Sólveig Anna býður sig aftur fram til formanns Eflingar – Ætla að „umbylta félaginu“
Baráttulistinn, með Sólveigu Önnu Jónsdóttur í broddi fylkingar, mun sækjast eftir því að stýra Eflingu. Hópurinn vill stórauka áhrif Eflingar innan verkalýðshreyfingarinnar, taka upp sjóðsfélagslýðræði í lífeyrissjóðum og standa alfarið gegn innleiðingu á SALEK. Hljóti hann brautargengi mun Efling gera ríkar kröfur á stjórnvöld um kerfisbreytingar við komandi kjarasamningagerð.
Sólveig Anna Jónsdóttir, sem sagði af sér formennsku í Eflingu í fyrrahaust, mun bjóða sig fram til formanns að nýju í stjórnarkjöri í stéttarfélaginu sem hefst 9. febrúar næstkomandi og mun standa yfir til klukkan 20 þann 15. febrúar.
Hún mun leiða hóp Eflingarfélaga sem bjóða fram svokallaðan B-lista, sem kallaður er Baráttulistinn. Hópurinn segist eiga „það sameiginlegt að vilja umbylta félaginu okkar.“ Aðrir á listanum eru Daníel Örn Arnarsson, Innocentia F. Friðgeirsson, Ísak Jónsson, Kolbrún Valvesdóttir, Michael Bragi Whalley, Olga Leonsdóttir og Sæþór Benjamín Randalsson. Allir sem sitja á listanum hafa reynslu af trúnaðarstörfum fyrir Eflingu og fjögur þeirra sitja þegar í stjórn Eflingar. Daníel er í dag ritari stjórnar.
Í kynningarefni um listann, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir að hópurinn hafi öðlast beina reynslu af þeim miklu breytingum sem hafa orðið í félaginu síðan 2018 undir nýrri forystu, en Sólveig Anna var fyrst kjörin formaður Eflingar í febrúar 2018. „Það sem sameinar okkur meira en nokkuð annað er trúin á að gera Eflingu að öflugu vopni í kjarabaráttu láglaunafólks. Breytingar í félaginu okkar á síðustu árum hafa gefið okkur von og sannfæringu um að þetta sé hægt. Skipulögð og einbeitt barátta skilar árangri. Við viljum byggja á þeim grunni og þess vegna viljum við starfa í stjórn Eflingar undir formennsku Sólveigar Önnu Jónsdóttur."
Trúnaðarráð Eflingar samþykkti á fundi sínum 13. janúar síðastliðinn tillögu uppstillingarnefndar um svokallaðan A-lista, en Ólöf Helga Adolfsdóttir, sem setið hefur sem varaformaður stjórnar Eflingar frá því að Sólveig Anna sagði af sér, leiðir þann lista. Tveir aðrir núverandi stjórnarmenn eru á þeim lista en Agniezka Ewa Ziólkowska, sem tók við formennsku í Eflingu eftir að Sólveig Anna hætti, verður ekki í framboði.
Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, hefur einnig boðað að hann ætli sér að leggja fram eigin lista. Því stefnir í að óbreyttu að þrír listar verði í boði fyrir félagsmenn Eflingar í stjórnarkjörinu.
Þegar Sólveig Anna bauð sig fyrst fram til formanns Eflingar árið 2018, gegn A-lista uppstillingarnefndar Eflingar, fékk listinn sem hún leiddi 2.099 atkvæði en hinn listinn 519 atkvæði. Listi Sólveigar Önnu var svo einn í framboði árið 2020 og hún þá sjálfkrafa endurkjörin formaður.
Vilja stórauka áhrif Eflingar innan verkalýðshreyfingarinnar
Kjarninn hefur fengið að sjá yfirlit yfir helstu stefnumál Baráttulistans, en stefnan er brotin niður í alls níu undirflokka. Á meðal þess sem þar kemur fram er að listinn vilji láta leiða í lög ákvæði um beint sjóðsfélagslýðræði í lífeyrissjóðum landsins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. „Það þarf að stokka spilin upp á nýtt til að færa þetta ástand í rétt horf og stíga skref í átt að eðlilegu lýðræði. Baráttulistinn krefst þess að sjóðfélagar í lífeyrissjóðum fái í hendur tæki til beinna áhrifa á ákvarðanatöku er varðar samfélagsábyrgð og eðlilegt aðhald í rekstri án neitunarvalds atvinnurekenda.“
Í stefnuskránni segir að of algengt sé að atvinnurekendur nýti sér hótun um uppsögn sem ögunartæki þegar verkafólk óski eftir því að réttindi þess séu virt. „Hið mikla frelsi til uppsagnar á ráðningarsambandi sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði er í dag misnotað af atvinnurekendum. Sem viðbragð við þessu vill Baráttulistinn láta innleiða án tafar viðurlög og sektir vegna vangreiddra launa og annarra brota á ákvæðum kjara- og ráðningarsamninga.“
Þá vill listinn stórauka áhrif Eflingar innan verkalýðshreyfingarinnar. „Eflingarfélagar eru yfir 40 prósent af félagsfólki í Starfsgreinasambandi Íslands (SGS) og yfir 20 prósent af félagsfólki í Alþýðusambandi Íslands. Efling greiðir nú yfir 130 milljónir króna á ári í félagsgjöld til SGS og ASÍ, þar af yfir 90 milljónir til þess síðarnefnda. Áhrif Eflingarfélaga á ákvarðanatöku og stefnu þessara landssambanda eru hins vegar hvorki í samræmi við fjölda félagsmanna né þær miklu greiðslur sem þeir greiða til þeirra.“
Baráttulistinn vill að lagt verði mat á ávinning Eflingarfélaga af þátttöku í landssamböndum verkalýðshreyfingarinnar. „Þar verði horft til áhrifa Eflingarfélaga í hlutfalli við fjölda þeirra og þær háu greiðslur sem þeir greiða til sambandanna. Baráttulistinn vill einnig taka inn í myndina að hve miklu leyti landssamböndin þjóna í reynd hagsmunum verka- og láglaunafólks.“
Ætla að berjast gegn SALEK og „standandi gerðardómi“
Þá verði staðið gegn því sem listinn kallar áform ríkisstjórnarinnar og afla innan verkalýðshreyfingarinnar um innleiðingu á SALEK- fyrirkomulaginu. SALEK stendur fyrir „samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamningar“ og markmiðið með samstarfinu, sem stór hluti vinnumarkaðarins samþykkti að taka þátt í árið 2015, var að auka kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. Auk þess átti samkomulagið að stuðla að friði á vinnumarkaði og auknum stöðugleika. Eftir að nýtt fólk var kjörið í forystu stærstu stéttarfélaga landsins, VR og Eflingu, lifði þetta samningslíkan ekki lengi.
Í stefnuskránni er því hafnað í einu og öllu að verkfallsréttur verði skertur, hvort sem það er með „standandi gerðardómi“ eins og talað er um í ríkisstjórnarsáttmála eða öðrum leiðum. „Baráttulistinn vil að Efling undirriti komandi kjarasamning með skýrum fyrirvara um að hann sé uppsegjanlegur ef Alþingi hreyfi á minnsta hátt við núgildandi lagaramma vinnumarkaðarins eða taki skref í átt að SALEK.“
Vilja stórátak í húsnæðismálum og lækkun lífeyrisaldurs
Á meðal annarra baráttumála listans eru kröfur sem munu beinast gegn stjórnvöldum við komandi kjarasamningagerð. Á meðal þeirra er að krefjast skuldbindingar til útfærðra aðgerða, sem séu bæði tímasettar og fjármagnaðar, í húsnæðismálum, að skattbyrði sé borin af þeim sem hana þola og bætur verði ekki bundnar einungis við sárafátæka. Þá lýsir listinn yfir „samstöðu með baráttu öryrkja og eldri borgara gegn skerðingum og krefst tafarlausrar hækkunar á skerðingarmörkum, sem í dag eru alltof lág.“
Þá vill listinn að lífeyrissjóðirnir, vinnumarkaðurinn og þjóðfélagið taki tillit til aðstæðna erfiðisvinnufólks og tryggi því sambærilegt ævikvöld og öðru launafólki. „Leiðin til þess er að lækka lífeyristökualdur verka- og láglaunafólks sem unnið hefur langvinna erfiðisvinnu. Baráttulistinn vill horfa til fyrirmynda frá Norðurlöndunum þar sem einmitt þetta hefur verið gert.“
Ætla að fella ákvæði um ábyrgð stjórnarmanna á starfsmannahaldi úr lögum
Í stefnuskrá Baráttulistans er ýmislegt sem snýr að innra starfi Eflingar og sérstaklega starfsmannamálum félagsins. Listinn vill meðal annars auka hlutverk félagsfólks sjálfs í skipulagi, undirbúningi og utanumhaldi tengt félagslegu starfi og efla og endurskoða skipulag á fræðslumálum félagsfólks.
Þá segir að listinn vilji koma á umbótum í starfsmannamálum á skrifstofu Eflingar, meðal annars með því að taka upp gagnsætt launakerfi, innleiða jafnlaunavottun og ljúka vinnu við ítarlega starfsmannahandbók og yfirferð starfslýsinga. „Stjórn fái reglulega heildarmynd af stöðu starfsmannamála, svo sem niðurstöðum starfsánægjukannana og tölum yfir launakostnað, stöðugildi og starfsmannaveltu. Mönnunarþörf starfseminnar verði metin reglulega. Stjórn fjalli um og veiti samþykki fyrir stefnumarkandi ákvörðunum í starfsmannahaldi, svo sem launakerfi, starfsmannastefnu og starfsmannahandbók. Byggð verði upp heilbrigð vinnustaðamenning sem tekur tillit til eðli starfseminnar og teiknaður upp ítarlegur sáttmáli um góð samskipti innan vinnustaðarins.“
Baráttulistinn vill einnig að ábyrgð faglega ráðinna yfirstjórnenda á daglegum rekstri skrifstofu Eflingar verði áréttuð og skýrð. „Þetta verði endurspeglað í lögum félagsins, byggt á fyrirmyndum annarra íslenskra stéttarfélaga á borð við VR. Úrelt ákvæði um beina ábyrgð stjórnarmanna á starfsmannahaldi (t.d. 11. grein) verði felld út úr lögum Eflingar. Stjórn setji sér starfsreglur um aðkomu hennar að rekstrarmálum, þar með talið áætlanagerð og eftirlit, þar sem skýrt verði með hvaða hætti stjórn sé upplýst um rekstrarmál og hvernig hún veiti aðhald varðandi þau.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Hvernig má nýta helming mannauðs með skilvirkari hætti?
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Búast við lýðheilsulegum ávinningi af Borgarlínu
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
7. janúar 2023Blessað barnalán
-
6. janúar 2023Vin – Faglegt hugsjónastarf
-
6. janúar 2023Þriðjungur kostnaðar til kominn vegna þjónustu við fatlað fólk með vímuefnavanda
-
5. janúar 2023Íslendingar vilja að læknar veiti dánaraðstoð
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
4. janúar 2023Ekki færri ungmenni í foreldrahúsum frá upphafi mælinga