Á þessum degi fyrir réttum 20 árum síðan, hinn 26. mars 1997, fékk lögreglan í San Diego í Bandaríkjunum nafnlausa ábendingu um að eitthvað einkennilegt væri á seiði í stórhýsi einu í úthverfi borgarinnar. Þegar lögreglumenn komu á svæðið fundu þeir 39 lík, öll klædd í svarta íþróttagalla og svarthvíta Nike skó, með plastpoka á höfðinu undir fjólubláu klæði.
Fólkið reyndist vera meðlimir sértrúarsafnaðarins Heaven‘s Gate, og hafði stytt sér aldur með því að taka inn lyfjablöndu áður en þau drógu plastpokana yfir höfuðið og köfnuðu.
Á meðal þeirra látnu var forvígismaður og annar stofnenda safnaðarins, Marshall Applewhite að nafni, en þessi sorgaratburður átti sér aldarfjórðungs forsögu þar sem framvindan virðist oft eins og tekin upp úr vísindaskáldsögu - enda sóttu stofnendurnir innblástur í skáldskap og sjónvarpsþætti.
Tvíeykið og Geimveruguðinn
Upphaf safnaðarins er rekið til þess þegar leiðir Applewhites og Bonnie Nettles lágu saman árið 1972. Applewhite hafði komið víða við en hafði, þegar þarna kom við sögu, nýlega verið sagt upp störfum sem tónlistarkennari við háskóla í Texas vegna sambands síns við nemanda. Nettles var hjúkrunarkona á einhvers konar stofnun þar sem Applewhite leitaði sér lækninga vegna geðrænna vandamála.
Eftir stífar trúspekilegar vangaveltur töluðu þau sig niður á að þau væru vottarnir tveir sem talað er um í Opinberunarbók Jóhannesar. Þau væru verkfæri almættisins til að uppfylla lögmál Biblíunnar.
Með þessa fullvissu í farteskinu, og fátt annað, lögðu þau land undir fót og ferðuðust um landið þvert og endilangt til að afla trú sinni fylgdarmanna. Meginstefið í þeirra boðskap var að Guð biblíunnar væri í raun afar háþróuð geimvera sem hefði í huga að „endurvinna“ Jörðina og aðeins þeir sem höguðu lífi sínu og trú eftir forskriftinni ættu þess kost að láta lyfta sér upp á næsta tilverustig.
Þrautseigjan borgaði sig
Ekki blés byrlega fyrir þeim á ferðalaginu og þau voru í meira en ár að heilla fyrsta meðliminn um borð, sem reyndist þó ekki þaulsetinn og hvarf á brott skömmu síðar. Eljan og sannfæringin sem knúði Applewhite og Nettles áfram skilaði sér þó að lokum og um miðjan áttunda áratuginn sóttu jafnan tugir eða hundruð manna kynningarfundi þeirra og undir lok áratugarins taldi söfnuðurinn um 70 fasta meðlimi og flakkaði milli samastaða í Suður-Kaliforníu.
Eitt af aðaláherslumálum safnaðarins var einstrengingsleg einsleitni þar sem hvert smáatriði í daglegu lífi safnaðarmeðlima var útlistað og fylgjt eftir af mikilli nákvæmni. Meðal annars var stærð og þykkt morgunverðarpönnukakanna stöðluð, sem og magn síróps og smjörs sem átti að nota.
Engum sögum fer af nokkurri kúgun, arðráni eða misnotkun á meðlimum Heaven‘s Gate, enda kom fólk og fór eins og því sýndist og stundaði vinnu sína á daginn. Raunar voru þau afar vel séð, enda stundvís og lúsiðin.
Internetbyltingin og „Brottförin“
Nettles lést úr krabbameini árið 1985 og við það hrikti eilítið í kenningarkerfi Heaven‘s Gate, en við endurskoðun þótti ljóst að Nettles væri komin um borð í geimskipið góða sem sigldi í kjölfar halastjörnunnar Hale-Bopp og nálgaðist Jörðina óðfluga.
Applewhite og fylgjendur hans lögðu því mikla áherslu á að breiða fagnaðarerindið út sem víðast og tóku í sína þjónustu nýjustu tækni, hið svokallaða Internet.
Heaven‘s Gate setti meðal annars upp vefsíðu, sem var ekki á allra færi á miðjum tíunda áratugnum, og raunar var vefhönnun ein helsta tekjulind safnaðarins á þeim tíma. Í gegnum síðuna var hægt að nálgast fræðsluefni og myndskeið og er raunar enn þann dag í dag þar sem síðan er enn uppi og er viðhaldið af tveimur eftirlifandi meðlimum. Útlit hennar er hins vegar óbreytt og ber sannarlega keim af þeim tíðaranda sem ríkti í vefhönnun á þessum spennandi mótunartíma netsins.
Þegar styttist í að Hale-Bopp kæmist sem næst jörðinni, á 4.000 ára sporbaug sínum um sólina, fóru meðlimir að hugsa sér til hreyfings.
Hér má sjá lokaávarp Applewhites, sem var tekið upp nokkrum dögum fyrir „brottförina“, þegar meðlimir tóku inn lyf og lögðust til hinstu hvílu.
Eftir ítarlegan undirbúning og eina lokamáltíð á veitingastað í nágrenninu, þar sem allir fengu sér það nákvæmlega sama að borða, hófust þeir handa við „brottförina“ eins og þeir kölluðu það, þegar þeir hugðust kasta af sér hlekkjum hins holdlega og svífa til móts við örlögin og æðra tilverustig í geimnum.
Í þrjá daga voru meðlimir teknir í litlum hópum og aðstoðaðir við gjörninginn, þar til enginn varð eftir, nema eins, og síðar kom í ljós, hinir tveir sem sjá um síðuna og samskipti við áhugasama.
Heaven‘s Gate hefur enn þann dag í dag sterka samfélagslega skírskotun um hinn vestræna heim, enda vekja svokallaðir „Death-Cults“ alltaf mikla forvitni. Heaven‘s Gate er oft tiltekið í svipuðu samhengi og söfnuður Jim Jones þar sem hundruð manna létust, Söfnuð Sólhofsins í Sviss þar sem 48 létust, og söfnuð Davids Koresh í Waco í Texas þar sem 80 manns létust í eldi eftir skotbardaga við lögreglu.
Þó að meðlimirnir tveir séu enn í samskiptum við áhugasama segjast þeir alls ekki vera að leita að fleiri meðlimum. Söfnuðurinn sé ekki til í dag og þeir ráða fólki frá því að leika eftir „brottförina“, enda hafi það ekkert upp á sig fyrst að Hale-Bopp er horfin á braut. Þau bíða hins vegar þolinmóð eftir því að þeirra tími renni upp og þau fái að stíga upp á hærra stig og hitta trúbræður og -systur sínar á ný.