Óvissu-, hættu- og neyðarstig almannavarna frá því að kórónuveirufaraldurinn braust út hér á landi hefur níu sinnum verið lýst yfir og upplýsingafundir almannavarna eru orðnir 196 talsins. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá fyrsta upplýsingafundinum sem haldinn var í Samhæfingarmiðstöð almannavarna 27. febrúar 2020, degi áður en fyrsta smitið greindist hér á landi, þar sem sóttvarnalæknir var fullviss um að heilbrigðiskerfið myndi ráða við verstu mögulegu sviðsmynd vegna veirunnar. 300 tilfelli og tíu dauðsföll. Fundurinn reyndist sá fyrsti í fundaröðinni „upplýsingafundir almannavarna“, sem nálgast brátt 200 talsins, og voru meðal vinsælustu dagskrárliða Ríkisútvarpsins þegar faraldurinn stóð sem hæst.
Smitin eru orðin aðeins fleiri en 300, eða alls 64.486 ef miðað er við nýjystyu tölu, rúmlega 95 þúsund hafa lokið sóttkví og rúmlega milljón sýni hafa verið tekin innanland. En nú horfir loks til betri vegar. Sóttkví var svo gott sem afnumin í vikunni og í gær kynntu stjórnvöld afléttingaráætlun sóttvarnaaðgerða. Almannavarnir og helstu ráðamenn hafa ítrekað sagt bjartari tíma vera fram undan og nú er útlit fyrir að svo sé í raun og veru. Samkvæmt áætluninni, sem er í þremur skrefum, verður öllum sóttvarnaaðgerðum aflétt 14. mars.
Í ljósi þess er tilvalið að líta um öxl og finna til nokkur atriði sem settu svip sinn á þróun faraldursins hér á landi. Sum brosleg og önnur sem jafnvel munu vekja upp söknuð.
1. Fjarlægðartakmarkanir og þróun tveggja metra reglunnar
Á fyrstu upplýsingafundum þríeykisins stóðu, eða öllu heldur sátu, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir þétt saman á efstu hæð í matsalnum í Samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð.
Eftir því sem fundunum fjölgaði breikkaði bilið. Fljótlega voru fundirnir fluttir í gám fyrir utan Skógarhlíðina og orðið „fjarlægðartakmörk“ kynnt til sögunnar þar sem meira bil var á milli fundarmanna, auk þess sem þau stóðu á fundunum.
2. Þegar landsmenn voru beðnir um að ferðast innanhúss og þríeykið tók lagið
Í aðdraganda páska 2020 voru landsmenn hvattir til að ferðast innanhúss. Í fyrstu voru einhverjir sem tóku því sem svo að verið væri að beina því til fólks að ferðast innanlands. Þegar kom í ljós að mælst var gegn því kom lagið „Ferðumst innanhúss“ til sögunnar þar sem landsþekktir listamenn sýndu mikilvægi þess að standa saman, meðal annars með því að sleppa ferðalögum um páskana og einfaldlega ferðast innanhúss. Þríeykið tók meira að segja lagið.
3. Þríeykis-bolirnir
Enn af þríeykinu. „Ég hlýði Víði“ varð fljótt viðurkenndur frasi og ekki leið á löngu þar til hægt var að skarta orðunum í prófílmynd á Facebook. En samstaðan var slík á þessum tíma, í apríl 2020, að ekki leið á löngu þar til stuttermabolir með einkunnarorðum þríeykisins, hvers fyrir sig, voru komnir í sölu.
Þannig var hægt að styðja sóttvarnalækni með áletruninni „Ég geng um gólf fyrir Þórólf“ og Ölmu landlækni „Við erum öll Almannavarnir“. Eftir því sem Kjarninn kemst næst eru bolirnir ekki lengur í sölu svo þeir sem náðu að verða sér út um slíka á sínum tíma ættu að halda fast í verðmætin.
4. „Syngjum veiruna í burtu“
Fleiri en þríeykið (og Helgi Björns) notuðu söng til að komast í gegnum faraldurinn. Í apríl 2020 var Facebook-hópurinn „Syngjum veiruna í burtu, öllum frjálst að leggja sitt af mörkum“ stofnuð og á örskömmum tíma rigndi inn myndskeiðum af innilokuðum landsmönnum þenja raddböndin. Mikil samstaða hefur einkennt hópinn, sem tók sig meðal annars saman og söng nýjan texta við lagið „Eye of the Tiger“ sem átti að fæla veiuna í burtu. Yfir 20 þúsund manns eru í hópnum og hann lifir enn furðu góðu lífi.
5. Karaoke á írska barnum
Allt horfði til betri vegar vorið 2020, innanlandssmit greindust ekki um tíma og skemmtanalífið fór að taka við sér. Enn og aftur kom söngur við sögu í faraldrinum. Þeim sem gripu í míkrófóninn í karaoke-herberginu á Irishman Pub tókst að vísu ekki að syngja veiruna í burtu heldur urðu fyrir barðinu á henni. Í kjölfarið var krám og skemmtistöðum lokað tímabundið og ný bylgja faraldursins blasti við.
6. Vinkonudagur Þórdísar og heimsókn Bjarna í Ásmundarsal
Vangaveltur um brot á sóttvarnareglum, sérstaklega þegar ráðamenn eiga í hlut, verður líklega ekki á meðal þess sem fólk mun koma til með að sakna við faraldurinn. Tvö mál þessu tengdu báru hæst, annars vegar þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir birti mynd af sér með vinkonum á samfélagsmiðlum. Ríkisstjórnin, sem Þórdís Kolbrún situr í, hafði nokkrum vikum áður hert reglur vegna þess að önnur bylgja kórónuveirusmita var að gera vart við sig. Auk þess höfðu reglur á landamærum verið hertar til muna deginum áður. „Hún var taktlaus og mistök, svona eftir á að hyggja,“ sagði Þórdís Kolbrún viðtali við Morgunblaðið þegar hún ræddi vinkonudaginn.
Aðfangadagsmorgun 2020 var heldur fjörugari en oft áður þegar greint var frá því í dagbók lögreglu að lögregla hefði leyst upp samkvæmi í Ásmundarsal í miðborg Reykjavíkur á Þorláksmessukvöld þar sem ráðherra var á meðal gesta. Fljótlega kom í ljós að umræddur ráðherra var Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Bjarni var harðlega gagnrýndur fyrir viðveru sína í salnum en hann baðst afsökunar á að hafa gert þau mistök að yfirgefa ekki salinn þegar hann áttaði sig á „að fjöldinn rúmaðist ekki innan takmarkanna“.
Þrátt fyrir háværa gagnrýni fór málið aldrei fyrir siðanefnd Alþingis en lauk með því að eigendur Ásmundarsals voru sektuð vegna brota á grímuskyldu. Bjarni lét svo aftur sjá sig í Ásmundarsal fyrir síðustu jól þar sem hann festi kaup á listaverki, málverki af honum sjálfum eftir Auði Ómarsdóttur myndlistamann.
7. Bólusetningarkapphlaupið í Laugardalshöll
Bólusetning var mál málanna síðasta sumar. Áhuginn var mikill og náði hámarki í byrjun júní þegar handahófskenndar bólusetningarboðanir árganga eftir kynjum hófust á höfuðborgarsvæðinu. Boð í bólusetningu barst oftar en ekki með skömmum fyrirvara, ekki síst þegar afgangsskammtar voru í lok hvers dags sem þurfti að koma út með hraði.
Fjölmiðlar fylgdust með hamaganginum þegar fólk hópaðist í bólusetningu og þau sem voru hvað léttust á fæti tóku sprettinn, bókstaflega, í Laugardalshöllina. Þeirra á meðal var pípulagninganemi sem var á klósettinu þegar hann fékk boðun. „Ég rauk af stað, kláraði þetta og negldi í Laugardalshöllina,“ sagði hann í samtali við Vísi fyrir utan höllina 2. júní sl. Ákafinn hefur aðeins minnkað eftir því sem líður á faraldurinn og örvunarbólusentingunum fjölgar en 78 prósent landsmanna teljast nú fullbólusettir.
8. Sóttkvíarvestin
Ýmis konar varningur varð til í tengslum við faraldurinn, þar á meðal sérstök vesti fyrir þá sem eru í sóttkví. Samkvæmt reglum mega þau sem er í sóttkví fara í stutta gönguferð í nágrenni sóttkvíarstaðar. Hjón nokkur dóu ekki ráðalaus þegar þau létu framleiða neongul vesti með áletruninni „Í sóttkví - 2 metrar“ til að svala heyfiþörfinni eftir að þau lentu í sóttkví ef hjólaferð til Kanaríeyja. Með þessu móti vildu þau létta fólki sem er í sóttkví lífið þannig að það geti farið út og hreyft sig vel merkt og tryggt fjarlægðartakmarkanir. Samkvæmt nýjum reglum um sóttkví heyrir hún nánast sögunni til en sóttkvíarvestin eru þó enn fáanleg ef vill.
9. „Akureyringar fylgja reglum“
Ummæli bæjarstjóra Akureyrar um ástæðu þess að lítið væri um smit í bænum féllu í grýttan jarðveg. „Það er ástæða fyrir því að hér er lítið um smit. Fólk fer mjög varlega. Akureyringar fylgja reglum,“ sagði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, í kvöldfréttum RÚV í október 2020. Umræður voru á þessum tíma að setja á takmarkanir eftir landshlutum og biðlaði bæjarstjórnn til höfuðborgarbúa að fara ekki út á land þar sem væri minna um smit.
Um tveimur vikum seinna kom svo í ljós að Akureyringar fylgdu ekki reglum eftir allt saman, ef marka má ummæli Ásthildar, þar sem smitum fjölgaði þar líkt og annars staðar á landinu.
10. Nýyrðin
Heimkomusmitgát, hópsýking, hááhættusvæði, smitskömm, sýnatökupinnaskortur, hjarðónæmi og örvunarskammtur eru dæmi um orð sem hófu að heyrast eftir því sem leið á faraldurinn. Sum í fyrsta sinn en önnur fengu nýja og dýpri merkingu.
Nær allt árið 2020 einkenndist af hugsunum og aðgerðum um kórónuveirufaraldurinn og var fólki því eðlilega ofarlega í huga í lok ársins. Reyndar svo ofarlega að „sóttkví“ og „þríeykið“ voru valin orð ársins í vali sem RÚV stendur fyrir. Síðasta ár var einnig meira og minna undirlagt af faraldrinum og það kom því ekki á óvart þegar „bólusetning“ var valin orð ársins 2021. Ætli afléttingaráætlun verði orð ársins 2022?