Á þessum degi fyrir réttum 100 árum, hinn 5. febrúar 1917, samþykkti bandaríska þingið löggjöf um innflytjendur, The Immigration Act. Lögunum var ætlað var að stemma stigum við straumi innflytjenda til landsins, meðal annars með því að hækka umsýslugjald á hvern innflytjanda og bæta við ákvæði um að innflytjendur þyrftu að sýna fram á læsi.
Woodrow Wilson forseti hafði nokkrum vikum áður beitt neitunarvaldi sínu til að ógilda lagasetninguna, sem honum fannst mismuna gegn ómenntuðum innflytjendum, en með auknum meirihluta, fleiri en tveimur af hverjum þremur þingmönnum, var hægt að ganga framhjá ákvörðun forseta og staðfesta lögin.
Læsisskilyrði þetta hafði verið eitt helsta baráttumál þeirra sem börðust fyrir strangari innflytjendalöggjöf, en forsetar höfðu í þrígang fyrir þetta beitt neitunarvaldi gegn slíku ákvæði, fyrst Grover Cleveland árið 1897, svo Taft árið 1912 og Wilson sjálfur árið 1915.
Hræðsla við fjölgun innflytjenda
Bandaríkin höfðu byggst afar hratt upp á árunum eftir að borgarastyrjöldinni lauk, ekki síst vegna aukins straums innflytjenda sem komu til landsins til að freista gæfunnar eða flýja harðræði í fæðingarlandi sínu. Eftir aldamótin 1900 og fram að upphafi fyrri heimsstyrjaldar komu um það bil milljón manns árlega að ströndum Bandaríkjanna í von um betra líf.
Á þessum tíma, og raunar ansi oft, bæði fyrr og síðar, var hræðsla við hugsanlegan yfirgang útlendinga afar sterk í samfélaginu. Það voru ekki síst kínverskir farandverkamenn sem urðu fyrir barðinu á því, þar sem sett voru margs konar lög, bæði á ríkisstigum og á landsvísu, til að koma í veg fyrir að kínverjar settust að í Bandaríkjunum til frambúðar. Meðal annars var öllum kínverskum konum bannað að koma til landsins til að minnka líkurnar á að kínverskir karlar ílengdust.
Asíubúum bönnuð innganga
Í lögunum sem hér um ræðir var hins vegar gengið lengra en nokkru sinni áður þar sem hluti Asíu var skilgreindur þannig að innflytjendur þaðan voru hreinlega bannaðir. Það svæði náði allt frá Tyrklandi og Sádi Arabíu í vestri og austur til Kyrrahafseyja. Undantekningar þar á voru lönd þar sem Bandaríkin áttu hagsmuna að gæta, eins og t.d. Japan og Filippseyjar. Þetta svæði, „the Asiatic Barred Zone“ eins og það kallaðist, var við lýði í bandarískri löggjöf fram til ársins 1952.
Fleiri hópar sem voru útilokaðir með innflytjendalögunum sem „óæskilegir“ voru meðal annars þroskaskertir, geðsjúkir, fatlaðir, flogaveikir, berklaveikir, glæpamenn, betlarar, vændiskonur, anarkistar, fjölkvænismenn, róttæklingar og fleiri. Ákvæði um bann við komu samkynhneigðra innflytjenda var að finna í bandarískri innflytjendalöggjöf allt fram til árins 1990.
Innflytjendalögin tóku gildi í maí árið 1917 og hafði ekki mikil áhrif á fjölda innflytjenda það ár, en næstu tvö ár á eftir dróst fjöldi innflytjenda saman um meira en helming áður en tók að fjölga á ný árið 1920, en þá var gripið í taumana á ný með harðari innflytjendalögum, t.d. 1921, 1924 og 1929.
Einangrunarstefna tekur við
Þessi aukna harka í innflytjendamálum rímar ágætlega við ríkjandi stefnu Bandaríkjanna í alþjóðamálum á þessum árum Á árnum eftir fyrri heimsstyrjöld var vaxandi vilji meðal almennings og stjórnmálamanna í Bandaríkjunum til þess að standa utan við alþjóðamál að sem mestu leyti og blanda sér ekki í mál nema þau sem tengdust bandarískum hagsmunum með beinum hætti.
Meðal annars hafnaði Bandaríkjaþing aðild að Þjóðabandalaginu árið 1920. Bandalagið var hugarfóstur Wilsons forseta, sem sá það sem vettvang fyrir þjóðir heimsins til að leysa deilur og álitamál með friðsömum hætti, en það náði aldrei að sanna sig og heimurinn horfði upp á uppgang fasisma og valdstjórnar allt frá Þýskalandi til Japans án þess að geta rönd við reist. Afleiðingarnar af því eru öllum eru kunnar.
Bandaríkin tóku ekki af skarið fyrr en með þátttöku sinni í Seinni heimsstyrjöld, en síðan þá hafa Bandaríkin verið forysturíki Vesturveldanna og í raun eina risaveldi heimsins.
Ekki þarf að píra augun sérstaklega mikið til að sjá ákveðna samsvörun í áherslum bandarískra stjórnvalda þá og nú í innflytjendamálum og hlutverki Bandaríkjanna á alþjóðasviðinu, en vonandi verður eftirleikurinn ekki eins afdrifaríkur í þetta skiptið.