Mynd: EPA Facebook
Mynd: EPA

Tugir milljarða streyma óskattlagðir út af íslenska fjölmiðlamarkaðinum en RÚV styrkir stöðu sína

Erlend fyrirtæki sem borga ekki skatta á Íslandi taka til sín 40 prósent af auglýsingatekjum á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Á átta árum hafa næstum 50 milljarðar króna flætt til þeirra, og út af íslenska markaðnum. Eina fjölmiðlafyrirtækið á Íslandi sem verður ekki fyrir tekjutapi vegna þessa er RÚV. Hlutdeild RÚV í tekjum fjölmiðla hérlendis var 26 prósent árið 2020 og hafði ekki verið hærri frá því á tíunda áratug síðustu aldar.

Frá 1997 til 2016 juk­ust tekjur fjöl­miðla á Íslandi á hverju ein­asta ári í krónum talið með einni und­an­tekn­ingu, árinu 2009 þegar eft­ir­köst banka­hruns­ins komu fram. Frá 2016 hafa þær hins vegar lækkað á milli allra ára sem liðin eru.

Það ár voru sam­an­lagðar tekjur íslenskra fjöl­miðla 28,1 millj­arðar króna. Árið 2020 voru þær 25,1 millj­arður króna og höfðu því lækkað um tæp ell­efu pró­sent á fjórum árum. 

Þetta má lesa úr nýjum tölum sem Hag­stofa Íslands birti í síð­ustu viku og sýna þróun á tekjum fjöl­miðla á Íslandi.

Mestur hefur sam­drátt­ur­inn orðið hjá þeim fjöl­miðlum sem gefa út dag­blöð og viku­blöð. Tekjur þeirra hafa farið úr 7,3 í 4,5 millj­arða króna á þessu fjög­urra ára tíma­bili. Það er sam­dráttur upp á rúm­lega 38 pró­sent. Tekjur ann­arra blaða og tíma­rita hafa sömu­leiðis hrunið frá 2016, um alls 28 pró­sent. 

Eini þátt­tak­and­inn á íslenskum fjöl­miðla­mark­aði sem hefur ekki orðið fyrir áhrifum af þessum breyt­ingum er Rík­is­út­varp­ið. Tekjur þess, sem koma að mestu úr opin­berum sjóðum en líka úr aug­lýs­inga­sölu, hafa þvert á móti auk­ist ár frá ári. Árið 2016 voru tekjur RÚV 5,8 millj­arðar króna en hækk­uðu í 6,6 millj­arða króna 2020, sam­kvæmt sam­an­tekt Hag­stof­unn­ar. Það er aukn­ing upp á tæp 14 pró­sent. Það eru lægri tekjur en til­greindar eru í árs­reikn­ingi RÚV, þar sem rekstr­ar­tekj­urnar eru sagðar tæp­lega 6,9 millj­arðar króna. Af þeim komu yfir 70 pró­sent beint úr opin­berum sjóðum eða 4,9 millj­arðar króna.

Alls tekur RÚV til sín yfir 26 pró­sent af öllu fjár­magni sem fer inn á íslenskan fjöl­miðla­markað og mark­aðs­hlut­deild opin­bera fjöl­mið­ils­ins hefur ekki verið hærri frá árinu 1997, sem var fyrsta árið sem Hag­stofan tók saman rekstr­ar­tölur um fjöl­miðla. Mark­aðs­hlut­deild RÚV var tæp­lega 21 pró­sent árið 2016.

Ekk­ert bendir til þess að breyt­ing verði á þess­ari stöðu. Sam­kvæmt fjár­lögum árs­ins 2022 voru fram­lög til RÚV hækk­uð um 430 millj­ónir króna, sem er 40 millj­ónum krónum meira en sam­an­lagðir styrkir til ann­arra fjöl­miðla úr opin­berum sjóð­um. Þeir styrkir voru lækk­aðir milli ára.

Tekjur vef­miðla dreg­ist saman frá 2016

Þrátt fyrir afar breytta neyslu­hegð­un, sem felst aðal­lega í því að fólk sækir sér mun meira frétta- og afþrey­ing­ar­efni á net­ið, hafa tekjur vef­miðla dreg­ist saman á síð­ustu árum. Frá 2002 og fram til árs­ins 2016 höfðu þær vaxið ár frá ári, úr 76 millj­ónum króna í tæp­lega 2,1 millj­arð króna. Frá því ári hafa tekjur vef­miðla hins vegar dreg­ist sam­an, alls um 13,3 pró­sent. Svo virt­ist sem við­spyrna væri að eiga sér stað á árinu 2019, þegar tekjur hækk­uðu um rúm fjögur pró­sent milli ára, en kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn kippti þeim við­snún­ingi til baka. Alls féllu tekjur vef­miðla um rúm­lega sex pró­sent á árinu 2020 og höfðu ekki verið lægri í krónum talið síðan 2015. 

Í grein­ingu Hag­stof­unnar er vef­miðlum skipt í sjálf­stæða vefi og fjöl­miðla­vefi. Fjöl­miðla­vef­irn­ir, sem eru að uppi­stöðu þeir frétta­vef­miðlar sem Íslend­ingar nota dags dag­lega, nán­ast tvö­föld­uðu tekur sínar á árunum 2013 til 2018. Frá því ári hafa tekjur þeirra hins vegar dreg­ist saman um sex pró­sent.

Næstum 50 millj­arðar til erlendra á átta árum

Ein stærsta eðl­is­breyt­ingin sem orðið hefur á íslensku fjöl­miðlaum­hverfið á síð­ustu árum er inn­koma erlendra aðila, sem greiða enga skatta né gjöld á Íslandi, inn á mark­að­inn fyrir aug­lýs­inga­birt­ing­ar. Árið 2012 voru erlendir aðilar með fjögur pró­sent hlut­deild í aug­lýs­inga­tekjum hér­lend­is. Strax árin 2013 var sú hlut­deild komin upp í 29 pró­sent og und­an­farin ár hefur hún verið 40 pró­sent. Frá byrjun árs 2013 og til loka árs 2020 runnu alls 48,6 millj­arðar króna af íslenska mark­aðnum til erlendra aðila vegna kaupa á aug­lýs­ing­um, mark­aðs­rann­sóknum eða skoð­ana­könn­un­um. 

Umtals­verður hluti þeirra greiðslna sem varið er vegna birt­ingar aug­lýs­inga í erlendum miðlum rennur til tveggja aðila, Face­book og Google (ásamt YouTu­be). Í  umfjöllun Hag­stof­unnar segir að „upp­lýs­ingar um greiðslu­korta­við­skipti vegna aug­lýs­inga og skyldrar starf­semi sýna að um og yfir níu af hverjum tíu krónum hafa und­an­farin ár runnið til þess­ara tveggja aðila.“

Árið 2012 var mark­aðs­hlut­deild Face­book og Google í íslensku aug­lýs­inga­tekjukök­unni 3,3 pró­sent. Árið 2020 var hún orðin 25 pró­sent. Tekjur Face­book og Google á Íslandi hafa vaxið úr 371 milljón króna á ári árið 2013 í um 3,9 millj­arða króna árið 2019, þegar þær náðu hámarki (aug­lýs­inga­tekjur erlendra aðila lækk­uðu í far­aldr­inum um 13 pró­sent, sem er sama lækkun og varð á tekjum íslenskra fjöl­miðla). Þær tíföld­uð­ust því á sjö árum.

Árlegar aug­lýs­inga­tekjur inn­lendra fjöl­miðla dróg­ust saman um 4,5 millj­arða króna milli áranna 2016 og 2020, eða um 31 pró­sent. 

Starf­andi fækkað um næstum helm­ing á tveimur árum

Afleið­ing þess­arar þró­unar hefur átt sér margs­konar birt­ing­ar­mynd­ir. Ein slík birt­ist í Menn­ing­ar­vísum Hag­stof­unnar sem birtir voru í fyrra­sum­ar. Þar kom fram að árið 2013 hefðu 2.238 manns starfað í fjöl­miðlun á Íslandi. Árið 2020 voru þeir orðnir tæp­­lega 876 tals­ins. Fækk­­unin hafði ágerst hratt á síð­­­ustu árum. Frá árinu 2018 og út árið 2020 fækk­­aði starf­andi fólki í fjöl­miðlum 45 pró­­sent, eða 731 manns. 

Sam­hliða fækkun starfs­­manna fjöl­miðla hefur launa­sum­­ma, árleg summa stað­greiðslu­­skyldra launa­greiðslna launa­­fólks,  einnig dreg­ist saman meðal rekstr­­ar­að­ila í fjöl­mið­l­un. Árið 2018 var launa­summan 8,1 millj­­arður króna. Árið 2020 var hún hins vegar komin niður í 5,3 millj­­arða króna og hafði því dreg­ist saman um 35 pró­­sent á tveimur árum. 

Mikil umræða en litlar aðgerðir

Bág rekstr­­ar­­staða fjöl­miðla hefur verið til umræðu hér­­­lendis árum sam­­an. Árið 2016 var skipuð nefnd til að fjalla um vand­ann, svo var rituð skýrsla sem skilað var rúmum tveimur árum síðar með sjö til­­lögum til úrbóta, þá var unnið úr til­­lögum hennar og loks smíðuð frum­vörp. 

