Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður verður haldin í fjórtánda sinn á Ísafirði yfir páskana, dagana 13.-16. apríl næstkomandi. Hátíðin er orðin að eins konar fasta í tónlistarhátíðarflóru ársins á Íslandi og dregur jafnan margfaldan íbúafjölda Ísafjarðar vestur á firði.
Dagskrá hátíðarinnar í ár var kynnt á miðvikudaginn, en margir af vinsælustu tónlistarmönnum landsins munu troða upp. Má þar nefna Emmsjé Gauta, Valdimar, KK Band, Vök og HAM. Hátíðin mun fara fram á sama stað og í fyrra, jafnvel þó götuheitinu hafi verið breytt; Hátíðin í ár fer nefnilega fram við Aldrei fór ég Suðurgötu á eyrinni á Ísafirði.
Í þau þrettán ár sem Aldrei fór ég suður-hátíðin hefur verið haldin hefur stuðið drifið skipuleggjendur. Þau eru aldrei kölluð neitt annað en Aldrei fór ég suður-hópurinn, upphaflega hópur vina að vestan sem hélt tónleika í lok skíðavikunnar á Ísafirði sem hefur verið haldin í tugi ára í dymbilvikunni.
„Þetta átti aldrei að vera neitt annað en grín,“ segir tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson (betur þekktur sem Mugison) í samtali við Kjarnann, en hann er einn þeirra sem stóðu fyrir fyrstu tónleikunum 2004. „Fyrstu árin vorum við að biðja fólk um að hafa opið, alla veitingastaði og þjónustu. Og svo núna, fjórtán skiptum seinna, er allt í gangi og mikið líf.“
Í hóp með Gránufélaginu
Bæjarstjórinn, Gísli Halldór Halldórsson, segir hátíðina hafa haft jákvæð áhrif fyrir samfélagið í bænum. Hún hafi orðið að samfélagslegu verkefni bæjarbúa og geri starfið hans á margan hátt auðveldara fyrir vikið.
„Ég mundi segja að mitt starf snúist að miklu leyti um að styrkja sjálfsmynd íbúanna og gera hluti sem fá okkur til að trúa á framtíðina og trúa á það sem við erum,“ segir Gísli. „Aldrei fór ég suður gerir starfið auðveldara að því leyti. Fyrir utan það, jú, að þegar það þarf að fara í samstillt átak eða verkefni þá kannski man fólk eftir þessu og finnur að þetta er hægt.“
„Það sem mér finnst vera dálítið magnað við Aldrei fór ég suður er að það er eins og hátíðin hafi búið til einhverskonar jákvæða ímynd, ekki bara fyrir Ísafjörð, heldur Vestfirði og jafnvel Ísland utan höfuðborgarinnar. Ímynd þar sem hægt er að hugsa sér að það sé bara töff að eiga heima úti á landi og njóta þess að vera til,“ segir bæjarstjórinn sem afhjúpaði nýtt götuskilti á miðvikudag þar sem Aldrei fór ég Suðurgata er rækilega merkt.
„Það er alveg geggjað,“ segir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri hátíðarinnar í ár, um þann heiður sem hátíðarhöldurum hefur verið sýndur. „Nú erum við í hópi með Gránufélaginu á Akureyri, og örugglega einhverjum fleirum.“
Þrjár mýtur um Vestfirði hverfa með hátíðinni
Allir þeir viðmælendur sem Kjarninn ræddi við á Ísafirði voru sammála um að áhrif Aldrei fór ég suður hafi verið gríðarlega mikil fyrir samfélagið á vestfjörðum. Um hafi verið að ræða mjög þakklátan jákvæðan hvata fyrir íbúa, hvort sem þeir væru brottfluttir eða ekki, til þess að koma saman og skemmta sér. Það hafi síðan undið upp á sig og hátíðin er nú orðin vinsæl meðal tónlistar- og skemmtanaunnenda af öllu landinu.
Kristján Freyr segir enga spurningu leika á því að hátíðin hafi gert Vestfirði að meira spennandi áfangastað.
