Stytti mál sitt eftir að hafa verið auðmýktur þegar Jón Gnarr sagði hann leiðinlegan
Bjórkælir var fjarlægður úr verslun ÁTVR vegna þess að Björgólfur Guðmundsson bað um það. Sigmundur Davíð var eitt sinn eini maðurinn sem þótti harðari andstæðingur Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni en Gísli Marteinn Baldursson. Jón Gnarr sendi Davíð Oddssyni stuðningskveðju vegna þess að hann óttaðist voðaverk og Dagur B. Eggertsson einsetti sér að stytta mál sitt eftir að hafa verið auðmýktur þegar Jón Gnarr sagði að hann væri leiðinlegur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í bók Dags, „Nýja Reykjavík“.
Í nýrri bók Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, „Nýja Reykjavík“ rekur hann fjölmargt sem átti sér stað á bakvið tjöldin í stjórnmálum síðustu ára, og hefur ekki áður komið fram.
Þar fjallar hann meðal annars um átta ára tímabil í borgarstjórn þar sem fyrri hluti þess átti þátt í að rífa niður traust á borgarstjórnmál og síðari hlutinn veitt Reykjavíkurborg nýtt upphaf.
Fyrra tímabilið, frá 2006 til 2010, er eftirminnilegt vegna þess að þá sátu fjórir meirihlutar í borginni. Það síðara er eftirminnilegt fyrir Jón Gnarr og Besta flokkinn.
Eftir borgarstjórnarkosningarnar 2006 var myndaður meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík. Tólf ára þaulsetu Reykjavíkurlistans var lokið og Sjálfstæðisflokkurinn loks kominn aftur við stýrið í höfuðborginni, undir stjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra.
Í bók Dags segir að upphaf þessa tíma hafi litast af furðulegum ákvörðunum Vilhjálms. Ein sú furðulegasta var þegar hann lét fjarlægja bjórkæli úr ÁTVR í Austurstræti. Í viðtali við Blaðið í september 2007 sagði Vilhjálmur að málið „snerist um það að útigangsmenn í miðbænum hafa komið sér fyrir eins og setulið niðri í Austurstræti þar sem þeir áreita fólk, stökkva jafnvel að því og þrífa í það og krefja um pening fyrir bjór. Síðan fara þeir inn í áfengisverslunina og kaupa sér bjór í stykkjatali. Ég var að tala um þennan vanda. Það var ákvörðun áfengisverslunarinnar að fjarlægja kælinn. Eftir á að hyggja hefði ég hugsanlega mátt nálgast þetta mál með öðrum hætti en ég er ekki fullkominn frekar en aðrir. Þetta mál reyndist mér hins vegar alls ekkert erfitt. Eftir stendur að útigangsmenn í Austurstræti angra fólk og slíkt framferði þarf að stöðva.“
Í bókinni rifjar Dagur upp þetta mál. Dagur segir þar að í ljós hafi komið að „Björgólfur Guðmundsson, sem þá var stjórnarformaður Landsbankans, hafi rekist á Villa úti á götu og beðið hann um þetta.“
„Til í allt - án Villa“
Það var svo að lokum REI-málið svokallaða sem sprengdi fyrsta meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna á þessu kjörtímabili og leiddi af sér 100 daga meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins. Dagur segir í bókinni að það hafi verið Ólafur F. Magnússon, efsti maður Frjálslynda flokksins sem var í veikindaleyfi á þessum tíma, sem hafi fyrst ljáð máls á samstarfinu við sig. „Ég man að hann orðaði það þannig að það myndi ekkert gera hann glaðari en ef hann gæti endað stjórnmálaferil sinn með því að gera mig að borgarstjóra.
Þegar verið var að klára myndun meirihlutans biðu Sjálfstæðismenn í Höfða eftir Birni Inga Hrafnssyni, þáverandi samstarfsmanni sínum í meirihluta og oddvita Framsóknar í borginni, til að reyna að sætta málin. Björn Ingi mætti aldrei á fundinn þar sem hann í Breiðholti að mynda nýja meirihlutann. Þegar ljóst var að Björn Ingi var ekki að fara að skila sér fékk hann SMS frá einum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem í stóð: „ Til í allt - án Villa“.
Í fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir hafi sent skilaboðin en Dagur nefnir hana ekki í bókinni.
Bauð Ólafi F. að eyða jólunum heima hjá sér
Dagur segir að hann og Ólafur F. Magnússon hafi verið í miklu sambandi í gegnum allan þennan tíma, þrátt fyrir að Ólafur væri í veikindaleyf. Þegar það hefði stefnt í það að Ólafur yrði einn á jólunum, þar sem hann var að ganga í gegnum skilnað, hafi Dagur og Arna eiginkona hans boðið honum að vera hjá sér sem hann hafi þáð í fyrstu, en síðan hætt við. Þess í stað hafi Dagur keyrt Ólaf heim til móður sinnar þar sem hann eyddi hátíðunum.
Um miðjan janúar hafi Dagur fengið óvænt símtal frá blaðamanni þar sem hann var spurður hvort Ólafur væri í meirihlutaviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn. Síðar hafi komið í ljós að Sjálfstæðismenn hefðu verið að vinna í Ólafi lengi. „Hann sagði mér síðan sjálfur að Kjartan Magnússon borgarfulltrúi hafi byrjað að hringja í sig og bjóða gull og græna skóga á meðan að hann var enn inniliggjandi inni á geðdeild.“
Ólafur hafi á endanum farið að gera allskyns kröfur. „Lengst gekk það í því að kaupa húsin tvö á Laugavegi 4 og 6, sem var gert á yfirverði, þvert á fyrirliggjandi mat fasteignasala. Verktökunum sem áttu húsin var boðið heim til Vilhjálms Þ. þar sem kaupin voru handsöluð að Ólafi F. viðstöddum fyrir meirihlutaskiptin. Þetta var gjaldið fyrir samstarfið við Ólaf F. Húsakaup, ekki hrossakaup.“
Mestu óheilindin sem hann hefur upplifað í pólitík
Dagur segist aldrei hafa orðið vitni af jafn miklum óheilindum í pólitík. „Mér fannst blasa við að Sjálfstæðisflokkurinn var að leika ljótan leik, einkum gagnvart Ólafi.“
Nýr meirihluti var myndaður þar sem Ólafur var gerður að borgarstjóra framan af í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Síðar átti hann að skipta við Vilhjálm.
Í bók Dags er rifjað upp að fylgi Sjálfstæðisflokks hafi hrunið við þá meirihlutamyndun, fór úr um 40 í 25 prósent. Hann segir frá könnun sem innanhúsmenn í Sjálfstæðisflokknum hefðu látið gera sem sýndi að 40 prósent svarenda vildu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í embættið, þar á eftir kom nafn Gísla Marteins Baldurssonar en Vilhjálmur naut einungis stuðnings átta prósent þátttakenda.
Síðsumars þetta ár var hringnum lokað, fjórði meirihlutinn og sá sami og hóf kjörtímabilið var myndaður, en nú með Hönnu Birnu sem borgarstjóra. Dagur segir að sér hafi alltaf grunað að það hafi verið áætlun Sjálfstæðismanna með samstarfinu við Ólaf F. Það hafi einungis verið gert til að sprengja 100 daga meirihlutann.
Sigmundur Davíð sagður einn mesti andstæðingur flugvallarins
Dagur segir að vangeta til að takast á við erfið vandamál hafi einkennt starf meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna síðari hluta kjörtímabilsins, sem lauk 2010. Hrunið litaði auk þess allt landslagið.
