Í Kína er allt svo stórt í sniðum og hefur mikið aðdráttarafl.
Jafnvel hinum megin á hnettinum, á Íslandi, höfum við séð heilu og hálfa þjóðfélagshópana sogast ómótstæðilega inn í þetta þyngdarsvið. Einu sinni voru það trúboðarnir okkar, síðan kommúnistarnir, þá kapítalistarnir. Og núna er sem sagt komið að knattspyrnumönnunum.
Íslenska karlalandsliðið er á leiðinni hingað austur að taka þátt í fyrsta svokallaða „Kínabikar-mótinu“ er hefst með leik Íslands og Kína 10. janúar nk. Ég verð að viðurkenna að sem Íslendingur ber ég kvíðboga fyrir þessu móti.
Vita strákarnir okkar út í hvað þeir eru að fara?
Fótbolti er ekki bara leikur
Eins og allir ættu að vita er fótbolti ekki bara leikur. Við viljum sigur. Það er markmiðið. Fátt jafnast á við að vera í vinningsliðinu. Við erum öll þannig gerð. Ekki bara Íslendingar. Kínverjar líka.
Síðustu áratugi hafa þeir séð kraftaverkin gerast nánast á færibandi. Kína - stærsta viðskiptaveldi heims. Hundruð milljóna lyft úr fátækt. Mannaðir rannsóknarleiðangrar sendir á norðurpólinn, suðurpólinn, niður á hafsbotninn og lengst út í geim. Hæstu byggingarnar, lengstu brýrnar, ósigranlegt borðtennislið o.s.frv.
Bara í fótboltanum virðist ekkert vera að gerast.
Karlalandsliðiðinu virðist um megn að komast í fremstu röð. Í dag er það í 82. sæti styrkleikalista FIFA (og samkvæmt mínum útreikningum því rétt tæplega 17 þús. sinnum verra en íslenska liðið miðað við FIFA-stig og mannfjölda).
Rétt er að halda því til haga að konurnar hafa náð mun betri árangri en karlarnir. Komust þær m.a. í undanúrslit á HM í Kanada á það síðasta ári og náðu silfri á HM í Bandaríkjunum 1999.
Við skulum hafa það á hreinu að fótbolti er ekki eitthvað gífurlega framandi í kínverskri menningu eða andstæður hugmyndafræði Kommúnistaflokksins. Nei því fer fjarri.
Kínverjar halda því reyndar fram að það hafi verið þeir sem fundu upp knattspyrnuna (eins og púðrið, pappírinn og margt annað sem valdið hefur straumhvörfum í heiminum). Segjast þeir hafa iðkað keisaralegt knattspark sér til hressingar og yndisauka frá fornu fari.
Þá fara sögur af því að Maó formaður hafi æft stöðu markmanns á yngri árum. Og Deng Xiaoping eftirmaður hans mun einhverju sinni hafa mælt: „Ég elska fótbolta en þegar ég horfi á Kína spila tek ég andköf“.
Nýja knattspyrnuhagkerfið
Talað er um „risin þrjú“ í kínverska boltanum.
Það fyrsta var þegar landsliðið komst í fyrsta og eina skiptið í lokakeppni HM (Japan/Kórea 2002). Skemmst er frá því að segja að það tapaði öllum leikjunum á mótinu og skoraði ekkert mark. Tók þá við niðurlægingartímabil er einkenndist af innanbúðadeilum, endurteknum hneykslismálum og dvínandi áhuga almennings.
Annað risið var upp úr 2010 þegar skorin var upp herör gegn spillingu í boltanum. Eftir að búið var að hreinsa til hóf almenningur að streyma á vellina að nýju. Að meðaltali mæta nú um 22 þús. manns á hvern leik (svipað og á Ítalíu og í Frakklandi).
Segja má að þriðja risið hafi hafist eftir að núverandi formaður Kommúnistaflokks Kína Xi Jinping komst til valda haustið 2012. Hans nálgun var einföld: „Kína kemst á HM. Kína heldur HM. Kína vinnur HM.“ Svo mörg voru þau orð.
Síðan þá hefur boltinn verið „málið“. Virðist manni á stundum sem verið sé að gera merka tilraun til að beisla hann undir hagkerfið. Helstu auðjöfrar landsins keppst við að fjárfesta í greininni. Nú eru t.d. á teikniborðinu einar 50.000 fótboltaakademíur í landinu sem rísa skulu á næstu 10 árum til að þjálfa nýja kynslóð leikmanna (heimsmeistarana).
