Í tölvupósti sem þáverandi formaður kærunefndar útlendingamála sendi tveimur starfsmönnum Rauða krossins, sem þá sinnti allri hagsmunagæslu þeirra sem sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi, frá árinu 2020 segir að nefndin hafi haft nokkur mál til umfjöllunar þar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd byggðu umsókn sína á samkynhneigð. Í einu máli hafi myndir af umsækjanda í kynlífsathöfnum með öðrum mönnum verið lagðar fram, auk þess sem lögmaður hans kvaðst einnig hafa undir höndum myndbandsupptökur af svipuðum toga og spurði hvort kærunefndin óskaði eftir að þau yrðu lögð fram.
Kærunefndin hafi svarað því að ekki væri óskað eftir slíkum gögnum en það væri ákvörðun talsmanns hvaða gögn yrðu lögð fram. Þá segir jafnframt að af orðum umsækjanda hafi mátt ráða að talsmaður hans hefði hvatt hann til að leggja fram gögn sem sýndu fram á að hann hefði verið með öðrum mönnum.
Eftir viðtalið við umsækjanda hafi kærunefndin rætt málin og afstaða nefndarinnar hafi verið skýr og afdráttarlaus: Gögn af þessum toga hefðu ekkert sönnunargildi um samkynhneigð og að nefndin myndi ekki taka við slíkum gögnum eða byggja á í úrskurðum sínum. Slíkt misbjóði mannlegri reisn allra þeirra sem komi að ferlinu, og sérstaklega þeim sem komið hafi til Íslands til að sækja um vernd. Var þess óskað að hugmyndir sem þessar yrðu alfarið og endanlega slegnar út af borðinu hjá Rauða krossinum.
Héraðsdómur slær á fingur útlendingayfirvalda
Vísir fjallaði á dögunum um dóm héraðsdóms sem sneri við ákvörðun kærunefndar útlendingamála um að synja umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem sótt hafði um hana á grundvelli kynhneigðar, um hæli á þeim grundvelli að ekki hafi tekist að sanna kynhneigð hans. Lögfræðingur mannsins sagði málið afleitt enda væri maðurinn giftur öðrum manni og gagnrýndi útlendingayfirvöld fyrir að ganga alltaf út frá því að umsækjendur um alþjóðlega vernd væru að ljúga til um kynhneigð sína og leggði á þá mikla sönnunarbyrði í þeim efnum. Þá gengju yfirvöld jafnframt langt í að afsanna fullyrðingar umsækjenda. Til dæmis hefðu stjórnvöld eytt mörgum klukkustundum í að kemba samfélagsmiðla annars skjólstæðings hans til að afsanna að hann væri samkynhneigður.
Lögmaðurinn telur dóm héraðsdóms slá á fingur útlendingayfirvalda í þessum málum, en í kjölfarið lét Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari umdeild ummæli falla um hinsegin hælisleitendur, þar sem hann sagði þá „auðvitað ljúga“ og spurði hvort ekki væri nóg af hommum á Íslandi. Í viðbrögðum við ummælunum sagði Daníel A. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, meðal annars að dæmi væru um að hinsegin hælisleitendur hefðu þurft að sanna kynhneigð sína með því að leggja fram myndir og/eða myndskeið af sér í kynlífsathöfnum.
Mörgum hefur eflaust brugðið við þessi ummæli formanns samtakanna, en þó þau eigi hugsanlega ekki við á Íslandi, eins og tölvupóstsamskiptin sem fjallað var um hér að ofan gefa til kynna, er þetta víða raunveruleiki hælisleitenda sem sækja um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar. Í Bretlandi hefur til að mynda verið fjallað um þessi mál í fjölmiðlum og fræðimenn á sviði innflytjenda og hælisleitenda hafa talsvert fjallað um þessi mál í rannsóknum sínum.
Að bera sönnur á kynhneigð
Sönnunarbyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd er almennt mikil. Til að fá stöðu flóttamanns þurfa þeir að hafa orðið fyrir ofsóknum, eða hafa vel rökstuddan ótta um ofsóknir á grundvelli þjóðfélagshóps sem þeir tilheyra. Í tilfellum samkynhneigðra getur slík sönnunarbyrði verið sérstaklega þung. Líkt og ummæli vararíkissaksóknara gefa til kynna gera fordómar og tortryggni hinsegin hælisleitendum sérstaklega erfitt fyrir. Svo virðist sem margir telji að það að sækja um hæli á grundvelli kynhneigðar sé einhvers konar auðveld leið sem hælisleitendur velja sér, en svo er augljóslega ekki þegar nær ómögulegt er að bera sönnur á kynhneigð. Ekki síst vegna þess að þeir sem eru frá löndum þar sem samkynhneigð er samfélagslega ósamþykkt eða jafnvel ólögleg hafa oftar en ekki þurft að fara leynt með kynhneigð sína allt sitt líf til að tryggja öryggi sitt.
Það skapar ákveðin vandkvæði, en það þekkist víðar en á Íslandi að stjórnvöld reiði sig á samfélagsmiðla umsækjenda til þess að skera úr um hvort trúverðugt sé að viðkomandi sé samkynhneigðir, en eðlilega þurfa þessir einstaklingar líka að fara leynt með kynhneigð sína á samfélagsmiðlum. Þegar litið er til þess að jafnvel á Íslandi hjónaband umsækjanda við annan mann ekki verið talin næg sönnun um kynhneigð mannsins má spyrja sig til hvaða ráða hælisleitendur geta gripið.
Það er því ekki endilega þannig að innflytjendayfirvöld biðji sérstaklega um sönnunargögn í formi ljósmynda og/eða myndskeiða af þeim í kynlífsathöfnum, heldur er um að ræða örþrifaráð umsækjenda í tilraun til þess að sanna kynhneigð sína þegar allt annað þrýtur. Og það má alveg líta þannig á að það standi fátt annað til boða þegar fátt annað er tekið gilt, en slík er vantrúin á upplifanir hinsegin hælisleitenda, að dæmi eru um það í Bretlandi að hvers kyns vitnisburður um kynhneigð viðkomandi er ekki tekinn trúanlegur nema vitnið hafi sjálft stundað kynlíf með hælisleitandanum.
Þó margir séu slegnir yfir frásögnum sem þessum er það staðreynd að hinsegin hælisleitendur eru einhver viðkvæmasti og ósýnilegasti hópur fólks sem sækir um alþjóðlega vernd í heiminum í dag og ljóst að víða er pottur brotinn í meðferð mála þeirra, bæði hérlendis og erlendis.
Fræðileg heimild: https://journals.sagepub.com/doi/10.1177/1363460714552253
Lestu meira
-
23. ágúst 2022Aldrei fleiri hælisleitendur yfir Ermarsundið á einum degi
-
26. júlí 2022Myndir af kynlífsathöfnum ekki krafa heldur örþrifaráð hinsegin hælisleitenda
-
25. júlí 2022Dómsmálaráðherra beiti agaviðurlögum vegna ummæla vararíkissaksóknara
-
9. júlí 2022„Ég get ekki skrifað undir minn eigin dauðadóm“
-
7. júlí 2022Voru „korteri frá brottflutningi“ en fá nú efnismeðferð
-
14. júní 2022Framkvæmd „illkvittnu“ laganna að hefjast: Fyrsta vélin á áætlun í kvöld
-
11. júní 2022„Þetta er álag á kerfið allt saman“
-
25. maí 2022„Íslensk stjórnvöld sjá mig ekki“
-
23. maí 2022„Þarf ekki meira en eitt pennastrik til að sýna aukna mannúð“
-
20. maí 2022Konur upplifi sig ekki öruggar á Ásbrú – og erfitt að koma óskum á framfæri