Framtíð Twitter er óljós eftir að kaup auðkýfingsins Elons Musk gengu loks í gegn eftir mikla þrautagöngu. Sumum Twitter-notendum lýst ekki á blikuna og eru farnir að leita annað, en hvert?
Samfélagsmiðillinn Mastodon gæti verið svarið. Virkir notendur miðilsins eru orðnir yfir ein milljón og hefur meirihluti þeirra bæst í hópinn eftir að Musk varð eigandi Twitter.
Musk greiddi 44 milljarða bandaríkjadala fyrir Twitter. Kaupin gengu ekki snurðulaust fyrri sig. Musk keypti fyrst hlutabréf í Twitter í upphafi árs og í byrjun apríl var hlutur hans í fyrirtækinu kominn yfir níu prósent og var hann þar með orðinn meðal stærstu hluthafa í Twitter og bauðst að taka sæti í stjórn fyrirtækisins. Hann afþakkaði boðið og sagði ljóst að samfélagsmiðillinn gæti hvorki dafnað né þjónað tilgangi sínum í núverandi formi.
Í kjölfarið gerði hann yfirtökutilboð upp á 44 milljarða Bandaríkjadala sem stjórn Twitter hafnaði í fyrstu en ákvað svo að ganga að. Yfirtakan komst þó í nokkuð uppnám í maí, áður en hluthafar höfðu tekið afstöðu til tilboðsins, þegar Musk sakaði Twitter um að standa í vegi fyrir því að hann fengi upplýsingar um hversu hátt hlutfall notenda miðilsins eru gervimenni (e. bots).
Í tísti sem hann sendi frá sér greindi hann frá því að kaup hans á samfélagsmiðlinum hefðu verið sett á ís þar sem hann væri að bíða eftir gögnum sem gætu rökstutt fullyrðingar Twitter um að hlutfall gervimenna á samfélagsmiðlinum væri innan við fimm prósent.
Allt stefndi í að möguleg yfirtaka ríkasta manns heim yrði gerð upp fyrir dómstólum en í lok október gekk Musk loks frá kaupunum, degi áður en lokafrestur til þess rann út. „Fuglinn er frjáls!“ tísti Musk. Meðal fyrstu verka hans sem eigandi Twitter var að segja upp tæplega helmingi starfsfólks og leggja mannréttindadeild fyrirtækisins niður.
the bird is freed
— Elon Musk (@elonmusk) October 28, 2022
Loðfílar sem segja samfélagsmiðlun ekki til sölu
„Samfélagsmiðlun sem er ekki til sölu,“ er það sem tekur á móti þeim sem opna heimasíðu Mastodon. Þar er svo hægt að nálgast app-ið eða stofna aðgang.
Stofnandi Mastodon er Þjóðverjinn Eugen Rochko. Nafnið, Mastodon, er vísun í fíl af útdauðri fílaættkvísl sem svipar til loðfíls. Krúttlegar teikmyndafígurur í formi loðfíla eru einmitt tákn Mastodon sem bjóða fólk velkomin á miðilinn. Svo er reyndar líka til bandarísk þungarokkshljómsveit sem heitir Mastodon.
En á bak við Twitter- og Mastodon-prófílana liggur munurinn og það er einmitt ástæðan fyrir því að notendur leita á Mastodon, en hefur líka valdið ruglingi.
Ok, I’ve joined #Mastodon but also this pic.twitter.com/2Uue7E4BR8
— Sinéad Crowley (@SineadCrowley) November 4, 2022
Dreifstýring í stað miðstýringar
Helsti munurinn á miðlunum er hvernig þeir eru hýstir. Mastodon er ekki með miðlæga vefsíðu sem er hýst á einum stað í eigu fyrirtækis líkt og Twitter.
Mastodon er lýst sem dreifstýrðum, opnum hugbúnaði (e. open-source). Við skráningu þurfa notendur að velja sér netþjón sem hýsir aðganginn. Líkja má skráningunni við val á netfangi. Mastodon er með nokkra netþjóna, sem eru í eigu mismunandi fyrirtækja, og því er Mastodon ekki í eigu eins einstaklings eða fyrirtækis.
Kveikjan að stofnun miðilsins var einmitt að geta haft samskipti á netinu án þess að ábyrgð og völd væru í höndum eins aðila. Rochko var 23 ára þegar hann stofnaði Mastodon árið 2016. Hann var orðinn svekktur og pirraður á Twitter og ákvað að taka málin í sínar eigin hendur. „Það skiptir mig miklu máli að geta tjáð mig á netinu við vini mína í stuttum skilaboðum. Það er mörgum mikilvægt, en slík ábyrgð ætti ekki að vera í höndum á stöku fyrirtæki,“ segir Rochko í samtali við Time. Hann hætti á Twitter því hann treysti ekki stjórnunarstíl fyrirtækisins.
Fyrstu fjóra dagana eftir að Musk varð eigandi Twitter fjölgaði notendum Mastodon um 120 þúsund. Virkir notendur eru nú í kringum milljón en alls er aðgangarnir 4,5 milljónir talsins. Rochko er eini starfsmaður Mastodon, mesta starfsemin fer í gegnum netþjónana.
Rochko segir það jákvætt að finna fyrir viðurkenningu á eigin verkum. „Ég hef barist fyrir því að vekja athygli á að það eru til betri leiðir til að reka samfélagsmiðla en leiðin sem stóru miðlarnir líkt og Twitter og Facebook gera.“
Mastodon virkar einhvern veginn svona:
Netþjónar:
Við skráningu á miðilinn þarf að velja netþjón sem flokkaðir eru eftir ýmsum þemum, svo sem löndum, borgum eða áhugamálum, svo sem Bretland, tækni, tölvuleikir og svo framvegis. Í raun skiptir ekki máli hvaða netþjónn er valinn þar sem hægt er að fylgja notendum sem velja aðra netþjóna. En með valinu er notand að velja sér ákveðið grunnsamfélag.
Af hverju netþjónar?
Hér verður þetta svolítið flókið, en á einfaldan hátt má lýsa Mastodon með þeim hætti að miðillinn er ekki einn sameiginlegur vettvangur sem er í eigu einstaklings eða fyrirtækis. Notendur velja á milli mismunandi netþjóna sem tengjast og mynda saman sameiginlegt kerfi, sem er í eigu mismunandi einstaklinga og samtaka. Tilgangurinn er að draga úr miðstýringu og það er einmitt það sem er að laða notendur frá Twitter yfir til Mastodon.
Notendur:
Netþjónninn sem valinn er í byrjun verður hluti af notendanafninu. Tækniblaðamaður BBC, Zoe Kleinman, valdi sér til að mynda notendanafnið zsk. Fullt notendanafn hennar á Mastodon er þá @zsk@mastodonapp.uk. Ef notendur eru á sama netþjóni er hins vegar nóg að leita eftir nafni viðkomandi.
Auglýsingar:
Engar auglýsingar eru á Mastodon. Það er hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir að notendur auglýsi eigin vöru eða fyrirtæki á miðlinum.
Kostnaður:
Mastodon er ókeypis. En, sumir netþjónar óska eftir frjálsum framlögum.