Tugir milljarða streyma óskattlagðir út af íslenska fjölmiðlamarkaðinum en RÚV styrkir stöðu sína
Erlend fyrirtæki sem borga ekki skatta á Íslandi taka til sín 40 prósent af auglýsingatekjum á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Á átta árum hafa næstum 50 milljarðar króna flætt til þeirra, og út af íslenska markaðnum. Eina fjölmiðlafyrirtækið á Íslandi sem verður ekki fyrir tekjutapi vegna þessa er RÚV. Hlutdeild RÚV í tekjum fjölmiðla hérlendis var 26 prósent árið 2020 og hafði ekki verið hærri frá því á tíunda áratug síðustu aldar.
Frá 1997 til 2016 jukust tekjur fjölmiðla á Íslandi á hverju einasta ári í krónum talið með einni undantekningu, árinu 2009 þegar eftirköst bankahrunsins komu fram. Frá 2016 hafa þær hins vegar lækkað á milli allra ára sem liðin eru.
Það ár voru samanlagðar tekjur íslenskra fjölmiðla 28,1 milljarðar króna. Árið 2020 voru þær 25,1 milljarður króna og höfðu því lækkað um tæp ellefu prósent á fjórum árum.
Þetta má lesa úr nýjum tölum sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku og sýna þróun á tekjum fjölmiðla á Íslandi.
Mestur hefur samdrátturinn orðið hjá þeim fjölmiðlum sem gefa út dagblöð og vikublöð. Tekjur þeirra hafa farið úr 7,3 í 4,5 milljarða króna á þessu fjögurra ára tímabili. Það er samdráttur upp á rúmlega 38 prósent. Tekjur annarra blaða og tímarita hafa sömuleiðis hrunið frá 2016, um alls 28 prósent.
Eini þátttakandinn á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem hefur ekki orðið fyrir áhrifum af þessum breytingum er Ríkisútvarpið. Tekjur þess, sem koma að mestu úr opinberum sjóðum en líka úr auglýsingasölu, hafa þvert á móti aukist ár frá ári. Árið 2016 voru tekjur RÚV 5,8 milljarðar króna en hækkuðu í 6,6 milljarða króna 2020, samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Það er aukning upp á tæp 14 prósent. Það eru lægri tekjur en tilgreindar eru í ársreikningi RÚV, þar sem rekstrartekjurnar eru sagðar tæplega 6,9 milljarðar króna. Af þeim komu yfir 70 prósent beint úr opinberum sjóðum eða 4,9 milljarðar króna.
Alls tekur RÚV til sín yfir 26 prósent af öllu fjármagni sem fer inn á íslenskan fjölmiðlamarkað og markaðshlutdeild opinbera fjölmiðilsins hefur ekki verið hærri frá árinu 1997, sem var fyrsta árið sem Hagstofan tók saman rekstrartölur um fjölmiðla. Markaðshlutdeild RÚV var tæplega 21 prósent árið 2016.
Ekkert bendir til þess að breyting verði á þessari stöðu. Samkvæmt fjárlögum ársins 2022 voru framlög til RÚV hækkuð um 430 milljónir króna, sem er 40 milljónum krónum meira en samanlagðir styrkir til annarra fjölmiðla úr opinberum sjóðum. Þeir styrkir voru lækkaðir milli ára.
Tekjur vefmiðla dregist saman frá 2016
Þrátt fyrir afar breytta neysluhegðun, sem felst aðallega í því að fólk sækir sér mun meira frétta- og afþreyingarefni á netið, hafa tekjur vefmiðla dregist saman á síðustu árum. Frá 2002 og fram til ársins 2016 höfðu þær vaxið ár frá ári, úr 76 milljónum króna í tæplega 2,1 milljarð króna. Frá því ári hafa tekjur vefmiðla hins vegar dregist saman, alls um 13,3 prósent. Svo virtist sem viðspyrna væri að eiga sér stað á árinu 2019, þegar tekjur hækkuðu um rúm fjögur prósent milli ára, en kórónuveirufaraldurinn kippti þeim viðsnúningi til baka. Alls féllu tekjur vefmiðla um rúmlega sex prósent á árinu 2020 og höfðu ekki verið lægri í krónum talið síðan 2015.
Í greiningu Hagstofunnar er vefmiðlum skipt í sjálfstæða vefi og fjölmiðlavefi. Fjölmiðlavefirnir, sem eru að uppistöðu þeir fréttavefmiðlar sem Íslendingar nota dags daglega, nánast tvöfölduðu tekur sínar á árunum 2013 til 2018. Frá því ári hafa tekjur þeirra hins vegar dregist saman um sex prósent.
Næstum 50 milljarðar til erlendra á átta árum
Ein stærsta eðlisbreytingin sem orðið hefur á íslensku fjölmiðlaumhverfið á síðustu árum er innkoma erlendra aðila, sem greiða enga skatta né gjöld á Íslandi, inn á markaðinn fyrir auglýsingabirtingar. Árið 2012 voru erlendir aðilar með fjögur prósent hlutdeild í auglýsingatekjum hérlendis. Strax árin 2013 var sú hlutdeild komin upp í 29 prósent og undanfarin ár hefur hún verið 40 prósent. Frá byrjun árs 2013 og til loka árs 2020 runnu alls 48,6 milljarðar króna af íslenska markaðnum til erlendra aðila vegna kaupa á auglýsingum, markaðsrannsóknum eða skoðanakönnunum.
Umtalsverður hluti þeirra greiðslna sem varið er vegna birtingar auglýsinga í erlendum miðlum rennur til tveggja aðila, Facebook og Google (ásamt YouTube). Í umfjöllun Hagstofunnar segir að „upplýsingar um greiðslukortaviðskipti vegna auglýsinga og skyldrar starfsemi sýna að um og yfir níu af hverjum tíu krónum hafa undanfarin ár runnið til þessara tveggja aðila.“
Árið 2012 var markaðshlutdeild Facebook og Google í íslensku auglýsingatekjukökunni 3,3 prósent. Árið 2020 var hún orðin 25 prósent. Tekjur Facebook og Google á Íslandi hafa vaxið úr 371 milljón króna á ári árið 2013 í um 3,9 milljarða króna árið 2019, þegar þær náðu hámarki (auglýsingatekjur erlendra aðila lækkuðu í faraldrinum um 13 prósent, sem er sama lækkun og varð á tekjum íslenskra fjölmiðla). Þær tífölduðust því á sjö árum.
Árlegar auglýsingatekjur innlendra fjölmiðla drógust saman um 4,5 milljarða króna milli áranna 2016 og 2020, eða um 31 prósent.
Starfandi fækkað um næstum helming á tveimur árum
Afleiðing þessarar þróunar hefur átt sér margskonar birtingarmyndir. Ein slík birtist í Menningarvísum Hagstofunnar sem birtir voru í fyrrasumar. Þar kom fram að árið 2013 hefðu 2.238 manns starfað í fjölmiðlun á Íslandi. Árið 2020 voru þeir orðnir tæplega 876 talsins. Fækkunin hafði ágerst hratt á síðustu árum. Frá árinu 2018 og út árið 2020 fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum 45 prósent, eða 731 manns.
Samhliða fækkun starfsmanna fjölmiðla hefur launasumma, árleg summa staðgreiðsluskyldra launagreiðslna launafólks, einnig dregist saman meðal rekstraraðila í fjölmiðlun. Árið 2018 var launasumman 8,1 milljarður króna. Árið 2020 var hún hins vegar komin niður í 5,3 milljarða króna og hafði því dregist saman um 35 prósent á tveimur árum.
Mikil umræða en litlar aðgerðir
Bág rekstrarstaða fjölmiðla hefur verið til umræðu hérlendis árum saman. Árið 2016 var skipuð nefnd til að fjalla um vandann, svo var rituð skýrsla sem skilað var rúmum tveimur árum síðar með sjö tillögum til úrbóta, þá var unnið úr tillögum hennar og loks smíðuð frumvörp.
Einungis ein þeirra tillagna, styrkjakerfið fyrir einkarekna fjölmiðla þar sem 400 milljónum króna er útdeilt til þeirra, hefur náð í gegn. Þorri þeirrar upphæðar fer til þriggja stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs, Torgs og Sýnar. Tvö fyrrnefndu fyrirtækin reka einu eftirstandandi prentuðu dagblöð landsins, sem hafa hrunið í lestri á undanförnum árum. Fréttablaðið hefur tapað 40 prósent lesenda sinna og Morgunblaðið 35 prósent frá byrjun árs 2016.
Ekkert hefur verið gert með tillögur um að breyta stöðu RÚV á auglýsingamarkaði, lækka virðisaukaskatt á tekjur þeirra enn frekar, heimila auglýsingar sem hafa verið bannaðar hérlendis en eru leyfilegar í flestum öðrum löndum. Þá lagði nefndin til að settar yrðu skýrar reglur um gagnsæi í auglýsingakaupum hins opinbera þannig að opinberum aðilum beri að birta sundurliðaðar upplýsingar um kaup á auglýsingum. Af því hefur ekki orðið.
Til viðbótar við ofangreint hefur, líkt og áður sagði, það haft mikil áhrif á rekstrarumhverfi fjölmiðla að auglýsingatekjur hafa flætt frá hefðbundnum íslenskum miðlum til alþjóðlegra samfélagsmiðla- og netfyrirtækja sem greiða ekki skatta af þeim tekjum hérlendis. Um er að ræða tugi milljarða króna. Íslensk stjórnvöld hafa ekki gert neinar tilraunir til að skattleggja þessar tekjur.
Fjölmiðlafrelsi á Íslandi dregst hratt saman
Stuðningur við rekstur einkarekinna fjölmiðla er umtalsverður á hinum Norðurlöndunum.
Í vísitölu samtakanna Blaðamanna án landamæra raða þau sér í efstu sætin yfir þau lönd þar sem ríkir mest fjölmiðlafrelsi. Noregur er í fyrsta sæti, Finnland er í öðru sæti, Danmörk í þriðja sæti og Svíþjóð í fjórða sæti.
Ísland situr hins vegar í 16. sæti á lista samtakanna og féll um eitt sæti á milli ára.
Mestur er stuðningurinn í Noregi, því landi þar sem fjölmiðlafrelsi mælist mest í heiminum. Þar hefur verið mikill vilji til að auka við opinbera styrki frekar en að draga úr þeim enda hefur reynslan af þeim verið jákvæð. Hinn 7. mars 2017 skilaði nefnd sem skipuð var af norskum stjórnvöldum hvítbók sem innihélt tillögur til að efla fjölmiðla þar í landi. Meðal þeirra tillagna sem settar voru fram í hvítbókinni var að auka styrkveitingar til smærri fjölmiðla, einfalda umsóknarferlið og gæta jafnræðis milli fjölmiðla óháð því hvernig efni er miðlað.
Danska ríkisstjórnin kynnti nýjar tillögur um stuðning við fjölmiðla í síðustu viku. Þar eru lagðar til margháttaðar tillögur til að styrkja umhverfi sem á verulega undir högg að sækja, meðal annars með því að skattleggja erlenda aðila sem starfa á markaðnum og með því að veita allskyns styrkti til að efla fjölbreytta fjölmiðlun. Kynningarbæklingur um fjölmiðlastefnuna hefst á yfirlýsingu um að sterkir og frjálsir fjölmiðlar séu forsenda fyrir heilbrigðu lýðræði.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
24. desember 2022RÚV tekur til sín fjórðung allra tekna fjölmiðla og helming auglýsingatekna
-
21. desember 2022Stjórnmála- og fjölmiðlafólk reynir að draga úr áhrifum áreitni á netinu
-
21. desember 2022Kjarninn og Stundin sameinast
-
16. desember 2022Opin bréf til menningar- og viðskiptaráðherra
-
16. desember 2022Framkoma meirihluta fjárlaganefndar „ekkert annað en skandall“