Segist leiðast „pólitískt mont“ og að Borgarlínan sé stærsti áfanginn á ferlinum
Í nýrri bók Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, „Nýja Reykjavík“ rekur hann fjölmargt sem átti sér stað á bakvið tjöldin í stjórnmálum síðustu ára, og hefur ekki áður komið fram. Hann hrósar pólitískum andstæðingum, sérstaklega leiðtogum ríkisstjórnarinnar, og dregur upp það sem hann er stoltastur af á ferlinum. Dagur viðurkennir líka mistök, meðal annars þau þegar hann sendi harðorðan tölvupóst á tvo formenn stjórnarflokkanna vegna stöðu samgöngumála höfuðborgarsvæðisins sem innihélt mat á „pólitískri hættu í málinu fyrir Katrínu og VG vegna loftslagsmála sem ég taldi að gæti leitt til slita á ríkisstjórninni“.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur skrifað bók, „Nýja Reykjavík“, þar sem hann birtir pólitíska sýn sína, opinberar fjölmargt sem gerst hefur í bakgrunni pólitískra ákvarðana og blandar saman við eigið persónulega líf. Í bókinni fjallar hann meðal annars um aðdraganda gerðar samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem inniheldur fullfjármagnaða Borgarlínu, og hvernig þverpólitískt samstarf hafi skilað því máli í höfn. Um hafi verið að ræða stærsta áfanga og mesta árangur sem Degi finnst hann hafa náð á öllum borgarstjórnarferli sínum.
Hann segir að sér leiðist pólitískt mont og að það sé ótrúlegt hverju sé hægt „að ná fram ef maður skeytir ekki um hver fær heiðurinn“. Í því samhengi hrósar hann mörgum pólitískum andstæðingum sínum hástert, bæði þeim sem stýra núverandi ríkisstjórn og Sjálfstæðismönnunum sem stýra nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur.
Í bókinni nefnir Dagur sérstaklega að hann beri virðingu fyrir því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, hafi tekið slaginn í eigin hópi og staðið með sáttmálanum með umbótaöflunum þar inni þrátt fyrir mikinn mótbyr. Dagur talar ekki af jafn mikilli virðingu um afstöðu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokks. „Umskipti í viðhorfum, framtíðarsýn og nýtt fólk í borgarstjórnarflokknum er í mínum huga forsenda þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði stjórntækur í meirihlutasamstarf í borginni í náinni framtíð.“
Geymdu stórar ákvarðanir af tillitsemi við Sjálfstæðisflokkinn
Mikið er fjallað um Borgarlínuverkefnið í bókinni og það mikla samstarf sem Dagur hefur átt við bæjarstjóra í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur um það, en þeir eru allir úr Sjálfstæðisflokknum. Andstaða við verkefnið hefur verið umtalsverð úr þeim flokki í Reykjavík.
Borgarlínan rataði fyrst inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar 2016 og svo aftur ári síðar þegar núverandi ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks varð að veruleika undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.
Dagur segir að fljótlega hafi orðið ljóst að ríkisstjórn Katrínar ætlaði að bíða með stórar ákvarðanir um Borgarlínu þangað til eftir borgarstjórnarkosningarnar 2018. „Þetta var án efa af tillitsemi við Sjálfstæðisflokkinn í borginni, þrátt fyrir ákvæði stjórnarsáttmálans og að Reykjavík og hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu væru samstíga í sinni afstöðu.“
Haustið eftir borgarstjórnarkosningarnar, þar sem nýr meirihluti undir stjórn Dags var myndaður, hafi honum borist til eyrna að ný samgönguáætlun væri að líta dagsins ljós. Í drögum hennar hafi vantað fjármagn í stór verkefni í Reykjavík og ekkert fjármagn hafi verið ætlað í Borgarlínu nema í undirbúning verkefnisins.
Pólitísk hætta sem gæti leitt til slita á ríkisstjórn
Dagur ákvað að skrifa Katrínu og Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, langan, harðorðan tölvupóst. Titillinn var: „Alvarleg staða í samskiptum um samgöngumál“.
Þar útlitastaði hann athugasemdir sínar og áhyggjur og að alvarlegast væri að Borgarlína væri ekki fjármögnuð. „Ég lagði áherslu á tvennt: að samkvæmt greiningum SSH og Vegagerðarinnar héldi tafatíminn í umferðinni áfram að lengjast og versna ef Borgarlína yrði ekki að veruleika. Hitt atriðið þótt mér ekki veigaminna, að fótunum yrði kippt undan samgönguhluta loftslagsáætlunar stjórnvalda ef þetta færi óbreytt í gegn.“
Dagur óskaði eftir fundi með ráðherrunum tveimur og var sá fundur boðaður í snatri. „Á honum varð mér ljóst að ég hafði gert stór mistök. Með póstinum hafði ég sent viðhengi, ítarlega greiningu á stöðunni að mati borgarinnar. Þar var hins vegar ekki aðeins að finna þær samgöngugreiningar sem sérfræðingar SSH höfðu gert til að styrkja okkar málflutning heldur einnig mat á samningsstöðu ríkis og sveitarfélaga. Meðal annars var þarna mat á pólitískri hættu í málinu fyrir Katrínu og VG vegna loftslagsmála sem ég taldi að gæti leitt til slita á ríkisstjórninni.“
Stærsti áfanginn á ferlinum
Borgarlínan rataði þó inn í samgönguáætlun og í kjölfarið hófst vinna við það sem varð að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, en hann tryggir aðkomu ríkis og sveitarfélaga á svæðinu að stærstu samgönguframkvæmdum þar á næstu áratugum, meðal annars að gerð Borgarlínu. Áætlaður kostnaður á 15 árum var 120 milljarðar króna og var gert ráð fyrir að um helmingur hans yrði fjármagnaður með nýjum umferðar- og flýtigjöldum. Sveitarfélögin áttu að borga 15 milljarða króna og ríkið 45 milljarða króna.
Þegar vinnan við gerð samgöngusáttmálans var á lokametrunum, og málið virtist vera í höfn, kom babb í bátinn að sögn Dags. Fyrirstaðan í þingflokki Sjálfstæðisflokks virtist hafa magnast. Til stóð að kynna málið opinberlega 11 .september 2019 en þau áform sprungu í loft upp eftir að samkomulagið var kynnt fyrir þingmönnum Sjálfstæðisflokks.
Dagur segir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi greinilega verið í miklum vandræðum. „Hann sagði okkur að hann væri ekki viss um að hann kæmi þessu í gegnum þingflokkinn. Ég mat það við hann að vera svona hreinskilinn. Hann varð að fá fram breytingar á plagginu.“
Andstaðan snerist um hvernig ríkið ætti að fjármagna verkefnin, með umferðar- og flýtigjöldum. Bjarni lagði til að því yrði breytt á þann hátt að tekjur af eignasölu eða bein framlög yrðu nefnd í staðinn. Þá vildu einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokks fá Sundabraut inn í sáttmálann, en sú framkvæmd hafði verið í allt öðru ferli. Við því var orðið þótt fjármögnun hennar væri ekki tryggð með sáttmálanum og að útfærsla hennar lægi ekki fyrir.
Þetta dugði og skrifað var undir sáttmálann rúmum tveimur vikum á eftir áætlun, þann 26. september 2019. „Þetta var einhver stærsti áfangi og mesti árangur sem mér fannst ég hafa náð á öllum borgarstjórnarferli mínum,“ skrifar Dagur í bókinni sinni.
Sigurður Ingi í sögubækurnar og Katrín á heiðurinn
Klofningurinn til málsins náði líka til borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir að sex af níu undirskriftum á sáttmálanum um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu væru Sjálfstæðismenn var borgarstjórnarflokkurinn á móti. Þótt tveir fulltrúar hans, Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, styðji Borgarlínu hafi þær ekki treyst sér til að greiða málinu atkvæði.
Dagur segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með þessu skilað auðu um framtíðina. „Hvernig ætlar hann eiginlega að gera sig aftur gildandi í borgarmálunum?“
Hann segist valið að hafa aldrei tekið undir þær raddir sem vildu eigna honum heiðurinn af því að koma Borgarlínu og samgöngusáttmálann á koppinn. „Mér leiðist pólitískt mont.[...] Það er ótrúlegt hverju er hægt að ná fram ef maður skeytir ekki um hver fær heiðurinn.“
Heiðurinn lægi ekki síður hjá bæjarstjórum og bæjarstjórnum nágrannasveitarfélaganna og samstarfsflokkum hans í meirihlutanum í Reykjavík. „Það tókst sannarlega að hefja þessi mál langt yfir flokkslínur og sveitarfélagsmörk. Sigurður Ingi er líka í sögubækurnar sem sá samgönguráðherra sem komið hefur hvað flestu í verk og það verður aldrei frá honum tekið. Ef forystu Katrínar og verkstjórnar hefði ekki notið við væru þessi verkefni heldur ekki á fljúgandi ferð í undirbúningi og í framkvæmd. Hennar er heiðurinn að því. Um það er ég sannfærður og verð henni ævinlega þakklátur fyrir vikið.“
Bjarni sýndi „ótvíræða leiðtogahæfileika“
Dagur segir að hann beri virðingu fyrir því að Bjarni tæki slaginn í eigin hópi, stæði að þessum framsýna sáttmála með umbótaöflunum í eigin flokki og væri heilshugar í þessu verkefni innan fjármálaráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir þann andbyr sem hann mætti innan eigin flokks. „Með því sýndi hann ótvíræða leiðtogahæfileika og tókst að halda dyrum flokksins í borginni opnum fyrir grænni framtíð. Umskipti í viðhorfum, framtíðarsýn og nýtt fólk í borgarstjórnarflokknum er í mínum huga forsenda þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði stjórntækur í meirihlutasamstarf í borginni í náinni framtíð.“
Dagur hrósar í kjölfarið Hildi Björnsdóttur, sem nú sækist eftir því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í næstu kosningum og velta þar með Eyþóri Arnalds úr sessi, fyrir grein sem hún skrifaði í Morgunblaðið í mars síðastliðnum þar sem hún „jarðaði“ málflutning ýmissa talsmanna gamalla úrræða í samgöngumálum þar sem bílinn væri í algjörum forgangi. „Með þessari öflugu grein gerði Hildur algjörlega ljóst hvar hún stendur í afstöðunni til stærstu spurninganna um samgöngumál og þróun borgarinnar og kallaði eftir hugrekki til breytinga.“
Lestu meira:
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
3. nóvember 2022Framsókn og Vinstri græn hafa tapað um átta prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum
-
31. ágúst 2022Vegglistaverk Libiu og Ólafs þótti óleyfilegur kosningaáróður í Hafnarfirði
-
20. ágúst 2022Laun 30 dýrustu bæjarstjóranna voru samtal 698 milljónir króna í fyrra
-
12. ágúst 2022Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
-
11. ágúst 2022Hildur skilaði uppgjöri vegna prófkjörs í gær
-
6. júlí 2022Vigdís Hauksdóttir vill verða bæjarstjóri
-
18. júní 2022Flokkurinn sem útilokaði sjálfan sig
-
8. júní 2022Dagur ógnar
-
7. júní 2022Næstum fjórum af hverjum tíu kjósendum Framsóknar líst illa á samstarfið í borginni