„Ég vil meina að Vestfirðir hafa alltaf þurft að bítast við þrjár asnalegar mýtur sem þarf að fara að eyða. Það er alltaf talað um það sé alltaf slæmt veður hérna. Það er ekki rétt. Mýta númer tvö er að vegirnir séu svo ofboðslega slæmir. Það er heldur ekki rétt. Það eru komnir mjög fínir vegir. Svo er það þriðja: Það er hræðilegt að fljúga hingað. Stundum er hristingur hérna, en hann er líka í Eyjafirði og hann er líka yfir hálendinu þegar þú ert að fara til Egilsstaða.“
Kristján segir að rokkstemningin á Aldrei fór ég suður hafi náð að breyta þessum hugmyndum um Vestfirði að einhverju leyti með því að draga fólk vestur um vetur.
Alltaf verið að leita að nýja þorskinum
Aldrei fór ég suður er fjarri því eina bæjarhátíðin sem haldin er árlega hér á landi. Þær skipta eflaust tugum en hafa yfirleitt sömu stef að leiðarljósi: undirstrikun sérstöðu bæjanna og samfélagsins, jafnvel með vísunum í forna frægð eða sameiginlega sögu sveitanna.
Kristján Freyr segir hátíðina á Ísafirði vera mikilvæga: „Þetta er á við milljón dollara markaðsátak fyrir samfélagið hérna. Hátíðin hefur haft gríðarlega þýðingu fyrir bæjarfélagið.“
„Ég vil meina það að eftir það sem hefur gengið á hérna fyrir vestan – það voru gríðarleg högg sem komu á þessa byggð hérna fyrir vestan, bæði snjóflóðum 1995 og svo hlutir tengdum kvóta og svoleiðis pólitík sem verður til þess að það drabbast allt niður. Það er alltaf verið að leita að nýja þorskinum í einu og öllu einhvern veginn.“
„Ástæða þess að þessi hátíð varð að veruleika er að það var ákveðin jákvæðni í fólkinu sjálfu sem varð til þess að fólk sagði: Þrátt fyrir kvótakerfi og þessi högg sem við höfum fengið á okkur, þá ætlum við að búa hér áfram. Þetta hefur gert það að verkum að við eigum kannski auðveldara með að halda þessa hátíð og að draga fólk hingað vestur á Ísafjörð,“ segir Kristján Freyr.
Ekki undirliggjandi byltingarafl
Kristján Freyr segir að aldrei hafi verið gerð könnun á því hvort það séu frekar brottfluttir eða ættingjar íbúa vestfjarða sem sæki hátíðina. Það hafi hins vegar alltaf verið þannig að á tyllidögum þá sæki brottfluttir aftur í heimahaga, eins og um páska. Í marga áratugi hafi skíðavikan á Ísafirði dregið að brottflutta Ísfirðinga vestur í dymbilvikunni.
„Með tilkomu Aldrei fór ég suður þá vil ég meina að við séum að fá hingað krakka sem búa í Reykjavík og eru að koma hingað á hátíðina. Þeim hefði kannski aldrei dottið það í hug annars, hafandi enga tengingu hingað vestur.“
„Það er svo mikilvægt að við heimsækjum landið okkar og þekkjum það. Ég ætla að segja að við séum undirliggjandi byltingarafl. Þetta er bara tónlistarhátíð. En þetta skiptir miklu máli fyrir okkur. Það er mikilvægt að fólk viti að það þrífst menning víðs vegar um landið,“ segir Kristján Freyr.
Örn Elías, einn forsprakka hátíðarinnar, segir hátíðina vera nærri því fullmótaða. „Þetta getur ekki orðið stærra,“ segir hann. Og hann er alveg búinn að gera upp við sig hver sjarminn sé við tónlistarhátíð um vetur á vestfjörðum: „Aðalatriðið er að vera fastur hérna á norðurhjara veraldar – þar sem enginn á að vera – og það er bara ógeðslega næs.“