Ný gildi samfélagsmiðlarisans Meta, eins verðmætasta fyrirtæki heims, voru kynnt af Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook og forstjóra Meta, í vikunni. Í leiðinni svipti hann hulunni af því sem hann hvetur starfsfólk hér eftir til að kalla sig: Metamates.
Gælunöfn yfir starfsfólk tæknifyrirtækja er eitthvað sem tíðkast hefur í Bandaríkjunum frá því að þau fyrstu urðu til í Kísildalnum. Þannig gengur starfsfólk Google undir nafninu „Googlers“, „Amazonians“ starfa hjá Amazon og starfsfólk Yahoo gengur einfaldlega undir nafninu „Yahoos“. Það var því bara tímaspursmál hvenær starfsfólk Meta fengi nýtt nafn eftir að fyrirtækið sagði skilið við Facebook-nafnið og „Facebookers“ á síðasta ári.
Svo það fari ekki milli mála þá fól nafnbreytingin í október í sér breytingu á nafni móðurfyrirtækisins Facebook. Samfélagsmiðillinn Facebook eins og við þekkjum hann hefur ekki breytast mikið, ef eitthvað. Facebook varð Meta en samfélagsmiðillinn Facebook fór undir hatt fyrirtækisins líkt og Instagram, Whatsapp og Oculus, smáforrit og samfélagsmiðlar sem eru í eigu fyrirtækisins.
Nýr kafli Meta hafinn
Við nafnbreytinguna sagði Zuckerberg að Facebook-nafnið fangaði ekki lengur allt sem fyrirtækið gerir og heildin væri of tengd við eina vöru, þ.e. samfélagsmiðilinn Facebook. Hann sagðist vona að með tíð og tíma yrði litið á Meta sem „metaverse“ fyrirtæki, þar sem raunveruleiki og sýndarleiki sameinast í einni veröld þar sem notendum er nánast ekkert óviðkomandi.
Zuckerberg segir í færslu á Facebook að nú sé nýr kafli fyrirtækisins hafinn, sem Meta, og því sé kominn tími til endurskoða gildi þess og því hafi þau verið uppfærð. „Við munum halda áfram að ráða fólk út um allan heim og það er gagnlegt fyrir fólk að vita hvernig það er að vinna hjá Meta og hvað aðskilur okkur frá öðrum fyrirtækjum,“ segir Zuckerberg í færslunni, en í henni deilir hann einnig bréfi til starfsmanna sem hann sendi í vikunni.
Zuckerberg segir að verkefni Meta sem metaverse-fyrirtækis sé að leggja grunn að framtíð félagslegra tengsla. „Nú er rétti tíminn til að uppfæra gildi okkar og menningarlegt stýrikerfi,“ segir hann í færslu sinni.
As we build the next chapter of our company as Meta, we just updated the values that guide our work. I wrote the note...
Posted by Mark Zuckerberg on Tuesday, February 15, 2022
Áhersla á samvinnu og samstöðu
Meðal gilda og slagorða sem Facebook hefur unnið með frá stofnun þess árið 2004 eru „move fast and break things“, sem síðar var tónað niður í „move fast“ þannig að í staðinn fyrir að „vinna hratt og brjóta hluti“ voru skilaboðin einfaldlega að vinna hratt. Nú beinir Zuckerberg skilaboðum sínum til starfsfólksins að halda áfram að vinna hratt, en gera það saman: „Move fast together“. „Þetta snýst um að vinna hratt í sameiningu - í eina átt sem fyrirtæki, ekki bara sem einstaklingar.“
Á ýmsu hefur gengið hjá Meta síðasta ár. Facebook-skjölin, þar sem fyrrverandi starfsmaður Facebook lak gögnum til Wall Street Journal, komu upp um vafasama hegðun Facebook, svo sem að einblína á gróða frekar en öryggi notenda sinna og að hylma yfir sönnunargögn um dreifingu falsfrétta og áróðurs í gróðaskyni. Bilanir plöguðu einnig fyrirtækið á síðasta ári þar sem Facebook og fleiri samfélagsmiðlar fyrirtækisins lágu niðri í margar klukkustundir.
Daglegum notendum fækkar í fyrsta skipti í sögu Facebook
Nafnbreytingin var ekki síst gerð til að breyta, og í leið bæta, ímynd Facebook. Staðreyndin er hins vegar sú að Facebook, eða Meta, er enn í vandræðum.
Á síðasta ársfjórðungi fækkaði daglegum notendum Facebook um 500 þúsund og er það í fyrsta skipti í 18 ára sögu fyrirtækisins sem daglegum notendum fækkar. Aðrir miðlar í eigu Meta, líkt og WhatsApp, Messenger og Instagram, náðu heldur ekki að bæta við sig mörgum notendum.
Eftir kynningu síðasta árshlutauppgjörs hrundi verðið á hlutabréfum í Meta um fimmtung á einum degi, eftir að tekjur fyrirtækisins voru undir væntingum í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri. Markaðsvirði Meta féll því um rúma 200 milljarða dollara á sólarhring.
Í tilkynningu sinni með árshlutauppgjörinu segist Meta búast við áframhaldandi erfiðleikum í tekjuöflun vegna aukinnar samkeppni og breytinga í neytendahegðun. Einnig býst fyrirtækið við erfiðleikum vegna nýrra lagasetninga sem gera fyrirtækinu erfiðara fyrir að safna upplýsingum um neytendur.
„Metamates“ uppástunga frá manni sem notar ekki Facebook
Ímyndaruppbygging Meta heldur hins vegar áfram og virðist hluti af henni, ef marka má orð Zuckerberg, að efla starfsmannaandann og sýna í leiðinni hvað það er gaman að vinna hjá Meta. Á starfsmannafundinum í vikunni kynnti Zuckerberg ný einkunnarorð fyrirtækisins: Meta, Metamates, Me. „Þetta snýst um að vera góðir fulltrúar fyrirtækisins okkar og markmiða þess. Þetta snýst um ábyrgðarkennd okkar gagnvart sameiginlegri velgengni okkar sem liðsfélagar. Þetta snýst um að hugsa vel um fyrirtækið okkar og hvort annað,“ segir Zuckerberg í færslu sinni.
Metamates er í raun vísun í bandaríska sjóherinn og kemur hugmyndin frá Douglas Hofstadter, prófessor í hugrænum vísindum við Indiana University. Hofstadter, sem hlaut Pulitzer-verðlaunin fyrir bók sína „Gödel, Escher, Bach: An Eternal Golden Braid“, stakk upp á Metamates í tölvupósti frá yfirmanni tæknimála hjá Meta, sem leitaði eftir uppástungum frá honum í tölvupósti.
Fun fact: Metamates was coined by none other than Douglas Hofstadter himself after an employee cold emailed him for ideas after our rebrand. I love it!
— Boz (@boztank) February 15, 2022
Also the saying is a reference to a Naval phrase which Instagram has used for a while "Ship, Shipmates, Self"
Túlka má einkunnarorðin „Meta, Metamates, Me“ sem vísun í bandaríska sjóherinn sem hefur stuðst við einkunnarorðin „Ship, Shipmates, Self“, sem Instagram hefur reyndar líka gert. Hofstadter stakk upprunalega upp á „teammate“ til að lýsa starfsfólki Meta en „Metamate“ var nefnt sem annar mögulegur kostur. Aðspurður segist Hofstader ekki hafa hugmynd um að Meta hafi tekið upp „Metamates“ fyrir starfsfólk sitt. „Á meðan ég man, ég nota ekki Facebook og hef aldrei gert,“ skrifar hann í tölvupósti til blaðamanns New York Times. „Ég forðast alla samfélagsmiðla, þeir eru ekki minn stíll. En tölvupóst nota ég!“
Fyrirtækjamenning tæknigeirans ekki jafn krúttleg og áður
En mun starfsfólk Meta koma til með að tala um sig og samstarfsfélagana sem Metamates?
Hundruð starfsmanna brugðust við tíðindunum á innri vef Meta með hjarta-lyndistákni (e. emoji) en efasemdartón má greina í einkaskilaboðum sem New York Times hefur undir höndum. „Hvernig er þetta að fara að breyta fyrirtækinu? Ég skil ekki skilaboðin,“ skrifar verkfræðingur hjá Meta í skilaboðum til samstarfsmanns. „Við erum alltaf að breyta nafninu á öllu og það er ruglandi.“ Þá nefna nokkrir starfsmenn að þeim finnist vísun í herinn óþægileg tilhugsun.
Blaðamaður New York Times spyr hvort ekki sé kominn tími á að tæknifyrirtækin segi skilið við gælunöfnin. Þau hafi kannski þótt töff þegar fyrirtækin voru að stíga sín fyrstu skref. Tækni sé hins vegar eðlilegur hluti af lífi fólks í dag og „krúttleg tæknifyrirtækjamenning“ heyri því sögunni til, svo sem gælunöfn yfir starfsfólkið.
Zuckerberg virðist hins vegar sannfærður um ágæti Metamates og brýnir fyrir starfsfólki sínu að hugsa til lengri tíma. „Við eigum að takast á við þær áskoranir sem munu hafa hvað mest áhrif, jafnvel þótt árangurinn verði ekki sýnilegur fyrr en eftir nokkur ár.“