Á þessum degi fyrir réttum 77 árum, hinn 9. apríl árið 1940, hófu hersveitir Þriðja ríkisins innrásir í Noreg og Danmörku. Aðgerðin var samþætt og snerist annars vegar um að tryggja yfirráð yfir norsku strandlengjunni þaðan sem mátti flytja sænskt járngrýti til hernaðarframleiðslu Þjóðverja og herja á skipasiglingar bandamanna í Norður Atlantshafi, og hins vegar að taka danska flugvelli til að ná betri stöðu á Norðursjó og siglingaleiðum inn í Eystrasalt.
Hráefnisflutningar í brennidepli
Þegar þarna var komið við sögu í Seinni heimsstyrjöldinni höfðu Þjóðverjar og Sovétmenn gert með sér griðasáttmála og skipt með sér Póllandi, átök geisuðu um gjörvallt Norður-Atlantshaf og Sovétríkin höfðu ráðist inn í Finnland.
Framleiðsla stríðsgagna í Þýskalandi reiddi sig á innflutt járngrýti frá Norður-Svíþjóð. Að vetri til var landleiðin suður ófær og því þurfti að flytja hráefnið sjóleiðis frá hafnarborginni Narvik í Norður-Noregi.
Þetta vissu Bandamenn jafn vel og Þjóðverjar þannig að áætlanir beggja gerðu ráð fyrir mikilvægi hafnarinnar. Bretar höfðu meðal annars fyrirhugað að setja herlið í land í Noregi og fara yfir Svíþjóð til að koma Finnum til hjálpar í Vetrarstríðinu gegn Sovétmönnum. Það breyttist svo þegar Finnar sömdu um frið við Sovétmenn í mars 1940. Þess í stað var ákveðið að leggja tundurdufl undan Noregsströndum.
Noregur, Svíþjóð og Danmörk voru hins vegar hlutlaus ríki og það flækti málin þegar kom að því að réttlæta það að beita hervaldi gegn þeim. Þarna var aðeins beðið eftir átyllu.
Árás í skjóli nætur
Átyllan sem Hitler beið eftir kom svo í febrúar þetta ár þegar breskur tundurspillir réðist um borð í þýskt flutningaskip í norskri landhelgi. Í Berlín var þetta túlkað sem svo að Bretar væru tilbúnir að virða hlutleysi Noregs að vettugi og því var undirbúningur innrásarinnar, sem kallaðist Unternehmen Weserübung, kennd við ána Weser sem rennur í Norðursjó við Bremenhaven, sett á fullt. Norski jaðarpólitíkusinn Vidkun Quisling, sem lengi hafði dáðst að afrekum Hitlers og andstöðu hans við kommúnisma, hafði nokkru áður hitt Hitler sjálfan, en í byrjun apríl hitti Quisling útsendara Þjóðverja í Kaupmannahöfn og lét þeim í té þær upplýsingar sem hann hafði um varnir Noregs.
Fyrstu þýsku skipin létu úr höfn 3. apríl, tveimur dögum áður en Bretar hófu að dreifa tundurduflunum.
Hinn 9. apríl var svo látið til skarar skríða. Skip sigldu inn að Osló, og öðrum helstu borgum og bæjum; Bergen, Stavanger, Þrándheimi og svo vitanlega Narvik.
Á sama tíma geystust þýskar hersveitir yfir landamærin inn í Danmörku. Í báðum aðgerðunum notuðust Þjóðverjar við fallhlífahersveitir til að taka yfir flugvelli, en það var í fyrsta sinn í sögunni sem slíkum sveitum var beitt í hernaði.
Búið fyrir hádegismat
Eins og gefur að skilja voru nokkuð hægari heimantökin að ráðast á Danmörku en Noreg þar sem ein landamæri skildu Danmörku frá Þýskalandi og landsvæðið er umtalsvert minna og auðveldara yfirferðar.
Enda tóku aðgerðir í Danmörku skjótt af. Nokkrum klukkustundum eftir að innrásin hófst höfðu dönsk stjórnvöld gefist upp, enda hótuðu Þjóðverjar að senda Luftwaffe, flugher Þriðja ríkisins, af stað og láta sprengjum rigna yfir Kaupmannahöfn. Mótspyrna var gagnslaus og Danir sömdu um að gefast upp gegn því að fá að halda stjórn yfir innanríkismálum.
Samkomulagið hélst nokkuð gott milli almennings, stjórnvalda og herliðs Þjóðverja framan af stríði, en þegar komið var fram á árið 1943 hafði kergja meðal almennings aukist stórum og farið var að bera á skemmdarverkum gegn þýska hernum. Það var ekki liðið og í sumarlok var Danmörk formlega sett undir beina þýska stjórn og í hönd fóru rósturtímar þar sem andspyrna jókst, sem og ofbeldi og harka hernámsliðsins, sem hélst allt til stríðsloka. Þegar þarna var komið höfðu þó flestallir gyðingar flúið landið. Af rúmlega átta þúsund dönskum gyðingum féllu 477 í hendur Þjóðverja og 70 voru drepnir.
Hörð mótspyrna með aðstoð Bandamanna
Norðmenn voru í allt annari aðstöðu, enda var landið hluti af áætlunum Bandamanna sem voru með fjölmörg skip undan ströndum Noregs.
Víðast mættu Þjóðverjar þó takmarkaðri mótspyrnu, enda við ofurefli að etja fyrir norska herliðið. Einkennileg tilviljun var þó að verki þegar herskip sigldu inn að Osló. Krupp vopnasmiðjan þýska hafði lengi selt Norðmönnum vopn og hafði látið stjórnvöldum í té upplýsingar um hvaða búnaði Noregur hefði yfir að ráða. Þeim láðist þó að geta eldgamallar fallbyssu sem staðsett var í virkinu Oscarsborg í Oslóarfirði.
Skot þaðan sökktu forystuskipi Þjóðverja, en með því fórust fleiri hundruð skipverjar, og keypti konungsfjölskyldunni og ríkisstjórninni tíma til að komast undan með gullforða ríkisins. Þrátt fyrir að Þjóðverjar næðu síðar stjórn yfir öllu landinu gafst norska stjórnin aldrei formlega upp og var, að nafninu til, enn við völd.
Quisling beið ekki boðanna þegar ljóst var að Osló var fallin í hendur Þjóðverja og lýsti því yfir í útvarpsávarpi að hann hafi myndað ríkisstjórn og tekið yfir stjórn landsins.
Á meðan var barist víða um land þar sem herlið Bandamanna freistaði þess að stöðva norðurför Þjóðverja. Þjóðverjar lögðu undir sig Narvik strax á fyrsta degi, en öllum skipum þeirra þar fyrir utan var sökkt af breskum herskipum. Bæði lið lögðu mikla áherslu á að taka Narvik, en þróun mála á öðrum vígstöðvum setti þá strik í reikninginn.
Þannig bar við að Þjóðverjar hófu, hinn 10. maí, mikla leiftursókn, blitzkrieg, inn í Frakkland, Belgíu, Holland og Lúxemburg. Það gekk svo vel og hratt að Bretar máttu hafa sig alla að við að forða herliði sínu frá frönsku hafnarborginni Dunkerque á dauðans flótta.
Það gjörbreytti stöðu Breta sem vildu treysta sína eigin stöðu og drógu Bandamenn 25.000 manna lið sitt til baka frá Noregi. Síðustu hermenn Bandamanna yfirgáfu Narvik hinn 8. júní og degi síðar lagði síðasta norska herdeildin niður vopn.
Þjóðverjar höfðu tekið stjórnina í Noregi, en ekki fyrr en eftir tveggja mánaða baráttu, sem var það lengsta sem nokkur þjóð náði að halda út gegn Þjóðverjum fyrir fall.
Hernámið og Quisling-stjórnin
Eins og fyrr sagði lýsti Quisling því fljótt yfir að hann myndi stýra nýrri ríkisstjórn, en honum varð ekki kápan úr því klæðinu þar sem enginn virtist taka mark á honum. Hvorki ríkisstjórnin sem var enn við völd og færði sig norðar eftir því sem Þjóðverjar hertu tökin, né Hákon konungur, sem sömuleiðis var á flótta en aftók með öllu að skipa Quisling forsætisráðherra. Quisling hafði enda ekkert tilkall til valda þar sem hann var átti ekki einu sinni sæti á þingi og flokkur hans, Nasjonal Samling, var varla annað en félagsskapur í kringum formann sinn.
Þess í stað var skipuð ráðgjafastjórn undir stjórn þýsks Reichskommisars, en þar voru að vísu aðeins meðlimir Nasjonal Samling. Quisling fékk svo ákveðna upphefð árið 1942 þegar hann var gerður að yfirmanni nýrrar ríkisstjórnar, flutti inn í konungshöllina og kvaðst handhafi þeirra valda sem í stjórnarskrá var falið konungi og þinginu. Í raun var stjórn Quislings þó aðeins leppstjórn fyrir Þjóðverja, en eitt af fyrstu verkum stjórnarinnar var að endurvekja lög sem bönnuðu gyðingum inngöngu í landið. Þau höfðu áður verið numin úr gildi árið 1851.
Hörð andspyrna
Norðmenn sættu sig aldrei við yfirráð Nasista, og varnarbaráttan snerist fljótlega upp í andspyrnu. Andspyrnuhreyfingin Milorg var stofnuð utan um starfsemi fjölmargra hópa árið 1941 og unnu í samstarfi við norsku útlagastjórnina í Bretlandi og breska herinn. Þeir stunduðu skemmdarverk gegn þýska hernámsliðinu og hreyfingin dafnaði eftir því sem á leið stríðið.
Þegar yfir lauk hafði Milorg á að skipa um 40.000 hermönnum.
Frelsun Danmerkur og Noregs
Ekki þarf að fjölyrða um lok styrjaldarinnar. Þýskaland lenti á vegg í innrásinni í Sovétríkin árið 1943 og Bandamenn réðust til atlögu í Vestur-Evrópu ári síðar. Eftir það var útséð með að draumur Hitlers um Þúsund ára ríki myndi rætast og þegar Berlín var við það að falla í apríl 1945 svipti hann sig lífi.
Nokkrum dögum síðar gaf Dönitz aðmíráll yfirmönnum þýska hersins í Noregi og Danmörku fyrirskipanir um að leggja niður vopn og hernáminu lauk formlega.
Í báðum löndum hefur mikið verið rætt um þátttöku og ábyrgð stjórnmálafólks og almennings á meðan hernámi stóð. Sérstaklega í Danmörku þar sem mörgum þótti sem andspyrnan hefði getað verið harðari fyrstu árin.
Í báðum löndum fóru fram réttarhöld í stríðslok. Í Noregi voru 37 dæmdir til dauða fyrir landráð, þar á meðal Vidkun Quisling, hvers nafn er í dag orðið samnefnari fyrir föðurlandssvik, og í Danmörku voru 46 teknir af lífi.