Ráðuneytið spurði hagsmunasamtök og komst að þeirri niðurstöðu að brottkast væri „óverulegt“
Kjarninn greindi frá því í morgun að drónaeftirlit Fiskistofu með brottkasti, sem hófst í byrjun árs, skilaði því að brottkastsmálum fjölgaði úr um tíu á ári í 120. Sjávarútvegsráðuneytið hefur ekki talið brottkast vandamál og byggði það mat á lýsingum hagsmunasamtaka útgerðar og sjómanna.
Brottkast er bannað á Íslandi. Samkvæmt lögum um umgengni um nytjastofna sjávar er skylt að hirða og landa öllum afla sem í veiðarfæri fiskiskipa kemur í íslenskri lögsögu, með þeim sérstaklega skilgreindum undantekningum. Þær undantekningar snúa að uppistöðu að því að sleppa má fiski sem hefur ekki verðgildi eða ákveðnum tegundum sem enn eru taldar lífvænlegar sé þeim sleppt.
Óheimilt er að henda heilum fiski eða hluta hans aftur í sjóinn og skal þess gætt að afli skemmist ekki í veiðarfærum.
Þrátt fyrir þessi skýru lög hafa lengi verið uppi skýrar áhyggjur frá aðilum sem starfa á vettvangi sjávarútvegs um að brottkast eigi sér stað í talsverðum mæli og sé raunverulegt vandamál innan íslenska fiskveiðikerfisins.
Eftirlit með brottkasti á fiski hefur hins vegar verið lítið á Íslandi nánast alla tíð, og brottkastið því ekki virst mikið. Ástæða þess hefur oftar en ekki verið sögð mikill kostnaður við það að senda eftirlitsmenn á sjó. Fyrir vikið hefur verið erfitt að fullyrða um umfang brottkasts.
Ráðuneytið hélt því fram að brottkast væri „óverulegt“
Með bréfi dagsettu 8. mars 2018 fór Alþingi þess á leit við ríkisendurskoðanda að hann gerði úttekt á eftirliti Fiskistofu með ýmsum þáttum, meðal annars brottkasti, og því hvort stofnunin sinnti lögbundnu hlutverki sínu. Skýrslu var skilað til Alþingis í desember 2018 og birt opinberlega í janúar 2019.
Niðurstaða hennar var meðal annars að eftirlit með brottkasti væri „afar takmarkað, veikburða og ómarkvisst“.
Í skýrslunni má finna svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á þessum tíma við fyrirspurnum Ríkisendurskoðunar um brottkast. Þar kemur meðal annars fram að ráðuneytið teldi „að brottkast sé óverulegt innan íslenska fiskveiðiflotans þrátt fyrir þá sterku hagrænu hvata sem eru til staðar [...] Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga hafi verið ályktað að í heildina sé brottkast ekki mikið vandamál“.
Þetta mat ráðuneytisins var meðal annars byggt á lýsingum hagsmunasamtaka útgerðar og sjómanna, ekki sjálfstæðum rannsóknum á brottkasti.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að í ljósi þess hversu takmarkað eftirlit stjórnvöld höfðu með brottkasti sem og takmarkaðra rannsókna á umfangi þess væri vart tilefni til fullyrðinga um umfang brottkasts. „Þá er ljóst að samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun hafa engar rannsóknir á tegundaháðu brottkasti farið fram þar í rúman áratug auk þess sem gagnasöfnun um lengdarháð brottkast hefur talsvert dregist saman undanfarin ár. Að byggt sé m.a. á lýsingum hagsmunaaðila, við mat ráðuneytisins á þessum þætti, eins og kom fram í svari þess til Ríkisendurskoðunar, er gagnrýnivert: Í samtölum við hagsmunasamtök bæði útgerðar og sjómanna hefur ekki komið fram að brottkast á Íslandsmiðum sé sérstakt vandamál. Hafrannsóknastofnun áætlar árlega brottkast á þorski og ýsu og hafa niðurstöðurnar ekki bent til að brottkast á undirmálsafla sé verulegt hvað þessa stofna varðar. Eftir sem áður munu ætíð koma upp tilvik, en eftirlit á sjó er miklum vandkvæðum bundið vegna kostnaðar.
