Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um söluferli Íslandsbanka hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarnar vikur. Þar hefur meðal annars verið tekist á um hvort Bankasýsla ríkisins hafi verið að fullu meðvituð um hver eftirspurn eftir bréfum í bankanum var þegar hún tók ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin að kvöldi 22. mars síðastliðins.
Voru þær upplýsingar sem lagðar voru fyrir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, til að ákveða hversu stóran hlut í Íslandsbanka átti að selja, og á hvaða verði, réttar?
Um þetta hefur verið tekist síðustu vikur í kjölfar þess að Ríkisendurskoðun birti skýrslu sína um söluna á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka 14. nóvember síðastliðinn. Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að Bankasýsla ríkisins, sem bar ábyrgð á framkvæmd söluferilsins, hefði ekki verið að fullu meðvituð um rauneftirspurn fjárfesta þegar hún tók lagði fram tillögu um lokaverð fyrir Bjarna að kvöld 22. mars síðastliðins.
Þessu hefur Bankasýslan hafnað og hefur meðal annars sagt skýrsluna í heild „afhjúpa takmarkaða þekkingu“ Ríkisendurskoðunar á viðfangsefninu.
Það vakti athygli þegar Ríkisendurskoðun sendi frá sér tilkynningu fyrr í þessum mánuði þar sem hún sagðist hafna „aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla síðustu daga um að annarleg sjónarmið hafi ráðið för við úttektarvinnu embættisins“.
Þar var verið, samkvæmt heimildum Kjarnans, meðal annars verið að vísa í umfjöllun Morgunblaðsins og Viðskiptablaðsins þar sem gert var tortryggilegt að Ríkisendurskoðun hafi ráðið Jón Þór Sturluson, forseta viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, sem ráðgjafa við úttekt stofnunarinnar á söluferlinu með því að benda á að Jón Þór hafi starfað fyrir Samfylkinguna, meðal annars sem aðstoðarmaður ráðherra, fyrir mörgum árum síðan. Jón Þór sagði sig úr Samfylkingunni árið 2010, í kjölfar þess að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var ákærður og dreginn fyrir Landsdóm.
Í tilkynningu Ríkisendurskoðunar var því einnig hafnað að umfjöllun stofnunarinnar um tilboðsbók söluferlisins byggði á misskilningi.
Það hefur meðal annars verið gert í nýlegum pistli Harðar Ægissonar, ritstjóra Innherja, undirvefs Vísis sem fjallar um efnahagsmál og viðskipti. Sá pistill var svo tekinn upp í fjölmiðlapistli sem Örn Arnarson skrifaði í Viðskiptablaðið. Þar er því haldið fram að ætlaður misskilningur sérfræðinga Ríkisendurskoðunar sé staðreynd, ekki mat.
Bankasýslan skilaði sjálf inn gallaða Excel-skjalinu
Ágreiningur um tilboðsbókina snýst um að á fundi Bankasýslunnar, fjármálaráðgjafa hennar og umsjónaraðilanna, sem stóð yfir frá klukkan 19:40 til 20:38 á söludegi, var ákveðið að tilkynna að leiðbeinandi lokaverð sölunnar yrði 117 krónur á hlut, sem var 4,1 prósent lægra en dagslokaverð á markaði þennan sama dag.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir: „Samkvæmt Íslandsbanka var fundarmönnum tilkynnt um uppfært vinnuskjal klukkan 20:36 þar sem ýmsar villur í innlendu tilboðabókinni höfðu verið leiðréttar. Milli kl. 20:41 og 20:53 áttu stjórnarformaður og forstjóri Bankasýslunnar símtal við fjármála- og efnahagsráðherra til að upplýsa hann um að stofnunin teldi rétt að birta leiðbeinandi lokaverð og magn á grundvelli ráðgjafar umsjónaraðila og fjármálaráðgjafa. Ráðherra gerði engar athugasemdir við áform stofnunarinnar.“
Bankasýslan hélt í kjölfarið stjórnarfund sem stóð yfir frá klukkan 21:00 til 21:30 þar sem ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð og magn söluferlisins voru formlega ákveðin.
Þann 20. maí 2022, tæplega einum og hálfum mánuði eftir qð Ríkisendurskoðun var falið að rannsaka söluferlið á Íslandsbanka, óskaði Ríkisendurskoðun eftir að Bankasýsla ríkisins myndi útvega afrit af tilboðabók söluferlisins eins og hún leit út þegar ákvörðun var tekin um leiðbeinandi lokaverð.
Bankasýslan skilaði sjálf inn Excel-skjali til Ríkisendurskoðunar, sem var upphaflega frá Íslandsbanka sjálfum, með töflu sem sýndi umframeftirspurn við gengi frá 110 til 125 krónur á hlut. „Við greiningu Ríkisendurskoðunar á umræddu skjali komu í ljós annmarkar í útreikningum þar sem fjöldi færslna í skjalinu, þ.e. reitir sem innihéldu fjárhæð tilboða fjárfesta, var ekki færður inn á réttu formi, heldur ýmist með erlendri kommusetningu eða fjárhæðum skilgreindum sem texta. Það leiddi til þess að Excel–töflureiknirinn nam þau ekki sem tölulegar upplýsingar. Umrædd tilboð birtust því ekki í fyrrnefndri töflu í skjalinu sem sent var Ríkisendurskoðun og sýndi heildareftirspurn við mismunandi gengi né þeirri mynd sem teiknuð var upp af eftirspurninni.“
Alls voru villur í 105 af 303 færslum í skjalinu.
Nýtt skjal kemur til skjalanna
Þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar fór í umsagnarferli í október komu fram athugasemdir þess efnis að skjalið sem Bankasýslan hefði sent inn í maí, og sagt hafa byggt ákvörðun sína um leiðbeinandi lokaverð á, hafi ekki verið hið rétta. Þessa athugasemd kom frá Íslandsbanka, ekki Bankasýslunni.
Í henni sagði að skjalið sem Bankasýslan hefði sent Ríkisendurskoðun hafi byggt á stöðunni eins og hún var 19:37 á söludegi, en ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð hafi verið tekið á grundvelli annars og mun hreinna skjals sem lá fyrir klukkan 20:36. Þær villur sem voru í upprunalega skjalinu hefðu nefnilega verið fjarlægðar klukkan 20:10.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að þrátt fyrir þetta hafi heiti skjalsins sem Bankasýslan sendi Ríkisendurskoðun í maí verið „Staða tilboðsbókar þegar leiðbeinandi verð og magn voru ákvörðuð 22 mars 2022“. Alveg fram að því að umsagnarferli úttektarinnar hófst í október, hálfu ári eftir að úttektin hófst og fimm mánuðum eftir að Bankasýslan skilaði sjálf gallaða Excel-skjalinu til Ríkisendurskoðunar, byggðu öll svör Bankasýslunnar um gallaða skjalinu.
„Ákvörðun ráðherra byggði því á ónákvæmum upplýsingum“
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að stofnunin vilji vekja sérstaka athygli á að fram að umsagnarferli þessarar úttektar í október 2022 hafði embættið ekki fengið neinar upplýsingar frá Bankasýslunni þess efnis að fundur þar sem ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin hafi staðið yfir lengur en til kl. 20:30. „Í umsagnarferlinu kom fram hjá Íslandsbanka og síðar Bankasýslunni að verðákvörðunin hafi byggt á uppfærðu skjali kl. 20:36 og að fundinum hafi lokið kl. 20:38.“
Tillaga Bankasýslu ríkisins um hvernig ætti að hátta sölunni, ásamt rökstuddu mati hennar, var send til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, með tölvupósti kl. 21:40 þann 22. mars. Þar kom fram að á milli 150 og 200 hæfir fjárfestar, innlendir og erlendir, hefðu skráð sig fyrir hlutum fyrir samtals meira en 100 milljörðum króna. „Í ljósi þess að tekið var við tilboðum til klukkan 21:30 bjó stjórn Bankasýslunnar ekki yfir endanlegum upplýsingum um eftirspurn fjárfesta þegar hún samþykkti umrætt orðalag. Heildareftirspurn fjárfesta miðað við gengið 117 kr. á hlut var í reynd 148,4 ma. kr. við lok söluferlisins.“ Fjöldi tilboði var líka umfram það bil sem gefið var upp til ráðherra, eða alls 209.
Það var því niðurstaða Ríkisendurskoðunar að upplýsingarnar sem Bankasýslan veitti Bjarna Benediktssyni um fjölda fjárfesta og heildarfjárhæð tilboð hafi verið ónákvæmar. „Ákvörðun ráðherra byggði því á ónákvæmum upplýsingum.“
Söfnuðu áskriftum eftir stjórnarfund
Þessu mótmælti Bankasýsla ríkisins harðlega í athugasemdum við úttekt Ríkisendurskoðunar sem hún birti á heimasíðu sinni um miðjan þennan mánuð.
Þar segja forsvarsmenn hennar að rökstutt mat stofnunarinnar á því hvert verðið ætti að vera og hversu mikið ætti að selja hafi ekki „ aðeins á upplýsingum um eftirspurn frá fjárfestum eins og þær lágu þá fyrir heldur einnig á þeirri vitneskju um afstöðu leiðandi fjárfesta til verðs og magns sem byggst hafði upp allt frá upphafi markaðsþreifinga mánudaginn 21. mars sl. Þá var litið til tillagna umsjónaraðila útboðsins og afdráttarlausrar og rökstuddrar ráðgjafar fjármálaráðgjafa. Þótt áskrifta hafi áfram verið safnað eftir að fundur stjórnar Bankasýslu ríkisins hófst voru forsendur á þeim tíma nægar til að setja fram gagnvart ráðherra tillögu um lokaverð og magn.“
Eftir að áðurnefndir viðskiptamiðlar höfðu gert mikið úr þessari skýringu Bankasýslunnar og fullyrt að umfjöllun um tilboðsbók söluferlisins byggðist á misskilningi sendi Ríkisendurskoðun frá sér tilkynningu þar sem því var alfarið hafnað. Þar stóð að skýrslan stæði óhögguð. „Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að svör Bankasýslu ríkisins til bæði embættisins og Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands í maí sl. byggðu á umræddu Excel-skjali sem innihélt marga annmarka en ekki uppfærðri og villulausri útgáfu þess. Bankasýslan áttaði sig ekki á þeirri staðreynd fyrr en í umsagnarferli úttektarinnar í október sl. Gögn málsins sýna svo ekki verður um villst að Bankasýslan var, líkt og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, ekki að fullu meðvituð um rauneftirspurn fjárfesta þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin að kvöldi 22. mars sl. Ekki er um neinn misskilning af hálfu Ríkisendurskoðunar að ræða.“
Verra fyrir Bankasýsluna að styðjast við seinna skjalið
Við lestur skýrslu Ríkisendurskoðunar virðist líka liggja fyrir að sérfræðingar stofnunarinnar telji að það líta enn verr út fyrir Bankasýsluna ef hún hafi miðað við lokaskjalið við upplýsingagjöf til ráðherra um leiðbeinandi lokaverð en ef hún hefði stuðst við gallaða Excel-skjalið, líkt og hún sagðist hafa gert þar til í október.
Það er rökstutt með því að lokaskjalið sýnir mun meiri eftirspurn og að hægt hefði verið að selja á mun hærra verði en þær upplýsingar sem fram komu í gallaða Excel-skjalinu.
Það var því niðurstaða Ríkisendurskoðunar að betri framkvæmd sölunnar og áreiðanlegri greining á eftirspurn þegar leiðbeinandi lokaverð var ákvarðað hefði mögulega getað skilað meiri tekjum í ríkissjóð.
Í skýrslunni segir að íslenska ríkið hafi ekki þurft að gefa 2,25 milljarða króna afslátt af hlutabréfum í Íslandsbanka þegar það seldi 22,5 prósent hlutinn í honum. Seinna skjalið sýni að umfram eftirspurn var eftir því að kaupa allan eignarhlutinn á dagslokagengi Íslandsbanka þann dag, 122 krónur á hlut, eða á hærra verði.
Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar voru skýr merki um að endanlegt söluverð hafi „fyrst og síðast ráðist af eftirspurn erlendra fjárfesta“ og að frekari hækkun gæti haft neikvæð áhrif á þróun hlutabréfaverðs bankans að sölu lokinni. „Stofnunin [Bankasýsla ríkisins] tók þá ákvörðun, að ráði ráðgjafa sinna, að leggja til við ráðherra að eignarhluturinn skyldi seldur á lægra verði að því er virðist til að ná fram öðrum markmiðum en forgangsmarkmiði sínu og meginreglu laga nr. 155/2012 um hagkvæmni eða hæsta verð.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana