Upplýsingar um það hverju margir flóttamenn frá Úkraínu eru komnir í langtímahúsnæði liggja ekki fyrir en það hefur reynst erfitt að halda utan um tölur um það hvar fólkið er statt þar sem margir leita hjálpar utan kerfisins. Búist er við því að í heildina muni um 3.000 flóttamenn koma hingað til lands á þessu ári.
Nichole Leigh Mosty forstöðumaður Fjölmenningarseturs, sem veitir stuðning við flutning til og frá Íslandi, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að þau séu ekki með yfirsýn yfir það hversu margir flóttamenn frá Úkraínu séu komnir með húsnæði. Fólkið sé dreift víða um land allt og ekki séu allir sem til þeirra koma að tilkynna að þau hafi fundið húsnæði. Sumir hafi leigt húsnæði af einkaaðila og aðrir fengið skjól yfir höfuðið samhliða atvinnu.
Aðgerðarstjóri teymis um móttöku flóttafólks frá Úkraínu, Gylfi Þór Þorsteinsson, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að vinnan við húsnæðisleit fyrir flóttafólk hafi gengið ágætlega. Hann telur það þó ljóst að skortur á húsnæði geti orðið vandamál þegar líður á haustið.
1.487 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á þessu ári
Eftir að stríðið í Úkraínu braust út hafa 975 flóttamenn þaðan sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Alls hafa 1.487 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi á tímabilinu frá og með 1. janúar til og með 12. maí.
871 umsókn um alþjóðlega vernd barst stjórnvöldum árið 2021 sem var fjölgun um 33 prósent frá 2020 þegar umsóknirnar voru 654. Heimsfaraldur COVID-19 hafði töluverð áhrif á umsóknir um alþjóðlega vernd en fjöldi umsókna árið 2021 voru örlítið fleiri en árið 2019 þegar þær voru 867. Árið 2018 voru þær 800.
Fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd tífölduðust á fjórum árum þegar þær fóru úr 118 árið 2012 í 1.132 árið 2016. Í kjölfarið réðust stjórnvöld í aðgerðir til að draga úr „fjölda bersýnilega tilhæfulausum umsóknum“ og fækkaði umsóknum í 1.096 árið 2017 og 800 árið á eftir. Frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem nú er í samráðsgátt stjórnvaldavar fyrst lagt fram að Sigríði Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, vorið 2018 og var þá fyrst og fremst viðbrögð við mikilli fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi, ekki síst frá fólki sem þegar hefur verið veitt vernd í öðrum ríkjum Evrópu.
Útlendingastofnun hefur aðeins upplýsingar um það hvar umsækjendur um vernd dvelja á meðan þeir njóta þjónustu sem slíkir. Stofnunin hafi ekki upplýsingar um það hvar einstaklingarnir dvelja eftir að þjónustunni lýkur.
Skortur á húsnæði gæti orðið vandamál þegar líður á haustið
Gylfi Þór segir að í fyrsta lagi þurfti að fjölga skammtímalausnum fyrir Útlendingastofnun þar sem úrræði þeirra hafi verið nær á þrotum áður en stríðið í Úkraínu kom til. Í öðru lagi sé að finna svokölluð „skjól“, sem er millibúsetuúrræði, þar sem fólk býr í allt að þrjá mánuði. Í þriðja lagi sé verið að leita eftir húsnæði sem sveitarfélög geta svo notað sem langtímaúrræði.
„Miðað við þann fjölda sem kominn er til landsins og ef við gefum okkur að sama flæði verði út árið, má búast við um 3.000 flóttamönnum til landsins á þessu ári í það heila. Þá er ekki bara litið til Úkraínu, það er langtum meiri fjöldi en við höfum nokkurn tíma áður séð og því ljóst að skortur á húsnæði gæti orðið vandamál þegar líður inn í haustið. Eins og þekkt er, er húsnæðisskortur víðsvegar um landið,“ segir Gylfi Þór.
Öðruvísi hópur en þau eru vön – Almenningur með faðminn opinn
Samkvæmt upplýsingum frá Fjölmenningarsetri eru bæði úrræðin sem skilgreind eru sem „skjól“ full en „staðan breytist frá degi til dags“ þar sem mikil hreyfing er á fólki. 130 einstaklingar eru nú á Bifröst og 129 Hótel Swan á Vatnsstíg. Fjölmenningarsetur er með biðlista vegna fólks sem þarf að flytja úr 1. stigs húsnæði á vegum Útlendingastofnun og/eða fólks sem gistir enn hjá fólk sem hefur tekið á móti þeim, á borð við vini, fjölskyldumeðlimi eða sjálfboðaliða.
Nichole segir að flóttamannahópurinn frá Úkraínu sé að vissu leyti öðruvísi en hinir sem hingað koma. Þetta fólk komi beint úr aðstæðunum hingað til lands og fari jafnvel strax í það að finna sér vinnu og húsnæði sjálft. Aðrir sem koma lengra að hafi verið í umsjón annarra ríkja og þurfi oft meiri aðstoð. „Það er ótrúlega mikill munur á því að vera að koma úr flóttamannabúðum en beint úr aðstæðunum,“ segir hún í samtali við Kjarnann. Hún bendir jafnframt á að almenningur sé með „faðminn opinn“ gagnvart flóttafólki frá Úkraínu en það eigi síður við um hinn hópinn. „Ég held ég hafi aldrei séð eins margar hendur og ég sé núna sem vilja koma fólki í skjól.“