Drónaeftirlit sýnir umfangsmikið brottkast
Ríkisendurskoðun lagði til nokkrar úrbætur í skýrslu sinni. Í fyrsta lagi að kanna þyrfti hvernig hægt væri að auka samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar við eftirlit með brottkasti. Í öðru lagi að auka þyrfti viðveru eftirlitsmanna um borð í fiskiskipum og í þriðja lagi þyrfti að horfa til tækninýjunga við eftirlit sem gætu sparað bæði tíma og fjármagn.
Síðasti hluti úrbótanna fól meðal annars í sér drónaeftirlit með brottkasti. Það hófst í byrjun árs 2021. Kjarninn greindi frá því í morgun að afleiðing þess er sú að það sem af er ári hefur Fiskistofa tekið til meðferðar að minnsta kosti 120 mál sem varða ætlað brottkast afla frá fiskiskipum, stórum og smáum. Frá árinu 2012 hafði málafjöldinn verið frá tveimur og upp í 26 mál á ári, en oftast hafa málin verið um eða undir tíu talsins. Á milli áranna 2020 og 2021 hefur málafjöldinn að minnsta kosti ellefufaldast.
Drónaeftirlitið fer að mestu leyti fram frá landi, sem leiðir til þess að stærstur hluti brottkastsmálanna sem Fiskistofa skráir er vegna veiða sem fram fara nærri landi. Það þýðir að eftirlitið nær ekki nema að takmörkuðu leyti yfir flest stærstu skip flotans, sem eru í eigu stærstu útgerða landsins, og veiða á miðum fjær landi.
Beiðnin sett fram eftir þátt Kveiks um brottkast
Beiðni um úttekt ríkisendurskoðanda kom frá hópi þingmanna Samfylkingar og Pírata. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var fyrsti flutningsmaður hennar.
Í greinargerð með beiðninni sagði að að tilefni málsins sé umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks á RÚV 21. nóvember 2017, þar sem komu fram ábendingar um að Fiskistofu tækist ekki að uppfylla skyldur sínar lögum samkvæmt.
Í þeim þætti voru meðal annars sýndar upptökur af umfangsmiklu brottkasti um borð í Kleifabergi, skipi sem var gert út af Útgerðarfélagi Reykjavíkur.
Málið hefur síðan þvælst um kerfið. Í byrjun árs 2019 ákvað Fiskistofa að svipta Kleifaberg veiðileyfi í 12 vikur vegna brottkasts en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ákvað fyrst að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar og fella hana síðar endanlega úr gildi, meðal annars vegna þess að hluti upptakana hafi verið frá árunum 2008 til 2010.
Ráðuneytið sagði Fiskistofu að rannsaka upptökur af brottkasti frá árinu 2016 á þeim grundvelli að um möguleg eignaspjöll skipverja væri að ræða. Það er í samræmi við beiðni sem útgerð skipsins sendi lögreglu í nóvember 2017, um að rannsókn færi fram á því að spjöll hafi verið unnin á eignum hennar með brottkastinu.
Fiskistofa hefur ekki heimildir til að rannsaka eignaspjöll og því liggur það mál hjá lögreglu. Í frétt sem birtist á RÚV snemma á síðasta ári kom fram að lögreglan hafi ítrekað fellt niður rannsóknir vegna kæra sem borist hafa vegna málsins.
SFS sagði áhyggjur af brottkasti „að mestu óþarfar“
Daginn eftir að Kveiksþátturinn var birtur í nóvember 2007 sendi framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Heiðrún Lind Marteinsdóttir, frá sér yfirlýsingu með yfirskriftinni: Umfjöllun um brottkast – Kveikur án elds“.
Yfirlýsingin er ekki lengur aðgengileg á vef SFS en hægt er að lesa hana í heild sinni í frétt sem Morgunblaðið gerði um hana á sínum tíma. Fyrirsögn þeirrar greinar er: „Segir áhyggjur af brottkasti að mestu óþarfar“.
Í henni sagði meðal annars að upptaka kvótakerfisins hefði dregið verulega úr brottkasti og að Ísland væri leiðandi í heiminum í baráttunni gegn þeim vágesti. „Við Íslendingar getum því, líkt og að svo mörgu öðru leyti þegar kemur að sjávarútvegi, verið stolt af þeim mikla árangri sem náðst hefur. Áframhaldandi gott samstarf allra hagsmunaaðila mun svo vonandi takmarka enn frekar jaðartilvik sem upp geta komið og stríða gegn meginreglunni um bann við brottkasti.“
Í yfirlýsingunni sagði enn fremur að þær áhyggjur sem settar höfðu verið fram af viðmælendum í þætti Kveiks væru að mestu óþarfar.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári