Í þá tíð… Argentínski herinn gerir innrás í Falklandseyjar

Hátt í þúsund manns týndu lífi í skammvinnu stríði um yfirráð yfir harðbýlum eyjaklasa í Suður-Atlantshafi.

Argentínski innrásarherinn á götum Port Stanley.
Argentínski innrásarherinn á götum Port Stanley.
Auglýsing

Á þessum degi fyrir réttum 35 árum, hinn 2. apríl árið 1982, gerði argentínski herinn innrás í Falklandseyjar, vindblásinn eyjaklasa undir stjórn Bretlands, sem liggur um 300 sjómílur undan ströndum Argentínu. Íbúar eyjanna voru um 1.800 talsins, flestir enskumælandi sauðfjárbændur.

Þessi aðgerð, sem gekk undir nafninu „Rosario“, var hápunktur margra áratuga deilna milli Breta og Argentínumanna.

Þrátt fyrir að ekki sé talið útilokað að frumbyggjar Tierra del Fuego, syðsta odda Suður-Ameríku, hafi einhvern tíma siglt til eyjanna er talið að breskir sæfarar hafi séð eyjarnar fyrstir Evrópumanna undir lok sextándu aldar og árið 1690 varð breskur sjóliðsforingi, John Strong að nafni, fyrsti maðurinn sem sögur fara af sem steig fæti á eyjurnar og nefndi þær eftir yfirmanni sínum í sjóhernum, greifanum af Falkland. Raunar var það fyrst sundið milli stærstu eyjanna tveggja í eyjaklasanum sem var kennt við Falkland greifa, en það nafn festist svo síðar við eyjarnar í heild, í enskri tungu að minnsta kosti.

Auglýsing

Svo vildi nefnilega til að enginn þeirra sem leið átti hjá Falklandseyjum fann sig sérstaklega knúinn til þess að setjast þar að fyrr en árið 1764 þegar franski landkönnuðurinn Louis-Antoine de Bougainville stofnaði fyrstu byggðina á eyjunum, sem hann nefndi Îles Malouines sem var síðar yfirfært á spænsku sem Islas Malvinas.

Spánverjar og Bretar tóku yfir stjórn á sinni hvorri hinna stærstu eyja í klasanum skömmu síðar, en höfðu yfirgefið stöðvar sínar snemma á 19. öld, enda fátt um efnahags- eða fjárhagslega hvata til að dvelja þarna, svo óralangt frá heimahögum og alvöru hagsmunum.

Deilur um yfirráð

1816 braust Argentína undan stjórn Spánverja og lýsti yfir sjálfstæði og fjórum árum síðar voru Falklandseyjar yfirlýstur hluti ríkisins. Þar var reist herstöð, sem var svo lögð í rúst árið 1832 af bandarísku herskipi í hefndarskyni fyrir upptöku Argentínumanna á bandarískum selveiðibátum á svæðinu.

Ári síðar komu Bretar aftur og hröktu á brott þá argentínsku embættismenn sem eftir sátu og hertóku eyjurnar. Áður en langt um leið var þar komið sjálfbært samfélag sem varð formlega bresk nýlenda árið 1892.

Fátt eitt dró til tíðinda á Falklandseyjum næstu áratugina þrátt fyrir að Argentínumenn héldu sífellt til streitu kröfum sínum um yfirráð yfir eyjunum. Einhverjar þreifingar voru víst milli Bretlands og Argentínu í upphafi níunda áratugarins um að færa Falklandseyjar undir argentínska stjórn, en þær viðræður náðu ekki alvöru flugi.

Stríð til heimabrúks

Þegar komið var farm á níunda áratug tuttugustu aldar var herforingjastjórn við völd í Argentínu og hafði stjórnað þar með harðri hendi frá árinu 1976. Pyntingar og óútskýrð mannshvörf voru daglegt brauð í Argentínu á þessum tíma og bágt efnahagsástand varð enn til að magna óánægu almennings með stjórnvöld.

Ákvörðunin um innrás í Falklandseyjar var því ekki síst til þess ætluð að auka vinsældir herforingjastjórnarinnar með því að efla þjóðerniskennd og stilla Bretum upp sem sameiginlegum óvini þjóðarinnar.

Þrátt fyrir að eyjaskeggjar hafi í sjálfu sér ekki verið með full réttindi sem breskir borgarar þykir þó ljóst að takmörkuð stemmning var meðal almennings á Falklandseyjum að kasta sér í faðm Argentínu.

Snörp innrás

Innrásin sjálf átti sér stuttan aðdraganda, en Argentínumenn höfðu verið við eftirlit, meðal annars með kafbátum undan ströndum eyjanna vikurnar og mánuðina á undan og voru einhverjar grunsemdir farnar að vakna meðal Breta um að eitthvað stæði til.

Argentínska liðið gætti þess að fella engan breskan hermann á meðan innrásinni stóð. Tugir voru hins vegar teknir til fanga.

Það var svo snemma morguns 2. apríl að innrásin hófst og hún tók skjótt af. Argentínumenn höfðu á að skipa um mörg hundruð hermönnum gegn 68 Bretum. Innrásarliðið var þó með skýr fyrirmæli um að drepa enga í breska setuliðinu. Var það von Argentínumanna að Bretar myndu þá síður beita hervaldi til að taka eyjurnar á ný. Einn Argentínumaður lést í skotbardaga og þrír særðust.

