Heildarmarkaðsvirði allra þeirra 29 félaga sem skráð eru á Aðalmarkað og First North markaðinn dróst saman um 14 milljarða króna í ágústmánuði og var 2.607 milljarðar króna í lok þess mánaðar. Alls lækkaði úrvalsvísitalan, sem mælir gengi þeirra tíu félaga sem eru með mestan seljanleika hverju sinni, um 5,5 prósent í mánuðinum.
Stærstu lífeyrissjóðir landsins bættu við sig beinum hlutum í útgerðarfélögunum tveimur sem skráð eru á Aðalmarkaði í síðasta mánuði. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), bæði A- og B-deild, keyptu bréf í Brimi fyrir um 290 milljónir króna og eig nú samtals 18,3 prósent hlut í félaginu. Lífeyrissjóður verzlunarmanna keypti fyrir rúmlega 48 milljónir króna í Brimi og á nú 10,6 prósent hlut og Birta lífeyrissjóður keypti fyrir sömu upphæð sem leiddi til þess að eignarhlutur hans fór í 2,8 prósent. Auk þessara sjóða eru tveir aðrir slíkir á meðal 20 stærstu hluthafa Brims, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda á 1,6 prósent hlut og Almenni lífeyrissjóðurinn á 0,7 prósent. Samanlagt eiga lífeyrissjóðir landsins því nú að minnsta kosti 34 prósent hlut í Brimi.
Langstærsti eigandi þess félags er þó enn Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf. Það félag er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar.
Auk þess eiga félögin KG Fiskverkun og Stekkjasalir, í eigu Hjálmars Kristjánssonar bróður Guðmundar og sona hans, 5,9 prósent hlut í Brimi og félagið á 1,6 prósent hlut í sjálfu sér. Bræðurnir halda því á 49,9 prósent hlut í útgerðarrisanum og geta saman myndað meirihluta í honum ef atkvæðavægi eigin hlutar Brims er dregið frá.
Brim hagnaðist um 6,9 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Hagnaður félagsins var 113 prósent meiri en á sama tímabili í fyrra þegar hann er reiknaður í evrum, uppgjörsmynt Brims.
Tekjur Brims á fyrri helmingi ársins 2021 voru 34,3 milljarðar króna og eigið fé félagsins 58,6 milljarðar króna í lok júní síðastliðins. Eiginfjárhlutfallið var 50,4 prósent um mitt þetta ár. Tekjur Brims á fyrri helmingi ársins 2021 voru 34,3 milljarðar króna og eigið fé félagsins 58,6 milljarðar króna í lok júní síðastliðins. Eiginfjárhlutfallið var 50,4 prósent um mitt þetta ár.
Hlutabréfaverð í Brimi hefur hækkað um 73 prósent frá því seint í september í fyrra, eða um rúmleg 107 milljarða króna. Markaðsvirði félagsins nú er um 183 milljarðar króna.
Lífeyrissjóðir komnir með fimmtung í Síldarvinnslunni
Lífeyrissjóðirnir hafa líka verið að byggja upp stærri stöður í Síldarvinnslunni, en hún var skráð á markað í fyrra. Í ágústmánuði keypti Gildi lífeyrissjóður hlutabréf í útgerðarfélaginu fyrir tæplega 1,3 milljarða króna og á nú 10,8 prósent hlut. Lífeyrissjóður bankamanna keypti hluti fyrir 575 milljónir króna í mánuðinum, og á nú 0,3 prósent, og lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar keypti 0,2 prósent hlut fyrir rúmlega hálfan milljarð króna.
Alls eiga þeir lífeyrissjóðir sem eru á meðal 20 stærstu eigenda Síldarvinnslunnar nú beint 20,8 prósent hlut í félaginu, en Stapi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Festa, Almenni lífeyrissjóðurinn, Brú og lífeyrissjóður Vestmannaeyja eru einnig á meðal hluthafa.
Auk þess eiga lífeyrissjóðir óbeina hluti í gegnum sjóðstýringafyrirtæki sem keypt hafa hluti í útðgerðarrisunum tveimur.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji (32,6 prósent) og félagið Kjálkanes 17,4 prósent), sem er í eigu sömu einstaklinga og eiga útgerðina Gjögur frá Grenivík. Þar er meðal annars um að ræða Björgólf Jóhannsson, sem var um tíma annar forstjóri Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum, meðal annars systkini hans. Þá á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, 15 prósent hlut í öðru félagi, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem á 3,8 prósent hlut í Síldarvinnslunni. Á meðal annarra hluthafa í Snæfugli er Björgólfur. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Þá á félagið Hraunlón, í eigu Gunnþórs Ingvasonar, Axels Ísakssonar og Jóns Más Jónssonar, sem allir eiga sæti í framkvæmdastjórn Síldarvinnslunnar, um eitt prósent hlut.
Samkeppniseftirlitið telur vísbendingar um að þessir aðilar, Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, eigi mögulega að teljast tengdir í skilningi laga. Þetta kom fram í ákvörðun sem eftirlitið birti í byrjun árs 2021. Þeir héldu samtals á 22,14 prósent af öllum úthlutuðum kvóta í nóvember í fyrra.
Samanlagður eignarhlutur þessara aðila, sem Samkeppniseftirlitið telur vísbendingar um að séu tengdir, er því 54,8 prósent.
Síldarvinnslan birti uppgjör sitt fyrir fyrri hluta ársins 2022 í síðasta mánuði. Þar kom fram að hagnaður félagsins hafi verið 6,5 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins, ef miðað er við gengi Bandaríkjadals í dag, en útgerðin gerir upp í þeim gjaldmiðli.
Eigið fé Síldarvinnslunnar var 61,7 milljarðar króna um mitt þetta ár. Verðmætasta bókfærðu eignir félagsins eru aflaheimildir sem eru sagðar 37,7 milljarða króna virði.
Hlutabréfaverð í Síldavinnslunni hefur hækkað um rúmlega 85 prósent frá því seint í september í fyrra, eða um 95 milljarða króna. Markaðsvirði félagsins nú er um 211 milljarðar króna. Hlutur stærsta einstaka eigandans, Samherja, hefur einn og sér hækkað um 31 milljarð króna.
Kaupverðið á Vísi hækkað um 4,5 milljarða
Verði fyrirhuguð kaup Síldarvinnslunnar á útgerðarfyrirtækinu Vísi í Grindavík samþykkt af Samkeppniseftirlitinu munu eignarhlutir annarra hluthafa þynnast niður. Þegar greint var frá kaupunum var kaupverðið sagt 31 milljarður króna. Af þeirri upphæð eru 11 milljarðar króna í formi yfirtöku skulda og sex milljarðar króna verða greiddir í reiðufé. Alls 14 milljarðar króna áttu hins vegar að greiðast með útgáfu nýs hlutafjár í Síldarvinnslunni.
Þar var miðað við gengið 95,93 krónur á hlut. Síðan að kaupin voru tilkynnt 10. júlí síðastliðinn hefur hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hins vegar hækkað um 32 prósent. Hluturinn sem systkinin sex sem eiga Vísi í dag fá í Síldarvinnslunni, gangi viðskiptin eftir, er því nú metinn á 18,5 milljarða króna og hefur hækkað um 4,5 milljarða króna á tæpum tveimur mánuðum.
Verði af kaupunum bætist 2,16 prósent kvóti Vísis við og samanlagður úthlutaður kvóti til Samherja og mögulegra tengdra aðila fer upp í 24,3 prósent, eða næstum fjórðung allra úthlutaðra aflaheimilda á Íslandi.