Laun forstjóra Icelandair hækkuðu um næstum helming milli ára þrátt fyrir yfir 13 milljarða tap
Þrátt fyrir að Icelandair Group hafi tapað 13,7 milljörðum króna í fyrra hækkuðu laun forstjóra félagsins um næstum helming á árinu. Icelandair Group hefur fengið milljarða úr opinberum sjóðum til að koma sér í gegnum faraldurinn og meiri fyrirgreiðslu frá stjórnvöldum en nokkurt annað fyrirtæki á Íslandi vegna þessa.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, fékk 518 þúsund Bandaríkjadali í laun og hlunnindi á síðasta ára. Á árslokagengi ársins 2021 eru það 67,5 milljónir króna eða 5,6 milljónir króna á mánuði. Til viðbótar fékk Bogi Nils 119,6 þúsund Bandaríkjadali í lífeyrisgreiðslur, eða 15,6 milljónir króna á ofangreindu gengi. Það þýðir að laun, hlunnindi og lífeyrisgreiðslur hans á síðasta ári voru samtals 83,1 milljónir króna, eða rúmlega 6,9 milljónir króna að meðaltali á mánuði.
Þetta kemur fram í ársreikningi Icelandair Group sem birtur var í síðustu viku.
Laun Boga hækkuðu umtalsvert milli ára. Hann var með 355 þúsund Bandaríkjadali í laun á árinu 2020 og fékk þá 76 þúsund Bandaríkjadali í lífeyrissjóðsgreiðslur frá félaginu. Þegar þessar tölur eru umreiknaðar í íslenskar krónur á árslokagengi síðasta árs þýða þær að laun og hlunnindi Boga voru 46,3 milljónir króna á árinu 2020, eða tæplega 3,9 milljónir króna á mánuði, og lífeyrissjóðsgreiðslurnar alls 9,9 milljónir króna. Samtals voru laun, hlunnindi og lífeyrissjóðsgreiðslur Boga á árinu 2020 því 56,2 milljónir króna miðað við árslokagengi 2021, eða 4,7 milljónir króna á mánuði.
Laun, hlunnindi og lífeyrissjóðsgreiðslur Boga hækkuðu því um 48 prósent, eða næstum helming, í Bandaríkjadölum talið milli ára.
Kjarninn sendi fyrirspurn til Icelandair Group vegna málsins og óskaði eftir útskýringum á launahækkun forstjóra. Í svari upplýsingafulltrúa félagsins segir að breytinguna megi „langmestu leyti rekja til þess að á árinu 2020 tók forstjóri á sig 30 prósent launalækkun stærstan hluta ársins. Þess má geta í þessu samhengi að ársreikningur félagsins er í USD en öll laun á Íslandi, þ.m.t. forstjóra eru greidd í íslenskum krónum. Meðalgengi íslensku krónunnar gagnvart USD styrktist á milli ára og ýkir það hækkunina í ársreikningnum.“
Gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal veiktist um 2,5 prósent á síðasta ári.
Í skýrslu tilnefninganefndar Icelandair Group, sem var birt í Kauphöll Íslands í gær, segir að það sé viðvarandi áhætta fyrir félagið að lykilstarfsmenn hætti þar sem þeir fá ekki nægilega vel greitt fyrir störf sín, en þrír úr framkvæmdastjóri Icelandair Group hafa hætt störfum frá síðasta aðalfundi. Í viðtölum sem nefndin tók við stjórnendur og stjórnarmenn í félaginu kom fram að þeir teldu þörf á „sterkari varðveisluáætlun ásamt endurskoðuðu starfskjarafyrirkomulagi æðstu stjórnenda“.
Sagði launahækkanir hér á landi „algjörlega út úr kortinu“
Bogi hefur tjáð sig um launamál með nokkuð afgerandi hætti á undanförnum árum. Í maí í fyrra var hann til að mynda gestur Dagmála í sjónvarpi mbl.is þar sem kjaramál voru rædd. Þar sagði Bogi meðal annars: „Launahækkanir hér á Íslandi hafa verið, leyfi ég mér að segja, algjörlega út úr kortinu miðað við samkeppnislöndin. Síðustu tólf mánuði hafa þetta verið ríflega tíu prósent á ársgrundvelli meðan við erum að horfa upp á núll til tvö prósent hjá samkeppnislöndunum. Þannig að þetta verður alltaf mjög krefjandi verkefni fyrir íslensk fyrirtæki að standa í þessari samkeppni en við erum að vinna í þessu módeli, þessu íslenska módeli þannig að tekjumódelið verður að endurspegla það.“
Sumarið 2020 stóðu yfir harðar kjaradeilur milli Icelandair Group og starfsmanna félagsins, sérstaklega flugfreyja og -þjóna. Samstæðan fór fram á að starfsmenn að laun og réttindi þeirra myndu skerðast. Þegar að flugfreyjur og flugþjónar höfnuðu samningi þess efnis hótaði Icelandair að ráða starfsfólk úr öðru stéttarfélagi. Um samdist að lokum.
Í janúar 2022 dæmdi Félagsdómur Flugfreyjufélagi Íslands í vil í ágreiningi við Icelandair Group. Málið snérist um það hvort starfsaldur ætti að ráða þegar Icelandair endurréði flugfreyjur sem sagt var upp starfi sumarið 2020. Icelandair sagði upp 95 prósent flugfreyja á meðal að á kjaraviðræðunum stóð og samkvæmt dómi Félagsdóms bar Icelandair að fara eftir starfsaldri þegar félagið afturkallaði uppsagnir flugfreyja og flugþjóna. Það gerði samstæðan ekki.
Tapað nærri 80 milljörðum króna á fjórum árum
Icelandair Group tapaði 13,7 milljörðum króna á árinu 2021 miðað við gengi krónu í lok þess árs en félagið gerir upp í Bandaríkjadölum. Þar af tapaði félagið 5,1 milljarði króna á síðustu þremur mánuðum ársins. Eldsneytisverð á síðasta ársfjórðungi ársins var að meðaltali tólf prósent hærra en á þriðja ársfjórðungi og 91 prósent hærra en á fjórða ársfjórðungi árið á undan og hafði þar af leiðandi umtalsverð áhrif á afkomu Icelandair Group. EBIT, afkoma félagsins fyrir fjármagnsgjöld og skatta á fjórða ársfjórðungi batnaði verulega milli ára og var sú besta frá árinu 2016.
Rekstrartap á síðasta ári var 17,7 milljarðar króna, en endanlegt tap dróst saman vegna þess að aðrar tekjur voru jákvæðar. Þar á meðal voru sala eigna, í Iceland Travel og Icelandair Hotels, og tekjufærsla vegna reiknaðra vaxta á vaxtalausri frestun á greiðslu skatta.
Tap Icelandair Group á árinu 2020 var 51 milljarður króna, árið 2019 tapaði það 7,8 milljarðar króna og á árinu 2018 var tapið um 6,8 milljarðar króna. Því hefur samstæðan tapað yfir 79 milljörðum króna á síðustu fjórum árum.
Hefur fengið milljarða úr ríkissjóði til að takast á við faraldurinn
Ekkert eitt félag hefur fengið meiri fyrirgreiðslu úr hendi hins opinbera frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á en Icelandair Group.
Engin samsteypa nýtti til að mynda hlutabótaleiðina af meiri krafti þegar henni var komið á í upphafi faraldurs. Alls setti Icelandair 92 prósent allra starfsmanna sinna í minnkað starfshlutfall í mars 2020. Í mars og apríl það ár fengu launamenn hjá þeim félögum sem mynda Icelandair-samstæðuna alls um 1,1 milljarð króna í greiðslur frá Vinnumálastofnun vegna minnkaðs starfshlutfalls. Icelandair nýtti leiðina lengur en tölur um heildargreiðslur til samstæðunnar vegna þessa hafa ekki verið birtar.
Félagið var líka í sérflokki þegar kom að því að þiggja svokallaða uppsagnarstyrki. Styrkirnir hjálpa fyrirtækjum að segja upp fólki án mikils kostnaðar fyrir þau vegna greiðslu uppsagnarfrests. Icelandair Group, og tengd félög, hafa fengið alls 4,7 milljarða króna í slíka frá því í maí 2020. Alls hafa verið greiddir úr um 12,1 milljarðar króna í uppsagnarstyrki. Það þýðir að 39 prósent heildarstyrkjanna hafa runnið til einnar fyrirtækjasamstæðu, Icelandair Group.
Tekjufallsstyrkir, vaxtalaus lán og ríkisábyrgð
Í ársreikningi Icelandair Group vegna ársins 2021 segir að félagið hafi líka fengið 195,6 milljónir króna í tekjufallsstyrki auk þess sem samstæðan
hefur líka nýtt sér úrræði stjórnvalda um að fresta skattgreiðslum og tryggingargjaldi sem félagið hefur dregið af starfsfólki. Heildarupphæðin sem félagið hefur frestað greiðslu á er 9,3 milljónir Bandaríkjadala, eða 1,2 milljarðar króna. Þessi lán vera enga vexti en Icelandair Group reiknar þann vaxtakostnað sem félagið sparar sér til tekna upp á alls 365 milljónir króna.
Til viðbótar hefur Icelandair Group aðgengi að lánalínum upp á 22,4 milljarða króna. Uppistaðan af þeirri upphæð var lánalína hjá Íslandsbanka, 65 prósent í eigu ríkisins, og Landsbankanum, að öllu leyti í eigu ríkisins, sem íslenska ríkið ábyrgðist að 90 prósent leyti. Aldrei hefur verið dregið á umræddar lánalínur og Icelandair Group tilkynnti í gær að það hefðisagt upp lánalínunni með ríkisábyrgðinni.
Sótti sér tvisvar nýtt hlutafé upp á meira en 30 milljarða
Icelandair Group fór tvívegis í hlutafjáraukningu eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Félagið safnaði alls 23 milljörðum króna í útboði sem fór fram í september 2020, en við það þynntust hluthafar niður um meira en 80 prósent. Stærstir í þeim hópi voru íslenskir lífeyrissjóðir. Almenningur tók mikinn þátt í þessari aukningu og hluthöfum í Icelandair Group fjölgaði um sjö þúsund. Hluthöfum hefur haldi áfram að fjölga síðan og um síðustu áramót voru þeir orðnir 15.287, sem er 1.779 fleiri en árið áður.
Allir sem tóku þátt í útboðinu haustið 2020 þynntust svo niður sumarið 2021 þegar Icelandair Group gerði bindandi samkomulag við bandaríska fjárfestingarsjóðinn Bain Capital um að hann keypti nýtt hlutafé í flugfélaginu. Samkvæmt samkomulaginu greiddi Bain Capital 8,1 milljarð króna og eignaðist fyrir vikið 16,6 prósent hlut í Icelandair Group. Bain Capital átti 15,7 prósent hlut í Icelandair Group um síðustu áramót og var lang stærsti eigandi félagsins.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi