstjórnarskipti og kórónuveiran hafa stóraukið nýtingu fjáraukalaga
-
19. nóvember 2022Samfylkingin hefur næstum tvöfaldað fylgið og andar ofan í hálsmálið á Sjálfstæðisflokki
-
27. október 2022Guðlaugur Þór horfir til þess að fella Bjarna
-
21. október 2022Kristrún Frostadóttir verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar
-
20. október 2022Píratar og Samfylkingin hafa samanlagt bætt við sig tíu prósentustigum á kjörtímabilinu
-
16. október 2022Guðmundur Árni býður sig fram til varaformanns en Heiða hættir við framboð