Landstjórinn Rex Hunt tilkynnti uppgjöf í höfuðborginni Port Stanley þann sama morgun.

Innrásin var gagnrýnd á alþjóðavettvangi þar sem bæði Evrópubandalagið og Sameinuðu þjóðirnar ályktuðu með Bretum og Bandaríkin beittu Argentínu efnahagslegum refsiaðgerðum.

Ekki svo snörp viðbrögð

Breska herliðið þurfti að leggja á sig langt og strangt ferðalag áður en komið var til Falklandseyja.Viðbrögð Breta við innrásinni voru miklu harðari en Argentínumenn höfðu reiknað með, bæði hjá stjórnvöldum og almenningi, en það var eitt atriði sem takmarkaði nokkuð viðbragðsflýtinn, en það var vitanlega sú staðreynd að 8.000 sjómílur skilja að Falklandseyjar og Bretland.

Þó að flotinn hafi verið sendur af stað hinn 5. apríl liðu meira en tvær vikur þar til Bretar náðu landi. Það var hinn 21. apríl sem breski herinn hóf sókn á eyjunni South Georgia og fjórum dögum síðar höfðu þeir hrakið innrásarherinn þaðan.

Hörð átök

Í hönd fóru svo harkaleg átök, fyrst í lofti þar sem Argentínskar flugvélar gerðu árásir á bresku skipin, og breskar flugvélar vörpuðu sprengjum á flugvöllinn í Port Stanley.

Hinn 2. maí sökkti breskur kafbátur svo skipinu Belgrano en með því fórust um 320 argentínskir skipverjar. Þetta var mannskæðasti atburður stríðsins.

Bretar náðu landi í San Carlos á vesturhluta eyjunnar East Falkland hinn 21. maí og tóku stefnuna á Port Stanley, sem var í tæplega 100 km fjarlægð. Eftir nokkurra vikna barning, þar sem tugir féllu í liðum beggja, ruddu Bretar Argentínumönnum burt úr hæðunum umhverfis Port Stanley.

Þegar Belgrano var sökkt fórust með því um 320 skipverjar.

Uppgjöf og eftirleikur

Þegar þarna var komið þótti nokkuð ljóst í hvað stefndi og hinn 14. júní var lýst yfir vopnahléi. Foringi argentínska herliðsins tilkynnti um uppgjöf að kvöldi þess dags. Falklandseyjar voru aftur komnar undir breska stjórn eftir 74 daga ófrið.

Það tók breska hermenn rúmar þrjár vikur að hrekja Argentínumenn frá Falklandseyjum eftir að þeir stigu á land í East Falkland.Áhrif stríðsins voru talsverð í báðum ríkjum þar sem leiðtogar áttu ólíku fylgi að fagna. Annars vegar varð Margret Thatcher forsætisráðherra gríðarlega vinsæl og Íhaldsflokkurinn vann stórsigur í kosningunum 1983, og hins vegar átti Leopoldo Galtieri, forseti og yfirmaður herforingjastjórnarinnar, sér ekki viðreisnar von og sagði af sér embætti þremur dögum eftir uppgjöfina.

Bretland og Argentína tóku aftur upp stjórnmálasamband árið 1990 en deilan um yfirráð yfir Falklandseyjum er enn í dag ásteytingarsteinn í samskiptum ríkjanna. Málið er sérstaklega viðkvæmt í Argentínu þar sem rykið er reglulega strokið af því þegar þörf er á að slá pólitískar keilur á heimavelli. Til dæmis var Cristina Fernandez de Kirchner ófeimin við að nýta sér deilurnar á meðan hún var forseti Argentínu.

Engar líkur eru þó á því að breyting verði á högum íbúa á næstunni þar sem kjósendur samþykktu, í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2013 að heyra áfram undir Bretland. Atkvæði féllu þannig að 1.513 sögðu já, en þrír voru á móti. Líklegt þykir, að mati þeirra sem til þekkja, að einn hinna þriggja hafi frekar viljað fullt sjálfstæði eyjanna en ekki argentínsk yfirráð.

Fleiri markverðir atburðir 2. apríl

1900 Banda­ríkja­þing veitir Puerto Rico tak­mark­aða sjálfs­stjórn

1902 Elect­ric Theatre, fyrsta eig­in­lega bíó­húsið í Banda­ríkj­un­um, hefur starf­semi.

1912 Titanic fer í sína fyrstu prufu­sigl­ingu.

1917 Woodrow Wil­son Banda­ríkja­for­seti fer fram á það við þingið að það veiti honum leyfi til að lýsa yfir stríði gegn Þýska­landi.

1930 Halie Selassie útnefndur keis­ari Eþíóp­íu. Hann var dáður sem guð meðal Rastafara.

1972 Charlie Chaplin snýr aftur til Banda­ríkj­anna eftir tveggja ára­tuga útlegð í kjöl­far komm­ún­ista­of­sókna.

1992 Mafíu­for­ing­inn John Gotti sak­felldur fyrir morð og ýmis konar fjár­plógs­starf­semi.

2005 Jóhannes Páll II páfi deyr.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiÍ þá tíð...
None