Í skipulagsmálum hafi í raun ekkert gerst markvert annað en það að Framsókn hefði skipað nýjan fulltrúa í skipulagsráð. Sá heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Dagur segir að hann hafi hringt í sig í kjölfarið til að greina sér frá því að hann væri ekki Framsóknarmaður en vildi þiggja sætið vegna þess að hann deildi þeirri sýn á málaflokkinn sem hann og Gísli Marteinn Baldursson höfðu á hann. „Sigmundur hringdi líka í Gísla sem sagði mér þá að Sigmundur væri sá eini sem hann þekkti sem væri harðari andstæðingur Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni en hann sjálfur.“
Það hafi enda farið svo að á þessum tíma hafi þriðja flugbrautin, sem síðar var nefnd neyðarbraut í miklum deilum um tilveru hennar, verið tekin af deiliskipulagi. Dagur segir Sigmund þó lítið hafa haft sig í frammi í ráðinu. Hann hafi mætt stopult og sagt fátt. „Það hlýtur að teljast nokkuð magnað af manni sem gefur sig út fyrir að hugsa mikið um skipulagsmál að gera fátt annað á tveimur árum í skipulagsnefnd Reykjavíkur en að drekka kaffi og borða bakkelsi og leggja af flugbraut sem hann hefur síðar sagst elska.“
Jón Gnarr sendi Davíð Oddssyni stuðningskveðju
Þegar kosið var næst til borgarstjórnar, árið 2010, var Jón Gnarr og Besti flokkurinn mættur til leiks. Traust til hefðbundinna stjórnmálaflokka var við frostmark, enda skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis ný komin út, og Dagur segir að Jón hafi verið „laukréttur maður á hárréttum stað á kórréttum tíma“. Kosningabaráttan var hárbeitt ádeila Besta flokksins á hefðbundin stjórnmál. Hún hverfðist um Jón sem sagðist ætla að svíkja öll kosningaloforð og Dagur segir aðra þátttakendur hafa verið eins og statista í heimildarmyndinni sem gerð var um baráttu Jóns og Besta flokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt alla áherslu á Hönnu Birnu á hvítum jakka. „Þegar stutt var til kosninga fór Besti flokkurinn með himinskautum í könnunum. Hanna Birna bað mig um að hitta sig í ráðhúsinu. Ábyrgir stjórnmálaflokkar þyrftu að taka sig saman og forða borginni frá þeirri hættu sem stafaði frá Jóni Gnarr og alvöruleysi hans.“
Dagur segist ekki hafa verið sannfærður, hvorki um að Sjálfstæðisflokkinn ætti erindi í meirihluta né að Jón Gnarr væri hættulegur. Á endanum hafi stórsigur Besta flokksins verið það besta sem gat komið fyrir borgina. Hann hafi veitt henni nýtt upphaf. „Jóni og Besta flokknum tókst á ótrúlegan hátt að virkja reiðina og djúpstæð vonbrigðin í samfélaginu á jákvæðan hátt. Á meðan önnur lönd kusu hægri popúlista og öfgamenn til áhrifa hafi Reykvikingar valið grínista og listafólk til forystu.
Hann sagði mér seinna að hann hefði tekið ákvörðun um að gera eitthvað í málunum þegar hann sá fólk safnast saman fyrir utan Seðlabankann eftir Hrun og beina reiði sinni að Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra og fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóra. Jón sendi Davíð stuðningskveðju en fékk ekkert svar. Jón óttaðist að reiðin myndi leiða til voðaverka.“
Sýndi auðmýkt og tók sjálfan sig í gegn
Dagur segir í bókinni að það séu tvær leiðir til að takast á við ósigur. Önnur sé að hætta, en hin sé að læra af ósigrinum. „Ég man eftir að hafa verið boðið á frumsýningu á kvikmynd Besta flokksins um kosningabaráttuna í bíó. Í einni af lokasenunum segir Jón eitthvað á þá leið að ég sé áreiðanlega fínn en augljóslega ótrúlega leiðinlegur. Og aðrir í hópnum hlæja.“
Dagur segist hafa ýtt þessu frá sér, en samt munað áfram. „Kannski af því að þetta var auðmýkjandi. Ég var nýbúinn að gera Jón að borgarstjóra. Ég ákvað að taka því einmitt þannig, að auðmýkt. Kannski má segja að ég hafi brugðist rétt við þessu. Ég horfðist í augu við að ég var farinn að tala eins og stjórnmálamaður, alltaf með lærða frasa, allt og langorður. Þannig að ég einsetti mér að stytta mál mitt. Ég hætti að svara sjálfkrafa og tamdi mér meira mannamál, hætti að koma mér á framfæri að fyrra bragði en beið frekar eftir því að fjölmiðlar vildu viðtöl [...] Ég tók sjálfan mig í gegn.“
Lestu meira:
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
3. nóvember 2022Framsókn og Vinstri græn hafa tapað um átta prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum
-
31. ágúst 2022Vegglistaverk Libiu og Ólafs þótti óleyfilegur kosningaáróður í Hafnarfirði
-
20. ágúst 2022Laun 30 dýrustu bæjarstjóranna voru samtal 698 milljónir króna í fyrra
-
12. ágúst 2022Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
-
11. ágúst 2022Hildur skilaði uppgjöri vegna prófkjörs í gær
-
6. júlí 2022Vigdís Hauksdóttir vill verða bæjarstjóri
-
18. júní 2022Flokkurinn sem útilokaði sjálfan sig
-
8. júní 2022Dagur ógnar
-
7. júní 2022Næstum fjórum af hverjum tíu kjósendum Framsóknar líst illa á samstarfið í borginni