Og meðan hún er að vaxa úr grasi er bilið brúað með „yfirfærslu þekkingar“, þ.e. með kaupum á leikmönnum frá S-Ameríku og Evrópu svo og með fjárfestingum í rótgrónum erlendum klúbbum eins og Mancester City, Atletico Madrid og Slavia Prague.
Hrakningar
Jafnvel þó að skilningur ríki fyrir því að það geti tekið 1-2 kynslóðir að ná heimsmeistaratitlinum „heim“ eru talsverðar væntingar um að kínverska karlalandsliðið sýni framfarir.
Segja má að það sé lágmarkskrafa að það haldi sér inni í helstu stórmótum í Asíu. Ef það tekst ekki er hætt á að línan frá Xi formanni virki næsta fjarstæðukennd. Umfjöllunin heima fyrir um liðið og allt planið gæti snúist upp í háð og spott.
En það hefur sannanlega verið á brattan að sækja og frammistaða liðsins í undankeppninni fyrir HM í Rússlandi 2018, sem nú stendur yfir, hefur heldur betur reynt á þolrif þjóðarinnar.
Liðinu tókst reyndar með ævintýralegum hætti að smokra sér fjallabaksleið inn í þriðju umferð keppninnar síðasta vor. En nú þegar sú umferð er hálfnuð situr Kína neðst í sínum riðli, á eftir bæði Qatar og Sýrlandi (landi sem hefur verið lamað af borgarastríði síðustu 5-6 ár).
Í þessari stöðu var gripið til gamalreynds ráðs: Reka þjálfarann. Sá sem tekur við starfinu er enginn annar en hinn sigursæli Marcello Lippi er leiddi Ítali til sigurs á HM 2006. Og -- vel að merkja -- sem leiddi kínverska félagsliðið Guangzhou Evergrande til sigurs í Asíukeppni meistaraliða 2013.
Af litlum neista
Það er engin spurning að Lippi hefur mikla hæfileika og Kínverjar respektera hann. Strax í fyrsta (og til þessa eina) leiknum sem hann hefur stýrt liðinu þóttust menn sjá nýjan neista kvikna hjá leikmönnum.
Kínabikar-mótið, sem Ísland tekur þátt í nú í janúar, er einmitt haldið til að gefa Lippi tækifæri til að vinna með liðið áður en seinni hluti þriðju umferðar undankeppninnar fyrir HM 2018 hefst hér í Asíu. Fengnir hafa verið verðugir mótherjar að glíma við: Chile sem er í fjórða sæti á styrkleikalista FIFA, Króatía sem er í 14 sæti og Ísland í 21. sæti.
Gárungarnir sögðu að þessi lið hafi verið valin til að hífa Kína upp á FIFA-listanum, þ.e. lönd sem eru mun sterkari en Kína á pappírnum en sem ólíklegt þykir að sendi sitt sterkasta lið á mót sem þetta sem skipulagt er utan við alþjóðalega landsleikjadaga FIFA.
Af fréttum er hins vegar ljóst að svo er ekki. Í hópnum sem hann hefur valið fyrir mótið er ekki að finna mörg fræg nöfn. Þar er t.d. ekki fyrirliðinn gamli Zheng Zhi, sem valinn var knattspyrnumaður Asíu 2013. Ekki heldur varnarjaxlinn Feng Xiaoting eða markahrókurinn Gao Lin.
Lippi ætlar að prófa unga og óreynda leikmenn. Hann hugsar þetta kannski þannig að ef slíkum hópi tekst að velgja liðum frá Evrópu og S-Ameríku undir uggum þá er hann búinn að koma sér upp kjarna af ungum leikmönnum með gott sjálfstraust sem hann getur síðan unnið með á næstu árum.
Mótið verður leikið með útsláttarfyrirkomulagi þannig að hvert lið leikur tvo leiki. Eins og fyrr segir verður viðureign Íslands og Kína 10. janúar opnunarleikurinn. Seinni undanúrslitaleikurinn verður daginn eftir. Sigurvegararnir úr hvorum leik munu svo leika til úrslita á mótinu þann 15. janúar en leikur um þriðja sætið fer fram þann 14. janúar.