Á þessum degi fyrir réttum 112 árum, hinn 22. janúar 1905, átti sér stað atburður sem átti eftir að hafa djúp áhrif á framvindu mála í Rússlandi og örlög Rómanov keisaraættarinnar. Dagur sem kallaður er Sunnudagurinn blóðugi, en þá skutu hermenn í St. Pétursborg á hóp almennra borgara sem stefndi að Vetrarhöll Nikulásar keisara til að krefjast bættra kjara.
Á þessum árum var að myndast sterk undiralda verkalýðs og byltingarsinna í Rússlandi. Til að slá á þá kergju lögðu stjórnvöld, árið 1904, blessun sína yfir stofnun ýmissa verkalýðsfélaga. Eitt af þeim félögum var Samband iðnverkamanna í St. Pétursborg, en leiðtogi þess var Georgí Gapon, sem var auk þess klerkur í rétttrúnaðarkirkjunni. Fljótlega fór álit stjórnarherranna á Gapon að súrna. Hann þótti of róttækur – jafnvel hallur undir lýðræðissinna – og eftir að fjórir félagar hans voru reknir frá störfum stóð Gapon fyrir mörgum verkföllum í St. Pétursborg þar sem allt að 120.000 manns lögðu niður störf.
Gapon brá á það ráð að efna til mótmæla og beina kröfum verkalýðsins til keisarans sjálfs. Nikulás II hafði, þegar þarna var komið við sögu, ríkt í rúman áratug, en hann tók við keisaratigninni við andlát föður síns árið 1894, þá 27 ára. Gabon þótti greinilega affarasælast að beina kröfunum persónulega til keisarans sem var nú enda landsfaðirinn og var almennt álitið að hann væri einfaldlega ekki meðvitaður um þrautir almúgans. Ef hann myndi aðeins hlýða á boðskap þeirra gæti hann varla horft fram hjá óskum þegna sinna um réttlæti.
Safnast að frá sex stöðum
Mikill mannfjöldi kom saman þennan dag og gengu frá sex stöðum í kringum Vetrarhöllina. Samkoman var friðsæl og hafði Gapon meira að segja tilkynnt yfirvöldum hvað stæði til. Fólkið bar meðal annars trúarlegar helgimyndir, sem og myndir af keisaranum sjálfum, auk kröfuspjalda, og sungu sálma og ættjarðarlög.
Frásögnum ber ekki saman um fjölda mótmælenda, þar sem lögreglan sagði þá hafa verið um 3.000 talsins, en skipuleggjendur göngunnar héldu því fram að þar hafi verið saman komin allt að 50.000 manns. Hvort sem það var, þá greip fólk í tómt, að því leyti að Nikulás keisari var alls ekki staddur í Vetrarhöllinni til að taka á móti mannskaranum. Þar var hins vegar fjölmennt lið keisaravarðarins, kósakka og fótgönguliðar, sem og föðurbróðir keisarans, Vladimír stórhertogi, yfirmaður örygggislögreglunnar.
Hildarleikurinn hefst
Herliðið taldi um 10.000 manns, og hafði verið fyrirskipað af Vladimír stórhertoga að hleypa fólki ekki inn að torginu framan við Vetrarhöllina. Aðgerðir herliðsins voru hins vegar fálmkenndar og án alls samræmis þar sem fólki var ýmist sleppt í gegn, eða stöðvað á ferð sinni. Fljótlega fóru að heyrast skothvellir hér og hvar auk þess sem riddaraliðar kósakka réðust að fólki með sverð á lofti. Áfram hélt fólk að streyma að og ekkert lát var á drápunum.
Þessi hildarleikur fór ekki fram, eins og oft hefur verið dregið upp, að hermenn hafi skotið á stóran hóp, heldur gerðust drápin í lotum, gegn minni hópum, enda kom fólk víða að. Sögum ber ekki saman um hversu margir létust þennan örlagaríka dag í St. Pétursborg. Stjórnvöld sögðu að 96 hafi látið lífið og á fjórða hundrað hafi særst, en stjórnarandstæðingar sögðu að 4.000 hafi látist. Flestir telja þó að tala látinna hafi hlaupið á hundruðum.
Gapon sjálfur komst lífs af en flúði þó fljótlega land og samtök hans voru bönnuð strax þennan sama dag. Heimildir herma að hann hafi hrópað upp yfir sig, þegar kúlunum fór að rigna yfir mótmælendur: „Það er enginn guð! Það er enginn keisari!“
Keisarinn rúinn trausti
Keisarinn lýsti því yfir að atburðirnir hafi verið sorglegir, en það stillti ekki reiði almennings þar sem óeirðir brutust út víða um borgina. Ímynd Nikulásar sem landsföður beið mikla hnekki þennan dag, bæði vegna hörkunnar sem stjórnarliðar gripu til og ekki síst vegna þess að hann var ekki á staðnum. Það gróf undan tiltrú almennings á velvilja keisarans, sem magnaðist svo upp í hatur.
Óeirðirnar undu upp á sig með viðlíka mótmælum og verkföllum víðar um Rússland, sem og óróa innan hersins. Uppreisnin var síðar innblástur fyrir kvikmyndaleiskstjórann Sergei Eisenstein við gerð myndarinnar „Orrustuskipið Pótemkin“ þar sem skipverjar komu almenningi til varnar gegn hermönnum keisarans.
Ástandið náði slíkum hæðum að talað er um „Rússnesku byltinguna 1905“ en til að stemma stigum við óróanum gekk keisar að ýmsum kröfum stjórnarandstæðinga. Meðal annars var samþykkt stjórnarskrá fyrir Rússland auk þess sem stofnað var til fulltrúaþings, Dúmunnar, sem hafði aðeins ráðgjafarvald.
Þrátt fyrir að þessir áfangasigrar hafi slegið nokkuð á baráttu stjórnarandstæðinga, var þarna kominn vísir að nokkru mun stærra og áhrifameira. Byltingunni í Rússlandi árið 1917 þar sem keisaranum var velt af stóli og Lenín og Bolsévikarnir tóku völdin og stofnuðu Sovétríkin.
Þessi friðsama kröfuganga klerksins Gapons, sem var alls ekki fyrirhuguð sem uppreisn eða bylting, varð sannarlega afdrifarík og eftirfarinn var boðberi og forsmekkur nýrra tíma í Rússlandi og síðar Sovétríkjunum. Keisarinn, sem sá sér ekki fært að taka á móti mótmælendum, var myrtur ásamt konu sinni og fimm börnum árið 1918 í Ékaterínburg.
Gapon sjálfur var drepinn árið eftir, eftir að upp komst að hann lék tveimur skjöldum þar sem hann annars vegar vann fyrir sósíalista, en var svo líka í samskiptum við innanríkisráðuneytið í Rússlandi. Félagar hans í sósíalistaflokknum ginntu hann til fundar í útjaðri St. Pétursborgar og hengdu hann þar.