Lilja Alfreðsdóttir er ráðherra fjölmiðlamála í nýrri ríkisstjórn. Hún var með málaflokkinn á sinni könnu á síðasta kjörtímabili líka.
Mynd: Bára Huld Beck

Ein­ungis ein þeirra til­­lagna, styrkja­­kerfið fyrir einka­rekna fjöl­miðla þar sem 400 millj­­ónum króna er útdeilt til þeirra, hefur náð í gegn. Þorri þeirrar upp­hæðar fer til þriggja stærstu fjöl­miðla­fyr­ir­tækja lands­ins, Árvak­urs, Torgs og Sýn­ar. Tvö fyrr­nefndu fyr­ir­tækin reka einu eft­ir­stand­andi prent­uðu dag­blöð lands­ins, sem hafa hrunið í lestri á und­an­förnum árum. Frétta­blaðið hefur tapað 40 pró­sent les­enda sinna og Morg­un­blaðið 35 pró­sent frá byrjun árs 2016.

Ekk­ert hefur verið gert með til­­lögur um að breyta stöðu RÚV á aug­lýs­inga­­mark­aði, lækka virð­is­auka­skatt á tekjur þeirra enn frekar, heim­ila aug­lýs­ingar sem hafa verið bann­aðar hér­­­lendis en eru leyf­i­­legar í flestum öðrum lönd­­um. Þá lagði nefndin til að settar yrðu skýrar reglur um gagn­­sæi í aug­lýs­inga­­kaupum hins opin­bera þannig að opin­berum aðilum beri að birta sund­­ur­lið­aðar upp­­lýs­ingar um kaup á aug­lýs­ing­­um. Af því hefur ekki orð­ið.

Stefán Eiríksson er útvarpsstjóri RÚV.
Mynd: Bára Huld Beck

Til við­­bótar við ofan­­greint hef­ur, líkt og áður sagði, það haft mikil áhrif á rekstr­­ar­um­hverfi fjöl­miðla að aug­lýs­inga­­tekjur hafa flætt frá hefð­bundnum íslenskum miðlum til alþjóð­­legra sam­­fé­lags­miðla- og net­­fyr­ir­tækja sem greiða ekki skatta af þeim tekjum hér­­­lend­­is. Um er að ræða tugi millj­arða króna. Íslensk stjórn­völd hafa ekki gert neinar til­raunir til að skatt­leggja þessar tekj­ur.

Fjöl­miðla­frelsi á Íslandi dregst hratt saman

Stuðn­­ingur við rekstur einka­rek­inna fjöl­miðla er umtals­verður á hinum Norð­­ur­lönd­un­­um.

Í vísi­­tölu sam­tak­anna Blaða­­manna án landamæra raða þau sér í efstu sætin yfir þau lönd þar sem ríkir mest fjöl­miðla­frelsi. Nor­egur er í fyrsta sæti, Finn­land er í öðru sæti, Dan­­­mörk í þriðja sæti og Sví­­­þjóð í fjórða sæti.

Ísland situr hins vegar í 16. sæti á lista sam­tak­anna og féll um eitt sæti á milli ára. 

Mestur er stuðn­­ing­­ur­inn í Nor­egi, því landi þar sem fjöl­miðla­frelsi mælist mest í heim­in­­um. Þar hefur verið mik­ill vilji til að auka við opin­bera styrki frekar en að draga úr þeim enda hefur reynslan af þeim verið jákvæð. Hinn 7. mars 2017 skil­aði nefnd sem skipuð var af norskum stjórn­­völdum hvít­­bók sem inn­i­hélt til­­lögur til að efla fjöl­miðla þar í landi. Meðal þeirra til­­lagna sem settar voru fram í hvít­­bók­inni var að auka styrk­veit­ingar til smærri fjöl­miðla, ein­falda umsókn­­ar­­ferlið og gæta jafn­­ræðis milli fjöl­miðla óháð því hvernig efni er mið­l­að. 

Danska rík­is­stjórnin kynnti nýjar til­lögur um stuðn­ing við fjöl­miðla í síð­ustu viku. Þar eru lagðar til marg­hátt­aðar til­lögur til að styrkja umhverfi sem á veru­lega undir högg að sækja, meðal ann­ars með því að skatt­leggja erlenda aðila sem starfa á mark­aðnum og með því að veita allskyns styrkti til að efla fjöl­breytta fjöl­miðl­un. Kynn­ing­ar­bæk­lingur um fjöl­miðla­stefn­una hefst á yfir­lýs­ingu um að sterkir og frjálsir fjöl­miðlar séu for­senda fyrir heil­brigðu lýð­ræði.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar