„Við neytum of mikils, notum of mikla orku, kaupum of mikið af hlutum og endurvinnum ekki nóg“
Sanna Marin kom ung fram á sjónarsvið stjórnmálanna í Finnlandi og þegar hún settist í stól forsætisráðherra árið 2019 var hún yngst til að gegna því hlutverki eða einungis 34 ára. Blaðamaður Kjarnans sat morgunverðarfund með Sönnu á dögunum ásamt öðrum norrænum blaðamönnum og ræddi hún norrænt samstarf, loftslagsmál, kórónuveiruna og viðbrögð við henni – og síðast en ekki síst hvernig það er að vera ung kona í svo veigamiklu hlutverki.
Hin ýmsu mál voru skeggrædd á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í byrjun nóvember en umræður um kórónuveiruna voru ofarlega á baugi, sem og umhverfismál. Forsætisráðherra Finnlands, Sanna Marin, bauð nokkrum blaðamönnum að fá sér morgunverð með sér, ræða málin og spyrja spurninga.
Líf Sönnu tók óvænta stefnu árið 2019 en eftir þingkosningar um sumarið urðu stjórnarskipti í Finnlandi. Fimm flokkar stóðu að nýju stjórninni og var forsætisráðherra Antti Rinne leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins en hann sat einungis örfáa mánuði í forsætisráðuneytinu. Í byrjun desember 2019 sagði hann af sér í kjölfar verkfalls starfsfólks póstsins en þá hafði einn stjórnarflokkanna lýst yfir vantrausti á forsætisráðherrann. Ríkisstjórnin sat þó áfram en við starfi forsætisráðherra tók Sanna Marin, varaformaður flokks jafnaðarmanna.
Sanna, sem er fædd 1985, lauk námi í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Tampere árið 2012 og var sama ár kjörin í borgarstjórn Tampere. Árið 2014 varð hún varaformaður Jafnaðarmannaflokksins og settist á þing ári síðar. Þegar Antti Rinne myndaði stjórn sumarið 2019 varð Sanna Marin samgöngu- og samskiptaráðherra. Hún stoppaði stutt í því starfi því 10. desember sama ár tók hún við starfi forsætisráðherra, eftir kosningar í flokki jafnaðarmanna.
Í samræðum blaðamanna og forsætisráðherra var Sanna spurð hvað hún héldi að tvítug Sanna myndi segja um loftslagsaðgerðir ríkisstjórnar hennar. Svarið lét ekki á sér standa en hún telur að tvítug Sanna yrði ánægð. „Við erum búin að skuldbinda okkur til að grípa til aðgerða en auðvitað verðum við að bregðast hraðar við – eins og allir aðrir. Ég tel að við séum með mjög framsækna aðgerðaáætlun þegar kemur að þessum málaflokki og við fylgjum henni einnig eftir.“
Breytingarnar gerast of hægt
Sanna táknar eða stendur fyrir nýja kynslóð stjórnmálamanna í Finnlandi. Telur hún að hennar kynslóð muni stjórna öðruvísi en þær sem héldu um stjórnartaumana á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Glasgow á dögunum?
„Ég tel að við þurfum fólk frá ólíkum kynslóðum, kynjum og með bakgrunn í ýmiss konar stöðum. Við getum tekið mest upplýsandi ákvarðanirnar ef við höfum fólk með mismunandi bakgrunn. Við getum líka skilið ólík viðhorf og afleiðingar af þessum ákvörðunum. Ég tel að það sé mikilvægt að fleiri yngri taki þátt í stjórnmálum en einnig við ég sjá fleiri konur í áhrifastöðum í samfélaginu – ekki einungis innan stjórnsýslunnar og í stjórnmálum heldur einnig í viðskiptaheiminum,“ segir hún.
Sanna telur að breytingarnar gerist of hægt. „Í Finnlandi höfum við flokka í ríkisstjórn þar sem allir eru leiddir af konum. Fjórir eru leiddir af ungum konum og stærstu embættin eru skipuð konum,“ bendir hún.
Hvaða breytingar koma með ungu kynslóðinni?
„Ég tel auðvitað að forgangsröðunin sé ekki algjörlega ólík hjá þeim eldri og yngri. Ég er sósíaldemókrati og auðvitað hef ég sömu gildi og hugmyndir og kollegar mínir í flokknum, hvort sem þeir eru eldri menn eða yngri konur. Við deilum sömu gildum og markmiðum. Svo ég held ekki að við séum á sitt hvorum endanum, að við séum í algjörri andstöðu við eldri kynslóðina – það er ekki þannig. En ég tel að yngri kynslóðin líti á það sem meira aðkallandi að fá samfélagið til að verða sjálfbært – ekki einungis efnahagslega og félagslega heldur líka umhverfislega. Ég tel að þetta sé stóra áskorunin sem við á Norðurlöndunum stöndum frammi fyrir. Hvernig gerum við velferðarsamfélagið okkar kolefnishlutlaust og sjálfbært?“ spyr Sanna.
Hún segir að við þurfum að nota náttúruauðlindir skynsamlega.
„Ég held að þetta sé stórt viðfangsefni á Norðurlöndunum og á Vesturlöndum yfir höfuð. „Við neytum of mikils, notum of mikla orku, göngum of mikið á náttúruauðlindir okkar, kaupum of mikið af hlutum, endurvinnum ekki nóg og höfum ekki skilvirkt hringrásarhagkerfi.“
Sanna telur þó að heimsbyggðinni muni takast þetta en ferlið standi enn yfir.
„Verund mín er sumum ögrun“
Sanna er yngsti forsætisráðherra Finnlands, eins og áður segir, og hefur þannig storkað viðteknum hugmyndum um hvernig manneskja í því embætti hagar sér. Til að mynda sætti hún gagnrýni fyrir um ári síðan vegna ljósmyndar sem birtist af henni í tískutímaritinu Trendi. Þar klæddist hún jakka án þess að vera í sjáanlegum bol eða skyrtu innan undir. Myndin olli töluverðu fjaðrafoki og þótti hún ekki sæma embættinu. Mikil mótalda reis til stuðnings forsætisráðherra og tóku konur, ungar sem aldnar, þátt í óformlegri herferð á samfélagsmiðlum þar sem þær létu sjást í barminn.
„Verund mín er sumum ögrun – meira að segja þegar ég sit hér þögul – vegna þess að ég er ung kona í stóli forsætisráðherra. Það reitir suma til reiði sama hvað ég geri eða segi,“ segir Sanna við blaðamenn í Kaupmannahöfn.
Hún segir að það sé mikilvægt að líta svo á að það séu mismunandi leiðir til að sinna starfi forsætisráðherra. Fólk stjórni á mismunandi vegu og iðki sín stjórnmál ólíkt.
„Ég held að það sé mikilvægt fyrir yngri kynslóðirnar að þær geti hafi áhrif í þessum heimi – að ungt fólk viti að það geti sóst eftir til dæmis sæti á þingi eða tekið þátt í pólitísku starfi. Það á ekki að þurfa að endurskapa sig til að taka þátt heldur ætti það að geta verið það sjálft. Fólk þarf ekki að gangast upp í gamaldags hugmyndum um stjórnmálamenn.“
Hún segir að hinar sígildu hugmyndir um stjórnmálamann geri ráð fyrir eldri karlmanni sem hefur ákveðin gildi. „En unga kynslóðin sem er nú við völd í Finnlandi lítur einmitt ekki svona út. Margar yngri konur haga sér eftir aldri og það tel ég vera jákvætt. Þú þarft ekki að haga þér með ákveðnum hætti til að verða stjórnmálamaður. Þú þarft ekki að endurskilgreina hver þú ert eða að setja þig í einhvers konar mót eða form eftir fordæmi annarra.“
Það sé nóg að hafa hugsjónir og von um breyttan heim.
Stendur við ákvarðanir sínar
Þegar Sanna er spurð út í aðgerðir í kórónuveirufaraldrinum þá segir hún að sú ákvörðun að loka landamærunum hafi ekki verið auðveld. „Við lokuðum þeim ekki vegna þess að við vildum það. Við lokuðum þeim vegna þess að við þurftum að gera það. Veiran dreifði hratt úr sér og ég stend algjörlega á bak við þessa ákvörðun sem við tókum til að vernda borgara okkar, heilsu þeirra og líf. Ég myndi gera það aftur – engin spurning.“
Hún segir að í framtíðinni verðum við öll að læra af þessu ástandi öllu.
Faraldurinn opinberaði að einhverju leyti veikleika í norrænu samstarfi
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætti á blaðamannafund norrænu forsætisráðherranna á þingi Norðurlandaráðs. Hún sagði í samtali við Kjarnann að ráðherrarnir hefðu meðal annars rætt sín á milli hvernig Norðurlöndin gætu byggt sig upp þannig að þau væru samstillt þegar vá er fyrir dyrum.
Ráðherrarnir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir vilja til að dýpka samstarf Norðurlandanna til að geta verið betur undirbúin fyrir krísu á borð við kórónuveiruna.
Katrín sagði enn fremur að ákveðin mál hefðu komið upp í byrjun faraldurs sem þyrfti að skoða. „Sum lönd eru í ESB og önnur ekki. Það skapar, ja, ég segi ekki vandamál – sumir eru í öðru samtali þannig að það var úrlausnarefni fyrir okkur en við nutum til dæmis mikillar aðstoðar Svía í bóluefnasamningum sem er eitt af því sem við þurfum að vera svolítið meðvituð um í norrænu samstarfi. Svo eru sumir í NATO og aðrir ekki. Það er eitthvað sem við þurfum líka að vera meðvituð um.“
Hún benti á að yfirlýsing ráðherranna snerist um það að fara yfir ákveðna ferla. „Hvað gerum við þegar krísa skellur á og lönd fara til dæmis að loka landamærum?“ spurði hún og bætti því við að mikil óvissa hefði skapast í kringum ástandið. Hún sagði að sú óvissa hefði eiginlega verið ónauðsynleg þar sem ráðherrar landanna þekktust vel og hefðu getað verið í meira sambandi í byrjun COVID.
Katrín sagði jafnframt að faraldurinn hefði að einhverju leyti opinberað veikleika í norrænu samstarfi. „En líka má segja að eftir fyrsta áfallið þá hófst rosalega þétt samtal og borgaraþjónusturnar unnu til dæmis mikið saman til að koma fólki heim. Það var mikið samtal á milli heilbrigðisráðherranna og utanríkisráðherranna – þannig að fyrstu viðbrögð voru svolítið „hver fyrir sig“ en svo hófst mjög þétt samtal. Þannig að faraldurinn opinberaði bæði veikleika og styrkleika.“
Aðgerðir á landamærum skipta sköpum
Varðandi landamæralokanir þá segir Sanna að fólk verði auðvitað að geta farið á milli Norðurlandanna, enda eigi margir fjölskyldu í öðru landi eða vinni jafnvel annars staðar. Einnig sé mikið um það að fólk stundi nám í öðrum Norðurlöndum og segir hún að yfirvöld vilji ekki gera líf þessa fólks erfiðara með því að hafa miklar takmarkanir á landamærunum.
„En við verðum að stöðva veiruna og ég tel að aðgerðir á landamærum skipti þar sköpum. Við verðum að læra af reynslunni.“
Hún bendir á að Norðurlöndin hafi beitt mismunandi meðulum til að takast á við veiruna. „Það er ein ástæða þess að ástandið varð erfitt á Norðurlöndunum. Þessar ólíku nálganir, til dæmis tók Svíþjóð allt öðruvísi á málum en hin löndin.“
Sanna segir að meginmarkmið flestra landanna hefði verið að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar til þess að vernda aldraða og þá sem eru í áhættuhópum. Einnig að sjá til þess að heilbrigðiskerfið gæti staðist álagið sem myndaðist í faraldrinum. „Allar okkar aðgerðir voru gerðar með þetta í huga.“
Beita þurfi ýmsum aðgerðum í krísuástandi sem annars þyrfti ekki að grípa til. En í þannig ástandi verði að takast á við hlutina.
„Norðurlöndin verða að læra af faraldrinum og hvernig þau geti unnið betur saman. Hvernig komum við því þannig í kring að við höfum öll sömu upplýsingarnar og þekkinguna? Hvernig getum við haft samskipti með skjótum og skilvirkum hætti?“
Þetta séu spurningar sem Norðurlöndin þurfa að spyrja sig. „Við þurfum að vera betur undirbúin næst þegar til krísu kemur og vinna betur saman,“ segir hún.
Segist ekki taka afstöðu með eða á móti aðgerðum Svía
Þegar Sanna er spurð út í aðferðafræði Svía í faraldrinum þá segir hún að það sé ekki hennar að taka afstöðu til þess hvernig þeir tóku á málum. „Það er hlutverk sænskra þjóðfélagsþegna að meta það og stjórnmálamanna. Umræðan verður að fara þar fram hvernig yfirvöld tókust á við faraldurinn. Það er ekki mitt að segja. Okkar aðgerðir voru öðruvísi og ég er ánægð með að þær voru öðruvísi. Við björguðum mörgum lífum og fólk varð ekki eins veikt og þar. Hagkerfið beið ekki samskonar hnekki svo ég tel að ákvarðanir okkar hafi verið hinar réttu en það er ekki í mínum verkahring að segja hvort Svíþjóð hafi náð árangri með sínum aðgerðum eða ekki.“
Hún telur það vera áhugavert að Svíar og yfirvöld þar í landi hafi hugsað þetta svona öðruvísi. „Ég tel að sagnfræðingar eigi eftir að gera sér mat úr því þegar þeir rannsaka þær ólíku leiðir sem Svíar fóru í samanburði við hin Norðurlöndin. Af hverju var þetta svona? Hvers vegna kusu stjórnmálamenn í Svíþjóð og almenningur að fara aðra leið en nágrannar þeirra? Ég hef ekki svarið við þessum spurningum en ég held að það sé eitthvað öðruvísi við það hvernig Svíar horfa á heiminn. Og ég held að það sé mjög áhugavert. Það er ekki gott eða slæmt – en það er áhugavert.“
Sanna segir að þessi ólíka nálgun Svía í faraldrinum muni ekki hafa nein áhrif á samstarf milli Norðurlandanna. Tengsl landanna hafi styrkst í faraldrinum á margan máta þrátt fyrir að þau hafi lent í ákveðnum vandræðum. Þau hafi lært af hvort öðru – bæði af því sem vel heppnaðist og því sem miður fór.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars