Á þessum degi fyrir réttum 64 árum, hinn 14. janúar 1953, var Josip Broz, eða Tító marskálkur, eins og hann er oftast kallaður, útnefndur forseti Júgóslavíu.
Þrátt fyrir þessa upphefð hafði Tító þó farið með stjórn landsins allt frá lokum seinni heimstyrjaldar, en á stríðsárunum stýrði hann uppreisnarhópi kommúnista gegn yfirráðum Öxulveldanna í Júgóslavíu.
Á löngum stjórnarferli, sem lauk þegar hann lést árið 1980, 87 ára að aldri, skar Tító sig frá flestum öðrum einræðisherrum austan Járntjaldsins, meðal annars með því að bjóða sjálfum Jósef Stalín byrginn.
Josip Broz fæddist árið 1892, í þorpi einu í Króatíu, sem var þá hluti af Austurrísk-ungverska keisaradæminu. Hann barðist með austurríska hernum í fyrri heimsstyrjöld og gat sér þar gott orð áður en hann var særðist og var tekinn höndum af Rússum. Þegar hann komst aftur til síns heima hafði keisaraveldi Habsborgara liðið undir lok og Króatía, Serbía og Slóvenía runnið saman í eitt konungsríki sem, árið 1929, hlaut nafnið Júgóslavía, Ríki Suður-slava.
Skömmu eftir heimkomuna gekk Tító til liðs við kommúnistaflokkinn, en var dæmdur í fangelsi árið 1928 fyrir störf sín fyrir flokkinn, sem hafði áður verið bannaður í landinu. Hann starfaði um hríð fyrir Komintern, alþjóðasamtök kommúnista, í Moskvu, en var svo sendur aftur heim til að skipuleggja flokkstarfið eftir forskrift Stalíns.
Þýskaland hertók Júgóslavíu árið 1941, en mættu harðri mótspyrnu frá skæruliðum kommúnista, sem Tító fór fyrir. Tító og hans menn tóku völdin í Júgóslavíu árið 1945, en hófu fljótt að undirstrika sjálfsákvörðunarrétt sinn, meðal annars með því að hlýta ekki tilskipunum Sovétríkjanna í einu og öllu. Stór munur var á stöðu Júgóslavíu og margra annarra ríkja í Mið- og Austur-Evrópu þar sem Rauði herinn hafði ekki tekið stóran þátt í frelsun landsins og voru ekki með mannafla þar til að hnykkja á aðfinnslum Stalíns.
Deilur milli Títós og Stalíns birtust ekki síst á vettvangi Cominform, sem var samráðsvettvangur kommúnistaflokka og eins konar arftaki Comintern sem leystist upp á stríðsárunum. Þar var Tító legið á hálsi fyrir að grafa undan alþjóðahreyfingunni, en á móti lögðu Júgóslavar áherslu á að hvert ríki ætti að fara þær leiðir sem þeim hentaði best til að ná takmörkum kommúnismans.
Annar ásteitingarsteinn í sambandi Stalíns og Títós voru tilraunir marskálksins að innlima Albaníu og jafnvel Grikkland í samvinnu við Búlgaríu og mynda þannig, á Balkanskaganum, mótvægi gegn áhrifum Sovétríkjanna.
Árið 1948 slitnaði svo endanlega upp úr sambandinu þegar Júgóslavíu var vísað úr Cominform, en eftir það var Tító frjálst að móta efnahag og þjóðfélagsgerð landsins eftir sínu höfði. Það fól meðal annars í sér að verkafólk og samtök þeirra réði mestu um starfsemi verksmiðja og annarra eininga en ekki ríkisvaldið, auk þess sem áætlanabúskapur var formlega lagður niður árið 1951. Þessi aðferðafræði var oft kölluð Títóismi, sérstaklega utanlands.
Tító nýtti sér stöðu sína á árunum eftir stríð til að stíga í vænginn við Bandaríkin og þáðu þeir meðal annars fjárhagsaðstoð (sem var þó ótengd Marshall-aðstoðinni) einir austantjaldslanda.
Júgóslavneskt þjóðfélag fetaði þetta einstigi milli stórveldanna þar sem þegnar landsins voru sannarlega frjálsari að mörgu leyti, heldur en viðgekkst í ráðstjórnarríkjunum þar sem ítök Sovétríkjanna voru meiri og oft alltumlykjandi. Engu að síður var Júgóslavía valdboðsríki þar sem aðrir flokkar en Kommúnistaflokkurinn voru bannaðir.
Þó Tító hafi snúið baki við Stalínismanum sótti hann engu síður í smiðju Stalíns. Meðal annars máttu andstæðingar Títós innanlands upplifa hreinsanir, eftir vinslitin við Sovétríkin 1948, þar sem tugum þúsunda manna var úthýst úr flokksstörfum og stjórnsýslunni og þeir jafnvel sendir í fangabúðir vegna gruns um að vera haldgengir Sovétríkjunum og Cominform.
Eftir dauða Stalíns og valdatöku Krúsjeffs þiðnaði nokkuð kulið í sambúð Júgóslavíu og Sovétríkjanna, þó aldrei hafi í raun gróið um heilt þar á milli.
Tító lést í hárri elli, en Sambandsríkið Júgóslavía varð ekki mikið langlífara. Ekki leið á löngu fyrr en þjóðernishyggja fór að rísa og jafnt og þétt fór að trosna á milli ríkjanna.
Klofningurinn vatt svo upp á sig þar til úr varð margra ára borgarastyrjöld þar sem nágrannar, vinir og og ættingjar bárust á banaspjót. Enn eimir eftir af ófriðnum þar sem vopnahlé í Bosníu Hersegóvínu stendur fremur ótraustum fótum og staða Kosovohéraðs sem sjálfstætt ríki er langt frá því að vera óumdeild. Meðal annars hafa hvorki Serbía né Bosnía viðurkennt sjálfstæði héraðsins.