Á þessum degi fyrir réttum 59 árum, hinn 29. janúar árið 1958, handsamaði lögregla í Wyoming-ríki í Bandaríkjunum 19 ára pilt að nafni Charles Starkweather og fjórtán ára kærustu hans, eftir blóði drifna eftirför. Mál Starkweathers vakti mikla athygli á sínum tíma og er hann enn með alræmdari fjöldamorðingum sögunnar, sérstaklega þar sem hann var spyrtur saman við samfélagsbreytingar sem voru að eiga sér stað í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum, þar sem ungt fólk var að brjótast út úr viðjum hefðanna. Upp frá þessu hefur margoft verið vísað til illvirkja Starkweathers í tónlist og kvikmyndum.
Saga Starkweathers hefst árið 1938 þegar hann fæddist inn í verkamannafjölskyldu í borginni Lincoln í Nebraska. Hann ólst upp í fátækt, en foreldrar hans voru engu að síður álitin sómafólk og í æsku var fátt sem benti til þess sem átti fyrir Charles að liggja. Hann þótti indæll drengur, en mátti líða mikla stríðni í skóla, meðal annars vegna þess að vegna fæðingargalla voru fótleggir hans skakkir. Charles glímdi einnig við námsörðugleika og var málhaltur.
Hann var hins vegar alla sína tíð mikill íþróttamaður og nautsterkur. Kraftana nýtti hann hins vegar fyrst og fremst í að snúa taflinu við, og í stað þess að láta ofbeldi yfir sig ganga fór hann að slást og misþyrma samnemendum sínum.
Á unglingsárum varð Charles hugfanginn af leikaranum James Dean, sem varð átrúnaðargoð táninga með frammistöðu sinni í East of Eden og ekki síður í Rebel Without a Cause – Uppreisnarseggur án málstaðs – áður en hann lést af slysförum árið 1955. Það var ekki síst í hlutverki uppreisnarseggsins sem Charles þótti finna sig.
Átján ára gamall hóf hann samband við Caril Ann Fugate, sem var aðeins þrettán ára gömul. Charles hafði hætt í skóla 16 ára gamall og vann eftir það ýmis verkamannastörf, en hélst illa á vinnu og fór að sjá glæpi sem sitt eina tækifæri til að komast til álna.
Einn kaldan vetrardag, 1. desember árið 1957, lá fyrsta fórnarlamb Charles Starkweather í valnum.
Hann hafði ákveðið að ræna bensínstöð og stolið haglabyssu af frænda vinar síns í þeim tilgangi. Afgreiðslumaðurinn Robert Colvert var 21 árs gamall, nýkvæntur og barn á leiðinni, þegar Charles óð inn á verkstæðið til hans og krafðist þess að fá allt úr peningakassanum. Þar var úr litlu að moða, rétt um 100 dalir, sem þó var jafnvirði rúmlega tveggja vikna launa Charles við sorphirðu í Lincoln. Colvert hafði ekki aðgang að peningaskáp eigandans. Charles neyddi hann með sér upp í bíl og ók í burtu og skaut hann svo til bana og skildi eftir, ekki langt frá.
Morðið vakti mikla athygli í fásinninu og lögreglan trúði því að þarna hefði flækingur verið að verki og böndin beindust því ekki að Starkweather sem forhertist enn við illvirkið.
Lánið lék þó síður en svo við Charles sem varð fljótlega atvinnulaus á ný og átti ekkert nema kærustuna sína, Caril Ann. Foreldrar hennar voru þó skiljanlega ósátt við sambandið og magnaðist þar á milli upp mikil kergja sem sprakk svo hinn 21. janúar þegar Charles kom að heimili Caril Ann, vopnaður riffli. Þar myrti hann móður hennar, stjúpa og tveggja ára gamlan bróður.
Hlutverk Caril Ann, eða þátttaka í morðunum var aldrei fyllilega leitt í ljós þar sem hún hélt fram sakleysi sínu, en það sem skyggir á þá sögu var einna helst sú staðreynd að þau skötuhjú héldu til í húsinu í sex daga áður en þau flúðu af vettvangi þegar lögregla var loks á leið á vettvang.
Þar hófst helreið þeirra fyrir alvöru, en næstu þrjá daga óku þau um á flótta. Fyrst myrtu þau fjölskylduvin Starkweathers, hinn 72ja ára August Meyer, og daginn eftir unglingspar sem bauð þeim far úti á þjóðvegi. Leiðin lá svo aftur til Lincoln, af öllum stöðum þar sem Starkweather og Caril Ann brutust inn í glæsihýsi eins ríkasta manns borgarinnar, C. Lauer Ward og myrtu hann, eiginkonu hans og ráðskonu þeirra. Blöðin fjölluðu af áfergju um eftirförina og Charles gekkst mjög upp í þeirri athygli sem þau höfðu vakið.
Það var svo um nóttina eftir sem þau ákváðu að stinga af og reyna að komast til Washington-ríkis. Þau komust yfir ríkjamörkin frá Nebraska til Wyoming þegar þau ákváðu að skipta um bíl. Þau stöðvuðu því við kyrrstæðan bíl þar sem farandskósölumaðurinn Merle Collison hafði lagt sig um stundarkorn. Charles skaut Collison til bana og þau hugðust halda flóttanum áfram eftir það, með líkið í bílnum.
Vandamálið var þó að þau kunnu ekki að taka bílinn úr handbremsu. Þegar hjálpsamur vegfarandi kom að, ógnaði Charles honum með byssunni, en úr urðu mikil átök milli þeirra og enn fór að síga á ógæfuhliðina hjá morðingjanum unga þegar lögreglubíll kom aðvífandi.
Caril Ann hljóp þá út úr bílnum, að lögreglumanninum og hrópaði á hann að Charles væri morðingi. Charles stökk þá upp í bíl og æddi í burtu en var handsamaður skömmu síðar.
Mál Starkweathers vakti mikla athygli á landsvísu og fylgdust fjölmiðlar náið með framvindu mála. Charles hélt því fyrst fram að Caril Ann væri saklaus og hann bæri sjálfur alla ábyrgð á morðunum.
Eftir því sem leið á réttarhöldin breytti hann hins vegar frásögn sinni og sagði stúlkuna hafa tekið fullan þátt í ódæðunum og jafnvel myrt sum fórnarlambanna sjálf.
Lögmenn Starkweathers reyndu að bera því við að hann væri ósakhæfur sökum geðtruflana, en kviðdómur dæmdi hann sekan, sem og Caril Ann, en sökum ungs aldurs var hún ekki dæmd til dauða eins og Charles, heldur í lífstíðarfangelsi.
Charles Starkweather var tekinn af lífi í rafmagnsstól í júní árið eftir, en Caril Ann sat í fanglesi til ársins 1973. Hún er á lífi enn þann dag í dag.
Þrátt fyrir að málið hafi vakið mikla athygli á sínum tíma var það ekki fyrr en löngu seinna þegar farið var að vísa í það í bandarískri dægurmenningu og þá í samhengi þeirrar samfélagslegu firringar sem Starkweather á að hafa upplifað.
Meðal annars má nefna kvikmyndina Badlands frá árinu 1973, sem Terence Malik leikstýrði og fjallar einmitt um ungt par sem ferðast um og drepur fjölda manns, og fleiri „vegamyndir“ eins og Kalifornia og Natural Born Killers. Skýrasta og frægasta vísunin er hins vegar án efa titillag plötunnar Nebraska sem Bruce Springsteen gaf út árið 1982, þar sem textinn er í fyrstu persónu út frá meintri upplifun Starkweather.
From the town of Lincoln, Nebraska with a sawed off .410 on my lap Through to the badlands of Wyoming I killed everything in my path
I can't say that I'm sorry for the things that we done At least for a little while sir me and her we had us some fun
Hvernig sem á málið er litið náði ógæfupilturinn Charles Starkweather einu takmarki sínu – að vekja athygli og verða minnst fyrir eitthvað á æviskeiði sínu.